„Hæstv. forseti. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks segir, með leyfi forseta:
„Sérfræðinefnd um afnám verðtryggingar af neytendalánum og endurskipulagningu húsnæðislánamarkaðarins verður skipuð á fyrstu dögum nýrrar ríkisstjórnar og mun skila af sér fyrir næstu áramót.“
Sérfræðingahópur um afnám verðtryggingar af neytendalánum var síðan skipaður í ágúst 2013 og hann skilaði niðurstöðum í janúar 2014. Niðurstöðurnar birtust í meirihlutaáliti og séráliti. Í meirihlutaáliti segir m.a., með leyfi forseta:
„Forsendur fyrir því að unnt sé að afnema verðtryggingu að fullu eru einkum að takist hafi að leggja grunn að nýju húsnæðiskerfi, skýra stöðu Íbúðalánasjóðs og endurbæta lífeyrissjóðakerfið.“
Að þessu er nú þegar unnið á vegum stjórnvalda og gengur sú vinna greiðlega. Á næstu dögum sjáum við t.d. frumvörp er varða húsnæðismarkaðinn koma fram.
Eins og fram hefur komið í ræðum hv. þingmanna, bæði Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins, þá eru verðtryggingarmálin á borði hæstv. fjármálaráðherra. Í viðtali á dögunum sagði hæstv. fjármálaráðherra að verið væri að skoða tvær leiðir til að draga úr vægi verðtryggingar, þ.e. að banna svokölluð Íslandslán og lengja lágmarkstíma verðtryggðra lána. Þetta eru ágæt fyrstu skref, en þau þarf að stíga hratt og vel. Í framhaldi af því þarf að afnema verðtrygginguna.
Þess vegna er afar ánægjulegt að sjá nýja samþykkt efnahags- og viðskiptanefndar frá landsfundi sjálfstæðismanna sem fram fór fyrir stuttu síðan, en þar segir, með leyfi forseta:
„Landsfundur leggur til að ríkisstjórnin ráði færustu erlendu sérfræðinga til að leggja mat á hvernig hægt er að skipta út verðtryggðu lánaumhverfi og taka upp lánakjör sem þekkjast í nágrannalöndum okkar. Með þessu er ekki tekin afstaða til þess hvort það sé rétt heldur eingöngu hvernig það væri framkvæmt. “
Ég segi: Brettum nú upp ermar og látum verkin tala. Við verðum að taka úr sambandi það vaxtaform sem heimilin búa við þegar þau fjárfesta í húsnæði, þ.e. verðtryggingunni.
Virðulegur forseti. Skuldaleið heimilanna á ekki að fjármagna uppsveifluna. Það má ekki gerast, ekki í þetta skiptið.“
Elsa Lára Arnardóttir — í störfum þingsins, 3. nóvember 2015.
Categories
„Brettum nú upp ermar og látum verkin tala“
04/11/2015
„Brettum nú upp ermar og látum verkin tala“