Categories
Greinar

Húsnæðismál í brennidepli

Deila grein

15/09/2015

Húsnæðismál í brennidepli

haraldur_SRGBTil að unnt væri að klára kjarasamninga sl. vor gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu m.a. um aðgerðir í húsnæðismálum. Þær aðgerðir beinast að því að í fyrsta lagi að fjölga hagkvæmum og ódýrum íbúðum, í öðru lagi að auka framboð húsnæðis og lækka byggingarkostnað, í þriðja lagi að styðja við almennan leigumarkað og í fjórða lagið að styðja við kaup á fyrstu íbúð. Í yfirlýsingunni segir að miðað sé við að þau frumvörp sem nauðsynleg eru til að markmiðin nái fram að ganga verði afgreidd fyrir áramót á Alþingi. Frumvörpin, sem yfirlýsingin byggist á, verða væntanleg fjögur. Því blasir við að húsnæðismál verða í brennidepli Alþingis á næstu mánuðum og er það tilhlökkunarefni.

Létt á byggingarreglugerð
Aðgerðarkaflinn um aukið framboð húsnæðis og lækkun byggingarkostnaðar segir svo »Af hálfu hins opinbera verður á allan hátt greitt fyrir að hægt verði að taka upp sem hagkvæmastar aðferðir við íbúðabyggingar í því skyni að lækka byggingarkostnað. Endurskoðun á byggingareglugerð er þar á meðal og skipulagslög.Við endurskoðun byggingareglugerðar verði tekinn inn nýr flokkur mannvirkja sem undanþeginn verði ákvæðum reglugerðar um altæka hönnun. Þar verði einkum horft til smærri og ódýrari íbúða.« Þessar áherslur eru í takt við þingsályktunartillögu sem ég lagði fram síðasta vor ásamt Elsu Láru Arnardóttur, alþingismanni. Markmið þingsályktunarinnar var að lækka byggingarkostnað með því að endurskoða lög og létta á byggingareglugerð sem nú er um 170 blaðsíður að lengd. Umhverfisráðherra skipaði starfshóp þann 1. september í þessum tilgangi, og fagna ég mjög þessum áherslum.

Stuðningur við fyrstu kaup
Í yfirlýsingunni er fjallað um sparnaðarleiðir og sagt »Hvatt verður til sparnaðar með því að þeir sem sparað hafa tilgreint hámarkshlutfall af tekjum í tiltekinn tíma geti tekið sparnaðinn út skattfrjálst, t.d. þannig að ungu fólki verði heimilt að nýta séreignasparnað sem eiginfjárframlag við kaup á fyrstu íbúð. Mikilvægt er að upphæð vaxtabóta og skerðingarákvæði aðstoði einkum fjölskyldur undir meðaltekjum.« Á þennan hátt verður komið til móts við þá sem kaupa sína fyrstu íbúð, en þeir eru oft ungt barnafólk og einmitt sá hópur sem að flestra mati er mikilvægt að hlúa að.

Haraldur Einarsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. september 2015.