Categories
Greinar

Bleiki fíllinn í skólamálum

Deila grein

02/04/2018

Bleiki fíllinn í skólamálum

Eftir nærri tvo áratugi í starfi með börnum og kennurum í borginni okkar, og víðar, veit ég frá fyrstu hendi yfir hvaða mannauði við höfum að ráða og mikilvægi þess að hlúa vel honum. Reykjavíkurborg er stærsta sveitafélag landsins og á að mínu mati að vera best til þess fallin að vera leiðandi í skólaþróun og skólastarfi. Við getum gert miklu betur, ef vilji stjórnvalda eða borgaryfirvalda er fyrir hendi.

Leik- og grunnskólakennarar eru sérfræðingar á sínu sviði. Kennarar þurfa svigrúm, tíma og frelsi til að stýra skólaþróun, enda engir aðrir betur til þess fallnir. Finnska leiðin, sem margir hafa nefnt en færri vita kannski nákvæmlega hvað snýst um, gengur út á það að valdefla sérfræðinginn sem kennarinn er og auka samstarf og jöfnuð í skólakerfinu. Þá eiga allir að hafa jöfn tækifæri til náms óháð búsetu eða efnahag. Einkareknir skólar eru því ekki til umræðu í Finnlandi, slíkt elur á samkeppni og ójöfnuði. Samstaða þarf að ríkja þvert á pólitíska flokka um að samvinna og menntun fari best saman og að hver og einn skipti máli. Það á ekki að skipta framtíð barns máli hvort það búi í bæ sem er „grænn“ eða „blár“ eða „rauður“ á hinu pólitíska litrófi.

Í stað þess að hvetja skóla til samkeppni með von um að eitthvað batni sem aflaga hefur farið, þá er krafa um samstarf. Þar sem vel gengur er skoðað í kjölinn og það er yfirfært á aðra staði sem þurfa eitthvað að bæta. Ef kennari nær ekki til nemanda fær hann annan kennara í til að reyna og sjá hvað gerist. Ef erfiðlega gengur með einn bekk, þá er samstarf sett í gang með öðrum bekk þar sem betur gengur. Það er nefnilega miklu meira í húfi en orðspor og meðaleinkunn. Líf barna eru í húfi. Að mínu mati er því algjörlega galið að ætla að ala á samkeppni milli skóla eða hverfa með aukinni einkavæðingu því í valnum munu liggja nemendur sem ekki hafa bakland eða stuðning eða einhvers konar annan vanda sem er þeim hamlandi í hröðu umhverfi harðrar samkeppni.

Kennarar á Íslandi vita þetta manna best enda keppast þeir við og þreytast aldrei á að viðhafast einhvers konar samstarf sín á milli. Hér eru haldnar menntabúðir um alls konar út um allt land, menntamál eru rædd á twitter undir #menntaspjall, ótalmargir facebookhópar um hverja faggrein hafa myndast sem vettvangur kennara til að skiptast á hugmyndum að verkefnum og lausnum. Kennarar sitja kvöld eftir kvöld og þýða og staðfæra eða útbúa kennsluefni til að kveikja áhuga nemenda og leyfa öðrum kennurum að njóta góðs af því. Kennarar sækja ráðstefnur um allan heim og nýta eigið fé og endurmenntunartíma og fjármagn til að ferðast um landið og heiminn til að skoða hvað er í gangi þar og taka sem mest með sér heim í sinn skóla – og aftur – miðla til kollega sinna. Alþjóðlegt samstarf og verkefni eru í gangi víða um allt land og krefst það mikilla fórna af hálfu þeirra kennara sem að því standa enda dugir hinn eiginlega skilgreindi vinnutími skammt þegar eitthvað stórt er í bígerð.

Skólarnir okkar búa yfir gríðarlegum mannauði og gríðarlegri þekkingu. Það væri algjört glapræði af hálfu yfirvalda á hverjum stað að ætla þessu fólki að halda áfram að troðast enn frekar inn í aukna miðstýringu sem sveitarfélögin hafa komið á á undanförnum árum, með stærsta sveitarfélag landins, Reykjavík, í broddi fylkingar.

Hér á landi eru fjölmargir einstaklingar sem virkilega myndu vilja gera kennslu og starf með börnum að sínu framtíðarstarfi, ef hvatinn væri til staðar. Við höfum alið upp gagnrýna einstaklinga sem sjá og skilja að það lifir enginn af hugsjóninni einni saman. Myndu því betri kjör og starfsaðstæður leik- og grunnskólakennara skila okkur fleiri fagmenntuðum kennurum inn í skólana sem svo aftur gerði það að möguleika að bjóða upp á fleiri leikskólapláss og bæta meðleinkunn og alþjóðlegan orðstír bókaþjóðarinnar í norðri, ef því er að skipta.

Valdeflum kennarann og viðurkennum þá sem þá sérfræðinga sem þeir eru. Greiðum leik- og grunnskólakennurum laun sem ná að lágmarki meðallaunum sérfræðinga hér á landi, með sama menntunarstig að baki. Um þetta þarf að skapa þjóðarsátt.

Hjördís Guðný Guðmundsdóttir

Höfundur er grunnskólakennari og er að ljúka meistaranámi í mannauðsstjórnun við HÍ.

Hjördís skipar 4. sæti á lista Framsóknarflokksins til borgarstjórnarskosninganna í vor.

Greinin birtist á visir.is 28. mars 2018.

Categories
Greinar

Fjölnota íþróttahús til heilsueflingar fyrir alla aldurshópa

Deila grein

31/03/2018

Fjölnota íþróttahús til heilsueflingar fyrir alla aldurshópa

Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á  að aðstaða fyrir alla aldurhópa til heilsueflingar og félagsstarfs sé eins góð og kostur er.  Því teljum við tímabært að hafist verði handa við það að hanna og skipuleggja stækkun og endurbætur á íþróttahúsinu okkar í Borgarnesi.

Á næstu áratugum mun öldruðum fjölga umfram aðra aldurshópa. Við þessu verðum við að vera undirbúin.  Aldraðir verða að hafa kost á því að hátta lífi sínu eftir heilsu og getu á þeim stað sem þeir kjósa. Fólk þarf að geta búið sem lengst á sínum heimilum með öflugum stuðningi heimaþjónustu og heimahjúkrunar, í samvinnu ríkis og sveitarfélaga.  Stór hluti fólks á sjötugs- og áttræðisaldir er við góða heilsu og virkir lykilþátttakendur í samfélaginu. Það hefur blasað við lengi að staða öldrunar- og hjúkrunarheimila í landinu er ekki ásættanleg. Viðvarandi og vaxandi skortur er um land allt á rýmum. Eitt af brýnustu verkefnum okkar sveitarstjórnarfulltrúa er að tryggja í samstarfi við ríkið framtíðar uppbyggingu og rekstrargrundvöll hjúkrunarheimila í landinu. Framsóknarflokkurinn hefur þegar lýst yfir áhyggjum af sérstækum húsnæðisskorti á landsbyggðinni og vonir bundnar við áform félags- og jafnréttismálaráðherra um áætlanir til að bregðast við því með uppbyggingu á hagkvæmum íbúðum og hjúkrunarrýmum fyrir aldraða á þeim svæðum þar sem þörfin er brýn.

Nauðsynlegt er að áherslan varðandi málefni aldraðra snúi ekki aðeins að því að veita fullnægjandi heilbrigðisþjónustu, þessum hópi verður að standa til boða viðeigandi félags-, tómstunda- og íþróttatengd þjónusta sem bætir lífgæði.  Í janúar s.l. tók til starfa stýrihópur á vegum sveitarfélagsins sem hafði það að markmiði að endurskoða stefnumótun í þjónustu við þennan hóp. Fulltrúar frá eldriborgararáði og báðum félögum eldriborgara í Borgarbyggð hafa starfað í þessum hóp. Niðurstaða þessarar vinnu er mikilvægt gagn fyrir  okkur sem störfum í sveitarstjórn að vinna með og hafa að leiðarljósi.

Góð aðstaða til heilsueflingar félags- og tómstunda fyrir alla aldurshópa mun skila sér margfalt til baka til samfélagsins.

Guðveig Anna Eyglóardóttir

Höfundur er oddviti Framsóknarflokks í sveitarstjórn Borgarbyggðar.

Greinin birtist á skessuhorn.is 28. mars 2018.

Categories
Greinar

Dýrmætasta auðlindin

Deila grein

28/03/2018

Dýrmætasta auðlindin

Grunnur Samfélagsins
Til þess að byggja upp velferðarsamfélag þar sem allir geta lifað með reisn er gott að hugsa sér pýramýda. Grunnur pýramýdans er menntun og þar er eins gott að vandað sé til verksins. Kennarar byggja þennan grunn og til þess að vel takist til, þurfum við sem samfélag að tryggja að vel hæft og áhugasamt fólk sinni því vandasama starfi. Mannauðurinn er hverju samfélagi dýrmætasta auðlindin og náttúrúauðlindir blikkna í samanburði. Úti í hinum stóra heimi þekkjast fjölmörg dæmi þess að samfélög, rík af náttúruauðlindum eru í molum vegna þess að grunnurinn er ótraustur. Í menntun höfum við Íslendingar dregist aftur úr á síðustu árum og brestir eru komnir í grunninn, en hvað er til ráða?

Finnska leiðin
Við þurfum sem betur fer ekki að finna upp hjólið því Finnar hafa gert það fyrir okkur. Þeim hefur gengið hvað best að mennta börn sín og um leið treysta grunninn. En hvernig fara þeir að? Þeir viðurkenna og valdefla kennarann sem sérfræðing, borga honum laun sem samrýmist sérfræðimenntun kennarans og treysta honum til að vinna skapandi og sjálfstætt. Einnig býr kennarinn við góðar starfsaðstæður. Kennararar njóta mikillar virðingar í finnsku samfélagi og kennarastarfið er eftirsótt. Í námi er lögð áhersla á að börnin læri að vinna saman fremur en að vera í samkeppni. Þeim er kennt að vinna sjálfstætt og skapandi fremur en að kenna þeim staðla. Síðast en ekki síst er gerð rík krafa um að börnum sé aðeins kennt af faglærðum kennurum.

Hæðir pýramýdans
Þegar menntamál þjóðar eru í lagi þá verður grunnurinn traustur og eftirleikurinn auðveldur. Með traustum grunni er vel hægt að byggja ofan á hann margar hæðir verðmætasköpunar. Því fleiri hæðir verðmætasköpunar sem samfélag byggir þeim mun fallegri og betri verður efsta hæðin þar sem velferðferðin býr fyrir alla samfélagsþegna. Ef við lögum ekki grunninn þá munu hæðirnar hrynja.

Þessa finnsku leið vill Framsóknarflokkurinn í Reykjavík fara til þess að framtíðin verði góð og gjöful fyrir okkur öll.

Ingvar Mar Jónsson

Höfundur er oddviti Framsóknarflokksins í borgarstjórnarkosningum 2018.

Greinin birtist á visir.is 17. mars 2018.

Categories
Greinar

Styttri vinnuvika hjá Akraneskaupsstað?

Deila grein

27/03/2018

Styttri vinnuvika hjá Akraneskaupsstað?

Ingibjörg Pálmadóttir bæjarfulltrúi ,,Frjálsra með Framsókn“ lagði fram tillögu um styttri vinnuviku og/eða sveigjanlegan vinnutíma. Tillöguna lagði hún fram á bæjarstjórnarfundi, þann 13. mars síðastliðinn. Tillagan fjallar um að fela sviðsstjórum Akraneskaupsstaðar að leita leiða og koma með tillögur til að stytta fjölda vinnustunda starfsmanna Akraneskaupsstaðar og/eða auka möguleikann á sveigjanlegri vinnutíma. Á fundinum var ákveðið að vísa tillögu Ingibjargar til bæjarráðs.

Tillagan var tekin fyrir í bæjarráði, þann 15. mars s.l. og þar var ákveðið að bæjarstjóri myndi afla upplýsinga um fyrirliggjandi tilraunaverkefni hjá Reykjavíkurborg. Tilraunaverkefnið er unnið í samvinnu við heildarsamtök launþega. Það verkefni er sambærilegt því sem tillaga Ingibjargar fjallar um.

Markmið tillögunnar er að auka starfsánægju, bæta lífsgæði og fækka veikindadögum. Þekkt er að mikið og stöðugt álag veikir almennt ónæmiskerfi líkamans og mótstöðu gegn líkamlegum sem andlegum veikindum.

Margar rannsóknir sýna að þar sem vinnutími er styttur, án þess að til launaskerðingar komi, bæti líðan starfsmanna og um leið frammistöðu. Það má því segja að hagur beggja, bæði atvinnurekanda og starfsmanna, sé augljós.

Í þessu samhengi má nefna að leikskólinn Hof í Reykjavík hefur tekið þátt í tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar um styttri vinnuviku. Á málþingi sem haldið var fyrir stuttu síðan kom fram að starfsfólk leikskólans var mjög ánægt með verkefnið og veikindadögum starfsfólks fækkaði úr 7,6% niður í 4,3%. Auk þessa var starfsánægjan meiri og starfsfólk átti fleiri gæðastundir með fjölskyldu sinni. Á sama málþingi fjallaði stjórnarformaður Hugsmiðjunnar um verkefni fyrirtækisins um styttri vinnudag. Niðurstöðurnar eru þær að framleiðni starfsmanna hefur aukist um 23%, veikindadögum hefur fækkað um 44% og starfsánægja allra starfsmanna hefur aukist.

Ég fagna því að bæjarfulltrúar Akraneskaupsstaðar hafi tekið vel í tillögu Ingibjargar og falið bæjarstjóra að afla upplýsinga um tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar. Ef að niðurstaða þeirrar skoðunar leiðir til sömu niðurstöðu og raktar eru í þessari grein þá er mikilvægt að bregðast við. Það væri einn liður í því að gera Skagann okkar að enn öflugri fjölskyldubæ.

Elsa Lára Arnardóttir 

Höfundur er oddviti Framsóknar og frjálsra á Akranesi.

Greinin birtist á skessuhorn.is 27. mars 2018.

Categories
Greinar

Afnemum 25 ára „regluna“

Deila grein

22/03/2018

Afnemum 25 ára „regluna“

Ég vil afnema hina svo kölluðu 25 ára ,,reglu‘‘ við innritun nemenda í framhaldsskóla. Frá árinu 2012 hefur framhaldsskólum verið heimilt að forgangsraða umsóknum um skólavist eftir tiltekinni flokkun á umsækjendum. Einn liður í reglugerðinni sem liggur til grundvallar kveður á um að umsækjendum 25 ára og eldri, og njóta ekki forgangs af öðrum ástæðum, er raðað næstsíðast við flokkun umsókna. Margir túlkuðu þetta sem svo að framhaldsskólar landsins séu lokaðir fólki eldra en 25 ára sem hefur áhuga á bóknámi.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu hafa ekki borist umkvartanir vegna synjunar um skólavist sökum aldurs og líkur á að það reyni á slíkt eru hverfandi. Sérstaklega í ljósi þess að framlög til framhaldsskólastigsins voru aukin um 1.290 milljónir milli 2017 og 2018 og í ofanálag eru framlög á nemanda hærri í kjölfar styttingar náms til stúdentsprófs, en framhaldsskólarnir halda þeim fjármunum sem sparast vegna styttingarinnar. Ég er þeirrar skoðunar að einfalda eigi regluverk ef ekki er þörf fyrir það. Þessi aðgerð er skref í þá átt.

Nú eru drög að breytingum á fyrrgreindri reglugerð komin í opið samráð á vef samráðsgáttarinnar. Öllum er frjálst að senda inn umsögn eða ábendingar um drögin í gegnum samráðsgáttina en markmið hennar er að auka gagnsæi og möguleika almennings og hagsmunaaðila á þátttöku í stefnumótun, reglusetningu og ákvarðanatöku opinberra aðila.

Þess má geta að umsækjendum 25 ára og eldri bjóðast einnig fjölmörg önnur námsúrræði en nám í framhaldsskóla. Þar er helst að geta framhaldsfræðslu, sem boðin er um allt land og lögð hefur verið áhersla á að efla og styrkja með auknum fjárframlögum á síðustu árum. Þá geta nemendur á þessum aldri sótt aðfaranám í staðnámi eða fjarnámi.

Við lofuðum stórsókn í menntamálum og við ætlum að standa við það. Það eiga því allir að komast að í framhaldsskólunum sem sækja um, uppfylli þeir þau inntökuskilyrði sem skólarnir setja hverju sinni. Það að vera yngri en 25 ára er ekki inntökuskilyrði.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra

Greinin birtist í Fréttablaðinu 22. mars 2018.

Categories
Greinar

Ríflegur samgöngustyrkur til háskólanema

Deila grein

20/03/2018

Ríflegur samgöngustyrkur til háskólanema

Fleiri farþega í Strætó og aukin hlutdeild vistvænna ferðamáta er augsýnilega hagkvæmasta úrræðið til að létta á vaxandi þrýstingi á gatnakerfi borgarinnar. Vandinn er bara að koma einmitt því í kring, á þann hátt að hafi hámarks áhrif með sem minnstum tilkostnaði.

Frítt í Strætó
Framboð Framsóknar í Reykjavík hefur talað fyrir því að gerð verði árs tilraun með að hafa frítt í Strætó sem nokkurs konar markaðsátak. Við viljum breyta ferðavenjum fólks og kynna þar sérstaklega til sögunnar Strætó. Stór hópur fólks á einkabíl og hefur ekki í hyggju að losa sig við hann. Ef hins vegar væri hægt að fá þennan stóra hóp til þess að nýta annan farskjóta en einkabílinn í hluta af þeim ferðum sem farnar eru, myndi það skipta okkur öll máli. Að bjóða fríar „tilraunaferðir“ gæti verið raunhæft fyrsta skref í átt að breyttri ferðahegðun.

Samgöngustyrkur
Við í Framsókn höfum jafnframt áhuga á öðru verkefni sem minna hefur verið kynnt. Þeir sem hafa átt leið um miðborgina síðustu misseri hafa væntanlega séð bílabreiðurnar sem umlykja háskólana við Vatnsmýrina. Þarna er hópur fólks á ferðinni á hverjum degi, flestir einir í bíl á leið um verstu punkta borgarinnar umferðarlega séð.

Með það að leiðarljósi að fækka bifreiðum á götunum viljum við bjóða reykvískum háskólanemum ríflegan samgöngustyrk.

Að borga háskólanemum fyrir það að nota vistvænan ferðamáta gæti verið hagkvæm leið til að létta á gatnakerfinu. Að greiða t.d. 5000 háskólanemum 20 þúsund kr. á mánuði í 9 mánuði á ári myndi kosta 900 milljónir á ári. Þessi upphæð kæmi að hluta til til baka inn í Strætó og myndi styrkja rekstur hans. Útfæra mætti þetta t.d. á þann hátt að sett væru upp aðgangsstýrð hlið við bílastæði skólanna, þeir sem þiggja samgöngustyrk fái ekki samtímis aðgang að bílastæðum við skólann. Ganga mætti enn lengra þannig að þeir sem fái aðgang þyrftu að greiða fyrir hann, sem kæmi að hluta til móts við kostnað vegna samgöngustyrks hinna.

Mesti hagnaður þessarar hugmyndar felst í því að hver og einn styrkþegi semur sig frá því að nýta einkabílinn á leið til og frá skóla. Það munar um minna, allt að 10 þúsund ferðir á dag um helstu álagspunkta gatnakerfisins.

Bílastæðalóðir
Hægt er að fara með þessari hugmynd lengra og spá í hvað hægt væri að gera við allt það landflæmi við háskólana sem fer undir bílastæði sem þjóna eiga 5000 nemendum. Segjum 2500 bílastæði, 12,5 m2 hvert. Það gerir rúma 30.000 m2 að grunnfleti. Við gætum hugsað okkur að reist yrðu í þeirra stað þriggja hæða hús, en það væri þá 90.000m2 byggingarmagn. Nota mætti slíkt byggingarmagn til að reisa allt að 2000 stúdentaíbúðir á besta stað fyrir háskólanema, sem þá í framhaldinu þyrftu ekki að aka um götur borgarinnar til að komast í skólann.

Snædís Karlsdóttir, skipar 2. sæti á lista Framsóknar fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.

Greinin birtist á kjarninn.is 20. mars 2018.

Categories
Greinar

Hagsmunir nemenda hafðir að leiðarljósi

Deila grein

19/03/2018

Hagsmunir nemenda hafðir að leiðarljósi

Nemendum í 9. bekk gefst kostur á að þreyta að nýju könnunarpróf í ensku og íslensku en margir þeirra tóku próf við óviðunandi aðstæður fyrr í mánuðinum. Þátttaka í könnunarprófunum verður valkvæð en þeir nemendur sem luku prófunum fá afhentar niðurstöður úr þeim. Öllum býðst svo að þreyta sambærileg könnunarpróf að nýju í vor eða haust enda er það lögbundin skylda menntamálayfirvalda að bjóða nemendum mat á námsstöðu sinni.

En þýðir þetta endalok rafrænna prófa? Það kom ótvírætt fram á samráðsfundi í liðinni viku með fulltrúum frá nemendum, Skólastjórafélagi Íslands, Félagi grunnskólakennara, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, félagi fræðslustjóra, samtökunum Heimili og skóli, umboðsmanni barna, Menntamálastofnun og sérfræðingahópi um framkvæmd samræmdra könnunarprófa að rafrænar lausnir í skólastarfi séu komnar til að vera þar sem þær bjóða upp á marga kosti til að þróa skólastarf. Því er ég sammála.

Það er hins vegar eðlilegt í kjölfar mislukkaðrar framkvæmdar líkt og um daginn, að staldra við og spyrja hvað betur megi fara og hvað þarf að laga í stóra samhenginu. Það er til dæmis ljóst að skiptar skoðanir eru um samræmd könnunarpróf, markmið þeirra og tilgang.

Það er því sjálfsagt að ræða um hugmyndafræðina sem liggur að baki lagaskyldunni um samræmd próf, þótt hún tengist ekki framkvæmd prófanna nú. Á fyrrnefndum samráðsfundi var ákveðið að setja á laggirnar vinnuhóp hagsmunaaðila, sem geri tillögu að framtíðarstefnu um fyrirkomulag samræmdra könnunarprófa. Leitað verður eftir tilnefningum í hópinn í vikunni og óskað verður eftir tillögum fyrir árslok.

Við eigum á hverjum tíma að rýna grunnskólalögin og raunar skólakerfið allt, og velta því fyrir okkur hvernig við búum nemendur sem best undir framtíðina. Samfélagið er að breytast og það er fullkomlega eðlilegt að skólakerfið breytist samhliða. Það er von mín að aðkoma allra ofangreindra aðila verði til þess að fundin verði farsæl lausn sem mun gera menntakerfið betra til framtíðar.
Það er ríkur vilji í samfélagi okkar að bæta menntakerfið og það er löng hefð fyrir því að leggja áherslu á gildi læsis og menntunar á Íslandi. Tækifærið til að efla umgjörð menntakerfisins er núna, nýtum það til framfara og höfum að leiðarljósi að menntun er fyrir alla.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra

Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. mars 2018.

Categories
Greinar

Samstaða um öfluga byggðastefnu

Deila grein

15/03/2018

Samstaða um öfluga byggðastefnu

Þrátt fyrir að lengi hafi ríkt mikil samstaða um mikilvægi öflugrar byggðastefnu og skilning á því að mikil tækifæri felist í því að landið allt sé í blómlegri byggð hefur örlað á ákveðinni gjá í umræðu um byggðamál, annars vegar á landsbyggðinni og hins vegar á höfuðborgarsvæðinu. Mikilvægi þess að halda landinu öllu í byggð verður seint ofmetið. Til að svo verði þurfa stjórnvöld að tryggja að landsmenn allir hafi aðgang að nauðsynlegri grunnþjónustu, atvinnutækifærum og lífskjörum, óháð efnahag og búsetu. Með öðrum orðum að lífsgæði séu þau sömu um land allt.

Landið allt í blómlegri byggð

Mikilvægt er að stjórnvöld marki sér stefnu og áætlun um það hvernig við ætlum að ná þessum markmiðum. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er víða lögð áhersla á að styrkja byggð og búsetu um allt land. Þegar er hafin vinna við gerð þjónustukorts í samstarfi við sveitarfélögin en því er ætlað að sýna aðgengi landsmanna að allri almennri þjónustu hins opinbera og einkaaðila. Með slíkt tæki í höndunum verður hægt að bæta yfirsýn og þar með skapa grundvöll fyrir aðgerðir til að tryggja íbúum þjónustu og jafna kostnað.

Við ætlum enn fremur að styrkja sóknaráætlanir landshluta. Með því móti erum við að auka enn frekar áhrif heimamanna á þróun byggðamála í hverjum landshluta, eftir atvikum í samstarfi við stjórnvöld og atvinnulíf. Við viljum nýta námslánakerfið og önnur kerfi sem hvata fyrir fólk til að setjast að í dreifðum byggðum. Með því mætti stuðla að aukinni sérfræðiþekkingu vítt og breitt um landið, fjölga framhaldsmenntuðu fólki í dreifðum byggðum og auka fjölbreytni. Menntamálaráðherra hefur sagt að við endurskoðun laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna verði horft til námsstyrkjakerfa að norrænni fyrirmynd. Að endingu er vert að nefna þau áform ríkisstjórnarinnar að ráðuneytum og stofnunum verði falið að skilgreina störf og auglýsa þau án staðsetningar eins og kostur er. Ég tel að það sé raunhæft markmið að 10% allra auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum þeirra verði án staðsetningar árið 2024. Að því verður unnið ötullega á kjörtímabilinu.

Byggðaáætlun – áskoranir fram undan

Það er mikil ánægja að greina frá því að tillaga að nýrri þingsályktun um stefnumarkandi byggðaáætlun fyrir árin 2018 til 2024 er nú til kynningar í samráðsgátt Stjórnarráðsins. Að mínu mati eru helstu áskoranir á sviði byggðamála nú um stundir að takast á við fækkun íbúa á einstökum svæðum, einhæft atvinnulíf og aðgengi að þjónustu. Þá er það einnig mikil áskorun að tryggja greiðar samgöngur um allt land. Í því sambandi má nefna að stefnt er að því að gera innanlandsflugið að raunhæfari kosti fyrir íbúa landsbyggðarinnar.

Í áætluninni eru 50 aðgerðir sem ætlað er að ná markmiðum ríkisstjórnarinnar í byggðamálum. Áfram verður unnið að því að styrkja verkefnið brothættar byggðir, sem hefur reynst vel á þeim stöðum sem byggðaþróunin hefur verið afar óhagstæð. Þegar er búið að útskrifa tvö byggðarlög en átta byggðarlög eru nú þátttakendur í því verkefni. Þá verður áfram stutt við ljósleiðaravæðingu landsins og tryggt að landfræðilega einangruð og fámenn byggðarlög fái einnig háhraðanettengingu á sama tíma og önnur svæði. Ég vil hvetja landsmenn til að kynna sér þessa metnaðarfullu áætlun og koma umsögnum á framfæri við ráðuneytið, en ég mun tryggja markvissa eftirfylgni með framkvæmd byggðaáætlunar.

Auk beinna aðgerða byggðaáætlunar er mikilvægt að hugað sé að samþættingu byggðamála í öllum málaflokkum, því byggðamál eru í raun viðfangsefni allra ráðuneyta með einhverjum hætti. Því þarf að samhæfa byggðasjónarmið sem mest við alla málaflokka hvort heldur er hjá ríki eða sveitarfélögum. Við þurfum að setja upp byggðagleraugun í hvert skipti sem við leggjum af stað með áætlanir og áform af hverju tagi. Í samgönguáætlun, sem lögð verður fyrir Alþingi á haustmánuðum, verður sérstaklega gerð grein fyrir því hvernig áætlunin styður við stefnu stjórnvalda í byggðamálum.

Til framtíðar

Ég er bjartsýnn fyrir hönd okkar Íslendinga. Við eigum mörg tækifæri og stöndum vel í alþjóðlegum samanburði á mörgum sviðum – en við getum einnig gert betur og ekki síst með því að tryggja að allir landsmenn hafi jöfn tækifæri. Við gerum það með því að hrinda framsækinni byggðaáætlun í framkvæmd.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar

Greinin birtist í Fréttablaðinu 15. mars 2018.

Categories
Greinar

Framsókn til framtíðar

Deila grein

13/03/2018

Framsókn til framtíðar

Fjölmennu og afar vel heppnuðu flokksþingi Framsóknar lauk í gær. Yfirskrift þess var Framsókn til framtíðar.

Við höfum í hendi okkar hvernig við vinnum úr tækifærum framtíðarinnar og hvernig sú saga verður skrifuð. Á kjörtímabilinu verður unnið að því að byggja upp gott og samkeppnishæft samfélag. Engum vafa er undirorpið að ríkuleg verðmæti felast í því að landið allt sé í blómlegri byggð. Við eigum að vera í fremstu röð hvað jöfnuð snertir og skapa hvata til að laða ungt vel menntað fólk til þess að setjast að á landsbyggðinni.

Sýn Framsóknarflokksins er að íbúar landsins hafi jöfn tækifæri hvar sem þeir búa á landinu. Sem dæmi má nefna að íbúar á Raufarhöfn eða Þingeyri eiga rétt á að hafa sama aðgengi að grunnþjónustu og Reykvíkingar.

Jöfn tækifæri

Samfélagið er á fleygiferð. Framundan er tæknibylting sem breytir því hvernig við lifum og störfum. Störfin munu breytast og þau munu færast til. Tæknin tengir saman byggðir og Ísland við umheiminn. Ljósleiðarinn og verkefnið Ísland ljóstengt er gott dæmi um framsækna stefnu okkar framsóknarmanna.

Heilbrigðiskerfið þarf að standast samanburð við það sem best gerist í heiminum. Þjónustan á að vera sem mest í nærsamfélaginu, en jafnframt þarf að vera gott aðgengi að henni á höfuðborgarsvæðinu.

Aldrei hefur verið jafn mikil þörf á að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu. Aldrei hefur verið jafn mikil þörf á að spyrna við fæti á svæðum sem búa við fólksfækkun og einhæfu atvinnulífi. Um allt land er verk að vinna.

Menntamál

Á aldarafmæli Framsóknarflokksins, í desember 2016, var sem fyrr horft til framtíðar og settur á fót menntastefnuhópur til að móta nýja stefnu flokksins í menntamálum. Stefnan var síðan kynnt á nýliðnu flokksþingi.

Því miður eru mennta- og skólamál víða í ólagi og starfsumhverfi skólanna þarf að bæta. Skólinn á að vera eftirsóttur vinnustaður. Það er skylda okkar að efla skólastarfið á öllum stigum. Kennarar verja margir hverjir meiri tíma með börnunum en foreldrar. Þeir hafa áhrif á mannauð framtíðarinnar. Okkur ber skylda til þess að styðja betur við kennarana, en hér þurfa ríki og sveitarfélög að koma að.

Við megum ekki missa fleiri störf úr landi. Það þarf að efla nýsköpun og þróun á öllum skólastigum enda er menntun kjarninn í nýsköpun til framtíðar. Við erum í samkeppni við aðrar þjóðir um störfin okkar. Hvernig okkur tekst til mun ráða miklu um framtíðarlífskjör á Íslandi.

Samgöngur

Við vitum líka að vegakerfið er grundvöllurinn að búsetu, atvinnulífi um land allt. Samgöngur eru hreyfiafl samfélagsins hvernig sem á það er litið. Við viljum og þurfum að komast leiðar okkar. Sum okkar eru einnig háð því að samgöngur á sjó eru skilvirkar. Frá og með deginum í dag verður sama fargjald og er til og frá Landeyjarhöfn, þó siglt sé í Þorlákshöfn. Það er byggðastefna í verki.

Vegakerfið hefur setið á hakanum og krefst risavaxinna fjármuna. Í sáttmála ríkisstjórnarinnar segir að hraða eigi uppbyggingu í vegamálum. Vegakerfið var ekki byggt fyrir þá umferð sem við horfum nú upp á. Við höfum ekki undan við að endurbyggja þjóðvegina og koma þeim í það horf sem nútíma þjóðfélag krefst. Ástæðurnar eru öllum kunnar: Of lág fjárframlög til vegamála, stóraukin umferð og álag á vegakerfið.

Verkefnið er stórt og við ætlum í uppbygginu, enda veitir ekki af.

Við ætlum einnig að gera innanlandsflugið að raunhæfari kosti fyrir íbúa í dreifðum byggðum og tengja byggðir landsins saman með almenningssamgöngum. Aukin notkun mun stuðla að fjölgun ferðamanna um landið, allt árið um kring.

Húsnæði

Framsóknarflokkurinn hefur áorkað miklu í húsnæðismálum. Lög um fyrstu fasteign skiluðu góðum árangri fyrir fyrstu kaupendur. Húsnæðissamvinnufélög fengu betri umgjörð. En við viljum gera betur og halda áfram að styðja við ungt fólk. Við höfum horft til annarra þjóða í þeim efnum. Og hvernig við getum lært af þeim sem hafa glímt við sams konar vanda og fundið á honum lausnir. Staðan er alvarleg, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu heldur einnig vítt og breitt um landið.

Ísland í fremstu röð

Fyrir kosningar lögðum við áherslu á að bankarnir nýttu strax það svigrúm sem þeir hafa til að greiða arð í ríkissjóð. Við stöndum við það loforð. Við ætlum að nýta fjármagn frá bönkunum til að byggja upp vegakerfið. Innviðir er slagæðar samfélagsins. Án þeirra drögumst við aftur úr öðrum þjóðum og samkeppnishæfni landsins minnar. Framsóknarflokkurinn ætlar að koma Íslandi í fremstu röð. Framsókn til framtíðar.

Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist í Fréttablaðinu 12. mars 2018 

Categories
Greinar

Smálán – ólán fyrir ungt fólk og efnalítið

Deila grein

27/02/2018

Smálán – ólán fyrir ungt fólk og efnalítið

Taka svokallaðra smálána er ört vaxandi liður í greiðsluerfiðleikum ungs fólks. Þessi tegund lána virðist hrein viðbót við aðrar tegundir skammtímaskulda. Árið 2017 voru um 70% fólks 18 – 29 ára sem sóttu um ráðgjöf og greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara með smálán. Þetta kemur fram í greiningu umboðsmanns sem ég óskaði eftir. Markaðssetningu smálánafyrirtækjanna virðist beint að ungu fólki sem á erfitt með að fóta sig á þessum lánamarkaði og lendir í greiðsluvanda. Þetta er veruleiki sem verður að bregðast við áður en staðan versnar enn frekar.

Ungt fólk leitar í vaxandi mæli til umboðsmanns skuldara

Síðastliðin tvö ár hefur þeim sem leita úrræða hjá umboðsmanni skuldara vegna greiðsluerfiðleika fjölgað um tæp 25% og voru árið 2017 tæplega 1.440. Mest hefur fjölgað í aldurshópnum 18 – 29 ára og hlutfall smálána af heildarskuldum þessa aldurshóps hefur aukist umtalsvert. Fjárhæðirnar sem þessi aldurshópur skuldar vegna smálána fara einnig hækkandi. Árið 2016 nam fjárhæð smálána að jafnaði um 400.000 kr. hjá umsækjendum um greiðsluaðlögun en var tæpar 600.000 kr. árið 2017.

Mjög hefur dregið úr vægi fasteignalána sl. tvö ár hjá þeim sem sækja um úrræði hjá umboðsmanni. Á sama tíma hefur hlutfall umsækjenda með smálán farið úr 13% í 43%.

Markhópur í veikri stöðu

Í greiningu umboðsmanns kemur fram að meirihluti þess unga fólks (18 – 29 ára) sem sótti um greiðsluaðlögun á liðnu ári bjó í leiguhúsnæði, þar af allmargir í félagslegu leiguhúsnæði. Aðeins 2,8% bjuggu í eigin fasteign og margir bjuggu í foreldrahúsum. Þorri hópsins hafði ekki lokið menntun umfram grunnskólapróf, fæstir voru í skóla, aðeins um 34% hópsins voru í vinnu og rúmur fjórðungur ungmennanna voru örorkulífeyrisþegar.

Umboðsmaður bendir á að markaðssetning smálánafyrirtækjanna beinist að ungu fólki og hópurinn sé í veikri stöðu. Einfalt er að sækja um lánin á vefnum, aðeins þarf að gefa upplýsingar um kennitölu og bankareikning og einu skilyrðin fyrir lánveitingu er að vera ekki á vanskilaskrá.

Það verður að segjast sem er að starfsemi smálánafyrirtækja þrífst á gráu svæði, lagaramminn er ófullnægjandi og hún er ekki eftirlitsskyld á sama hátt og fjármálafyrirtæki.

Aðkallandi að bregðast við

Það er orðið aðkallandi að bregðast við til að sporna við því að ungt fólk í hópi þeirra tekjulægstu

lendi í skuldavanda vegna lána sem það tekur í fljótræði án þess að gera sér grein fyrir kostnaðinum og sjá fyrir afleiðingarnar. Við þurfum að beina sjónum að starfsemi smálánafyrirtækjanna varðandi umgjörð og eftirlit og auka þarf fræðslu um fjármál svo ungt fólk verði betur í stakk búið til að taka fjárhagslegar ákvarðanir.

Á fundi ríkisstjórnar í gær kynnti ég greiningu umboðsmanns sem dregur fram þessa alvarlegu stöðu. Aðgerða er þörf og mikilvægt að taka höndum saman, þvert á ráðuneyti og málaflokka og sem fyrst til að koma í veg fyrir að staðan versni enn frekar.

 

Ásmundur Einar Daðason

Félags – og jafnréttismálaráðherra

Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. febrúar 2018