Categories
Fréttir

Samvinna stjórnvalda, einstaklinga og atvinnulífs – ýtt verði undir frumkvæði og nýsköpun

Deila grein

04/12/2015

Samvinna stjórnvalda, einstaklinga og atvinnulífs – ýtt verði undir frumkvæði og nýsköpun

líneik„Virðulegi forseti. Eins og kunnugt er kynnti hv. ríkisstjórn sóknaráætlun í loftslagsmálum til þriggja ára fyrir viku síðan og vil ég nú fagna þeirri áætlun sérstaklega. Áætlunin byggir á 16 verkefnum. Verkefnin og áherslurnar undir hatti sóknaráætlunarinnar eru fjölbreyttar og eiga það sameiginlegt að draga úr loftslagsbreytingum. Bæði er um að ræða verkefni sem auka bindingu kolefnis og draga úr losun kolefnis en líka stuðningur við alþjóðleg loftslagsverkefni. Í mínum huga eru allar þessar leiðir mikilvægar og í því samhengi eru engar aðgerðir of smáar til að skipta máli. Sennilega er viðhorfsbreyting okkar allra þó það sem mestu máli skiptir til lengri tíma litið.
Í öllum verkefnunum er áhersla lögð á samvinnu stjórnvalda, einstaklinga og atvinnulífs. Mjög mikilvægt er að ýtt verði undir frumkvæði og nýsköpun varðandi loftslagsvænar lausnir í samgöngum og atvinnulífi. Til þess að það geti orðið er mikilvægt að við séum meðvituð um að til þess að nýta tækifærin getum við þurft að forgangsraða uppbyggingu innviða í samræmi við það. Varðandi bindingu kolefnis eigum við líka fjölbreytt tækifæri. Stefnt er að því að sett verði aukið fé til landgræðslu og skógræktar og hafist handa við endurheimt votlendis. Þetta eru verkefni sem stjórnvöld og einkaaðilar geta varið fjármunum til en framkvæmdin þarf að fara fram í samvinnu við notendur lands og þarf að byggja á skipulagsáætlunum og heildarsýn á landnýtingu, svo sem í gegnum landsáætlun í skógrækt og landgræðslu. Á þessu sviði er líka mikilvægt að byggja á íslenskum rannsóknum og íslensku mati á árangri.
Einnig er ætlunin að gera átak til að draga úr matarsóun sem oft á tíðum veldur óþarfa kolefnislosun. Í því sambandi er mikilvægt að leita leiða til að auka meðvitund neytenda um þau kolefnisspor sem mismunandi matvæli skilja eftir sig.“
Líneik Anna Sævarsdóttir — störf þingsins 2. desember 2015.