Categories
Greinar

Barnafjölskyldur í fyrirrúmi í fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar

Deila grein

14/12/2018

Barnafjölskyldur í fyrirrúmi í fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar

Fyrsta fjárhagsáætlun Akureyrarkaupstaðar á þessu kjörtímabili hefur nú verið samþykkt í bæjarstjórn. Forgangsverkefni á árinu 2019 og á kjörtímabilinu verður að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með fjölbreyttum leiðum. Undirbúningur er þegar hafin að byggingu nýs leikskóla við Glerárskóla sem taka á í notkun árið 2021 og þar að auki á að hefja undirbúning á frekari fjölgun leikskólarýma í upphafi næst árs. Næsta haust verður börnum mánuði yngri en áður boðið rými á leikskóla samhliða því sem að á árinu 2019 verða hafnar jöfnunargreiðslur til foreldra barna 17 mánaða og eldri hjá dagforeldrum til jafns við kostnað á leikskólum. Veittir verða stofnstyrkir til dagforeldra, þeir studdir til endur- og símenntunar og dagforeldrum gefinn kostur á að nýta önnur rými en eigin heimahús til starfseminnar. Með þessum vonumst við til að fjölga dagforeldrum hratt og örugglega á meðan unnið er að fjölgun leikskólarýma.

Samfella í skóla- og frístundastarfi: frístundastyrkir hækkaðir

Hafinn er vinna við nýja og metnaðarfulla skólastefnu tónlistar-, leik- og grunnskóla Akureyrarbæjar, sem sérstaklega á að taka mið af kröfum nútímasamfélags, heilsu og vellíðunar barna. Færa á ráðgjöf og stoðþjónustu í auknu mæli inn í leik- og grunnskóla og sjálfstæði skóla aukið. Næsta haust verður komið á tilraunaverkefni um samfellu í skóla- og frístundastarfi. Frístundastyrkir til barna- og ungmenna verða hækkaðir í 35.000 krónur. Komið verður á aðgerðaráætlun vegna verkefnisins Heilsueflandi samfélag og haldið verður áfram að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Farið verður í samstarfi við ÍBA í þarfagreiningu byggða á hugmynd um þriggja kjarna starfsemi íþróttahreyfingarinnar á Akureyri og samhliða gera langtíma áætlun um uppbyggingu íþróttamannvirkja og viðhaldi þeirra. Tekin verður í notkun ný skíðalyfta og keyptur umhverfisvænn snjótroðari í Hliðarfjall.

Snemmtæk íhlutun og samvinna í velferðarmálum

Þjónusta við aldraða, forvarnir og þjónusta við fatlað fólk skipar stórt rúm í fjárhagsáætlun. Sem dæmi um verkefni má nefna að byggja á búsetukjarna fyrir fatlað fólk, þróa á notendaráð fatlaðs fólks og innleiða notendastýrða persónulega aðstoð í samræmi við lög.  Samþætta á heimaþjónustu, dagþjálfun, heimahjúkrun, heilsugæslu og annarrar þjónustu með það að markmiði að styðja þjónustuþega til sjálfstæðrar búsetu. Unnið verður í samstarfsverkefni með Reykjavíkurborg og Velferðarráðuneytinu um velferðartækni, skima á fyrir kvíða og þunglyndi hjá 5. og 6.bekk í samstarfi við HSN og þróa á frekar samvinnu sviða vegna barna í áhættu fyrir neyslu vímuefna. Þróa á verklag um meðferð vegna barna sem eru þolendur heimilisofbeldis og taka þátt í evrópuverkefni á vegum Jafnréttisstofu sem fjallar um þverfaglega samvinnu gegn heimilisofbeldi. Horft verður sérstaklega til snemmtækrar íhlutunar með aukinni þjónustu við barnafjölskyldur með áherslu á fjölskyldumiðaða nálgun.

Fjölbreytt menningarlíf, blómlegt umhverfi og framúrskarandi þjónusta við bæjarbúa

Framlag til verkefnisins “Greiðum listamönnum” verður aukið á næsta ári og menningarsjóður verður efldur og hluti hans nýttur til styrktar ungum og efnilegum listamönnum. Framlög til Menningarfélags Akureyrar verða hækkuð, stutt verður með öflugum hætti við barnamenningarhátíð og skapandi sumarstörfum verður fjölgað. Ákveðið hefur verið að auka framlag Akureyrarbæjar til Vistorku, settur hefur verið á laggirnar hópur til að sporna við vaxandi svifryksmengun og vinna á markvisst í því að draga úr plastnotkun. Tekinn verður í notkun nýr umhverfisvænn strætó og unnið er að framtíðarsýn í sorpmálum. Akureyrarbær mun áfram taka þátt í verkefninu Brothættar byggðir auk þess sem fjármunir verða tryggðir til hverfisnefnda Hríseyjar og Grímseyjar vegna sérstöðu þeirra sem eyja sveitarfélagsins. Leggja á sérstaka áherslu á aukna upplýsingagjöf til íbúa um þjónustu bæjarins og auka rafræna þjónustu. Við munum leggja áherslu á íbúalýðræði og gagnsæi í stjórnsýslunni m.a. með því að þróa upplýsingagjöf um fjármál og áætlunarferli.

Ábyrg fjármálastjórn

Samkvæmt samþykktri fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir jákvæðri afkomu A og B hluta reksturs Akureyrarbæjar um 660 m.kr. Til þess að halda í við verðlagsþróun er viðmiðunarhækkun á gjaldskrám sveitarfélagsins um 3%, en þjóðhagsspá Hagstofu Íslands spáir 3,6% verðbólgu. Bæjarstjórn samþykkti lækkun álagningarprósentu fasteignaskatts í 0,33% af fasteignamati íbúðarhúsnæðis, ásamt lækkun í 1,63% af fasteignarmati af öðru húsnæði og hækkaði tekjumörk afsláttar elli- og örorkulífeyrisþega um 7%.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson

Ingibjörg Isaksen

Halla Björk Reynisdóttir

Hilda Jana Gísladóttir

Andri Teitsson

Dagbjört Pálsdóttir

Bæjarfulltrúar Framsóknar, L-lista fólksins og Samfylkingar í bæjarstjórn Akureyrar

Greinin birtist fyrst á vikudagur.is 13. desember 2018.