Categories
Fréttir

Skilvirkni í stjórnkerfinu skal taka til gagngerrar endurskoðunar

Deila grein

14/03/2023

Skilvirkni í stjórnkerfinu skal taka til gagngerrar endurskoðunar

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður, ræddi mikilvægi þess að fræðast á vettvangi hvernig aðrar þjóðir takast á við sambærileg verkefni og áskoranir til að viðhalda góðri velferð, í störfum þingsins.

„Virðulegi forseti. Það er öllum hollt að horfa yfir túngarðinn og velta fyrir sér hvernig nágranninn heldur á sínum málum. En það er enn betra að sækja nágrannann heim, hlusta og fræðast. Sá sem hér stendur átti þess kost ásamt atvinnuveganefnd Alþingis að sækja heim frændur okkar í Færeyjum og Noregi í síðustu viku.

Ísland og Færeyjar og Noregur eiga margt sameiginlegt. Undirstaða góðra lífskjara er frumframleiðsla; sjávarútvegur og fiskeldi, landbúnaður og orkuvinnsla.

Vissulega eru mismunandi áherslur á mikilvægi atvinnugreina milli landa en á þessum grunnstoðum byggist velferð þessara þjóða ásamt nýsköpun og skapandi greinar. En þegar kemur að því að móta starfsskilyrði, skilvirkni og umgjörð atvinnugreina getum við Íslendingar gert mun betur í þeim efnum.

Tökum dæmi. Norðmenn ganga mun lengra en Íslendingar er kemur að því að heimila sínum landbúnaði samstarf og samvinnu og þegar spurt er: Hvers vegna gerið þið það? þá er svar Norðmanna á þessa leið: Við búum í stóru landi og við erum ekki nema 5,3 milljónir. Okkar landbúnaður getur ekki keppt við framleiðslu frá þjóðum, t.d. innan ESB.

Hér á landi höfum við heimilað mjólkurframleiðslunni að taka sambærileg skref en kjötframleiðslan hefur enn sem komið er ekki fengið það sem til þarf, þ.e. heimild til samstarfs og samvinnu. Samt búum við í stóru landi og við erum ekki nema 360.000.

Skilvirkni í stjórnkerfi er nokkuð sem þarf að taka til gagngerrar endurskoðunar. Í Noregi t.d. tekur ekki nema 26 vikur að fá niðurstöðu um það hvort menn geti farið í sjókvíaeldi eða ekki. Hérna getur það tekið allt að átta árum eða tíu,“ sagði Þórarinn Ingi að lokum.