Categories
Fréttir

Fullkomlega óábyrgt að halda áfram þessum viðræðum

Deila grein

19/02/2014

Fullkomlega óábyrgt að halda áfram þessum viðræðum

Gunnar bragi_SRGB_fyrir_vefGunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, hafði framsögu á Alþingi í dag um skýrslu óháðs fagaðila, Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, á fræðilegu mati á aðildarviðræðum við Evrópusambandið.
Gunnar Bragi sagðist „vonast til þess í dag að umræðan muni meira og minna beinast að skýrslunni sem hér liggur fyrir og efnisatriðum hennar og því mati sem þar er að finna á einstökum þáttum. Við eigum að horfa fram á veginn í þessu máli, sem og reyndar öllum öðrum ef við mögulega getum. Ég treysti því að með þessa úttekt í farteskinu farnist okkur það.“
Hann telur skýrsluna skýra vel „galla sem eru á því ferli sem viðhaft er í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Það er Evrópusambandið sem er við stjórnvölinn. Þannig er það. Sambandið stýrir ferlinu, m.a. með setningu skilyrða fyrir framvindu þess í formi opnunar- og lokunarviðmiða á einstaka samningskafla.“
„En það er annar stór galli á þessu ferli. Það er sú staðreynd að öll þessi skilyrðasetning fyrir framgangi viðræðna í formi viðmiða gefur einstökum aðildarríkjum enn ríkari tækifæri en fyrr til að láta sérhagsmuni sína ráða för. Þannig getur algerlega óskyld mál verið spyrt saman við bæði ferlið sjálft og framgang umsóknarríkja og þannig geta þeir sem fyrir liggja á fleti tekið varðstöðu um þrönga hagsmuni sína. Slíkt dregur auðvitað úr trúverðugleika ferlisins og trúverðugleika ESB almennt“, sagði Gunnar Bragi.
Gunnar Bragi segir skýrsluna draga „upp mynd af ESB sem framfylgir stækkunarstefnu sem er föst á klafa viðmiða og skilyrða og gefur núverandi aðildarríkjum tæki til eigin hagsmunagæslu. Stækkunarstefnan er í eðli sínu óbilgjörn. Hún er ekki framkvæmd á jafningjagrundvelli. Þessi stækkunarstefna hentar ekki Íslandi. Það var ábyrgðarhluti að hrinda í framkvæmd aðildarviðræðum þegar þannig háttar til.
Að þessum forsendum gefnum er það að mínu mati fullkomlega óábyrgt að halda áfram þessum viðræðum.”
„Ég er sannfærður um“, segir Gunnar Bragi, „að af gefnum þeim forsendum sem blasa við okkur í skýrslu Hagfræðistofnunar sé óábyrgt að halda áfram viðræðum við Evrópusambandið um aðild. Þetta met ég með hliðsjón af þremur meginþáttum sem í skýrslunni eru dregnir fram og ég hef tæpt á.

  • Í fyrsta lagi er á vegum ESB rekin óbilgjörn stækkunarstefna sem í besta falli er ósanngjörn fyrir ríki eins og Ísland en í versta falli úlfur í sauðargæru, eins og berlega hefur komið í ljós, bæði í Icesave og makríl.
  • Í annan stað er himinn og haf á milli sýndar og veruleika þegar kemur að kjarnahagsmunum okkar Íslendinga í sjó og á landi. Einhver samningsniðurstaða milli ESB og Íslands í þessum málaflokkum er flöktandi villuljós. Er þessi sannfæring borin á þungum lagalegum rökum.
  • Í þriðja lagi sýnir þróunin í efnahagsmálum Evrópu síðustu árin að allt of snemmt er að ætla að þeim stöðugleika hafi verið náð sem svo margir hér á landi hafa talið að væri eftir að slægjast.“

„Við þurfum að taka í sameiningu á þeim atriðum sem snúa að okkur sjálfum en ekki úthýsa málinu til ESB til lausnar. Við erum að gera það nú þegar. Í níu mánuði hefur ríkisstjórn Sigmundar Davíðs unnið í og tekið á stærri vandamálunum sem liggja fyrir þjóðinni, skuldaleiðréttingu, fjármálum ríkissjóðs, eflingu heilbrigðisstofnana og löggæslu svo eitthvað sé nefnt,“ sagði Gunnar Bragi.
Hér er hægt að lesa ræðu Gunnars Braga Sveinssonar, utanríkisráðherra í heild sinni.