Categories
Greinar

Sóknaráætlun í loftslagsmálum leiðir til margvíslegs ávinnings

Deila grein

04/12/2015

Sóknaráætlun í loftslagsmálum leiðir til margvíslegs ávinnings

líneikFramfarir í umhverfismálum skila jafnramt framförum fyrir samfélagið og þess vegna er ný kynnt sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum fagnaðarefni. Metnaðarfull sóknaráætlun í loftslagsmálum getur, samhliða því að draga úr  loftslagsbreytingum, dregið úr mengun í nærumhverfi, byggt upp gróðurauðlind, stuðlað að líffræðilegri fjölbreytni, sparað gjaldeyri, hvatt til betri orkunýtingar, aukið hagkvæmni í rekstri og ýtt undir nýsköpun svo eitthvað sé nefnt.

Áætlun ríkisstjórnarinnar  byggir á 16 verkefnum.  Verkefnin eru fjölbreytt og eiga það sameiginlegt að geta átt þátt í að draga úr loftslagsbreytingum. Bæði er um að ræða verkefni sem auka bindingu kolefnis og draga úr losun kolefnis, en líka stuðningur við alþjóðleg loftslagsverkefni. Ég álít allar þessar leiðir mikilvægar, því í þessu samhengi eru engar aðgerðir of smáar til að skipta máli.

Í öllum verkefnunum sóknaráætlunarinnar er áhersla lögð á samvinnu. Lykilatriði er að ýtt verði undir frumkvæði og nýsköpun einstaklinga og fyrirtækja, þegar leitað verður lausna fyrir samgöngur og atvinnulíf. Takist þetta getur það leitt til aukinnar hagkvæmni með betri orkunýtingu og aukinni nýtingu innlendrar orku. Jafnframt er mikilvægt að við séum meðvituð um að til þess að nýta þessi tækifæri getum við þurft að forgangsraða uppbyggingu innviða í samræmi við það, s.s. að efla raforkukerfið til að skila rafmagni til fiskiðnaðarins og hafna landsins um land allt.

Varðandi bindingu kolefnis eigum við líka fjölbreytt tækifæri. Stefnt er að því að sett verði aukið fé til landgræðslu, skógræktar og endurheimtar votlendis. Þetta eru verkefni sem stjórnvöld og einkaaðilar geta varið fjármunum til, en framkvæmdin þarf að vera hjá þeim sem nýta landið. Áríðandi er að vinna að þessum verkefnum byggi á skipulagsáætlunum og heildarsýn á landnýtingu, s.s. í gegnum landsáætlanir í skógrækt og landgræðslu. Hér á landi hafa verið unnin tilraunaverkefni við endurheimt votlendis, sem lofa góðu, en mikilvægt er að fram fari greining á því hver raunveruleg stærð framræst votlendis er og hvar endurheimt getur átt við. Þessi vinna gæti leitt til áætlunar um endurheimt votlendis sem yrði hluti af öðrum áætlunum um landnýtingu, á næstu árum gætum við kannski eignast heildaráætlun um endurheimt vistkerfa. Á þessu sviði er líka mikilvægt að byggja á íslenskum rannsóknum og mati á árangri, þó rannsóknir sem fram hafa farið hér bendi til þess að yfirfæra megi niðurstöður erlendis frá hingað. Það er hins vegar mikil einföldun eða hreinlega afbökun staðreynda að halda því fram að við getum uppfyllt okkar loftslagsmarkmið eingöngu með endurheimt votlendis. Framræst mýrlendi losar vissulega mikið af kolefni, en það á sér líka stað losun gróðurhúsalofttegunda frá óframræstu mýrlendi og öðru landi.  Nýtingu hvers svæðis þarf einfaldlega að vega og meta miðað við bestu þekkingu.

Að lokum langar mig að nefna átak til að draga úr matarsóun sem er eitt verkefnanna en matarsóun veldur svo sannarlega óþarfa kolefnislosun.  Samhliða er mikilvægt að ræða kolefnisspor matvæla og horfa þá til þátta eins og landnýtingar, flutninga og orkunýtingar við framleiðslu matvælanna. Hvert og eitt okkar getur lagt sitt að mörkum til að draga úr loftslagsbreytingum ef við erum meðvituð, það eru bæði stór og smá skref sem skipta máli. Sennilega er viðhorfsbreyting okkar allra það sem getur skilað mestu til lengri tíma litið. Þegar allt kemur til alls er það einfaldur lífstíll og nýtni sem bæði skilja eftir sig minnsta kolefnissporið og stuðla að hagkvæmni í heimilisrekstri.

Kolefnis bókhald er nokkuð flókið fyrirbæri en í sinni einföldustu mynd gengur það út á að við sem þjóð drögum úr magni kolefnis sem við sendum frá okkur út í andrúmsloftið. Ástæðan fyrir því að stóriðja er ekki sérstaklega tekin fyrir í áætluninni er að haldið er sérstakt kolefnisbókhald fyrir stóriðju á heimsvísu.

Verkefni í sóknaráætlun í loftslagsmálum munu setja kraft í vinnuna, virkja fleiri og leggja línurnar varðandi markvisst starf til lengri tíma við að minnka losun kolefnis og auka kolefnisbindingu.

Líneik Anna Sævarsdóttir

Greinin birtist í DV 4. desember 2015.