Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins fyrirkomulag tilvísana frá heimilislækni vegna heimsókna til sérgreinalækna.
„Þann 22. janúar 2020 skrifa ég eftirfarandi orð á samfélagsmiðla: Fór nýverið með litla drenginn til taugalæknis á LSH. Heimsókn sem er hluti af öllu hans ferli og verður áfram. Næsti tími bókaður í byrjun apríl að beiðni sama taugalæknis og verið hefur með hann. Ég sest upp í bíl og fæ um leið símtal frá LSH um að nú sé drengurinn minn að verða tveggja ára og því þurfi ég að fá tilvísun frá heimilislækni áður en ég kem með hann aftur. Ég skil þetta allt mjög illa,“ sagði Ágúst Bjarni.
Reglur kveða á um að tilvísanir fyrir börn frá tveggja ára aldri að 18 ára aldri sé áskilið að heilsugæslulæknir skrifi þurfi þau á þjónustu sérgreinalækna að halda. Að öðrum kosti er þjónusta sérgreinalæknis ekki gjaldfrjáls.
Breyting á þessu fyrirkomulagi hefur nú verið birt í samráðsgátt stjórnvalda og er áætlað að sérgreinalæknir sem fær til sín barn samkvæmt tilvísun heilsugæslulæknis geti vísað því sjálfur til læknis í annarri sérgrein telji hann þörf á því án aðkomu heilsugæslunnar.
„Læknir sem fær barn til meðhöndlunar á sjúkrahúsum getur vísað barni til sérfræðings telji hann þörf á því. Krafa um tilvísun heilsugæslulæknis í slíkum tilvikum verður felld brott. Rannsóknar- og myndgreiningarþjónusta barna verður gjaldfrjáls þótt ekki liggi fyrir tilvísun frá heilsugæslulækni. Gildistími tilvísana fyrir börn með langvinna sjúkdóma eða fötlun, sem nú er tíu ár, verður lengdur og getur gilt allt þar til barnið nær 18 ára aldri. Hér má svo taka meira til en hægt er að kynna sér reglugerðarbreytinguna í heild í fyrrnefndri samráðsgátt. Ég segi: Bravó, Willum Þór Þórsson, hæstv. heilbrigðisráðherra,“ sagði Ágúst Bjarni að lokum.
Ræða Ágústs Bjarna í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegur forseti. Þann 22. janúar 2020 skrifa ég eftirfarandi orð á samfélagsmiðla:
„Fór nýverið með litla drenginn til taugalæknis á LSH. Heimsókn sem er hluti af öllu hans ferli og verður áfram. Næsti tími bókaður í byrjun apríl að beiðni sama taugalæknis og verið hefur með hann. Ég sest upp í bíl og fæ um leið símtal frá LSH um að nú sé drengurinn minn að verða tveggja ára og því þurfi ég að fá tilvísun frá heimilislækni áður en ég kem með hann aftur. Ég skil þetta allt mjög illa.“
Samkvæmt gildandi reglugerð um tilvísanir fyrir börn er áskilið að heilsugæslulæknir skrifi tilvísun fyrir börn frá tveggja ára aldri að 18 ára aldri þurfi þau á þjónustu sérgreinalækna að halda. Slík tilvísun er m.a. forsenda þess að þjónusta sérgreinalæknis sé gjaldfrjáls. Þessu stendur nú til að breyta með reglugerðarbreytingum sem hafa verið birtar í samráðsgátt stjórnvalda en það verður m.a. gert með því að sérgreinalæknir sem fær til sín barn samkvæmt tilvísun heilsugæslulæknis getur vísað því sjálfur til læknis í annarri sérgrein telji hann þörf á því án aðkomu heilsugæslunnar. Ákvæði gildandi reglugerðar um að barn þurfi nýja tilvísun frá heilsugæslulækni verður fellt brott. Læknir sem fær barn til meðhöndlunar á sjúkrahúsum getur vísað barni til sérfræðings telji hann þörf á því. Krafa um tilvísun heilsugæslulæknis í slíkum tilvikum verður felld brott. Rannsóknar- og myndgreiningarþjónusta barna verður gjaldfrjáls þótt ekki liggi fyrir tilvísun frá heilsugæslulækni. Gildistími tilvísana fyrir börn með langvinna sjúkdóma eða fötlun, sem nú er tíu ár, verður lengdur og getur gilt allt þar til barnið nær 18 ára aldri. Hér má svo taka meira til en hægt er að kynna sér reglugerðarbreytinguna í heild í fyrrnefndri samráðsgátt. Ég segi: Bravó, Willum Þór Þórsson, hæstv. heilbrigðisráðherra.“