Categories
Greinar

„Ég fer í fríið“

Deila grein

12/08/2015

„Ég fer í fríið“

Silja-Dogg-mynd01-vefSumarið er yfirleitt gúrkutíð í fréttamennsku. Þingstörf liggja niðri að mestu og þingmenn þeytast út um hvippinn og hvappinn. Sumir nýta tímann til að hitta fólk um land allt og taka púlsinn á ýmsum málum. Aðrir nota tímann með fjölskyldunni, slaka á heima fyrir, dytta að heimilinu og skella sér jafnvel í útilegu eða utanlandsferð. Batteríin eru hlaðin, bæði málefnalega fyrir komandi þingvetur sem og líkami og sál.

 Kleinuhringjaklikkunin

Sjálf hef ég nýtt tímann vel í sumar og gert allt ofantalið. Hef varla horft á sjónvarp en heyri útvarpsfréttir mátulega oft. Það sem hæst hefur borið í umræðunni, að mínu mati í sumar eru nokkur afar áhugaverð en þó ólík mál. Má þar nefna yfirvofandi viðskiptabann af hálfu Rússa gagnvart Íslendingum, afar sterk umræða um kynferðisbrot og kleinuhringjaæði. Hvað er þetta annars með Íslendinga og erlendar keðjur sem hingað koma? Það er eins og fólk hafi aldrei áður komist til þess að versla. Hvernig ætli höfundar áramótaskaupsins í ár tækli þetta allt, af nógu er að taka.

Ferðamannahægðir

Fjölgun erlendra ferðamanna, slys á ferðamönnum og ferðamannahægðir hafa til dæmis fengið all nokkra umfjöllun í sumar. Of fá klósett, ófullnægjandi merkingar, lélegir vegir, ökumenn oft illar upplýstir um færð og vegi og jafnvel á vanútbúnum bílum frá bílaleigum, fáir hjólastígar fyrir allt reiðhjólafólkið sem skapar verulega slysahættu, og svo framvegis. Þetta eru allt verkefni sem við verðum að taka föstum tökum og fjármagnið þarf að sjálfsögðu að fylgja. Út frá umræðum í þingsal í vetur heyrðist mér að flestir væru á þeirri skoðun að best væri að fara svokallaða blandaða leið til fjármögnunar en þau mál skýrast væntanlega á haustdögum.

Í lífshættu á reiðhjóli

Aðeins meira um hjólreiðafólkið. Við höfum mörg lent í því ítrekað, á þjóðvegum landsins, að þurfa nánast að hemla þegar maður lendir skyndilega fyrir aftan hjólreiðamann. Sumir hjóla hlið við hlið og aðrir eru með svo miklar pinkla að þeir taka heila akrein. Stundum er mögulegt að sveigja framhjá þeim en stundum ekki. Vegaxlir eru víða mjög lélegar og því eiga hjólreiðamennirnir heldur ekki möguleika á að víkja lengra út í kant. Maður bíður hreinlega eftir að dauðaslys verði við slíkar aðstæður. En hvað skal gjöra? Vegakerfinu hefur verið illa viðhaldið í mörg ár. Hjólreiðastígar eru að sjálfsögðu ekki í forgangi. Að mínu mati er tvennt í stöðunni, þ.e. að þegar vegir eru lagaðir að vegkantar séu hafðir ívið breiðari en venja er og myndu þannig nýtast hjólreiðafólki. Hin leiðin er að koma þeim skilaboðum til ferðafólks að ekki sé óhætt að hjóla á þjóðvegum. Við getum ekki boðið upp á þessa tegund ferðamennsku ef öryggi ferðamanna er ekki tryggara en raun ber vitni.

Fleiri gáttir til landsins

Þjónusta og umgjörð er eitt og náttúruverndin annað. Þar sem íslensk náttúra er einstaklega viðkvæm þá hefur lengi verið tala um að fjölga hliðum inn til landsins með það að markmiði að dreifa ferðamönnum betur um landið. Ríkisstjórnin hefur að tillögu forsætisráðherra samþykkt að skipa starfshóp sem fær það hlutverk að kanna hvernig koma megi á reglulegu millilandaflugi um flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum. Starfshópurinn skal greina framkvæmdaratriði, kostnað, þátttöku einstakra ríkisstofnana/fyrirtækja, landshluta og fyrirtækja í viðkomandi landshluta og markaðssetningu. Starfshópurinn á að skila af sér tillögum í formi aðgerða- og kostnaðaráætlunar. Áhugavert verður að sjá hverjar niðurstöður starfshópsins verða.

Gæði umfram magn

Fjölgun innkomustaða myndi án efa styrkja byggðir landsins og innviði þeirra, og umfram allt, gefa ferðamanninum enn betri upplifun. Rannsóknir sýna að flestir ferðamenn sem hingað koma vilja njóta náttúrunnar. Náttúran stendur auðvitað alltaf fyrir sínu en fjölmennið á vinsælustu stöðunum getur dregið verulega úr gæðum upplifunarinnar. Bláa lónið hefur verið til mikillar fyrirmyndar á þessu sviði og lagt ofuráherslu á upplifun gesta. Nú er verið að stækka lónið en stjórnendur lónsins munu samt sem áður ekki selja fleiri aðgangsmiða sem því nemur. Þar er aðgangur að lóninu takmarkaður við ákveðinn fjölda hverju sinni. Mér finnst að aðrir vinsælir ferðamannastaðir ættu að taka Bláa lónið sér til fyrirmyndar og skoða það t.d. að hleypa bara visst mörgum hópferðabílum/einstaklingum inn á svæðið í einu, þá á ég til dæmis við staði eins og Þingvelli, Gullfoss og Geysi.

Íslensk náttúra rokkar

En svona að lokum þá hef ég virkilega notið þess að ferðast um landið í sumar. Ég hef notað tjaldsvæðin grimmt, vítt og breitt um landið og verið afar ánægð með þá þjónustu sem ég hef fengið. Það hefur einnig verið gaman að sjá hversu mikinn metnað ferðaþjónustuaðilar hafa til að standa sig sem best gagnvart sínum viðskiptavinum. Þeir erlendu ferðamenn sem ég hef hitt á tjaldstæðunum hafa allir verið mjög ánægðir með ferðalagið en það sem toppar sumarið algjörlega er  að sjálfsögðu sjálf móðir náttúra; mikilfengleg, stórbrotin og algerlega einstök.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í DV 12. ágúst 2015.