Categories
Greinar

Metnaðar­full hús­næðis­á­ætlun í Hafnar­firði

Deila grein

15/03/2023

Metnaðar­full hús­næðis­á­ætlun í Hafnar­firði

Húsnæðisáætlun 2023 var samþykkt á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar þann 1. mars sl. Um er að ræða afar metnaðarfulla áætlun, mesta uppbyggingarskeið í sögu Hafnarfjarðar er hafið.

Hvar er verið að byggja í Hafnarfirði?

Í september 2021 voru 236 íbúðir í byggingu. Í dag eru þær rúmlega 1500. Langflestar eru þær í byggingu í Hamranesi. Á þessu ári hefst uppbygging í fyrsta áfanga Áslands 4 en þar verða parhúsa- og einbýlishúsalóðir. Búið er að úthluta öllum lóðum í þessum fyrsta áfanga fyrir utan fjórar lóðir sem nú eru í auglýsingu. Ásland 4 er afar eftirsótt hverfi enda verður það eitt fallegasta íbúðarhverfi landsins.

Síðustu ár hefur verið unnið að skipulagi iðnaðarsvæðisins Hraun vestur, svæði sem afmarkast af Reykjavíkurvegi, Fjarðarhrauni og Flatahrauni. Hafist verður handa við fyrsta áfanga þess hverfis á þessu ári. Búið er að samþykkja deiliskipulagstillögu þar sem gert er ráð fyrir 490 íbúðum ásamt verslun og þjónustu. Þetta er vissulega svæði sem við hefðum óskað að framkvæmdir væru hafnar en nú fer loks að sjá fyrir endann á því ferli og framkvæmdir geta hafist að krafti.

Óseyrarhverfið er einnig í undirbúningi og bindum við vonir við að framkvæmdir hefjist á því svæði á þessu ári. Þar er gert ráð allt að 700 íbúðum auk verslunar og þjónustu. Í samfélagi dagsins í dag er mikilvægt að huga að þéttingu byggðar sem og að brjóta nýtt land til byggingar. Óseyrarsvæðið og Hraun vestur eru dæmi um slíka þéttingareiti. Eins er íbúðabyggð meira að teygja sig á hafnarsvæði enda umsvif og verkefni hafna að breytast. Íbúðir á slíkum svæðum eru vinsælar og eftirsóttar.

Auk þessara svæða sem nefnd eru hér að ofan má nefna Hjallabraut, Hlíðarbraut og Dvergsreitinn en íbúðir á þessum reitum verða tilbúnar á þessu ári og því næsta. Dvergsreiturinn er risinn og gaman að sjá að íbúðir og atvinnurými rjúka út, enda staðsetningin stórkostleg í miðbænum.

Fjölgun félagslegra íbúða

Framkvæmdir við uppbyggingu á 148 íbúðum Bjargs íbúðafélags í þremur fjölbýlishúsum í Hamranesi ganga vel. Af þessum 148 íbúðum munu 9 íbúðir bætast við félagslegt húsnæðiskerfi Hafnarfjarðarbæjar. Nú þegar er búið að ganga frá húsaleigusamningum á tveimur íbúðum og verða hinar sjö íbúðirnar tilbúnar síðsumars og í haust. Þessi fjölgun inn í félagslega kerfi Hafnarfjarðarbæjar er sú mesta sem hefur orðið á einu ári í langar tíma og munar verulega um þá viðbót. Hinar 139 íbúðirnar eru til að tryggja tekjulágum einstaklingum og fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Bjarg er sjálfseignarstofnun sem er rekin án hagnaðarmarkmiða og leiguverð er því lægra en gengur og gerist á almenna leigumarkaðinum.

Auk þessara 9 íbúða í félagslega íbúðarkerfið munum við að sjálfsögðu halda áfram að leita eftir eignum til að kaupa inn í kerfið.

Okkur er full alvara í því verkefni að tryggja íbúum bæjarfélagsins og framtíðar íbúum fjölbreytt búsetuúrræði og góða blöndu húsnæðis. Bæjarráð og síðar bæjarstjórn þann 6. apríl 2022 samþykkti að úthluta Brynju, hússjóði ÖBÍ, 12% stofnframlag vegna kaupa á 10 íbúðum í Hafnarfirði. Áætlað stofnframlag Hafnarfjarðarbæjar vegna þeirra kaupa er 67.442.742 kr.

Mikilvægt að taka upp svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins

Í húsnæðisáætlun er að sjálfsögðu gert ráð fyrir markmiðum rammasamnings milli ríkis og sveitarfélaga. Samfylkingin í Hafnarfirði hefur talað hátt um það að meirihlutinn ætli sér ekki taka þátt í þessu verkefni. Það er einfaldlega rangt. Undirbúningur og viðræður eru í gangi. Mikilvægt að halda því til haga að síðasta byggingarland Hafnarfjarðar er Vatnshlíðin og er áætlað að hafist verði handa við það hverfi árið 2026. Samhliða viðræðum við HMS um rammasamninginn þá þarf Hafnarfjörður að beita sér fyrir því að svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins verði tekið upp. Við þurfum nýtt land til uppbyggingar, nýtt land til að standa við þá skilmála er koma fram í rammasamningnum. Þangað til munum við að sjálfsögðu vinna með HMS að útfærslu á þeim markmiðum er koma fram í samkomulaginu.

Spennandi tímar

Nýleg þjónustukönnun Gallups sýnir fram á það að það er almennt gott að búa í Hafnarfirði. Ánægja með skipulagsmál eykst sem og ánægja með nánasta umhverfi. Aðstaða til íþróttaiðkunar er einnig góð að mati íbúa. Hafnarfjörður er í fjórða sæti yfir 20 stærstu sveitarfélögin þar sem þykir best að búa.

Við í meirihlutanum ætlum að halda áfram á þessari braut. Halda áfram að vinna að uppbyggingu sveitarfélagsins okkar. Minnihlutinn hefur talað um aðgerðarleysi, vísum því alfarið á bug. Tölurnar um uppbyggingu og mælingar á viðhorfi Hafnfirðinga segja allt aðra sögu.

Það eru spennandi tímar fram undan.

Valdimar Víðisson, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. mars 2023.