Categories
Greinar

Verksmiðjan gangsett

Deila grein

11/01/2019

Verksmiðjan gangsett

Meðal mikilvægustu verkfæra unga fólksins okkar, sem móta mun framtíð samfélagsins, eru samvinnuhæfni, frumkvæði, skapandi hugsun og það að geta unnið með upplýsingar og tækni á fjölbreyttan hátt. Fjórða iðnbyltingin krefur okkur með sínum öru samfélags- og tæknibreytingum um nýja nálgun á ýmis kerfi, þar með talið menntun og starfþjálfun af öllu tagi.

Í gær tók ég þátt í óvenjulegri gangsetningu nýrrar verksmiðju. Sú verksmiðja er hugmynda- og uppfinningakeppni þar sem nemendur í efstu bekkjum grunnskóla raungera og útfæra hugmyndir sínar með aðstoð leiðbeinenda, fagfólks, fyrirtækja og hvetjandi sjónvarpsefnis. Verkefni þetta er unnið í góðu samstarfi m.a. milli Samtaka iðnaðarins, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Ríkisútvarpsins og framkvæmt með stuðningi mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Markmið þessa verkefnis er að hvetja ungmenni til að veita hugmyndum sínum og hæfileikum athygli, efla nýsköpun og fjalla á margvíslegan hátt um tækifæri sem felast í iðn- og tæknimenntun. Verksmiðjan er stafræn og til húsa á slóðinni ungruv.is/verksmidjan.

Við lærum einna best gegnum athafnir og með því að framkvæma það sem við hugsum. Sköpun er veigamikill þáttur í námi á öllum skólastigum og fjölbreytni er brýn í skólakerfinu til þess að efla og þroska einstaklinga til allra starfa og ekki síður til þess að hjálpa nemendum að finna sína fjöl – eða fjalir. Manneskjan er í mótun alla ævi og því er mikilvægt að byrja snemma að virkja hæfni eins og sköpun og frumkvæði. Verksmiðjan nýja er að mínu mati kjörin til þess. Aukin áhersla á nýsköpun og frumkvöðlafræðslu eflir unga fólkið okkar og kynnir því ný tækifæri og námsleiðir. Það er ekki síst brýnt fyrir samfélag sem fjölga vill starfskröftum með iðn-, verk- og tæknimenntun. Eitt okkar forgangsmála nú er að fjölga nemum í slíkum greinum og gleðilegt er að uppi eru vísbendingar um að aðgerðir séu farnar að skila árangri, meðal annars með aukinni ásókn í slíkt nám. Ég er bjartsýn á að grunnskólanemendur muni taka Verksmiðjunni fagnandi og hún muni opna hug þeirra, og foreldranna, fyrir þeim möguleikum sem fólgnir eru í fjölbreyttu námsframboði hér á landi.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. janúar 2018.

Categories
Greinar

Svo lærir sem lifir

Deila grein

08/01/2019

Svo lærir sem lifir

„Hvað lærðir þú í dag?“ er algeng spurning á heimilum á þessum tíma árs. Börn og ungmenni eru eflaust flest vön slíkum spurningum og viðbúin því að greina frá viðfangsefnum dagsins. En þessi spurning getur alveg átt við fleiri en námsmenn. Þetta er nefnilega líka árstíminn þegar margir huga að því hvernig hægt sé að gera lífið betra. Slík betrun getur meðal annars falist í því að huga að heilsunni, hlúa að fjölskyldu og vinum eða bæta við sig þekkingu.

Vera má að eitt af nýársheitum margra sé að fara í nám eða á námskeið. Þar eru ýmsir valkostir í boði en fræðsluaðilar og skólar um allt land keppast nú við að kynna námsleiðir sínar, þjónustu og ráðgjöf. Meðvitund okkar um mikilvægi símenntunar hefur enda aukist töluvert. Við vitum að menntun er æviverk og nám getur farið fram með ýmsum hætti. Símenntun einskorðast ekki við stofnanir eða staði og núorðið er auðveldara að fá hæfni sína metna óháð því hvernig hennar var aflað.

Námstækifærin blasa víða við
Á tímum mikilla breytinga þurfum við öll að huga að þróun okkar eigin hæfni og þekkingar og leyfa forvitninni og fróðleiksþorstanum að ráða för. Námstækifærin blasa víða við og galdurinn virðist vera að velja og hafna úr hafsjó upplýsinga og að þekkja réttindi sín og áhugasvið. Því þegar vel er á málum haldið er aukin menntun í víðum skilningi tæki til jafnaðar og ábata fyrir alla.

Eftir því sem tæknibreytingar og þróun samfélagsins verður hraðari því mikilvægara er að fólk hafi aðgang að fjölbreyttum menntunartækifærum, s.s. símenntun og framhaldsfræðslu. Það er okkar hlutverk að skapa aðstæður fyrir fjölbreytilega þekkingarmiðlun en í því samhengi má nefna að á vettvangi mennta- og menningarmálaráðuneytisins er nú m.a. unnið að endurskoðun laga um fullorðinsfræðslu og að frumvarpi um lýðskóla.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 8. janúar 2019.

Categories
Greinar

Frá þingflokksformanni

Deila grein

08/01/2019

Frá þingflokksformanni

Kæru vinir og félagar!

Ég óska ykkur öllum gleðilegs árs.
Það er óhætt að segja að haustþingið hafi verið annasamt og viðburðarríkt. Því er ánægjulegt að þingið náði þeim áfanga að afgreiða fjárlög á tilskildum tíma undir styrkri stjórn Willums Þórs og halda starfsáætlun. Ný lög um opinber fjármál hjálpa vissulega til í þeim efnum en líka einbeittur vilji ríkisstjórnarflokkanna að sýna samstarfsvilja í verki og viðhalda stöðugleika. Haustþingið sem lauk 14. desember síðastliðinn var eitt það afkastamesta frá byrjun og afgreiddi 44 mál. Ég tel þetta vera jákvæð skref í þá átt að bæta vinnubrögð og ásýnd Alþingis og vænti þess að haldið verði áfram að feta þá braut. Það er líka á döfinni að ráða aðstoðarmenn fyrir þingflokka sem hefur lengi verið á dagskrá þingsins. Ég fagna því að verið er að taka skref til að renna styrkari stoðum undir þingflokkana, auka sérfræðiaðstoð og bæta þannig vinnubrögðin enn frekar á Alþingi.

Traust til Alþingis og stjórnmála er ekki sjálfgefið og þar bera alþingismenn ríka ábyrgð. Störf okkar eru í umboði kjósenda og okkur ber siðferðisleg skylda til að vinna að heilindum í þágu almennings, þótt deilt sé um leiðir og áherslur. Vantrú og efi í garð stjórnmála einskorðast ekki við Ísland. Engu að síður höfum við verk að vinna í þeim efnum sem fulltrúar kjósenda, sérstaklega nú á tímum starfrænnar tækni og samfélagsmiðla.

Þingflokkurinn hefur ekki setið auðum höndum. Við einsettum okkur að vera virk og málefnaleg í umræðunni og vinna að málum sem endurspegla megináherslur okkar. Í upphafi þings ákváðum við að leggja fram þrjú lykilmál. Það eru málin: Barnalífeyrir, Mótun eigendastefnu ríkisins með sérstöku tilliti til bújarða og Mótun opinberrar klasastefnu. Það er einkar ánægjulegt að frumvarp um barnalífeyri var samþykkt í byrjun desember. Lögin fela í sér að börn sem eiga aðeins eitt foreldri á lífi geta fengið greitt framlag til hálfs frá ríkinu fyrir sérstaka viðburði, rétt eins og börn sem eiga fráskilda foreldra. Hingað til hafa eftirlifandi foreldrar þurft að bera uppi kostnað vegna ferminga, skírna og tannréttinga en nú hefur Alþingi leiðrétt þessa mismunun. Þingflokkurinn lagði fram nokkur ný mál á haustþingi; Velferðartækni, Fræðsla um og meðferð við vefjagigt, Vistvæn opinber innkaup á matvöru, Heimavist á höfuðborgarsvæðinu, Náttúrustofur og Uppgræðsla lands og ræktun túna. Ég hvet ykkur að fara inn á heimasíðu flokksins, framsokn.is og skoða þau mál sem lögð hafa verið fram á þessu þingi og ætlunin er að vinna áfram með. Fleiri mál eru í farvatninu.

Fjárlögin fyrir 2019 endurspegla þær áherslur og þá framtíðarsýn sem birtast í stjórnarsáttmálanum. Línur voru lagðar við framlagningu fyrstu fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar og þeim hefur verið fylgt.

Stórsókn í uppbyggingu innviða er hafin þar sem samgöngu-, mennta- og heilbrigðismál eru í forgrunni.
Það rímar vel við áherslur okkar í kosningabaráttunni.
Aukin framlög til rekstar hjúkrunarheimila og framkvæmdir við nýjan Landsspítala vega þungt og eru mikilvæg.
Þá hafa barnabætur verið hækkaðar til hagsbóta fyrir tekjulágar fjölskyldur og þeim fjölgað sem eiga rétt á barnabótum. Framlög til félags-, húsnæðis- og tryggingamála verða aukin verulega og er hækkunin í heild 11,5 ma.kr. að undanskildum launa- og verðlagshækkunum. Í fjárlagafrumvarpinu er líka að finna aðgerðir sem ætlað er að koma til móts við kröfur aðila vinnumarkaðarins í aðdraganda kjarasamninga. Þannig verður persónuafsláttur hækkaður umfram neysluverðsvísitölu og barnabætur hækkaðar til tekjulægri hópa. Þá verður tryggingagjald lækkar í tveimur áföngum.

Flokkurinn okkar hefur ávallt viljað nálgast verkefnin með skynsemi og samvinnu að leiðarljósi. Við erum frjálslyndur félagshyggjuflokkur og viljum vinna að því að bæta samfélagið í hvívetna. Það endurspeglast í öllum okkar áherslum og í umræðu á opinberum vettvangi. Mikið hefur verið rætt um húsnæðisvanda unga fólksins. Það er brýnt verkefni sem ríkisstjórnin vill gera átak í. Það er ánægjulegt að svissneska leiðin sem við töluðum fyrir í aðdraganda kosninga er einn af þeim möguleikum sem skoða á í því sambandi. Það er líka einkar ánægjulegt að ríkisstjórnin hyggst taka markmiss skref á kjörtímabilinu til að afnema verðtryggingar á lánum sem er mikilvægt hagsmunamál fyrir neytendur. Dæmi um önnur góð mál sem við höfum í sameiningu barist fyrir og nýlega hafa tekið gildi eru rammasamningu um tannlækningar aldraðra og áætlað samþykki fyrir líffæragjöf.

Kæru félagar.

Við munum halda áfram að vinna að framfaramálum og sýna það í verki að við vinnum að heilindum og tökum skyldur okkar sem fulltrúar almennings alvarlega. Flokkurinn okkar er rúmlega hundrað ára gamall og hefur tekist á við margar áskoranir í gegnum tíðina. Þrátt fyrir áföll sem hafi dunið yfir hann höfum við alltaf haldið áfram og það hyggjumst við gera. Við erum þéttur hópur og það er jákvæður liðsandi á meðal okkar. Við viljum halda áfram að vinna að góðum málum og bæta samfélagið okkar. Um það eiga stjórnmálin að snúast.

Kær kveðja,
Þórunn Egilsdóttir
Þingflokksformaður Framsóknarflokksins

Categories
Greinar

Störf kennara í öndvegi

Deila grein

04/01/2019

Störf kennara í öndvegi

Samkeppnishæfni þjóða mun á næstu áratugum ráðast af hæfni og færni fólksins þeirra. Sú hæfni og færni ræðst ekki síst af gæðum menntakerfa í viðkomandi landi. Kennarar bera uppi menntakerfin og eru því lykilaðilar í mótun samfélaga til framtíðar. Alþjóðavæðing og örar tæknibreytingar gera enn ríkari kröfu um að stjórnmálin forgangsraði í þágu menntunar.

Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar er afar skýr í þessum efnum en þar er lögð rík áhersla á að efla menntun í landinu með hagsmuni þjóðarinnar allrar að leiðarljósi. Fram kemur að mikilvægt sé að stuðla að viðurkenningu á störfum kennara, efla faglegt sjálfstæði þeirra og leggja áherslu á skólaþróun á öllum skólastigum. Jafnframt kemur fram að bregðast þurfi við kennaraskorti með samstarfi ríkis, sveitar- og stéttarfélaga.

Staðan í dag er sú að við þurfum að stórauka aðsókn í kennaranám, þar sem háskólarnir ná ekki að brautskrá nægilega marga kennara til að mæta þörfum fyrir nýliðun, sér í lagi á leik- og grunnskólastigi.

Stjórnvöld hafa ásamt lykilfólki í menntamálum unnið að því að mæta þessari áskorun. Tillögur voru kynntar ríkisstjórn fyrir jólin og vonir standa til að stjórnvöld geti kynnt eftirfarandi úrbætur á nýju ári og hrint þeim í framkvæmd: Í fyrsta lagi að starfsnám á vettvangi, þ.e. fimmta ár í M.Ed. í leik- og grunnskólafræðum, verði launað. Í öðru lagi að efla leiðsögn nýliða í starfi á öllum skólastigum. Í þriðja lagi að Lánasjóði íslenskra námsmanna verði beitt til að fjölga kennurum en norsk stjórnvöld hafa meðal annars farið þessa leið. Í fjórða lagi að lög um menntun og ráðningu kennara verði endurskoðuð og að lokum að útskrifuðum kennurum með sérhæfingu í starfstengdri leiðsögn verði fjölgað. Allar þessar tillögur að úrbótum eru mikilvæg skref til að efla starfsumhverfi kennara á Íslandi. Þetta er þó einungis upphaf þeirrar vegferðar sem fram undan er hjá þjóðinni. Afar brýnt er að það verði þjóðarsátt um starfskjör kennara og skólastjórnenda. Það er forsenda þess að Ísland verði með framúrskarandi menntakerfi.

Á þessu rúma ári sem ég hef gegnt embætti mennta- og menningarmálaráðherra hefur það orðið æ skýrara í mínum huga að ef við sem samfélag ætlum að vera í fremstu röð er varðar lífsgæði þjóða þurfi ríki og sveitarfélög að vinna ötullega að því að efla starfsumhverfi kennara. Á árinu sem leið sáum við jákvæða þróun í fjölgun þeirra sem sóttu um í kennaranám sem er ánægjulegt. Við þurfum hins vegar að gera miklu betur og ég er sannfærð um að ofangreindar tillögur muni skila okkur á betri stað. Tökum höndum saman um það verkefni og mótum framtíðina til hagsbóta fyrir alla.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. janúar 2019.

Categories
Greinar

„Sá stórhugi, sem gleymir stríðinu en seilist eftir sigrinum“

Deila grein

31/12/2018

„Sá stórhugi, sem gleymir stríðinu en seilist eftir sigrinum“

Matthías Jochumsson spyr í Þjóðólfi árið 1874 hvað sé sannur þjóðvilji og svarar: „Það er almenn framfarastefna í landinu, bygð á frjálslyndi, viti og réttvísi. Með þess konar þjóðvilja stendr og fellr velferð og hamingja vor. Kærir landsmenn! Þjóð vor er enn skamt á veg komin, ekki einungis í verkunum, heldr í sannri menntan, sem er frelsisins andlegi grundvöllr. En allt er bætt ef andinn lifir, framfaralöngunin, lífskjarkurinn, metnaðurinn, sá stórhugi, sem gleymir stríðinu en seilist eftir sigrinum.“

Þessi sýn sem séra Matthías setur fram er grundvölluð á upplýsingarstefnunni og þeirri framfaratrú sem Framsóknarflokkurinn og Samvinnuhreyfingin byggir síðar á og byggir enn. Tímarnir eru ólíkir en sýnin hin sama. Sumir segja að tímarnir séu flóknari nú áður og líta til hinna „gömlu góðu daga“ með söknuði. Það eina sem truflar slíka fortíðarþrá er að aðstæður hins almenna manns hafa aldrei verið betri en nú. Einfaldleiki fortíðarinnar og hörð lífsbarátta stenst ekki fjölbreytileika og tækifæri okkar tíma þótt að sjálfsögðu megi gera betur á mörgum sviðum.

 

Sanngjarnar leikreglur

Samfélagið breytist stöðugt. Við hverja nýja löggjöf, hverja nýja reglugerð verður breyting á umhverfi okkar. Íslendingum hefur auðnast að byggja upp það sem á marga mælikvarða er fyrirmyndarsamfélag. Mikilvægt er að skapa samfélaginu leikreglur sem veita öllum jöfn tækifæri til að blómstra. Við getum öll verið sammála um að húsnæðiskostnaður er of hár og lægstu laun of lág. Við þurfum samt sem áður að rannsaka betur hvort að í samfélagsgerðinni eru fátæktargildrur eða hvort fólk staldrar stutt við á lægstu launatöxtum. Rannsóknir sýna að Ísland býr við mesta félagslega hreyfanleika allra þjóða sem þýðir að fólk getur unnið sig hratt upp með menntun og dugnaði.

 

Samvinna er lykillinn að framförum

Síðustu ár hafa verið umbrotatími í stjórnmálum víða um heim: Brexit, forsetakosningar í Bandaríkjunum, uppgangur popúlista víða í Evrópu og gul vesti eru allt dæmi um öfgavæðingu samfélaga. Ólíkt flestum nágrannalöndum okkar var niðurstaða síðustu alþingiskosninga ríkisstjórn sem endurspeglar allt pólitíska litrófið frá vinstri til hægri og er grunnur að stöðugleika sem við hljótum flest að vera sammála um að sé mikilvægur. Umræðan er hins vegar oft öfgafull og hlutum snúið á hvolf: Samvinna er svik, trúnaður er leynd, bjartsýni er naívismi. Hafi Íslendingar þó eitthvað að kenna heiminum varðandi stjórnmál þá er það að samvinna skilar okkur áfram. Við í Framsókn lítum á verkefni sem þarf að vinna frekar en vandamál sem þarf að leysa. Samtakamáttur og samvinna eru lykilinn að því að færa okkur fram á við. Við horfum á þann góða grunn sem samfélagið byggir á og styðjum við breytingar á því sem þarf að laga. Framsókn er ekki flokkur byltinga, við erum flokkur framfara sem byggjast á menntun, dugnaði og hugsjónum.

 

Við erum ekki margar þjóðir

Við erum fámenn þjóð í stóru landi. Við erum ekki margar þjóðir. Hagsmunir okkar fara að mestu leyti saman þótt stundum skerist í odda. Nú, eins og áður, er menntun og atvinna grunnurinn að framförum og auknum lífsgæðum. Framsókn hefur átt stóran þátt í að byggja það samfélag sem við búum í. Við getum litið yfir 100 ára sögu fullveldisins og séð að áhersla flokksins hefur verið á atvinnu, menntun, velferð og frjálslyndi. Fjölbreytt baráttumál flokksins hafa til dæmis skilað sjálfsögðum réttindum feðra til fæðingarorlofs og hjónaböndum samkynhneigðra.

 

Tæring fordómanna

Margar þjóðir standa frammi fyrir vandamálum sem tengjast því að hópar innan samfélagsins einangrast og fordómar skjóta rótum. Mér hefur stundum dottið í hug að Ísland ætti að vera of lítið fyrir átök og fordóma því að í okkar litla samfélagi þarf mikla orku til að vera illa við einhvern einstakling af því hann tilheyrir einhverjum sérstökum hópi. Fordómar láta undan við samtöl og samskipti. Við höfum öll ólík hlutverk í samfélaginu og án hvert annars værum við veikari heild.

 

Skynsemin verður að ráða

Eftir fordæmalausa aukningu kaupmáttar frá síðustu kjarasamningum spá margir erfiðum vetri á vinnumarkaði. Ríkisstjórnin hefur fundað reglulega, alls fjórtán sinnum, með aðilum vinnumarkaðarins og þannig undirstrikað mikilvægi þess að skynsemi á báða bóga ráði för í komandi samningaviðræðum. Það er áríðandi að fólk setjist niður og komi sér að minnsta kosti saman um mælikvarða og markmið til að niðurstaða náist sem skilar okkur áfram fremur en aftur á bak.

 

Heiðarleg, sanngjörn og opin stjórnmál

Spilaborg eða „House of Cards“ er ekki heimildarmyndaröð um íslensk stjórnmál þótt sumir virðist líta svo á. Þingmenn vinna að heilindum að þeim verkum sem þjóðin hefur kosið þá til þótt stundum fari einstaka út af sporinu. Mikilvægt er að við höldum stjórnmálaumræðu okkar heiðarlegri, opinni og sanngjarnri. Átök í stjórnmálum og í samfélaginu eru eðlileg svo lengi sem þau grundvallast á baráttu hugmynda. Rökræður eru leið samfélaga að niðurstöðu, að þjóðvilja, eins og Matthías nefndi það í Þjóðólfi. Þeir eru þó til sem líta á pólitísk átök sem persónulegar árásir en sagan sýnir að slíkum mönnum reynast stjórnmálin og sagan erfið.

 

Samhljómur í umhverfismálum

Heimurinn stendur frammi fyrir umfangsmiklum og knýjandi verkefnum þar sem umhverfismál eru í brennidepli. Stór skref hafa verið stigin af ríkisstjórn Íslands á fyrsta starfsári hennar. Það er líka rétt að hafa í huga að þegar kemur að umhverfismálum er samhljómur í máli flestra stjórnmálamanna um að sjálfbær þróun sé lykilatriði. Enginn flokkur er með það á stefnuskrá sinni að ráðast í frekari uppbyggingu mengandi stóriðju eða byggingu risavirkjana. Sá tími er einfaldlega liðinn. Hagsmunir náttúrunnar eru þáttur í ákvarðanatöku stjórnvalda en þau eru hins vegar ekki eini þátturinn því sjálfbær þróun felur líka í sér efnahagslega og samfélagslega þætti sem eru einnig mikilvægir.

Málflutningur sem einkennist af ofstopa skilar okkur ekki áfram í málum umhverfisins frekar en á öðrum sviðum. Líkt og þegar mokað er ofan í skurði til að endurheimta votlendi þarf að moka ofan í skotgrafirnar í umræðu um umhverfismál til að ná nauðsynlegum árangri. Það er einfaldlega ekkert annað í boði en að við hysjum upp um okkur og tökumst á við verkefnin framundan. Hér verður skynsemin að ráða för.

Þau eru falleg tímamótin þegar ár mætir ári og sólin lengir dvöl sína með okkur dag frá degi. Hækkar sól, hækkar brá og við göngum léttum sporum inn í nýtt ár með ný verkefni. Styðjum hvort annað til góðra verka og hugsum til orða þjóðskáldsins í Sigurhæðum: „En allt er bætt ef andinn lifir, framfaralöngunin, lífskjarkurinn, metnaðurinn, sá stórhugi, sem gleymir stríðinu en seilist eftir sigrinum.“

Gleðilegt ár.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. desember 2018.

Categories
Greinar

Sérfræðiþjónusta lækna á landsbyggðinni

Deila grein

23/12/2018

Sérfræðiþjónusta lækna á landsbyggðinni

Sérfræðiþjónusta lækna á landsbyggðinni á undir högg að sækja og er mismunandi eftir búsetu. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur boðað að endurskoða skuli fyrirkomulag sérfræðilæknaþjónustu með aukinni áherslu á göngudeildarþjónustu á Landspítalanum, frekar en að sjálfstætt starfandi sérfræðilæknar taki á móti sjúklingum á stofum sínum. Hætti læknir störfum sökum aldurs eða búferlaflutninga í einkageiranum hafa nýir sérfræðilæknar ekki fengið samning við Sjúkratryggingar Íslands til þess að taka við. Þetta hefur komið í veg fyrir alla nýliðun og haft þær afleiðingar að fólk af landsbyggðinni neyðist til að sækja í síauknum mæli sérfræðiþjónustu til höfuðborgarinnar.

Við sem búum úti á landi erum meðvituð um að ekki er raunhæft að veita alla sérfræðiþjónustu á hinum ýmsu svæðum landsins en vissulega er hægt að gera betur.Nú hefur legið fyrir að rammasamningar hins opinbera við sérfræðilækna renni út um áramótin. Rammasamningur felur í sér að ríkið niðurgreiðir og tekur þátt í kostnaði við þá heilbrigðisþjónustu sem veitt er utan opinbera heilbrigðiskerfisins að stórum hluta.Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur lagt til að rammasamningur Sjúkratrygginga við sérfræðilækna verði framlengdur um eitt ár og boðar samráð við Sjúkratryggingar og sérfræðilækna um kerfisbreytingar. Sérfræðilæknar hafa aftur á móti ekki verið tilbúnir að framlengja samninginn að óbreyttu.

Mikilvægt er að ráðast í greiningu á þeirri þjónustu sem er í boði á landsbyggðinni og áætla þörf, sjá hvaða þjónustu skortir en þá mun án efa koma í ljós sá mikli munur sem er á aðgengi á heilbrigðisþjónustu eftir búsetu. Markmið laga um sjúkratryggingar (nr.112, 2008) er meðal annars að tryggja jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Jafnframt skal leitast við að tryggja þjónustu við sjúkratryggða hvar á landinu sem þeir eru búsettir og að veitendur þjónustu gæti þess að sjúkratryggðir njóti jafnræðis. Að mínu mati er uppbygging göngudeildarþjónustu á Landspítala á kostnað sérfræðilæknisþjónustu úti á landi ekki til þessa fallin.

Mörg okkar sem búum úti á landi tökum því nánast sem sjálfsögðum hlut að fara til læknis í Reykjavík, með tilheyrandi vinnutapi, kostnaði og fyrirhöfn. Í dag taka Sjúkratryggingar Íslands þátt í ferðakostnaði fyrir fólk utan af landsbyggðinni en þó aðeins ef ekki er starfandi sérfræðingur í viðkomandi sérgrein í heimabyggð. Það hlýtur í þessu samhengi að liggja í augum uppi að það sé hagstæðara fyrir þjóðarbúið að senda einn lækni út á land til að vinna í nokkra daga í mánuði í stað þess að tugir manna þurfi að taka sig upp og sækja þjónustuna suður. Landsbyggðarfólk á skýlausan rétt á sömu þjónustu og íbúar á höfuðborgarsvæðinu og gott aðgengi að þeim fáu sérfræðilæknum sem starfa úti á landi er okkur sérlega dýrmætt. Því er verulegt áhyggjuefni að sérfræðiþjónusta er nú enn og aftur sett í uppnám.

Vil ég nýta tækifærið hér og hvetja heilbrigðisráðherra til að flýta vinnu við endurskoðun á núverandi fyrirkomulagi þessa málafloks og útbúa heildstætt kerfi svo heilbrigðisþjónusta verði aðgengileg fólki óháð búsetu.

Ingibjörg Ólöf Isaksen, bæjarfulltrúi á Akureyri.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. desember 2018.

Categories
Greinar

Barnafjölskyldur í fyrirrúmi í fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar

Deila grein

14/12/2018

Barnafjölskyldur í fyrirrúmi í fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar

Fyrsta fjárhagsáætlun Akureyrarkaupstaðar á þessu kjörtímabili hefur nú verið samþykkt í bæjarstjórn. Forgangsverkefni á árinu 2019 og á kjörtímabilinu verður að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með fjölbreyttum leiðum. Undirbúningur er þegar hafin að byggingu nýs leikskóla við Glerárskóla sem taka á í notkun árið 2021 og þar að auki á að hefja undirbúning á frekari fjölgun leikskólarýma í upphafi næst árs. Næsta haust verður börnum mánuði yngri en áður boðið rými á leikskóla samhliða því sem að á árinu 2019 verða hafnar jöfnunargreiðslur til foreldra barna 17 mánaða og eldri hjá dagforeldrum til jafns við kostnað á leikskólum. Veittir verða stofnstyrkir til dagforeldra, þeir studdir til endur- og símenntunar og dagforeldrum gefinn kostur á að nýta önnur rými en eigin heimahús til starfseminnar. Með þessum vonumst við til að fjölga dagforeldrum hratt og örugglega á meðan unnið er að fjölgun leikskólarýma.

Samfella í skóla- og frístundastarfi: frístundastyrkir hækkaðir

Hafinn er vinna við nýja og metnaðarfulla skólastefnu tónlistar-, leik- og grunnskóla Akureyrarbæjar, sem sérstaklega á að taka mið af kröfum nútímasamfélags, heilsu og vellíðunar barna. Færa á ráðgjöf og stoðþjónustu í auknu mæli inn í leik- og grunnskóla og sjálfstæði skóla aukið. Næsta haust verður komið á tilraunaverkefni um samfellu í skóla- og frístundastarfi. Frístundastyrkir til barna- og ungmenna verða hækkaðir í 35.000 krónur. Komið verður á aðgerðaráætlun vegna verkefnisins Heilsueflandi samfélag og haldið verður áfram að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Farið verður í samstarfi við ÍBA í þarfagreiningu byggða á hugmynd um þriggja kjarna starfsemi íþróttahreyfingarinnar á Akureyri og samhliða gera langtíma áætlun um uppbyggingu íþróttamannvirkja og viðhaldi þeirra. Tekin verður í notkun ný skíðalyfta og keyptur umhverfisvænn snjótroðari í Hliðarfjall.

Snemmtæk íhlutun og samvinna í velferðarmálum

Þjónusta við aldraða, forvarnir og þjónusta við fatlað fólk skipar stórt rúm í fjárhagsáætlun. Sem dæmi um verkefni má nefna að byggja á búsetukjarna fyrir fatlað fólk, þróa á notendaráð fatlaðs fólks og innleiða notendastýrða persónulega aðstoð í samræmi við lög.  Samþætta á heimaþjónustu, dagþjálfun, heimahjúkrun, heilsugæslu og annarrar þjónustu með það að markmiði að styðja þjónustuþega til sjálfstæðrar búsetu. Unnið verður í samstarfsverkefni með Reykjavíkurborg og Velferðarráðuneytinu um velferðartækni, skima á fyrir kvíða og þunglyndi hjá 5. og 6.bekk í samstarfi við HSN og þróa á frekar samvinnu sviða vegna barna í áhættu fyrir neyslu vímuefna. Þróa á verklag um meðferð vegna barna sem eru þolendur heimilisofbeldis og taka þátt í evrópuverkefni á vegum Jafnréttisstofu sem fjallar um þverfaglega samvinnu gegn heimilisofbeldi. Horft verður sérstaklega til snemmtækrar íhlutunar með aukinni þjónustu við barnafjölskyldur með áherslu á fjölskyldumiðaða nálgun.

Fjölbreytt menningarlíf, blómlegt umhverfi og framúrskarandi þjónusta við bæjarbúa

Framlag til verkefnisins “Greiðum listamönnum” verður aukið á næsta ári og menningarsjóður verður efldur og hluti hans nýttur til styrktar ungum og efnilegum listamönnum. Framlög til Menningarfélags Akureyrar verða hækkuð, stutt verður með öflugum hætti við barnamenningarhátíð og skapandi sumarstörfum verður fjölgað. Ákveðið hefur verið að auka framlag Akureyrarbæjar til Vistorku, settur hefur verið á laggirnar hópur til að sporna við vaxandi svifryksmengun og vinna á markvisst í því að draga úr plastnotkun. Tekinn verður í notkun nýr umhverfisvænn strætó og unnið er að framtíðarsýn í sorpmálum. Akureyrarbær mun áfram taka þátt í verkefninu Brothættar byggðir auk þess sem fjármunir verða tryggðir til hverfisnefnda Hríseyjar og Grímseyjar vegna sérstöðu þeirra sem eyja sveitarfélagsins. Leggja á sérstaka áherslu á aukna upplýsingagjöf til íbúa um þjónustu bæjarins og auka rafræna þjónustu. Við munum leggja áherslu á íbúalýðræði og gagnsæi í stjórnsýslunni m.a. með því að þróa upplýsingagjöf um fjármál og áætlunarferli.

Ábyrg fjármálastjórn

Samkvæmt samþykktri fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir jákvæðri afkomu A og B hluta reksturs Akureyrarbæjar um 660 m.kr. Til þess að halda í við verðlagsþróun er viðmiðunarhækkun á gjaldskrám sveitarfélagsins um 3%, en þjóðhagsspá Hagstofu Íslands spáir 3,6% verðbólgu. Bæjarstjórn samþykkti lækkun álagningarprósentu fasteignaskatts í 0,33% af fasteignamati íbúðarhúsnæðis, ásamt lækkun í 1,63% af fasteignarmati af öðru húsnæði og hækkaði tekjumörk afsláttar elli- og örorkulífeyrisþega um 7%.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson

Ingibjörg Isaksen

Halla Björk Reynisdóttir

Hilda Jana Gísladóttir

Andri Teitsson

Dagbjört Pálsdóttir

Bæjarfulltrúar Framsóknar, L-lista fólksins og Samfylkingar í bæjarstjórn Akureyrar

Greinin birtist fyrst á vikudagur.is 13. desember 2018.

Categories
Greinar

Samgönguáætlun komin út – framkvæmdir í hafnarmálum

Deila grein

12/12/2018

Samgönguáætlun komin út – framkvæmdir í hafnarmálum

Í þessari viku lagði samgönguráðherra fram samgönguáætlun á Alþingi. Þar ber margt á góma, veglagning um Teigskóg eru að fullu fjármagnaðar en ennþá er málið fast milli Reykhólahrepps og Vegagerðarinnar. Þar þarf ríkið að grípa inní tafarlaust og höggva á hnútinn svo framkvæmdir geti hafist.

Áætlað er að bjóða út Dynjandisheiði árið 2020 en þar virðist hönnunar og stjórnsýsluferli tefja framkvæmdina eins og glögglega kom fram á fundi Vegagerðarinnar á Ísafirði í sumar. Þar þurfa stjórnvöld sömuleiðis að stíga inní, ákveða hvaða veglínur skuli fara svo hægt sé að fullhanna framkvæmdirnar og bjóða þær út fyrr.

Það er svo mjög ánægjulegt að 550 milljónir séu áætlaðar í stórhættulegan einbreiðan veg í Djúpinu á næsta ári þegar farið verður í framkvæmdir frá Kambsnesi að Eyðinu í Seyðisfirði. Í framhaldinu verður svo einbreiða brúin við Hattadal aflögð og ný tvöföld brú byggð samkvæmt áætluninni.

Hafnarframkvæmdir

Um nokkurt skeið hefur verið unnið að undirbúningi stækkun Sundahafnar á Ísafirði. Slík framkvæmd felur í sér dýpkun við Sundin, niðurrekstri á þili og lengingu hafnarkants. Mikil þörf er á stækkuninni, með því móti er hægt að taka stærri skemmtiferða og flutningaskip að bryggju. Samhliða uppbyggingu eldis fylgir aukin umferð skipa og báta auk þess sem bærinn hefur úthlutað HG lóð undir nýtt frystihús við fyrirhugaðan kant. Auk þess hafa fleiri sjávarútvegstengd fyrirtæki sótt um lóðir á suðurtanganum sem treysta á stækkun hafnarinnar. Þörfin er því brýn.

Það er því mikið fagnaðarefni að samgönguráðherra hafi sett inná 5 ára samgönguáætlun fjármuni til dýpkunar og byggingu hafnarkants við Sundahöfn. Framkvæmdir við hafnir landsins skiptast á milli ríkis og sveitarfélaga og felur því fjármagnið frá ríkinu það í sér að Ísafjarðarbær getur farið á fullt með Vegagerðinni að fullhanna framkvæmdirnar og  farið af stað í útboð á sínum hluta framkvæmdanna.

Ennfremur er áætlað að klára lagfæringar á Flateyri auk þess sem endurbygging á innri hluta hafnargarðsins á Þingeyri eru kominn á áætlun og ennfremur eru framkvæmdir um að klára þilið á Suðureyri áætlaðar.

Ég vil taka það fram að það hefur verið þverpólitísk samstaða um uppbyggingu hafnarmannvirkja í Ísafjarðarbæ undanfarin ár sem hefur ekki síður hjálpað málinu. Framundan eru því ærin verkefni í uppbyggingu hafnarmannvirkja í Ísafjarðarbæ, bæði í nýframkvæmdum og ekki síður skipulagningu og tiltekt sem ég hlakka til að takast á við.

Marzellíus Sveinbjörnsson, oddviti Framsóknar í Ísafjarðarbæ og formaður hafnarstjórnar Ísafjarðarbæjar.

Greinin birtist fyrst á bb.is 12. desember 2018.

Categories
Greinar

Jöfn tækifæri til tónlistarnáms

Deila grein

10/12/2018

Jöfn tækifæri til tónlistarnáms

Tón­list­ar­líf á Íslandi hef­ur átt mik­illi vel­gengni að fagna og vor­um við minnt á það ný­lega á degi ís­lenskr­ar tón­list­ar sem hald­inn var hátíðleg­ur 6. des­em­ber síðastliðinn. Öflugt tón­list­ar­nám legg­ur grunn­inn að og styður við skap­andi tón­list­ar- og menn­ing­ar­líf í land­inu en ný­verið var und­ir­ritað sam­komu­lag rík­is­ins og sveit­ar­fé­lag­anna um stuðning við tón­list­ar­nám til árs­loka 2021. Mark­miðið er að jafna aðstöðumun nem­enda til tón­list­ar­náms á fram­halds­stigi og söngnám á mið- og fram­halds­stigi og festa fjár­mögn­un náms­ins bet­ur í sessi. Ljóst er að um veiga­mikið skref er að ræða en grunn­fjár­hæð fram­lags rík­is­ins er 545 millj­ón­ir kr. á árs­grund­velli sem greiðist til Jöfn­un­ar­sjóðs sveit­ar­fé­lag­anna sem ann­ast út­hlut­an­ir fram­lag­anna. Á móti skuld­binda sveit­ar­fé­lög­in sig til að taka tíma­bundið yfir verk­efni frá ríki sem nema 230 millj­ón­um kr. á ári og sjá til þess að fram­lag renni til kennslu þeirra nem­enda sem inn­ritaðir eru í viður­kennda tón­list­ar­skóla án til­lits til bú­setu. Sam­komu­lagið er um­fangs­mikið en það snert­ir 33 viður­kennda tón­list­ar­skóla víða um land en þar stunda nú um 600 nem­end­ur nám á fram­halds­stigi.Það skipt­ir máli fyr­ir tón­list­ar­lífið í land­inu að um­gjörðin sé sterk og innviðir góðir. Á síðasta ári var gerð út­tekt á veltu ís­lenskr­ar tón­list­ar fyr­ir Sam­tón, ÚTÓN og at­vinnu­vega- og ný­sköp­un­ar­ráðuneytið. Úttekt­in var unn­in af dr. Mar­gréti Sigrúnu Sig­urðardótt­ur og Erlu Rún Guðmunds­dótt­ur. Helstu niður­stöður eru þær að heild­ar­tekj­ur ís­lenska tón­list­ariðnaðar­ins á ár­un­um 2015-2016 voru um það bil 3,5 millj­arðar kr., auk 2,8 millj­arða kr. í af­leidd­um gjald­eyris­tekj­um til sam­fé­lags­ins vegna komu tón­list­ar­ferðamanna til lands­ins. Þá stend­ur lif­andi flutn­ing­ur á tónlist und­ir tæp­lega 60% af heild­ar­tekj­um ís­lenskr­ar tón­list­ar á meðan hljóðrituð tónlist og höf­und­ar­rétt­ur nema hvort um sig 20%. Að auki sýn­ir út­tekt­in að lif­andi flutn­ing­ur er mik­il­væg­asta tekju­lind sjálfra tón­list­ar­mann­anna á meðan plötu­sala hef­ur dreg­ist sam­an.

Það er mik­il­vægt að halda áfram að styrkja um­gjörð skap­andi greina í land­inu. Ný­und­ir­ritað sam­komu­lag um tón­list­ar­nám skipt­ir sköp­um á þeirri veg­ferð og mun gera fleir­um kleift að stíga sín fyrstu skref í tónlist um land allt. Að auki hafa verið stig­in mik­il­væg skref í upp­bygg­ingu menn­ing­ar­húsa á lands­byggðinni en þau hafa haft ótví­ræð já­kvæð marg­feld­isáhrif á tón­list­ar- og menn­ing­ar­líf bæja og nærsam­fé­laga. Við vilj­um að all­ir lands­menn geti notið lista og menn­ing­ar og tekið virk­an þátt í slíku starfi.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. desember 2018.

Categories
Greinar

Auknir fjármunir til verkefna í þágu barna

Deila grein

10/12/2018

Auknir fjármunir til verkefna í þágu barna

Þann 1. janú­ar næst­kom­andi tek­ur til starfa nýtt fé­lags­málaráðuneyti í sam­ræmi við ákvörðun Alþing­is um breytta skip­an Stjórn­ar­ráðsins. Embætt­istit­ill minn breyt­ist frá sama tíma og verður fé­lags- og barna­málaráðherra. Fyr­ir þeirri breyt­ingu er ein­föld ástæða. Ég hef frá fyrsta degi í stóli ráðherra sem fer með mál­efni barna lagt sér­staka áherslu á þann mála­flokk og lagt kapp á vinnu við verk­efni í þágu barna og barna­fjöl­skyldna.

Að mínu frum­kvæði und­ir­rituðu fimm ráðherr­ar vilja­yf­ir­lýs­ingu um aukið sam­starf í þágu barna nú í haust. Hún end­ur­spegl­ar vilja okk­ar til að tryggja sam­starf þvert á kerfi, stuðla að sam­felldri þjón­ustu við börn og for­eldra þegar þörf er fyr­ir hendi og skapa meiri viðbragðsflýti inn­an kerf­is­ins með aukn­um hvata til snemm­tækr­ar íhlut­un­ar. Auk ráðherra­yf­ir­lýs­ing­ar­inn­ar hef­ur verið sett á fót þver­póli­tísk þing­manna­nefnd um mál­efni barna, sem er einnig mik­il­vægt til að raun­gera þá ríku áherslu á mál­efni barna sem sam­fé­lag okk­ar þarf svo mikið á að halda.

Þótt orð séu til alls fyrst, þarf líka fjár­muni til að hrinda góðum vilja í fram­kvæmd. Þess vegna er gott að geta sagt frá því að samstaða var í rík­is­stjórn­inni um að auka fram­lög til mál­efna barna um 200 millj­ón­ir króna til að styðja við þá end­ur­skoðun á mála­flokkn­um sem nú stend­ur yfir og vinna að ýms­um mik­il­væg­um verk­efn­um sem varða snemm­tæka íhlut­un og aðstoð og einnig má nefna fjár­magn upp á tugi millj­óna á þessu ári og 80 millj­ón­ir á næsta ári sem nýt­ist börn­um í fíkni­vanda.

1,8 millj­arðar til hækk­un­ar fæðing­ar­or­lofs

Stuðning­ur við for­eldra er stuðning­ur við börn. Þess vegna stend­ur rík­is­stjórn­in ein­huga að baki hækk­un á greiðslum til for­eldra í fæðing­ar­or­lofi á næsta ári. Full­ar greiðslur hækka úr 520.000 kr. á mánuði í 600.000 kr. og nem­ur heild­ar­kostnaður þess­ar­ar aðgerðar 1,8 millj­örðum króna. Enn frem­ur hækk­um við mót­fram­lagið í líf­eyr­is­sjóð úr 8% í 11,5% á næsta ári. Stefna rík­is­stjórn­ar­inn­ar er bæði að hækka greiðslurn­ar og lengja or­lofið og leng­ing þess verður næsta skrefið í þessu máli.

Loks vil ég geta um aukið fram­lag vegna upp­bygg­ing­ar sér­stakra bú­setu­úr­ræða fyr­ir börn með al­var­leg­ar þroska- og geðrask­an­ir en um 150 millj­ón­um króna verður varið á næsta ári til þess.

Það er gam­an að geta kynnt þessi mik­il­vægu verk­efni í þágu barna sem unnið er að. Vilji stjórn­valda er skýr og ein­beitt­ur í þess­um efn­um. Mál­efni barna hafa meðbyr og það er vax­andi skiln­ing­ur fyr­ir því í sam­fé­lag­inu að börn­in okk­ar eru mik­il­væg­asta fjár­fest­ing framtíðar­inn­ar.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. desember 2018.