Categories
Greinar

Gagnaver á Blönduósi

Deila grein

20/02/2014

Gagnaver á Blönduósi

Sigrún MagnúsdóttirAlþingi ályktaði 15. janúar sl að fela stjórnvöldum að koma á samstilltu átaki með sveitarfélögum í Austur-Húnavatnssýslu um eflingu atvinnulífs og sköpun nýrra starfa á Norðurlandi vestra með nýtingu raforku sem framleidd er í Blönduvirkjun. Jafnframt ber að vinna að markaðssetningu svæðisins sem iðnaðarkosts, svo sem fyrir gagnaver.

Með þessari ákvörðun Alþingis er stigið stefnumarkandi skref til þess að gagnaver rísi á Blönduósi. Forráðamenn sveitarfélagsins hafa undirbúið málið með því að bjóða fram mjög hentugt landsvæði í eigu sveitarfélagsins og komið því á aðalskipulag. Staðhættir bjóða þar upp á flesta hugsanlega kosti til starfrækslu gagnavers. Þar er mjög vítt og hentugt landrými, orkuflutningur frá Blönduvirkjun mjög öruggur og um skamma leið að fara svo orkutap er lágmarkað. Engin hætta er af eldgosum, jarðskjálftum eða annarri náttúruvá. Þá er veðrátta svo sem ákjósanlegust er, köld en ekki stórviðrasöm. Ljósleiðaratengingar auðveldar, samgöngur greiðar bæði norður og suður. Lítill flugvöllur er á Blönduósi sem með litlum endurbótum gæti greitt enn betur fyrir samgöngum.

Svo háttar til að Landsnet vill leggja nýja orkuflutningslínu frá Blönduvirkjun til Akureyrar. Gert er ráð fyrir 220 volta línu á möstrum. Íbúar þeirra sveita sem fyrir mestri röskun yrðu eru þessum áformum mjög andvígir. Þegar af þeirri ástæðu er einboðið að nýta fremur orku Blönduvirkjunar á heimaslóð en að standa í stórdeilum við íbúa annarra sveita. Blöndulínu þrjú þarf því ekki að reisa í bráð og sparast við það ríkisfé sem kemur að góðum notum við atvinnuuppbygginguna í Austur-Hún.

Íslendingar hafa varið geipifé til lagningar sæstrengjanna Farice og Danice. Þeir eru mjög vannýttir og rekstur þeirra er mikill baggi. Gagnaflutningar sem verða með tilkomu gagnavers/gagnavera myndu skipta þar sköpum.

Stjórnvöld hafa það á valdi sínu hvar þau kjósa að iðnaðaruppbygging verði sem og hvar iðjuver rísa í landinu og nægir að benda á álver í Reyðarfirði. Því ber stjórnvöldum nú að beita sér af alefli við að laða þá sem fjárfesta vilja í gagnaverum hingað til lands og fá því stað á Blönduósi, öllum til hagsbóta.

 

Sigrún Magnúsdóttir

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. febrúar 2014)