Categories
Fréttir Greinar

Aldrei aftur

Deila grein

10/05/2025

Aldrei aftur

Ég man svo vel eftir ritgerð sem ég skrifaði sem nemandi í háskólanum um þjóðarmorðin í Rwanda.

Þegar ég fór yfir söguna greiptist hún fast í huga mér. Þar féllu þúsundir Tútsa fyrir framan augu heimsins og enginn svaraði kallinu. Slátrun Tútsa var síðar staðfest sem þjóðarmorð. Í kjölfar þess stigu fjöldi ríkja fram og leiðtogar heimsins kepptust við að segja; aldrei aftur. Aldrei aftur munum við láta söguna þróast með þessum hætti.

Í dag virðist sagan þó endurtaka sig á Gaza. Og aftur horfir heimurinn þögull á hryllingsmynd í beinni.

Í aðdraganda þeirra kosninga sem haldnar á Íslandi á síðasta ári kepptust leiðtogaefni um að fara yfir hvernig þau myndu leggja hönd á plóg kæmust þau til valda. Hvernig þau ætluðum að nýta rödd sína og áhrif sem boðberar friðar, beita sér í samvinnu við Norðurlöndin og svo lengi mætti telja.

Síðan þá hefur afar lítið gerst þó svo að staðan hafi hríðversnað – en frá því í janúar hafa yfir 30 þúsund látið lífið, mest konur og börn.

Það er ekki boðlegt að leiðtogaefni keppist um að stíga fram sem friðardúfur í aðdraganda kosninga og þegi svo þunnu hljóði úr valdastóli. Afboði sig á mikilvægan friðarviðburð í Auschwitz, gefist strax upp á að ná saman með Norðurlöndum um aðgerðir, og tjái sig takmarkað fyrr en allt í einu um Eurovision þegar þátttaka þjóða í keppninni liggur þegar fyrir.

Sameiginleg yfirlýsing ráðherra í vikunni var þó jákvæð ljóstíra úr dimmum dal deyfðar á málinu miðað við yfirlýsingar. Vert er að undirstrika að allir gera sér grein fyrir að staðan er afar flókin og krefst mikillar vandvirkni.

Kæru ráðamenn þjóðar vor; verið sannar í orðum ykkar og gjörðum. Þið eruð fyrirmyndir, ekki síst fyrir unga fólkið okkar um hvað loforð og yfirlýsingar í raun þýða. Þeim fylgir ábyrgð. Nú þarf að rísa undir þeirri ábyrgð.

Hvar standið þið og þjóðin öll þegar nemendur framtíðarinnar rýna í söguna?

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. maí 2025.