Það eru mikil tímamót að tekist hefur að leiða til lykta vinnu við endurskoðun náttúruverndarlaga og munu nýju lögin taka gildi á morgun, 15. nóvember. Það er jafnframt afar ánægjulegt að þverpólitísk samstaða náðist milli allra stjórnmálaflokka á Alþingi við að ljúka þessu máli í sátt eftir áralangar umræður og deilur.
Þau lög sem nú hafa verið samþykkt eru afrakstur mikillar vinnu sem staðið hefur lengi við að endurskoða núgildandi lög frá 1999. Hef ég lagt mikla áherslu á framgang þessa máls frá því ég tók við starfi umhverfis- og auðlindaráðherra og átti ráðuneytið ítarlegt samráð við fjölmarga hagsmunaaðila, stofnanir ráðuneytisins og umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis. Vil ég þakka öllum þeim fjölmörgu aðilum sem að þessu hafa komið og lagt hafa hönd á plóg við endurskoðun laganna.
Vinnan við endurskoðun laganna hafði það skýra markmið að efla náttúruvernd í landinu og framkvæmd hennar, skýra betur leikreglur um hverskonar framkvæmdir og nýtingu sem áhrif hafa á náttúruna og ná um þær víðtækri samstöðu. Með samþykkt frumvarpsins og gildistöku nýrra náttúruverndarlaga er því tekið veigamikið skref til að styrkja vernd og bæta umgengni um náttúru landsins og útfæra þær reglur sem lúta að nýtingu hennar til framtíðar.
Í framhaldinu verður frekari vinna tengd nýju lögunum sett af stað í umhverfis-og auðlindaráðuneytinu í samstarfi við önnur hlutaðeigandi ráðuneyti vegna bráðarbirgðarákvæðis sem varðar einn mikilvægasta atvinnuveg þjóðarinnar, ferðaþjónustuna. Þar segir til um að vinna skuli frekar að ákvæðum er taki á stýringu ferðaþjónustunnar með hliðsjón af reglum almannaréttar á grundvelli náttúruverndar og nauðsynlegrar auðlindastýringar sem nýting ferðaþjónustunnar á náttúrunni hefur óhjákvæmilega í för með sér.
Við búum vel að því að eiga sérstæða og mikilfenglega náttúru, sem er samofin sögu okkar og menningu. Hún er jafnframt gjöful og er vaxandi ásókn í að njóta og nýta hverskonar gæði hennar. Með sanni má segja að íslensk náttúra og gæði hennar séu undirstaða velferðar í landinu, ekki síst núna með sívaxandi ferðamannastraumi. Með nýjum náttúruverndarlögum verða fjöldamargar umbætur til að tryggja verndun og sjálfbæra nýtingu náttúrugæða til framtíðar.
Sigrún Magnúsdóttir
Greinin birtist í Fréttablaðinu 14. nóvember 2015.