Categories
Greinar

Látum hendur standa fram úr ermum

Deila grein

26/08/2015

Látum hendur standa fram úr ermum

Elsa-Lara-mynd01-vefurHaustið nálgast óðfluga og rútínan sem margir bíða eftir, er rétt handan við hornið. Þessa dagana eru skólarnir í startholunum og margir hafa snúið til baka til vinnu eftir sumarfrí. Þar á meðal  þingmenn sem undirbúa nú komandi þingvetur, með því að útbúa ýmis þingmál sem stefnt er að því að klára á næsta þingi. Jafnframt eru margir þingmenn á ferðalagi um landið, láta sjá sig og heyra hvað brennur á landsmönnum. Á þessum ferðalögum um landið má heyra að það eru mörg mikilvæg mál sem landsmenn vilja sjá fyrir endan á. Þar má m.a. nefna húsnæðisfrumvörp félags – og húsnæðismálaráðherra, verðtryggingarfrumvörpin og mörg önnur mikilvæg þingmál sem bíða afgreiðslu. Þessi þingmál, sem og mörg önnur er stefnt að því að klára á næsta þingi, sem hefst þann 8. september.

Höfum val og aukum öryggi
Óhætt er að segja að mikil og góð vinna hefur farið fram í ráðuneyti félags – og húsnæðismálaráðherra í allt sumar. Þar hafa allir lagst á eitt við að undirbúa frumvörp sem hafa það að markmiði að efla hér húsnæðismarkaðinn. Frumvörp sem taka á húsnæðissamvinnufélögum, húsaleigulögum, húsnæðisbótum og stofnstyrkjum til leigufélaga. Þessi frumvörp verða lögð fram á fyrstu vikum þingsins og kláruð á haustþingi. Afar mikilvægt er að þessi frumvörp fái skjóta afgreiðslu í meðferð þingsins og að samstaða ríki um þau. Þessi frumvörp tengjast samkomulagi um kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Auk þessa er mikil vinna í gangi sem snýr að stuðningi við þá sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð. Unnið er að útfærslu varðandi skattaívilnanir fyrir þá sem leigja íbúðir til langtímaleigu og auk þessa er unnið að endurbótum á lánaumhverfi íbúðarlána, þar sem hagur neytandans er hafður í forgrunni. Öll þessi vinna hefur það að markmiði að auka húsnæðisöryggi landsmanna og vera með raunhæft val á húsnæðismarkaði. Það er val um hvort fólk vilji kaupa húsnæði, leigja eða fara millileiðina og búa í búsetuíbúðum.

Burt með verðtryggingu
Mikilvægt er að afnema verðtryggingu af húsnæðislánum til að minnka vægi verðtryggingar á lánamarkaði. Það er nauðsynlegt til að stöðva þá eignatilfærslu sem verður frá íslenskum heimilum til fjármálastofnana, þegar verðbólgan hækkar. Það verður að ganga til þessara verka, um er að ræða mikið hagsmuna – og réttlætismál, fyrir heimili landsins.

Það er nú svo að skýrsla sérfræðihóps um afnáms verðtryggingar af neytendalánum var birt í lok janúar 2014. Meirihluti sérfræðihópsins lagði til að frá og með 1. janúar 2015 yrðu stigin veigamikil skref í átt að fullu afnámi verðtryggingar nýrra neytendalána, en vinna við áætlun um fullt afnám yrði hafin eigi síðar en á árinu 2016. Mikil vinna hefur farið fram í ráðuneytunum þar sem tillögur minni- og meirihluta séfræðingahópsins eru hafðar til grundvallar.  Unnið er að frumvörpum sem hafa það að markmiði að óheimilt verði að bjóða verðtryggð lán með jöfnum greiðslum til lengri tíma en 25 ára, að lágmarkstími nýrra verðtryggðra neytendalána verði lengdur í allt að 10 ár og að takmarkanir verði gerðar á veðsetningu vegna verðtryggðra íbúðalána. Fjármálaráðherra hefur umsjón með þessum hluta verkefnisins. Vegna umfangs aðgerðarinnar þá hefur verkefnið tekið lengri tíma en áætlað var. Það þýðir aðeins eitt að núna er enn mikilvægara að láta hendur standa fram úr ermum og klára þetta stóra verkefni.

Elsa  Lára Arnardóttir

Greinin birtist í DV 21. ágúst 2015.