Categories
Greinar

Burðar­ásar sam­fé­lagsins

Deila grein

06/12/2024

Burðar­ásar sam­fé­lagsins

Það er vel við hæfi að dagur sjálfboðaliðans sé haldinn hátíðlegur stuttu eftir nýafstaðnar kosningar. Þessi dagur minnir okkur á þá ómetanlegu vinnu sem sjálfboðaliðar inna af hendi við að halda uppi flokksstarfi og kosningabaráttu.

Samvinnuverkefni

Kosningabarátta er stórt samvinnuverkefni ólíkra aðila á öllum aldri sem eiga öll það sameiginlegt að vilja láta gott af sér leiða í þágu samfélagsins. Grasrótin er hjartað í kosningabaráttunni – hópurinn sem stendur vaktina frá morgni til kvölds við að skipuleggja viðburði, taka á móti gestum og hringja í kjósendur. Hún lætur hvorki skoðanakannanir né aðrar aðstæður slá sig út af laginu. Heldur brettir upp ermar og leggur sitt af mörkum – af hugsjón. Við sem störfum í stjórnmálum eigum þessum bakhjörlum allt að þakka. Það er þessi kraftmikla og ósérhlífna grasrót sem gerir stjórnmálastarf mögulegt.

Sjálfboðaliðinn: Stoð samfélagsins

Náttúruhamfarir minna okkur reglulega á mikilvægi sjálfboðaliðans. Hvort sem um er að ræða eldgos, snjóflóð eða ófærð vegna veðurs, eru þeir ávallt reiðubúnir til að hlúa að samfélaginu. Með umhyggju og ósérhlífni leggja þeir sig fram við að styðja við þá sem þurfa á aðstoð að halda.

Á hverjum degi leggja sjálfboðaliðar ómetanlega vinnu í samfélagsleg verkefni og félagsstarf. Þeir eru burðarásar í íþróttafélögum, foreldrafélögum, kvenfélögum og mannúðarfélögum, svo fátt eitt sé nefnt. Í raun má segja að sjálfboðaliðar séu ein mikilvægasta stoðin sem samfélag okkar hvílir á.

Þakklæti

Í dag vil ég sérstaklega þakka félögum mínum í Framsókn fyrir óeigingjarnt starf í nýafstaðinni kosningabaráttu. Um leið vil ég þakka öllum þeim sem sinna sjálfboðaliðastarfi víðsvegar um landið fyrir það mikilvæga starf sem þeir inna af hendi í þágu samfélagsins.

Takk fyrir ykkar framlag og gleðilegan dag sjálfboðaliðans.

Skrifað í tilefni af degi sjálfboðaliðans 5. desember.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. desember 2024.