Categories
Fréttir

Vaxtaokur bankanna

Deila grein

04/11/2015

Vaxtaokur bankanna

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Eitt mesta böl sem við Íslendingar búum við þessi missirin er vaxtaokur bankanna. Það má segja að íslenska þjóðin sé eins og galeiðuþrælar sem rær sem mest hún má undir taktföstum slögum Seðlabanka Íslands sem setur reglur og leggur drög að vaxtaokrinu með því að hafa stýrivexti hærri en gerist nokkurs staðar annars staðar. Þetta kemur víða fram, m.a. í því að vextir til húsnæðiskaupa, þ.e. óverðtryggðir, eru um 7–8%. Í löndunum í kringum okkur er vaxtastig í kringum 1,5–2,5% algengt.
Það er ekki nóg með að þessi ofurvaxtastefna Seðlabankans valdi húsnæðiskaupendum erfiðleikum heldur stuðlar hún að hærra vöruverði og lakari viðskiptakjörum smærri fyrirtækja, svo eitt sé nefnt. Það er vert að hugsa til þess að í Bretlandi, þar sem verðbólgumarkmið seðlabanka þess lands er 2%, hafa stýrivextir verið 0,5% í nokkuð langan tíma. Á Íslandi er verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands 2,5% og verðbólga hefur blessunarlega verið undir þeim markmiðum nokkuð lengi og við höfum fulla burði til þess að halda því áfram m.a. vegna styrkrar krónu — ef menn mundu láta svo lítið að skila því út í verðlagið þá væri alveg hægt að gera það. Ég velti fyrir mér, því stundum þarf maður að spyrja eins og barn: Hvað mundi gerast á Íslandi ef vaxtastig almennt mundi lækka um svona tvö til þrjú prósentustig þannig að stýrivextir á Íslandi væru í kringum 3% og vextir til húsnæðiskaupa kannski á bilinu 4–5%? Ég velti því fyrir mér hvað mundi gerast.“
Þorsteinn Sæmundsson  — í störfum þingsins, 3. nóvember 2015.