Categories
Greinar

Hvað á að gera í húsnæðismálum?

Deila grein

29/09/2015

Hvað á að gera í húsnæðismálum?

ásmundurPáll»Leiðarljós ríkisstjórnarinnar er bættur hagur heimilanna.« Þessi orð má finna í fyrstu málsgrein stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar. Heimilin eru undirstaða og drifkraftur þjóðfélagsins og stjórnvöldum hverju sinni ber að standa vörð um þau.

Í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í maí síðastliðnum samþykkti ríkisstjórnin að ráðast í veigamiklar aðgerðir í húsnæðismálum. Markmiðið með þeim er að auka framboð hagkvæms og ódýrs húsnæðis, minnka greiðslubyrði húsnæðiskostnaðar, skýra rétt leigjenda og leigusala, auðvelda kaup á fasteign og veita fjölskyldum raunverulegt val um fjölbreyttari húsnæðiskost, svo eitthvað sé nefnt.

Stærsta aðgerðin felst í því að leggja grunn að nýju leiguíbúðakerfi þar sem lögð verður áhersla á að fjölga hagkvæmum og ódýrum íbúðum og um leið tryggja tekjulágum fjölskyldum leiguhúsnæði til lengri tíma.

Frumvarp þess efnis verður lagt fram nú strax á haustþingi, ásamt öðrum frumvörpum um breytingar á húsnæðisbótum, húsaleigulögum og lögum um húsnæðissamvinnufélög.

Lækkum byggingarkostnað 

Auk frumvarpa þessa hausts erum við að líta til þess að endurskoða byggingarreglugerð og skipulagslög svo að af hálfu hins opinbera verði á allan hátt greitt fyrir að hægt verði að taka upp sem hagkvæmastar aðferðir við íbúðabyggingar. Á sama hátt verður gjaldtaka sveitarfélaga vegna lóða og gatnagerðargjalda skoðuð. Þannig er hægt að minnka byggingarkostnað og auka þar með framboð á ódýru húsnæði.

Auðveldum kaup 

En aðgerðirnar snúa ekki einungis að leigumarkaðnum og byggingarreglugerðum. Við viljum einnig auðvelda ungu fólki kaup á eigin heimili. Hvatt verður til sparnaðar með skattfrjálsum sparnaði – þeir sem sparað hafa tilgreint hámarkshlutfall af tekjum í tiltekinn tíma geti tekið sparnaðinn út skattfrjálst – þannig að ungu fólki verði heimilt að nýta séreignarsparnað sinn við kaup á fyrstu íbúð.

Í dag er alltof algengt að fólk komist ekki í gegnum greiðslumat þrátt fyrir að greiða leigu sem er hærri en afborganir af húsnæðisláni væru. Þar er pottur brotinn og því vijum við að lánveitendum verði einnig veitt svigrúm til að horfa til fleiri þátta en greiðslumats við ákvörðun lántöku.

Við fögnum því að framundan séu breytingar. Aðgerðirnar, stórar sem smáar, munu bæta húsnæðismarkaðinn og það sem skiptir mestu máli – bæta hag heimilanna.

Ásmundur Einar Daðason og Páll Jóhann Pálsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. september 2015.