Categories
Greinar

Mikið traust til kennara og vellíðan nemenda

Deila grein

21/01/2019

Mikið traust til kennara og vellíðan nemenda

Rann­sókna­stofa í tóm­stunda­fræðum birti á dög­un­um niður­stöður rann­sókn­ar­inn­ar Heilsa og lífs­kjör skóla­nema sem unn­in er að til­stuðlan Alþjóðaheil­brigðis­stofn­un­ar­inn­ar (e. WHO). Niður­stöðurn­ar byggj­ast á svör­um rúm­lega 7.000 nem­enda á land­inu öllu sem þátt tóku í rann­sókn­inni í fyrra. Rann­sókn­in er á fjög­urra ára fresti lögð fyr­ir nem­end­ur í 6., 8. og 10. bekk. Þar koma fram marg­ar áhuga­verðar niður­stöður en mig lang­ar að nefna hér þrennt sem vek­ur sér­staka at­hygli mína.

Í fyrsta lagi svara um 90% nem­enda að þeim líði þokka­lega eða mjög vel í skól­an­um. Um 10% nem­enda segja að sér líði ekki vel en 2,7-4,2% nem­enda líður mjög illa sam­kvæmt rann­sókn­inni. Þessi niðurstaða er í sam­ræmi við aðrar rann­sókn­ir og það er mjög ánægju­legt hversu háu hlut­falli nem­enda líður vel í skól­an­um sín­um. Hins veg­ar þarf að huga sér­stak­lega að þeim nem­end­um sem ekki líður vel og gera brag­ar­bót þar á.

Í öðru lagi telja flest­ir nem­end­ur að kenn­ur­um sé annt um þá eða um 81% nem­enda í 6. bekk og 65% í 10. bekk, sem er já­kvæð niðurstaða og rím­ar vel við al­menna vellíðan nem­enda í skól­um lands­ins. Lang­flest­ir treysta kenn­ara sín­um vel og virðist það eiga við nem­end­ur í öll­um lands­hlut­um. Þetta eru afar já­kvæð tíðindi fyr­ir kenn­ara lands­ins.

Í þriðja lagi telja um 70% nem­enda í öll­um ár­göng­um sig sjald­an eða aldrei finna fyr­ir dep­urð. Hins veg­ar ber að skoða þess­ar niður­stöður gaum­gæfi­lega því mark­tæk aukn­ing er milli fyr­ir­lagna í 6. og 10. bekk þar sem 10-15% nem­enda í 6. bekk segj­ast upp­lifa dep­urð einu sinni eða oft­ar í viku en um 20% nem­enda í 10. bekk grunn­skóla. Séu niður­stöður skoðaðar eft­ir kyni nem­enda kem­ur í ljós að stelp­ur eru mun lík­legri til að finna fyr­ir dep­urð á hverj­um degi og ástandið versn­ar eft­ir því sem ung­ling­ar eld­ast. Þess­ar niður­stöður þarf að taka al­var­lega, skoða hvað veld­ur þess­ari þróun og hvernig við sem sam­fé­lag get­um unnið gegn henni.

Meg­in­styrk­leiki ís­lenska mennta­kerf­is­ins er að nem­end­um líður vel og mikið traust rík­ir á milli kenn­ara og nem­enda. Í þessu fel­ast mik­il sókn­ar­færi sem hægt er að byggja á og nýta til að efla mennt­un í land­inu enn frek­ar. Það er sam­vinnu­verk­efni skóla­sam­fé­lags­ins, for­eldra, sveit­ar­fé­laga og at­vinnu­lífs. Séu styrk­leik­arn­ir nýtt­ir sem skyldi og tek­ist á við áskor­an­ir á rétt­an hátt eru okk­ur all­ir veg­ir fær­ir til þess að byggja upp framúrsk­ar­andi mennta­kerfi til framtíðar.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. janúar 2019.