Categories
Greinar

Stýrivextir og Seðlabankinn

Deila grein

24/08/2015

Stýrivextir og Seðlabankinn

ásmundurPeningastefnunefnd Seðlabankans ákvað í síðustu viku að hækka stýrivexti. Það eru nokkur atriði sem hafa komið upp í hugann eftir þessa ákvörðun.

Seðlabankinn tekur sérstaklega fram að þeir séu að hækka stýrivexti vegna kjarasamninga. Ég sakna þess að þeir taki fram að verslanir og fyrirtæki hafi ákveðið að hækka vörur og þjónustu of mikið. Hafa olíufélögin skilað lækkun heimsmarkaðsverðs? Af hverju hafa innflutningsaðilar raftækja ekki lækkað verðin eftir nýlegar tollalækkanir? Þetta hefði verið sanngjörn gagnrýni í stað þess að sparka í saklaust launafólk sem sannarlega átti skilið kjarabætur.

Það er full þörf á því að skoða peningastefnu Íslands og raunar ótrúlegt að slík endurskoðun skuli ekki hafa farið fram strax eftir efnahagshrun. Ástæða þess er væntalega sú að þáverandi ríkisstjórn hafði ofurtrú á að Evran myndi leysa þetta líkt og annað í íslensku samfélagi og því þyrfti ekkert að skoða þessi mál. ESB-sinnar hafa keppst við það undanfarið að blása lífi í þessa umræðu og halda því fram að ekki sé mögulegt að ná niður vöxtum nema ganga í ESB og taka upp Evru. Staðreyndin er að það eru mjög breytilegir vextir innan ESB.

Þegar rætt var um afnám fjármagnshafta á síðasta kjörtímabili þá héldu margir ESB sinnar því fram að ekki væri hægt að afnema fjármagnshöft nema með því að ganga í ESB og taka upp evru. Þegar ríkisstjórnin kynnti frumvörp um afnám fjármagnshafta sl. vor þá voru sömu aðilar fljótir að flýja undan þessum málflutningi. Það sama á við um vaxtamálin, vandinn liggur ekki í krónunni frekar en lausnin liggur ekki í evrunni.

Það getur ekki verið markmið að hafa hér háa vexti. Ráðast svo í aðgerðir til að hindra það að spákaupmenn sigli hingað með gull í von um mikinn skyndigróða líkt og Seðlabankinn kynnti í síðustu viku. Það þarf að ráðast að rótum vandans. Vandinn er m.a. verðtryggingin. Efnahagsstjórnin virkar ekki sem skyldi þegar við búum við verðtryggingu skulda. Það er sama hvað stýrivextir eru hækkaðir mikið, þegar við deilum hækkuninni á allan lánstímann líkt og gert er í dag þá hefur hún til skamms tíma lítil sem engin áhrif. Þetta var m.a. ástæða þess að við náðum ekki að kæla hagkerfið þegar á þurfti að halda fyrir hrunið.

Rót vandans varðandi háu vextina er heimatilbúinn og eðlilegast hefði verið að umræða yrði tekin eftir efnahagshrunið. Það þarf strax að hefjast lausnamiðuð umræða án upphrópanna um þessi mál. Það er grunnur þess að við þá náum að vinda ofan af þessu séríslenska vandamáli. Það væri líka skynsamlegt að setja inn í þá umræðu hugmyndir sem verið hafa hjá Frosta Sigurjónssyni o.fl. um betra peningakerfi.

Ásmundur Einar Daðason

Greinin birtist á blog.pressan.is/asmundurd/ 24. ágúst 2015.