Categories
Fréttir

„Gleðilegan kvenréttindadag“

Deila grein

19/06/2024

„Gleðilegan kvenréttindadag“

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, minnti á í störfum þingsins að í dag sé kvenréttindadagurinn, 19. júní, mikilvægur áfangi í sögu þjóðarinnar. Konur á Íslandi, 40 ára og eldri, fengu árið 1915 kosningarrétt og kjörgengi og máttu því bjóða sig fram til valda í samfélaginu.

„Þetta er dagur sem minnir okkur á mikilvægi jafnréttis og þá baráttu sem konur hafa staðið í til að tryggja réttindi sín og möguleika í samfélaginu. Í dag á líka móðir mín afmæli. Henni á ég mikið að þakka en hún hefur ávallt hvatt mig áfram til að láta alla mína drauma verða að veruleika,“ sagði Ingibjörg.

„Þetta var stórt skref í átt að jafnrétti og jafnræði. Þremur árum síðar, árið 1918, var þetta 40 ára viðmið afnumið.“

Sagði hún þetta hafa verið upphafið að lengri og enn ólokinni baráttu.

„Jafnrétti kynjanna er ekki aðeins spurning um lagaleg réttindi heldur einnig hvernig við skiptum ábyrgð og verkefnum í daglegu lífi. Konur hafa lengi þurft að bera svokallaða þriðju vaktina, þótt vissulega sé það misjafnt á milli einstaklinga, en hún felst í heimilisstörfum og umönnun fjölskyldunnar, oftar en ekki samhliða vinnu utan heimilisins.“

Lagði hún áherslu á að horfa verði lengra en aðeins til lagalegra réttinda þegar rætt er um jafnrétti kynjanna.

„Við þurfum að tryggja að ábyrgð á heimilisstörfum og umönnun sé skipt jafnt milli kynjanna, jafnrétti verður nefnilega ekki að fullu náð fyrr en bæði karlar og konur deila þessari ábyrgð á jöfnum grundvelli. Við þurfum að skapa samfélag þar sem allir hafa sömu möguleika til að taka þátt í atvinnulífi, stjórnmálum og heimilislífi án þess að það bitni á heilsu eða velferð.“

„Á þessum degi skulum við því ekki aðeins minnast þeirra merkilegu áfanga sem hafa náðst í baráttu fyrir kvenréttindum heldur einnig endurnýja okkar skuldbindingu til að halda áfram að vinna í átt að fullu jafnrétti. Við eigum að vinna saman, konur og karlar, til að tryggja að framtíðin verði björt og réttlát fyrir öll kyn. — Gleðilegan kvenréttindadag,“ sagði Ingibjörg að lokum.


Ræða Ingibjargar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Í dag fögnum við mikilvægum áfanga í sögu okkar þjóðar því að í dag er kvenréttindadagurinn. Þetta er dagur sem minnir okkur á mikilvægi jafnréttis og þá baráttu sem konur hafa staðið í til að tryggja réttindi sín og möguleika í samfélaginu. Í dag á líka móðir mín afmæli. Henni á ég mikið að þakka en hún hefur ávallt hvatt mig áfram til að láta alla mína drauma verða að veruleika.

Árið 1915 var merkilegt ár fyrir konur á Íslandi. Það ár fengu konur 40 ára og eldri loks kosningarrétt og sömuleiðis kjörgengi sem þýðir að þær fengu að bjóða sig fram til valda í samfélaginu. Þetta var stórt skref í átt að jafnrétti og jafnræði. Þremur árum síðar, árið 1918, var þetta 40 ára viðmið afnumið. Þetta var aðeins upphafið að lengri og enn ólokinni baráttu. Jafnrétti kynjanna er ekki aðeins spurning um lagaleg réttindi heldur einnig hvernig við skiptum ábyrgð og verkefnum í daglegu lífi. Konur hafa lengi þurft að bera svokallaða þriðju vaktina, þótt vissulega sé það misjafnt á milli einstaklinga, en hún felst í heimilisstörfum og umönnun fjölskyldunnar, oftar en ekki samhliða vinnu utan heimilisins. Þegar við tölum um jafnrétti kynjanna þurfum við að horfa lengra en aðeins til lagalegra réttinda. Við þurfum að tryggja að ábyrgð á heimilisstörfum og umönnun sé skipt jafnt milli kynjanna, jafnrétti verður nefnilega ekki að fullu náð fyrr en bæði karlar og konur deila þessari ábyrgð á jöfnum grundvelli. Við þurfum að skapa samfélag þar sem allir hafa sömu möguleika til að taka þátt í atvinnulífi, stjórnmálum og heimilislífi án þess að það bitni á heilsu eða velferð. Á þessum degi skulum við því ekki aðeins minnast þeirra merkilegu áfanga sem hafa náðst í baráttu fyrir kvenréttindum heldur einnig endurnýja okkar skuldbindingu til að halda áfram að vinna í átt að fullu jafnrétti. Við eigum að vinna saman, konur og karlar, til að tryggja að framtíðin verði björt og réttlát fyrir öll kyn. — Gleðilegan kvenréttindadag.“