Categories
Fréttir Greinar Nýjast

Landbúnaðurinn kallar á pólitískt hugrekki

Deila grein

19/08/2025

Landbúnaðurinn kallar á pólitískt hugrekki

Það er óumdeilanlegt að íslenskur landbúnaður stendur á krossgötum. Íslenskir bændur eru burðarás í framleiðslu hollra og öruggra matvæla fyrir þjóðina, bændur hafa mátt þola versnandi starfsum-hverfi á undanförnum árum. Nýliðun í greininni er lítil sem engin og fjárhagslegt svigrúm margra bænda þrengist sífellt. Þetta er alvarlegt ástand sem krefst tafarlausra aðgerða, til þess að tryggja framtíð landbúnaðarins í landinu.

Á sama tíma og bændur standa frammi fyrir auknum kostnaði, ekki síst vegna hárra stýrivaxta og vax-andi innflutnings á landbúnaðarvörum sem fluttar eru til landsins í gegnum EES-samninginn, hafa þeir þurft að fjárfesta mikið í innviðum vegna innleiðingar á ströngu EES-regluverki um velferð dýra. Slíkt regluverk er vissulega mikilvægt og nauðsynlegt, en það hefur verið dýrt og nær alfarið fjármagnað af bændum sjálfum, án þess að kerfið hafi tekið nægjanlegt tillit til ástands atvinnugreinarinnar.

Við þessar aðstæður er brýn nauðsyn að styðja íslenska bændur með markvissum aðgerðum. Endur-skoða þarf tollaumhverfi landbúnaðar, sérstaklega krónutölutolla sem ekki hafa verið uppfærðir í samræmi við verðlagsþróun. Slík skekkja skapar ósanngjarna samkeppnisstöðu fyrir innlenda fram-leiðendur og grefur undan sjálfbærni greinarinnar.

Framsókn hefur lagt ríka áherslu á að bæta starfsumhverfi bænda. Það er nauðsynlegt skref til að snúa þróuninni við. Ungt fólk velur sífellt síður að hefja búskap, ekki vegna skorts á vilja eða hugsjón, heldur vegna þess að raunverulegir hvatar og aðstæður eru ófullnægjandi. Ef við viljum sjá nýliðun verðum við að bjóða raunhæfa framtíðarsýn.

Sterkt samspil ríkis og bænda – forsenda framtíðar

Þjóð sem tryggir ekki eigið matvælaöryggi setur sig í óviðunandi stöðu. Það er frumskylda hvers sam-félags að tryggja íbúum næg og heilnæm matvæli á viðráðanlegu verði. Til þess þarf að vera skýrt, gagnsætt og traust samstarf milli ríkisvalds og bænda. Slíkt samstarf verður að grundvallast á þremur stoðum:

Stuðningi við innlenda matvælaframleiðslu, þar sem tryggt er að matvæli séu framleidd innanlands og byggð upp af fagfólki

Byggðastuðningi, með áherslu á virkt atvinnulíf í dreifbýli allt árið

Stuðningi við loftslagsvænan landbúnað, sem gerir greinina að virkum þátttakanda í baráttunni gegn loftslagsbreytingum

Fjárhagslegar úrbætur – hvatakerfi sem virka

Nýliðun í landbúnaði krefst einnig fjárhagslegra úrbóta. Nauðsynlegt er að bjóða upp á skattaívilnanir og langtímalán fyrir unga bændur sem vilja taka sín fyrstu skref í greininni. Við getum litið til fyrir-mynda í Noregi og innan EES þar sem skattalegir hvatar hafa reynst áhrifaríkir við kaup og sölu búj-arða til áframhaldandi landbúnaðarstarfsemi.

Framsókn hefur talað fyrir hlutdeildarlánum þar sem ríkið leggur til 25-30% af kaupverði bújarða, með möguleika á endurgreiðslu síðar. Enn fremur er mikilvægt að stórbæta fjármögnun í gegnum Byggðastofnun og veita lágvaxtalán með langtímaáætlunum, í anda gömlu stofnlánadeildarinnar.

Endurskoðun stuðningskerfa – markviss og réttlát skipting

Það þarf að líta gagnrýnið á stuðningskerfi landbúnaðarins og taka það til endurskoðunar með það að markmiði að þeir sem stunda landbúnað í atvinnuskyni fái hlutfallslega meiri stuðning. Það eykur

framleiðslugetu. Halda þarf inni greiðslumarki, sem hefur reynst lykilatriði í rekstraröryggi sauðfjár-bænda, að minnsta kosti þar til önnur jafnvirk leið hefur verið þróuð.

Landbúnaður er ekki aðeins atvinnugrein, hann er lífsnauðsynlegur þáttur í öryggi og sjálfbærni þjóðarinnar. Nú þarf að sýna pólitískt hugrekki og viljastyrk til að taka afgerandi skref í þágu íslenskra bænda.

Það sem stendur undir íslenskum landbúnaði er ekki eingöngu fjárhagslegt virði, heldur samfélags-legt, menningarlegt og þjóðhagslegt mikilvægi sem ekki verður metið til fulls í krónum og aurum.

Nú er tíminn til að bregðast við. Tíminn til að snúa vörn í sókn. Fyrir framtíð íslensks landbúnaðar – og fyrir framtíð þjóðarinnar allrar.

Höfundur er Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. ágúst 2025