Að lokinni þingsetningu, sem fram fór 4. febrúar sl. og þar sem ný ríkisstjórn hefur lagt fram þingmálaskrá vorþings, er rétt að minna á eina mikilvægustu áskorun samtímans: orkumál. Orkumál hafa um langa hríð verið mikið deiluefni á Alþingi, en í ljósi þjóðarhagsmuna er nauðsynlegt að nálgast þau af meiri skynsemi og trausti en verið hefur, bæði varðandi nýtingu auðlinda og náttúruvernd. Það er von mín að umræða um orkumál á komandi árum verði markviss og lausnamiðuð og byggi á sameiginlegum langtímasjónarmiðum, öllum til hagsbóta.
Hraðar breytingar á orkumarkaði
Ef við horfum til síðasta áratugar sést glöggt hversu sveiflukennd þróun eftirspurnar og framboðs á orku getur verið. Á þessu tímabili var álverið í Helguvík blásið af. Framboð á raforku var nægt og orkuverð lágt. Heimsfaraldurinn sem skall á árið 2020 dró enn frekar úr eftirspurn eftir orku.
Eftir COVID-19 faraldurinn tók orkumarkaðurinn stakkaskiptum. Verð á áli og rafrænum gjaldmiðlum hækkaði, iðnaður sótti fram og stríð í Evrópu ýtti enn frekar undir eftirspurn eftir raforku. Á sama tíma varð raforkuskortur hér á landi vegna verstu vatnsára í sögu Landsvirkjunar. Nú hefur staðan aftur lagast vegna aukinna rigninga, en þessi öfgafullu og sveiflukenndu tímabil minna okkur á að breytingar gerast hratt og geta haft víðtæk áhrif. Á kjörtímabilinu munu svo verða enn frekari breytingar. Þannig mun íslenski raforkumarkaðurinn þróast til samræmis við reglugerðir Evrópusambandsins (ESB). Síðast en ekki síst munu sumar þeirra virkjana sem fyrri ríkisstjórn samþykkti koma til framkvæmda.
Alþjóðlegar áskoranir og áhrif á Ísland
Örar breytingar á orkumarkaði undirstrika mikilvægi þess að við séum vakandi fyrir þróun á alþjóðlegum mörkuðum. Bandaríkin og Evrópa hafa tilkynnt gríðarlegar fjárfestingar í orkuframleiðslu og innviðum fyrir gervigreind og spurningar vakna um hvaða áhrif þær muni hafa á Ísland. Verðum við eftirsóttara land fyrir orkufrekan iðnað? Hver verður samkeppnishæfni Íslands í ljósi aukinnar fjárfestingar í orkugeiranum annars staðar? Þetta eru spurningar sem við þurfum að ræða og svara af yfirvegun og skynsemi.
Setjum samfélagsáherslur í forgang
Orkusaga Íslands er samtvinnuð sögu ungrar sjálfstæðar þjóðar sem leitaði leiða til að bæta lífskjör. Við byggðum hitaveitur, virkjanir og byggðalínu og tryggðum orkuöryggi almennings í lögum. Gleymum ekki samfélagsáherslum nú þegar frjáls orkumarkaðar ryður sér til rúms.
Tryggjum orkuöryggi almennings á nýjan leik til að koma í veg fyrir verðhækkanir líkt og í Evrópu. Forgangsröðum fjármagni með áherslu á hitaveitur og jarðhitaleit, sérstaklega á köldum svæðum. Ýtum undir að einangraðir staðir, eins og Vestfirðir og Vestmannaeyjar, fái sterkara flutningskerfi, sem skiptir lykilmáli fyrir atvinnulíf og íbúa. Sköpum hvata þannig að ný orkuframleiðsla efli atvinnutækifæri um allt land, í takt við ólík markmið stjórnvalda, allt frá matvælaframleiðslu til orkuskipta, en fari ekki til hæstbjóðenda hverju sinni. Að setja slíkar samfélagsáherslur í forgang kallar á skýra pólitíska sýn og nákvæmni í innleiðingu stefnu. Þær geta hins vegar eflt möguleika íbúa og aukið verðmætasköpun atvinnulífs um allt land.
Nýsköpun og náttúruvernd í orkustefnu
Nýsköpun, orkunýtni og náttúruvernd þurfa einnig að vera lykilhugtök í orkupólitík framtíðarinnar, ekki síst nú þegar umræðan um vindorku er að aukast. Vindorka getur orðið mikilvæg viðbót við orkuframleiðslu landsins, en henni fylgja nýjar áskoranir sem þarf að takast á við af ábyrgð á grunni heildstæðrar stefnumótunar með verðmæti náttúru í huga.
Samvinna í orkumálum
Orkumál eiga ekki að vera vettvangur fyrir skotgrafir og upphrópanir. Við þurfum samvinnu, faglega nálgun og lausnamiðaða stefnu sem tryggir hagsmuni bæði núverandi og komandi kynslóða. Framtíð Íslands á það skilið.
Megi traust ríkja í nýtingu okkar einstöku og fjölbreyttu auðlinda á grunni virðingar fyrir náttúru og umhverfi.
Ég óska nýrri ríkisstjórn velfarnaðar í störfum sínum.
Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. febrúar 2025.