Categories
Fréttir Greinar

Fögnum sjálfstæði Íslands

Deila grein

16/06/2025

Fögnum sjálfstæði Íslands

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. utanríkisráðherra ritaði grein í Morgunblaðið 16. júní 2025.

„Þjóðhátíðardagur okkar Íslendinga er á morgun, 17. júní. Á þessum degi minnumst við þess þegar Ísland varð sjálfstætt lýðveldi árið 1944 – eftir nær 700 ára erlend yfirráð. Setjum okkur í spor forfeðra og formæðra okkar á þessum sögulega degi fyrir rúmum 80 árum. Þið getið ímyndað ykkur andrúmsloftið í þjóðfélaginu: fögnuður og bjartsýni ríktu, því loks var sjálfstæði þjóðarinnar komið í höfn eftir langvarandi og erfiða baráttu. Öllu var tjaldað til á Þingvöllum, 1.500 tjaldstæðum úthlutað og 6.000 manns fluttir með leigu bílum og fullt af fánum pantað! Kvikmyndasafn Íslands á mikilvægt efni frá þessum merka degi.

Það er ekki tilviljun að 17. júní, afmælisdagur Jóns Sigurðssonar, leiðtoga þjóðfrelsisbaráttunnar, var valinn sem þjóðhátíðardagur. Jón var tákn um þrautseigju, rökhugsun og trú á mátt lýðræðis og sjálfstæðis. Þjóðin hafði gengið í gegnum margvíslegar þrautir á umliðnum öldum: Litlu-ísöld, Svarta dauða, erfið siðaskipti, einokunarverslun, einveldi Dana, móðuharðindi og fjöldaflutninga fólks vestur um haf. Samt varð baráttan fyrir sjálfstæði að veruleika og þegar þjóðin kaus sögðu 97% já við sambandsslitunum við Danmörk og stofnun lýðveldis. Kosningaþátttakan var 98%, sem sýnir hve mikið Íslendingar þráðu að ráða sér sjálfir.

Ísland hefur síðan þá tekið stórstígum framförum. Árið 2024 var Ísland í efsta sæti á lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna. Það er erfitt að trúa öðru en að þessi þróun hafi farið fram úr björtustu vonum þeirra sem börðust fyrir sjálfstæðinu. Árangurinn sýnir hverju smá þjóð með skýra sýn og sterka sjálfsmynd getur áorkað. Lykilatriði í áframhaldandi sjálfstæði þjóðarinnar er full yfirráð yfir auðlindum Íslands til að tryggja velsæld á Íslandi. Frá lýðveldisstofnun hefur verið mikil áhersla á þennan þátt og að gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins standi undir innflutningi.

Þrátt fyrir árangurinn eru blikur á lofti. Núverandi ríkisstjórn undir forystu Kristrúnar Frostadóttur hefur sett Evrópusambandsaðild aftur á dagskrá. Verja á tugi milljóna króna í verkefnið. Slík ákvörðun í þeirri alþjóðlegri óvissu sem ríkir um þessar mundir vekur upp áleitnar spurningar.

Ísland hefur á lýðveldistímanum tryggt sér trausta stöðu í alþjóðakerfinu með EES-samningnum, stofnaðild að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningi við Bandaríkin. Staða Íslands er sterk í alþjóðlegu samhengi ásamt því að full yfirráð yfir auðlindum okkar eru tryggð. Í þeirri óvissu sem ríkir er brýnt að stjórnvöld sýni stjórnkænsku, þrautseigju og hyggindi. Sjálfstæði þjóðarinnar skiptir öllu máli til að tryggja góð lífskjör; höfnum Evrópusambandsvegferð ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur. Fögnum sjálfstæði þjóðarinnar á þjóðhátíðardeginum 17. júní!“

Categories
Fréttir

Þjóðarsjóður

Deila grein

12/06/2025

Þjóðarsjóður

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, kallar eftir þjóðarsjóði: „Kominn tími til að ræða þetta af alvöru“

Í ræðu á Alþingi vakti Halla Hrund Logadóttir máls á nauðsyn þess að stofna þjóðarsjóð sem safnar arði af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar, einkum þeim sem finnast innan þjóðlendna.

Arður af ólíkum auðlindum

„Nýlega lagði forsætisráðherra fram skýrslu um ráðstöfun lands og landsréttinda innan þjóðlendna. Sú ágæta skýrsla vekur upp mikilvægar spurningar um hvernig við nýtum auðlindir okkar. Þjóðlendur þekja um 40% landsins en þetta eru svæði sem ekki eru háð einkaeignarrétti og því eru þetta sameiginlegar auðlindir okkar Íslendinga. Gegnsæi um samninga og gjaldtöku á þjóðlendum skiptir því miklu máli eins og í auðlindamálum almennt. Ég vil því í þessu samhengi vekja máls á stofnun þjóðarsjóðs sem í rynni arður af ólíkum auðlindum okkar Íslendinga, m.a. innan þjóðlendna. Það er kominn tími til að ræða stofnun slíks sjóðs af alvöru, ekki síst vegna þess að við erum að sjá aukna ásókn í nýtingu frá innlendum og erlendum aðilum. Hér er ég að tala um orkuvinnsluna, ég er að tala um jarðefnin, vatnið o.s.frv. Sem fyrirmynd getum við horft til olíusjóðs Norðmanna sem hefur tekist vel að ávaxta pundið fyrir framtíðarkynslóðir.

Þurfum að stofna þjóðarsjóð

Í nýlegri skýrslu fjármálaráðherra um langtímahorfur í efnahagsmálum er lítil umfjöllun um stórar fjármálaáskoranir, svo sem öldrun þjóðarinnar, fjárfestingu í innviðum fyrir landsbyggðina og líka óvissu í alþjóðamálum. Það eru einmitt þessar áskoranir sem munu hvíla þungt á okkur til lengri tíma og krefjast þess að við hugsum hlutina dálítið upp á nýtt þegar kemur að efnahagsmálunum. Brátt erum við síðan að horfa hér í þinginu á síðari umræðu um fjármálaáætlun þar sem við erum að ræða fjármálin opinberu til næstu ára. Mér fannst því vera rétti tímapunkturinn nú að vekja máls á stofnun þjóðarsjóðs. Það hefur verið lagt fram frumvarp sem nær að ákveðnu leyti utan um þessa hugsun sem hefur ekki náð fram að ganga en ég óska eftir nýju samtali um stofnun þjóðarsjóðs og samvinnu við framlagningu nýs frumvarps á haustþingi.“