Categories
Greinar

Norrænn virðisauki

Deila grein

21/03/2014

Norrænn virðisauki

Eygló HarðardóttirÁ morgun, 23. mars, er Dagur Norðurlanda. Þennan dag fyrir 52 árum komu fulltrúar ríkisstjórna Norðurlanda saman í þinghúsinu í Helsinki og undirrituðu sáttmála sem er ígildi stjórnarskrár norræns samstarfs, í daglegu tali nefndur Helsinkisáttmálinn. Undirritun hans varð til þess að treysta samstarf þjóðanna enn frekar og staðfesti þá nálægð sem ríkir milli Norðurlandabúa að því er varðar menningu, tungumál, samfélagsgerð og gildi. Íslendingar njóta á margan hátt uppskerunnar af samvinnu Norðurlanda án þess að vera meðvitaðir um hvernig til var sáð eða úr hvaða jarðvegi hún er sprottin. Norræna húsið hefur verið styrk stoð í menningarlífi Íslendinga síðan 1968 þar sem norræn menning situr í öndvegi. Norræna húsið er gott dæmi um ávinning Íslendinga af norrænu samstarfi. Framlag Íslands til Norrænu ráðherranefndarinnar, sem er aðeins 0,7% af heildarfjárlögum hennar, rennur óskipt til reksturs Norræna hússins. Starf sem snýr að ungu fólki, og við njótum góðs af, hefur einnig rutt sér rúms á norrænum vettvangi s.s. Nordjobb og Nordplus. Norræni spilunarlistinn er nýr sproti sem höfðar einnig vel til ungmenna.

Norrænt samstarf opnar dyr
Fyrir tilstuðlan norræns samstarfs geta Íslendingar sótt vinnu og nám hvar sem er á Norðurlöndum án hindrana. Samkomulag um sameiginlegan vinnumarkað sem undirritað var fyrir hartnær 60 árum gerir Norðurlandabúum kleift að stunda vinnu og setjast að í hvaða norrænu ríki sem þeir kjósa án þess að hafa til þess sérstök leyfi. Til að auðvelda íbúum að setjast að í öðrum norrænum löndum eru reknar öflugar norrænar upplýsingaskrifstofur sem bera nafnið Halló Norðurlönd. Dyr norrænna háskóla og menntastofnana hafa staðið íslenskum stúdentum opnar í fjölmörg ár vegna norræns samnings um æðri menntun. Ísland hefur alla tíð verið undanskilið því að greiða styrk til Norðurlandanna með hverjum námsmanni og er því eina landið sem greiðir ekkert með stúdentum sem sækja nám á hinum Norðurlöndum. Þetta hefur gert fjölda Íslendinga kleift að stunda nám við norrænar menntastofnanir og hefur skilað mikilli og ómetanlegri þekkingu inn í íslenskt samfélag. Í þessu liggur sérstaða samstarfsins að mörgu leyti, þar sem unnið er að málefnum sem standa íbúum Norðurlanda nærri og snerta þeirra daglega líf, á sviði menntunar, atvinnu og menningar.

Við eigum samleið
Engan bilbug er að finna á norrænu samstarfi, heldur þvert á móti enda sýna ótal kannanir að það nýtur mikils stuðnings og velvildar Norðurlandabúa. Nýleg staðfesting á þessu birtist í könnun Gallup í Danmörku þar sem stuðningur við norrænt sambandsríki mældist 47% ef slíkt stæði til boða en stuðningur við ESB mældist 28%. Norræn samfélög hafa breyst mikið frá því að Helsinkisáttmálinn var undirritaður. Eftir sem áður standa Norðurlöndin þó frammi fyrir sambærilegum áskorunum, hafa svipaðra hagsmuna að gæta og vilja koma líkum hlutum til leiðar. Norrænt samstarf stendur því traustum fótum.

Eygló Harðardóttir

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. mars 2014)

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.