Categories
Greinar

Hvers vegna áburðarverksmiðja?

Deila grein

19/03/2014

Hvers vegna áburðarverksmiðja?

Þorsteinn SæmundssonNýlega lagði sá sem hér ritar ásamt nokkrum öðrum þingmönnum fram þingsályktunartillögu um hagkvæmni þess að reisa og reka áburðarverksmiðju á Íslandi. Tillagan hefur vakið töluverða athygli og umræður sem ber að þakka fyrir. Í umræðunni hefur þó örlað á nokkrum misskilningi sem rétt er að fara örfáum orðum um. Fyrst ber þess að geta að ýmsir virðast halda að til standi að endurreisa Áburðarverksmiðju ríkisins sem hér starfaði á árunum 1954 til 1993. Svo er ekki. Verksmiðja sú sem hér var starfrækt áður var sett á fót af ríkinu til að fullnægja þörfum innanlandsmarkaðar á tímum gjaldeyrisskorts. Þingsályktunartillagan sem nú hefur verið lögð fram snýst um að gerð sé hagkvæmniathugun á því hvort fýsilegt sé að reisa hér á landi áburðarverksmiðju sem framleiða myndi áburð til útflutnings auk þess að anna innlendri eftirspurn.

Sívaxandi áburðarnotkun í heiminum
Það er margt sem mælir með að hagkvæmniathugunin sé unnin. Áburðarnotkun fer sívaxandi í heiminum. Munar þar mestu um aukin kaup Kínverja og Indverja sem berjast við að brauðfæða síaukinn fólksfjölda. Samfara aukinni notkun hefur verð á áburði hækkað umtalsvert. Komið hefur fram í skýrslu OECD að á næstu tuttugu árum þurfi að auka matvælaframleiðslu heimsins um 50% frá því sem nú er til að koma í veg fyrir skort. Ljóst er því að stóraukin eftirspurn verður eftir áburði. Ísland er að mörgu leyti í kjörstöðu til að framleiða áburð. Hér er næga hagkvæma orku að fá og ærið nóg er af vatni en þetta tvennt er undirstaða áburðarframleiðslu. Tiltölulega auðvelt er að framleiða hér köfnunarefni úr andrúmsloftinu. Auk þess er gert ráð fyrir í tillögunni að unninn verði brennisteinn til framleiðslunnar úr útblæstri Hellisheiðarvirkjunar sem nú er til óþurftar og heilsutjóns. Þannig eru til hér í landinu helstu hráefni sem þarf til áburðarframleiðslu.

Ný störf – auknar útflutningstekjur
Ef hagkvæmt reynist að reisa hér áburðarverksmiðju verða til 150-200 framtíðarstörf auk afleiddra starfa. Þar af er fjöldi starfa verkfræðinga, tæknifræðinga, efnafræðinga og annars háskólamenntaðs fólks. Auk þess mun fjöldi velmenntaðra iðnaðarmanna starfa í slíkri verksmiðju. Gert er ráð fyrir að 600 manns fái vinnu við byggingu verksmiðjunnar. Síðast en ekki sízt munu verða flutt út héðan um 700 þúsund tonn af áburði og önnur 700 þúsund tonn af Kalsíumklóríð auk þess sem verksmiðjan mun anna eftirspurn innanlands. Rekstur verksmiðjunnar fellur því vel að áherslu stjórnvalda um aukna matvælaframleiðslu. Við framleiðsluna fellur einnig til nokkuð magn ammoníaks til nota við rekstur kælikerfa en þess má geta að eftir að gamla áburðarverksmiðjan hætti rekstri hefur verð á ammoníaki hækkað nokkuð hérlendis.

Ekki töfralausn
Hugsanleg bygging og rekstur áburðarverksmiðju er ekki töfralausn í atvinnulífi landsmanna en hún getur hæglega orðið liður í almennri og fjölbreyttri atvinnuuppbyggingu á Íslandi.

 

Þorsteinn Sæmundsson

(Greinin birtist í DV 19. mars 2014)

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.