Vellíðan barnanna okkar er eitthvað sem skiptur okkur öll máli. Á undanförnum árum hefur orðið vart við verulega aukningu í vanlíðan meðal barna og ungmenna. Kvíði, depurð og félagsleg einangrun eru meðal algengra einkenna sem hrjá unga fólkið okkar. Samhliða þessu má sjá vísbendingar um aukið ofbeldi og jafnvel vopnaburð í þessum hópi. Slíkt ástand hefur alvarleg áhrif, ekki aðeins á þau börn og ungmenni sem í hlut eiga, heldur á samfélagið allt. Því er mikilvægt að bregðast við þessari þróun sem fyrst svo hægt sé að hlúa að börnunum okkar.
Foreldrar gegna lykilhlutverki í að bregðast við. Það skiptir máli að fylgjast með líðan barna og ungmenna, sýna þeim áhuga og tala opinskátt um tilfinningar, vináttu og áskoranir daglegs lífs. Þegar grunur vaknar um vanlíðan eða áhættuhegðun er mikilvægt að grípa inn í snemma og leita aðstoðar.
Foreldrum og forráðamönnum stendur til boða fjölbreytt stuðningsnet. Félagsþjónusta sveitarfélaga býður upp á ráðgjöf og úrræði sem geta létt undir með fjölskyldum í erfiðleikum. Í skólunum og hjá sveitarfélaginu starfa námsráðgjafar, félagsráðgjafar og sálfræðingar sem eru reiðubúnir að veita aðstoð. Lögreglan sinnir ekki aðeins refsivörslu heldur vinnur einnig í forvörnum og getur gripið inn í þegar ofbeldi eða vopnaburður kemur upp. Heilbrigðisþjónustan, til dæmis heilsugæslur og sértæk geðheilbrigðisteymi, geta veitt faglega aðstoð þegar vanlíðan verður mikil. Þá sinna frjáls félagasamtök og stuðningshópar mikilvægu hlutverki með fræðslu, félagsstarfi og vettvangi fyrir samveru.
Rannsóknir sýna að þátttaka barna og ungmenna í íþróttum og tómstundastarfi hefur jákvæð áhrif á líðan þeirra, sjálfsmynd og félagsfærni. Slík þátttaka getur dregið úr einangrun, aukið vellíðan og minnkað líkur á áhættuhegðun. Rannsóknir á Suðurnesjum sýna að hlutfallslega færri börn og ungmenni sækja skipulagt tómstundastarf en nemendur á landsvísu. Fjölbreytt framboð af frístundastarfi á Suðurnesjum má finna á www.fristundir.is en vefurinn hefur að geyma upplýsingar um allar þær íþróttir og tómstundir sem í boði eru.
Til þess að stemma stigu við þessari þróun þarf samvinnu allra og ganga í takt. Með samstilltu átaki foreldra, skóla, félagsþjónustu, lögreglu, heilbrigðisþjónustu, íþrótta- og tómstundastarfs og samfélagsins alls er hægt að draga úr vanlíðan og stuðla að því að börn og ungmenni fái að vaxa upp við öryggi, virðingu og umhyggju.
Við berum öll ábyrgð á því að skapa börnunum okkar heilbrigð og örugg skilyrði til framtíðar.
Díana Hilmarsdóttir, bæjarfulltrúi.
Greinin birtist fyrst á vf.is 18. september 2025.