Ísland hefur farið þá leið að standa utan Evrópusambandsins (ESB) en eiga í góðu og uppbyggilegu samstarfi við bandalagið á grundvelli EES-samnings. Það hefur veitt okkur tækifæri fyrir sjálfstæða stefnumótun á sviðum eins og fiskveiði- og auðlindamálum, og efnahags- og peningamálum, ásamt því sem Ísland getur eflt tengsl við önnur svæði fyrir utan Evrópu á grundvelli fríverslunarsamninga.
Stóri kosturinn við að vera utan ESB er frelsið til að móta eigin fiskveiðistefnu. Sjávarútvegurinn er burðarás í íslensku hagkerfi, og sjálfstæði frá sameiginlegri fiskveiðistefnu ESB gerir Íslandi kleift að stýra þessari auðlind sjálft, stjórna veiðum á sjálfbæran hátt og tryggja að sjávarafurðir skili þjóðarbúinu meiri tekjum en ella. Í dag er staðan sú að Ísland er leiðandi þjóð í sjálfbærum og arðbærum sjávarútvegi á alþjóðavísu.
Það sama á við um landbúnað, þar sem við getum mótað eigin stefnu án þess að þurfa að aðlaga okkur sameiginlegri landbúnaðarstefnu ESB. Þetta leyfir landinu að þróa sértæka nálgun sem hentar íslenskum aðstæðum best, þar sem veðurskilyrði og landfræðilegar aðstæður eru töluvert frábrugðnar meginlandi Evrópu. Það liggur í augum uppi að innganga í tollabandalag ESB-ríkja að þessu leyti myndi veikja íslenskan landbúnað til muna, á tímum þar sem fæðuöryggi þjóða verður sífellt mikilvægara. Orðið fæðuöryggi kann að hljóma óspennandi en þýðing þess er hins vegar gríðarlega mikilvæg. Flokkar sem tala fyrir inngöngu í Evrópusambandið hafa aldrei svarað þeirri spurningu hvernig þeir sjái fyrir sér að tryggja matvælaöryggi hér á landi með öflugri innlendri matvælaframleiðslu, en það þarf að huga að henni.
Ísland getur einnig einbeitt sér að því að nýta náttúrulega eiginleika til að framleiða einstakar landbúnaðarvörur. Dæmi um þetta eru íslenskt lambakjöt, mjólkurvörur og grænmeti ræktað við sérstakar aðstæður, eins og í gróðurhúsum sem nýta jarðhita. Þessar vörur hafa möguleika á að öðlast sérstöðu á alþjóðlegum mörkuðum þar sem uppruni og gæði eru metin hátt.
Þá fylgir því aukið viðskiptafrelsi fyrir Ísland að standa utan ESB. En landið býr við aukinn sveigjanleika með gerð tvíhliða viðskiptasamninga sem geta hentað íslenskum aðstæðum betur en stórir alþjóðasamningar. Nýta má þessa sérstöðu til að byggja upp betri útflutningsmöguleika og auka fjölbreytni í markaðssetningu íslenskra afurða á erlendum mörkuðum.
Staðan er sú að Íslandi hefur vegnað vel á grundvelli EES-samningsins, utan Evrópusambandsins. Hér hefur hagvöxtur verið meiri, atvinnuleysi minna og laun og kaupmáttur hærri. Það verður áhugavert að sjá hvort Samfylkingin og Flokkur fólksins láti Viðreisn teyma sig í aðildarviðræður að Evrópusambandinu á þessum tímapunkti í yfirstandandi stjórnarmyndunarviðræðum en slík vegferð yrði ekki góð nýting á tíma og fjármunum næstu ríkisstjórnar verði hún að veruleika.
Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. desember 2024.