Að halda landinu í byggð og tryggja atvinnu um allt land kallar ekki einungis á innviðauppbyggingu heldur kallar það líka á að samgönguinnviðum sé haldið við og rekstraröryggi ekki raskað. Hér vísa ég auðvitað til umræðunnar um Reykjavíkurflugvöll sem hefur þjónað Íslendingum í áratugi – bæði sem samgöngumiðstöð og lendingarstaður sjúkraflugs enda staðsettur í návígi við Landspítalann. Í dreifbýlu landi skiptir tryggur rekstur flugvalla máli fyrir hraðar og greiðar samgöngur á milli landshluta, sér í lagi til höfuðborgarinnar þar sem mikil þjónusta við landsmenn alla hefur byggst upp.
Sitt sýnist hverjum um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar og deilt hefur verið um staðsetningu hans frá því áður en ég fæddist. Staðreyndin er þó sú að árið 2019 skrifuðu ríki og borg undir samkomulag um rekstraröryggi flugvallarins. Í því felst að rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar verði tryggt á meðan undirbúningur og gerð nýs flugvallar, á jafngóðum eða betri stað, stendur yfir. Samkomulagið bindur þannig báða aðila til þess að gera ráðstafanir svo að Reykjavíkurflugvöllur geti áfram þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt. Jafn góður eða betri staður hefur ekki enn verið fundinn og jafnvel þótt svo væri er ljóst að uppbygging á nýjum flugvelli tekur mjög langan tíma. Þar af leiðandi er ekki útlit fyrir að nýr flugvöllur verði kominn í gagnið í bráð. Það liggur í hlutarins eðli að ríki og borg verða áfram að viðhalda flugvellinum og tryggja rekstraröryggi hans.
Græn svæði eru ómetanleg verðmæti fyrir okkur öll. Í Öskjuhlíðinni hefur vaxið fallegur skógur sem íbúum, þar á meðal mér sjálfri, þykir vænt um. Staðan er þó sú að trén eru talin hafa náð hæð sem hefur áhrif á flugöryggi. Þegar horft er til þeirra hagsmuna sem hér vegast á, annars vegar að trén fái áfram að vaxa og hins vegar flugöryggis fólks, hlýtur það síðarnefnda að vega þyngra. Afstaðan er því skýr: ef það þarf að fella tré til að tryggja flugöryggi, þá ber að fella þau tré sem nauðsyn krefur en tryggja um leið með mótvægisaðgerðum að Öskjuhlíðin sé áfram grænt svæði. Þau tré sem þarf að fella verða því felld svo að flugöryggi verði ekki teflt í tvísýnu. Í staðinn mætti gróðursetja lágreistan skóg á ný og byggja upp fallegt leik- og útivistarsvæði fyrir alla aldurshópa. Það mætti til að mynda vinna í samstarfi við skóla borgarinnar, sem jafnframt býður upp á tækifæri til að fræða börn um mikilvægi skógræktar og landgræðslu. Jafnvel mætti þar staðsetja útikennslustofu. Lykilatriðið er að þetta mál endi ekki sem enn eitt þolgott þrætuepli á milli ríkis og borgar heldur sé leyst með samvinnu þessara aðila farsællega og fljótt.
Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. janúar 2025.