Categories
Greinar

Byggjum 2300 leiguíbúðir

Deila grein

25/08/2015

Byggjum 2300 leiguíbúðir

EÞHÍ yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um húsnæðismál í tengslum við kjarasamninga í lok maí sl. kemur fram að ráðist verði í átak með byggingu allt að 2300 félagslegra leiguíbúða á árunum 2016-2019, þó að hámarki 600 íbúðir á ári.  Í sumar hefur verið unnið að frumvörpum og fjármögnun þessara loforða í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og hlutaðeigandi ráðuneyta enda yfirlýsing stjórnvalda ein lykilforsenda langtíma kjarasamninga á vinnumarkaði.

Átak í uppbyggingu íbúða skiptir miklu máli núna, enda var góð samstaða um það og er gert ráð fyrir þessu í fjárlagafrumvarpinu, líkt og fjármálaráðherra upplýsti í nýlegu Morgunblaðsviðtali og mun stuðla að stöðugleika til framtíðar.

Karens-Minde

Bygging íbúðanna verður fjármögnuð með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga og með beinum vaxtaniðurgreiðslum ríkisins sem nema núvirt 30% af stofnkostnaði.  Slíkt framlag ríkis og sveitarfélaga auk aukins stuðnings með hækkun húsnæðisbóta á árunum 2016 og 2017 á að leiða til þess að leiga einstaklings með lágar tekjur nemi ekki hærra hlutfalli en 20-25% af tekjum.  Miðað verður við að tekjur íbúa verði í lægstu tveimur tekjufimmtungum þegar flutt er inn í húsnæðið.  Þannig verði tekjulágum fjölskyldum, sem hingað til hafa ekki átt kost á íbúðum í félagslegu kerfi sveitarfélaganna, veittur aðgangur að ódýru og öruggu leiguhúsnæði.

BB_2

Ríkisstjórnin hefur einnig skuldbundið sig til að styðja við almenna leigumarkaðinn með hækkun húsnæðisbóta á árunum 2016 og 2017.  Grunnfjárhæð og frítekjumörk verða hækkuð með hliðsjón af þeim tillögum sem komnar eru fram.  Húsnæðisbætur og frítekjumörk munu taka mið af fjölda heimilismanna.  Skattlagning tekna af leigu íbúða í eigu einstaklinga verður einnig breytt til að lækka leiguverð og auka framboð leiguíbúða á almenna leigumarkaðnum.

BB_3

Gert er ráð fyrir að stofnframlög verði skilyrt þannig að þeir lögaðilar einir geti sótt um stofnframlög sem hyggja á rekstur með félagsleg markmið að leiðarljósi.  Þeir lögaðilar sem munu geta sótt um stofnframlög verða ekki rekin í hagnaðarskyni, og geta verið sjálfseignastofnanir, húsnæðissamvinnufélög eða hlutafélög.

Ofangreindar lausnir tryggja meira öryggi í húsnæðismálum og eru unnar í góðu og miklu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og fleiri sveitarfélög þar sem byggt er á tillögu verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála og samvinnuhóps um húsnæðismál.

Nánari upplýsingar:

Yfirlýsing stjórnvalda um húsnæðismál frá 28. maí sl. í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði

Tillögur verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála

Vefsvæði verkefnisstjórnar og samvinnuhóps um húsnæðismál

Tillögur teymis um virkan leigumarkað sem hluti af samvinnuhópi um húsnæðismál

Eygló Harðardóttir

Greinin birtist á blog.pressan.is/eyglohardar 24. ágúst 2015.