Categories
Fréttir

Kynjajafnrétti er réttlætismál – nauðsyn fyrir farsæld og velferð samfélagsins

Deila grein

19/06/2024

Kynjajafnrétti er réttlætismál – nauðsyn fyrir farsæld og velferð samfélagsins

„Í dag fögnum við merkilegum degi í sögu okkar þjóðar, 19. júní. Á þessum degi árið 1915 fengu íslenskar konur kosningarrétt og kjörgengi til Alþingis sem markaði tímamót í baráttu fyrir jafnrétti kynjanna,“ sagði Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins.

„Í rúmlega öld höfum við tekið stór skref í átt að jafnræði. Við höfum unnið að því að tryggja að konur hafi jafna stöðu og tækifæri á öllum sviðum samfélagsins. Við höfum séð framfarir á sviði menntunar, vinnumarkaðar og stjórnmála.“

Sagði hún konur í dag í forystuhlutverkum í atvinnulífi, vísindum, menningu og stjórnmálum, en þrátt fyrir miklar framfarir sé verk að vinna. Kynbundinn launamunur sé enn til staðar og ofbeldi gegn konum sé alvarlegt samfélagsvandamál.

„Við verðum að halda áfram að berjast fyrir því að allar konur og stúlkur njóti mannréttinda og öryggis. Við verðum einnig að huga að jafnrétti í hvívetna. Jafnrétti kynjanna, jafnrétti þjóðfélagshópa og jafnrétti allra einstaklinga óháð uppruna eða bakgrunni er grundvallaratriði fyrir samfélagið sem við viljum byggja. Við skulum fagna fjölbreytileikanum og þeim krafti sem býr í fólkinu okkar. Þetta er ekki einungis verkefni kvenna heldur samfélagsins alls,“ sagði Halla Signý.

„Kynjajafnrétti er ekki bara réttlætismál heldur nauðsyn fyrir farsæld og velferð samfélagsins. Við verðum að vinna saman til að tryggja að réttindum, virðingu og tækifærum sé jafnt skipt. Það er staðreynd að þrátt fyrir áratugabaráttu og miklar framfarir á ýmsum sviðum stöndum við nú frammi fyrir því og sjáum bakslag í jafnréttisbaráttu og baráttu hinsegin fólks sem er í hættu víða um heim.“

„Á þessum degi skulum við skuldbinda okkur til að halda áfram á þessari braut. Við skulum vinna saman að því að byggja samfélag þar sem allir fá að blómstra óháð kyni. Jafnrétti er verkefni sem við vinnum öll að og það er sameiginleg ábyrgð okkar að tryggja að framtíðin verði betri fyrir komandi kynslóðir,“ sagði Halla Signý að lokum.


Ræða Höllu Signýjar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Í dag fögnum við merkilegum degi í sögu okkar þjóðar, 19. júní. Á þessum degi árið 1915 fengu íslenskar konur kosningarrétt og kjörgengi til Alþingis sem markaði tímamót í baráttu fyrir jafnrétti kynjanna. Í rúmlega öld höfum við tekið stór skref í átt að jafnræði. Við höfum unnið að því að tryggja að konur hafi jafna stöðu og tækifæri á öllum sviðum samfélagsins. Við höfum séð framfarir á sviði menntunar, vinnumarkaðar og stjórnmála. Í dag sjáum við konur í forystuhlutverkum í atvinnulífi, vísindum, menningu og stjórnmálum. Þrátt fyrir miklar framfarir er verk að vinna. Enn er kynbundinn launamunur og ofbeldi gegn konum er alvarlegt samfélagsvandamál. Við verðum að halda áfram að berjast fyrir því að allar konur og stúlkur njóti mannréttinda og öryggis. Við verðum einnig að huga að jafnrétti í hvívetna. Jafnrétti kynjanna, jafnrétti þjóðfélagshópa og jafnrétti allra einstaklinga óháð uppruna eða bakgrunni er grundvallaratriði fyrir samfélagið sem við viljum byggja. Við skulum fagna fjölbreytileikanum og þeim krafti sem býr í fólkinu okkar. Þetta er ekki einungis verkefni kvenna heldur samfélagsins alls. Kynjajafnrétti er ekki bara réttlætismál heldur nauðsyn fyrir farsæld og velferð samfélagsins. Við verðum að vinna saman til að tryggja að réttindum, virðingu og tækifærum sé jafnt skipt. Það er staðreynd að þrátt fyrir áratugabaráttu og miklar framfarir á ýmsum sviðum stöndum við nú frammi fyrir því og sjáum bakslag í jafnréttisbaráttu og baráttu hinsegin fólks sem er í hættu víða um heim.

Virðulegi forseti. Á þessum degi skulum við skuldbinda okkur til að halda áfram á þessari braut. Við skulum vinna saman að því að byggja samfélag þar sem allir fá að blómstra óháð kyni. Jafnrétti er verkefni sem við vinnum öll að og það er sameiginleg ábyrgð okkar að tryggja að framtíðin verði betri fyrir komandi kynslóðir.“