Flest eigum við uppáhaldsstaði í íslenskri náttúru. Fjölbreytileiki náttúrunnar er margslunginn og landslagið síbreytilegt hvort sem er uppi til fjalla, niður til sjávar eða í fallegum dal.
Undirstaða alls gróðurs og lífs er að finna í því sem í daglegu tali nefnist mold og Steinn Steinarr nefndi, „Drottningu lífsins, móður og lífgjafa allra lifandi“. Jarðvegur á Íslandi er um margt einstakur og breytilegur. Það má til sanns vegar færa að moldin líkt og maðurinn mótast af umhverfi og atlæti.
Uppgræðsla hér á landi er saga um ótrúlega elju og eldmóð þeirra sem hafa starfað að vernd jarðvegs og gróðurs í meira en heila öld. Að þessu hafa vísindamenn og bændur unnið af mikilli natni og nákvæmni, leitað leiða til að hefta sandfok, lagað og grætt til að nýta landið á sjálfbæran og vistvænan hátt og skapað verðmæti í þágu samfélagsins alls. Það þekkir enginn betur landið en sá sem yrkir jörðina samkvæmt bestu mögulegu þekkingu og varðveitir auðlindina fyrir komandi kynslóðir. Sá sem hlustar á hjartslátt jarðarinnar, þekkir sitt nánasta umhverfi og vill virkja þann kraft sem býr í náttúrunni, er hinn sanni náttúruverndarsinni.
Sjálfbær nýting lands felur í sér að ekki sé gengið á auðlind heldur að gróður og náttúra viðhaldist og eflist. Ánægjulegt er að erlendir gestir sýna óspilltri íslenskri náttúru mikinn áhuga en um leið hefur umferð ferðamanna talsverð áhrif. Sé þess gætt að virða og verja má á sama tíma njóta og nýta. Stefna í ferðaþjónustu þarf því að haldast í hendur við náttúruvernd til að nýting lands til ferðamennsku sé sjálfbær. Við markaðssetningu áfangastaða er brýnt að hafa í huga viðkvæma náttúru og stuðla að samfélagslegri ábyrgð til að upplifun verði eins og lagt var af stað með.
Ánægður ferðamaður deilir gjarnan sögum og myndum þegar heim er komið. Íslendingar eiga þó ekki síður efni til að deila um íslenska náttúru. Í tilefni dagsins hvet ég sem flesta til að deila með hverjum öðrum hugmyndum sínum, ljóðum og myndum af náttúrunni og nota myllumerkin #stadurinnminn og #DÍN. Til hamingju með daginn.
Sigrún Magnúsdóttir
Greinin birtist í Fréttablaðinu 16. september 2015.