Categories
Greinar

Samgönguáætlun með Vestfirði í forgrunni

Deila grein

23/11/2024

Samgönguáætlun með Vestfirði í forgrunni

Samgönguáætlun sem rennur úr gildi 31. desember nk. var samþykkt í júní 2020 og var hún fullfjármögnuð til fimm ára. Í samgönguáætlun er stefnt að því að byggja upp og styrkja grunnnet allra samgangna. Í skilgreindu grunnneti er um 5.000 km vegakerfi, 38 hafnir, 13 flugvellir og nokkrar ferju-, skipa- og flugleiðir.

Já! , samgönguáætlun tekur á fleiru en vegum landsins, til að mynda höfnum. Í samgönguáætlun 2020 var samþykkt að fara í endurbætur, lengingu og dýpkun á Sundahöfn á Ísafirði. Því er lokið og skiptir það miklu máli fyrir aðkomu skemmtiferðaskipa auk þess sem fylling á tanganum nýtist nýju iðnaðarhverfi í Skutulsfirðinum. Einnig voru framkvæmdir við Bíldudalshöfn sem nýtist vel í auknum umsvifum þar, stálþil við Langeyri í Súðavík auk framkvæmda við höfnina þar. Framkvæmdir við höfnina á Hólmavík og þá má líka nefnda sjóvarnir í Árneshreppi.

Vegleysur verða að samgöngumannvirkjum

Það hefur sannarlega verið staðið við samgönguáætlun hér á Vestfjörðum það þótt áfangar séu eftir. Frá árinu 2017 hafa nær 30 m.a. kr. verið lagðir í vegagerð hér.  Allt frá vinnu við Dýrafjarðargöng, Dynjandisheiðina til uppbyggingu vega í Gufudalssveitinni. Þá má telja endurbætur á brúm, í Álftafirði, Önundarfirði og Tálknafirði. Endurbætur voru gerðar í 7. km kafla í Ísafjarðardjúpi á árinu 2019. Þessar framkvæmdir síðustu 7 ár eru meiri en við á Vestfjörðum höfðum séð í áratugi.

Áfram – ekkert stopp

Það hafa nokkrir birt greinar hér á BB og staðhæft að það sé STOPP í uppbyggingu vega á Vestfjörðum. Það stenst enga skoðun. Í framkvæmd núna eru fyllingar yfir Gufu- og Djúpafjörð og tvær brýr sitthvoru megin við Klettsháls. Þarna eru um 2 ma. krónur í framkvæmd.  Það er rétt að framkvæmdum er ekki lokið en það er líka svo margt eftir. Það er sérstakt að lesa greinar eftir sjálfstæðismenn sem gráta stöðnun og sleifagang.  Þeir eiga að vita betur en nota gamalkunnug ráð að kasta ryki í augu fólks.  Fjármunir hafi runnið annað og ekkert sé staðið við gefin loforð.

Hornafjarðarfjótið má finna víða

Þegar samgönguáætlun var samþykkt árið 2020 var hún fullfjármögnuð og rétt að Dynjandisheiði milli Flókalundar og Dynjandisvogs átti að vera lokið á næsta ári ásamt samgöngubótum í Gufudalssveit.

En frá árinu 2020 hefur ýmislegt gerst sem sett hefur strik í reikninginn.

Eitt stríð í Evrópu og eldgos á Reykjanesskaga hefur haft gríðleg áhrif á ríkiskassann auk þess sem verðhækkanir hafa valdið 40% hækkun á vegaframkvæmdum.  Það er rétt að haldið var áfram við nokkur verk þótt þau hafi farið fram úr áætlun, þar má telja Hornafjarðarfljót, Reykjanesbraut og Dynjandisheiði. Það er sérstakt að sjálfstæðismenn séu í þessari afneitun eða sváfu þeir á verðinum inn í fjármálaráðuneytinu? Nei þeir ættu að vera stoltir af þeim vegaframkvæmdum sem hafa verið unnar hér á vakt síðustu ríkistjórnar á Vestfjörðum. Í þeim málum stöndum við í Framsókn í báðar fætur og með beint bak.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar í NV og í framboði til Alþingis 2024.

Greinin birtist fyrst á bb.is 22. nóvember 2024.