„Hæstv. forseti. Árnaðaróskir í tilefni dagsins. Fyrst af öllu er rétt að geta þess að stjórnarskrárnefnd er að störfum og hennar störf ganga nokkuð vel og engin ástæða til að halda að þau verði ekki leidd til lykta á farsælan hátt. Ég er aftur á móti staddur á sama stað og hv. þm. Elín Hirst vegna þeirrar skýrslu sem er nýkomin út frá Samkeppniseftirlitinu, Markaðsrannsókn á eldsneytismarkaðnum. Þetta er frummatsskýrsla. Það þýðir það að aðilar hafa rétt til 16. febrúar til að koma að andmælum en það verður samt að segja það að miðað við þær niðurstöður sem Samkeppniseftirlitið dregur hér fram þá er vandséð að ályktunin sé í aðalatriðum röng. Það er út af fyrir sig áhyggjuefni.
Þessi rannsókn er búin að standa yfir í tvö ár, hún er mjög vönduð. Það er út af fyrir sig áhyggjuefni að það virðist svo sem olíufélögin á Íslandi hafi ekki lært neitt af þeim atburðum sem hér urðu á árunum 1993–2001 og lauk með ákveðnum hætti sem ekki þarf að fara yfir. Og það er náttúrlega líka með öllu óþolandi sú niðurstaða sem hér kemur fram að neytendur hafi greitt 4–4,5 milljörðum of mikið fyrir eldsneyti á árinu 2014.
Það segir einnig, með leyfi forseta, á bls. 9 í þessari skýrslu: „Álagning á bifreiðaeldsneyti var óeðlilega há sem nemur allt að 18 kr. með virðisaukaskatti á hvern lítra bensíns og 20 kr. með virðisaukaskatti á hvern lítra dísilolíu á árinu 2012.“ Nú um stundir er verið að bjóða okkur 13 kr. afslátt tvisvar í mánuði og menn ganga mjög taktfast í því, öll olíufélögin, allir dreifingaraðilar, og núna síðast er verið að bjóða okkur eina viku með 13 kr. í afslátt. Þetta er náttúrlega algerlega út úr kú vegna þess að auðvitað eiga olíufélögin, ef svigrúm er til svona afsláttar og gylliboða, hreinlega að lækka eldsneytisverð í landinu. Hvert króna eldsneytis kostar heimilin í landinu 360 milljónir á ári hverju.“
Þorsteinn Sæmundsson — störf þingsins 2. desember 2015.
Categories
Neytendur hafa greitt 4-4,5 milljörðum of mikið fyrir eldsneyti á árinu 2014
04/12/2015
Neytendur hafa greitt 4-4,5 milljörðum of mikið fyrir eldsneyti á árinu 2014