Categories
Greinar

Byggjum upp traust

Deila grein

15/07/2017

Byggjum upp traust

Margt hefur áunnist á undanförnum árum er varðar endurreisn eftir efnahagsáfallið haustið 2008. Þeirri vegferð er þó ekki lokið þar sem íslenskt samfélag á nokkuð í land með að endurvekja traust til fulls. Þar er sérstaklega horft til fjármálakerfisins en atburðir liðinna mánaða gefa til kynna svo ekki verður um villst að þar er enn verk að vinna þó margt hafi áunnist. Regluverk bankakerfisins hefur verið stórbætt frá hruni til að draga úr áhættu. Eftirlit þarf að vera skilvirkt og grípa inn í þegar þörf krefur. Tiltrú almennings er forsenda þess að traust sé endurvakið, að almenningur upplifi að gripið sé inn í ef hætta steðjar að. Vísbendingar eru um að sú tiltrú sé ekki til staðar auk þess sem stjórnvöld skortir sýn um framtíð fjármálakerfisins. Þess vegna þarf að bregðast við nú þegar komið er að því að selja banka til einkafjárfesta. Með því að sameina eftirlit með bönkunum á einum stað má auka skilvirkni og traust.

Efnahagsleg endurreisn hefur gengið vel
Efnahagsleg endurreisn Íslands hefur gengið vonum framar. Hagvöxtur er kröftugur, fjölmörg störf hafa orðið til, skuldir heimila og ríkissjóðs lækkað og erlendar eignir eru nú meiri en erlendar skuldir í fyrsta sinn síðan mælingar hófust. Að sama skapi hafa átt sér stað miklar breytingar á íslensku fjármálakerfi frá því að bankakerfið hrundi. Regluverk hefur verið aukið í þeim tilgangi að draga úr áhættu kerfisins og stofnanaumgjörð hefur verið efld. Ríkari kröfur eru nú gerðar til fjármálafyrirtækja bæði hvað varðar fjárhagslega stöðu sem og stjórnarhætti. Bankakerfið hefur minnkað og er nú brot af því sem áður var eða rúm 150% af landsframleiðslu. Bankarnir standa mun betur en áður enda með ríflegt eigið fé, vanskil hafa minnkað verulega og kjör á erlendri markaðsfjármögnun hafa batnað mikið.

Efasemdir í tengslum við bankasölu
Þrátt fyrir þessa jákvæðu þróun þá skortir enn á traust og eru nokkur nýleg dæmi um það. Eitt slíkt er nýleg sala á stórum hlut í Arion banka til erlendra vogunarsjóða.Margir hafa goldið varhug við þessari þróun og má nefna a.m.k. þrjár ástæður þess. Í fyrsta lagi þá er ekki vitað hverjir eiga þessa sjóði. Gagnsætt eignarhald er forsenda þess að skapa traust og tiltrú á íslensku bankakerfi. Í öðru lagi má nefna vafasama fortíð eins sjóðanna en hann tengist mútumáli í Afríku. Það sýnir ágætlega hversu langt slíkir aðilar ganga til að verja sína hagsmuni. Í þriðja lagi er alls kostar óljóst hverjar fyrirætlanir nýrra eigenda eru. Eins og fyrr segir eru íslensku bankarnir með ríflegt eigið fé og því hugsanlegt að nýir eigendur vilji greiða sér myndarlegan arð úr Arion. Eins er ekki hægt að útiloka það að einstaka eignir Arion, sbr. dótturfélög bankans, verði seld í þeim tilgangi að skila eigendum bankans fjármunum. Kjarni málsins er sá að ef eftirlitið virkar sem skyldi þá geta eigendur bankanna ekki gengið of nærri þeim og þar með varpað of mikilli áhættu á samfélagið.

Viðbrögð stjórnvalda vekja ekki traust
Áhyggjur almennings í tengslum við þetta mál benda til þess að tiltrú skorti á eftirlit, að eigendur banka geti farið með þá eign sína að vild án þess að gripið sé inn í og að almenningur sitji eftir með reikninginn ef illa fer. Ef ekki tekst að auka traust og tiltrú á fjármálakerfið, þá mun næsti áfangi í endurreisninni misheppnast. Á þeim mánuðum sem liðnir eru frá því málið kom inn á borð stjórnvalda hefur málið lítið skýrst. Fjármálaeftirlitið hefur ekki svarað lykilspurningum í málinu eins og hvort einhver hinna nýju hluthafa í Arion banka fari með virkan eignarhlut, beint eða óbeint. Margítrekað hefur efnahags- og viðskiptanefnd óskað eftir skýrari rökstuðningi en hann hefur ekki fengist þrátt fyrir fundi og skrifleg samskipti við Fjármálaeftirlitið. Þrátt fyrir skort á upplýsingum þegar málið var kynnt opinberlega taldi fjármála- og efnahagsráðherra ekki eftir sér að fagna viðskiptunum og segja að nú væru vogunarsjóðirnir að veðja með Íslandi. Þessi framganga er ekki til að byggja upp traust á kerfinu.

Styrkja þarf fjármálaeftirlit til að byggja upp traust
Fyrir hina alþjóðlegu fjármálakreppu sem hófst árið 2008 þá var í mörgum ríkjum starfsemi fjármálaeftirlits og seðlabanka aðskilin, m.a. vegna þess að skynsamlegt þótt að aðskilja ætti eftirlit með öryggi innstæðueigenda og fjármálastöðugleika. Bankaeftirlitið var aðskilið Seðlabanka Íslands árið 1999 og Fjármálaeftirlitið stofnað. Í fjármálakreppunni komu fram miklir gallar á þessari hugmyndafræði sem gekk út á að skilja að peningalegan og fjármálalegan stöðugleika, þar sem heildarsýn á áhættuþætti fjármálakerfisins skorti hjá seðlabankanum sem lánveitanda til þrautavara. Fram hafa komið sterk rök hjá sérfræðingum á þessu sviði í þá veru að bankaeftirlit eigi heima hjá seðlabankanum. Nefnt er þar að skipulag fjármálaeftirlits, þ.e. aðskilnaður Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins, hafi haft þau áhrif að lánveitandi til þrautavara hafi haft ófullnægjandi mynd af fjárhagslegri stöðu bankanna í aðdraganda fjármálahrunsins á Íslandi. Þróunin hefur verið sú hjá þeim ríkjum sem lentu í mestum erfiðleikum í fjármálakreppunni að þau hafa verið að færa seðlabönkum sínum auknar heimildir á sviði þjóðhagsvarúðar og nefna má Holland og Írland. Sum ríki, líkt og Bretland, hafa sameinað eftirlit með fjárhagsstöðu lánastofnana á nýjan leik innan Englandsbanka. Þar í landi er einnig rekin stofnun, FCA, sem annast neytendavernd á fjármálamarkaði og að fjármálafyrirtæki breyti í samræmi við góða viðskiptahætti.

Veigamikil rök hníga í þá átt að sameina fjármálaeftirlit á Íslandi. Í fyrsta lagi mun það auka heildarsýn á helstu áhættuþætti fjármálakerfisins að sameina krafta Fjármálaeftirlits og Seðlabanka Íslands. Í öðru lagi með því að sameina eftirlit með lausafjárstöðu viðskiptabanka og eiginfjárstöðu þeirra, þá verður framkvæmd fjármálaeftirlits skýrari og auðveldara fyrir lánveitanda til þrautavara að bregðast við með skilvirkari hætti. Í þriðja lagi mun takast betur að viðhalda peningalegum og fjármálalegum stöðugleika í hagkerfinu með því að stýritæki þjóðhagsvarúðarstefnu séu hjá einum aðila. Í fjórða lagi þá mun mannauður nýtast betur og upplýsingaskipti verða greiðari með þessu fyrirkomulagi. Þekkingargrunnur sameinaðs eftirlits verður fjölbreyttari og þar af leiðandi meiri slagkraftur. Kallað hefur verið eftir endurskoðun á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og ætti endurskoðunin að horfa til ofangreindra þátta.

Hörð gagnrýni AGS á fjármálaeftirlit
Það er ekki eingöngu almenningur á Íslandi sem óttast að eftirlitið sé ekki nægilega skilvirkt. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn birti nýverið reglubundna skýrslu sína um stöðu og horfur í íslensku efnahagslífi. Meginniðurstöðurnar eru jákvæðar og bent á að Ísland hafi náð miklum árangri eftir fjármálahrunið. Sá árangur hefur verið drifinn áfram af ferðaþjónustu, hagfelldum ytri skilyrðum og síðast en ekki síst skynsamlegri nálgun er varðar úrlausn á fjármálahruninu og eftirmálum þess. Hins vegar er bent á að teikn séu á lofti um ofþenslu hagkerfisins. Ekkert í þessari umsögn kemur á óvart og í samræmi við fyrri álit.

Hörð gagnrýni AGS á fjármálaeftirlit í landinu vekur hins vegar mikla athygli. AGS segir styrkingu fjármálaeftirlits vera forgangsatriði í stefnumótun fyrir fjármálakerfið. Sérstaklega er nefnd sala á hlut í Arion banka og tilgreint að áhættusækni gæti aukist innan kerfisins ef fjármálaeftirlitið sé ekki eflt. Lagt er til að stjórnvöld taki djarfar ákvarðanir og að stofnanauppbyggingin sé endurskoðuð í þeim tilgangi. Annars vegar að fjárhagslegt og rekstrarlegt sjálfstæði Fjármálaeftirlitsins sé aukið frá fjármálaráðuneytinu og hins vegar að eftirlit með bankakerfinu og lausafjárstöðu þess verði flutt aftur til Seðlabanka Íslands. Meginástæða þess er að þá hefur lánveitandi til þrautavara mun betri yfirsýn yfir bankakerfið og verkaskipting verður skýrari og einfaldari.

Auglýst eftir framtíðarsýn um bankakerfið
Bankakerfið þarf að þjóna almenningi og atvinnulífi á hagkvæman hátt. Fjármálakerfið þarf að vera traust og almenningur að bera traust til þess sem og til eftirlits. Áður en lengra er haldið og tilkynnt er um umfangsmikla eignasölu á kerfislega mikilvægum fjármálafyrirtækjum þarf að útfæra nánar hvernig fjármálakerfi hentar okkur best og hvernig megi styrkja umgjörðina enn frekar. Stjórnvöld, sem setja fjármálakerfinu umgjörð auk þess að vera hluthafi í bönkunum þremur, virðast skila auðu þegar kemur að framtíðarskipan fjármálakerfisins. Í byrjun júlímánaðar tók gildi ný eigendastefna ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki. Engin framtíðarsýn fyrir framtíðarskipan á fjármálamarkaði er sett þar fram fyrir utan það að selja skuli eignarhluti í bönkunum. Ríkisstjórnin stefnir að því að ríkið eigi 34-40% eignarhlut í Landsbankanum hf. til langframa. Að öðru leyti er nefnt að 60-66% eignarhlutur í bankanum verði seldur á næstu árum þegar hagfelld og æskileg skilyrði eru fyrir hendi og jafnframt verði stefnt að skráningu á hlutabréfamarkaði.

Ríkisstjórnin stefnir að því að selja allan eignarhlut ríkissjóðs í Íslandsbanka og Arion banka þegar aðstæður leyfa. Engin haldbær rök eru færð fyrir því hvers vegna ríkissjóður hyggst eiga að hámarki 40% í Landsbankanum, en ekki meira eða minna. Ástæða þess einföld. Hún er sú að stjórnvöld skortir sýn í þessu veigamikla máli. Það er verðugt umhugsunarefni að ný eigendastefna hafi tekið gildi án þess að vinna sé hafin við heildarendurskoðun á framtíðarskipan fjármálakerfisins. Svo virðist sem ríkisstjórnin ætli stjórnendum bankanna sjálfra að móta slíka stefnu. Almenningur á Íslandi þarf því að reiða sig á erlenda vogunarsjóði, nýja eigendur Arion banka, til að móta slíka sýn fyrir ríkisstjórnina.

Bregðast þarf við fyrir sölu banka
Til að auka traust og tiltrú á fjármálakerfinu og stofnanaumgjörðinni er nauðsynlegt að ráðast í breytingar og færa eftirlit með fjármálastofnunum undir einn hatt í stað tveggja í dag. Að sama skapi þarf að útfæra framtíðarstefnu um fjármálakerfið áður en ráðist er í frekari sölu á bönkum. Að öðrum kosti mun ekki takast að byggja upp traust í samfélaginu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. júlí 2017.

Categories
Greinar

Listi ráðalausu ríkisstjórnarinnar lengist

Deila grein

12/07/2017

Listi ráðalausu ríkisstjórnarinnar lengist

Ráðherra ferðamála vill fjölga stofnunum við stjórnsýsluna. Skilja má ráðherra á þann veg að ný stofnun sé nauðsynleg til að hægt sé að taka ákvarðanir um takmörkun á aðgengi ferðamanna að viðkvæmum svæðum í náttúru Íslands.

Í stað þess að einhenda sér í að móta stefnu til lengri tíma, tryggja sjálfbærni ferðaþjónustunnar sem byggir á þeirri vitneskju sem við höfum meðal okkar fagfólks, þá er ráðleysið slíkt að aftur eigi að búa til eitthvað nýtt. Er þörf á „lítilli Hafró“, eins og ráðherra kýs að kalla hana? Að mínu mati væri nærtækara að styrkja þann faglega grunn sem nú þegar er fyrir hendi og efla rannsóknir enn frekar innan þeirra stofnana sem sjá um þessi mál, a.m.k. á meðan ekki er til sérstakt ráðuneyti ferðamála.

Flækjustig
Umtalsvert flækjustig er í málaflokknum. Hugmynd ráðherra væri ágæt ef ekki væru nú þegar til stofnanir sem hafa umsjón með þessu verkefni, en Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Ferðamálastofa og Rannsóknarmiðstöð ferðamála sjá um rannsóknir, vöktun, gagnaöflun og ákvarðanatöku með einum eða öðrum hætti.

Ég veit ekki betur en að Umhverfisstofnun styðjist við gögn frá fagfólki og birti rauða og appelsínugula lista yfir svæði, sem eru í hættu vegna átroðnings. Umhverfisstofnun hefur auk þess heimild til að loka og taka gjald fyrir veitta þjónustu á náttúruverndarsvæðum. Skyldi ráðherra umhverfis- og auðlindamála vera samþykkur því sem ferðamálaráðherra boðar?

Ferðamálastofa, sem er á ábyrgð ferðamálaráðherra, fór í umfangsmikla stefnumótunarvinnu síðastliðið haust. Þessi ágæta stofnun starfar eftir metnaðarfullri framtíðarsýn til að tryggja faglega umgjörð og sinnir m.a. gagnaöflun og rannsóknum í ferðaþjónustu, svo hægt sé að taka góðar og réttmætar ákvarðanir. Rannsóknarmiðstöð ferðamála hefur það að markmiði að efla rannsóknir á sviði ferðamála. Að henni standa nokkrir háskólar, Samtök ferðaþjónustunnar og Ferðamálastofa. Við þetta bætist Stjórnstöð ferðamála sem hefur þann tilgang að samhæfa stjórnsýslu ferðaþjónustunnar og halda utan um brýn verkefni.

Er flækjustigið ekki nóg?

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist í Fréttablaðinu 11. júlí 2017

Categories
Greinar

Vanmetin Costco-áhrif?

Deila grein

04/07/2017

Vanmetin Costco-áhrif?

Það var fagnaðarefni þegar samkeppnisumhverfið í smásölu tók stórt stökk fram á við til hins betra með tilkomu Costco, enda láta viðbrögðin ekki á sér standa. Neytendur bera saman verð og gæði á síðum samfélagsmiðlanna og verðvitund þeirra eykst í kjölfarið.
Því setur það óneitanlega að manni ugg að sjá ummæli forstjóra N1 sem hefur ekki miklar áhyggjur af innkomu Costco á eldsneytismarkaðinn. Þar á bæ spá menn því að jafnvægi verði aftur komið á markaðinn áður en langt um líður, þegar nýjabrumið verður runnið af neytendum og allt verður fallið í sama farið aftur, eins og ekkert hafi í skorist.

Er lækkandi vöruverð tímabundinn sumarsmellur sem rennur sitt skeið á enda? Má skilja þessi ummæli sem svo að smásalinn ætli að bregðast neytendum og heimilunum í landinu sem sjá nú fram á lækkandi vöruverð og aukinn kaupmátt samhliða aukinni samkeppni?
Fram hefur komið að álagning verslana og/eða vöruverð er hærra hér á landi en almennt gerist í nágrannalöndum okkar og hefur Samkeppniseftirlitið bent á þá staðreynd. Fákeppni og samþjöppun hafa hamlað heilbrigðri samkeppni og eru neytendur berskjaldaðir gagnvart stærð ráðandi aðila.

Þá er samkeppnismenningin enn að slíta barnsskónum og hugarfar þeirra sem stýra vöruverði snýst öðru fremur um skammtímasjónarmið. Vöruverð hefur t.d. ekki lækkað í takt við styrkingu krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum og er það miður. Enda kom það á daginn að eftir að alþjóðleg samkeppni var orðin staðreynd, tók verslunin skyndilega við sér og fór í róttækar hagræðingaraðgerðir til að mjaka vöruverðinu eilítið niður á við.

Hingað til hafa neytendur haft takmarkað val, á mörgum sviðum, um gæði og úrval. Virk samkeppni skiptir því öllu og er gríðarlega mikilvæg fyrir heimilin í landinu, efnahagslegan vöxt hagkerfisins og ekki síst fyrir verslunina sjálfa. Neytendur hafa val um vöru og verð og eru því virkir þátttakendur í samkeppnisumhverfinu. Aðhald frá þeim er mikilvægasta vopnið í baráttunni við að bæta samkeppnismenninguna svo vöruverð verði sambærilegt og í nágrannalöndum okkar.

Tækifærið rann þeim úr greipum
Verslunin fékk tækifæri til að lækka verð án þess að það kæmi niður á álagningunni hjá þeim sem eiga í hlut. Í tíð síðustu ríkisstjórnar voru skattar lækkaðir, vörugjöld afnumin, tollar felldir niður og tollar lækkaðir af landbúnaðarvörum til að örva samkeppni. Aðgerðirnar sem verslunin kallaði sjálf eftir skiluðu sér ekki að fullu til heimilanna en þess í stað virðist sem þær hafi fyrst og fremst skilað sér í hærri álagningu heildsala og verslunar.

Þá kemur of mikil samþjöppun niður á greininni sjálfri. Framleiðni minnkar, óhagræði eykst, vöruverð hækkar og hvatar til nýsköpunar minnka. Smærri smásalar eiga erfiðara um vik að hasla sér völl á markaðnum því þeir þurfa að borga mun hærra verð en stærri verslanakeðjur og er skýringin ekki alltaf rakin til magninnkaupa.

Það var á sínum tíma óskiljanlegt að Samkeppniseftirlitið heimilaði að til væri einn risi á smásölu- og heildsölumarkaði sem nú heitir Hagar. Launakjör stjórnenda og hagnaður risans síðustu ár benda til fákeppni og að neytendur hafi greitt óhóflega hátt verð. Það er vonandi að leikreglurnar séu að breytast.

Sú staðreynd liggur fyrir að fleiri heimili í landinu eru nú að upplifa lægra vöruverð. Komið hefur í ljós að hægt er að bjóða upp á sambærilegt verð hér á landi og í nágrannalöndum okkar, sé viljinn fyrir hendi. Hver vill ekki sanngjarna skiptingu á milli neytenda og seljanda sem styður við skilvirkni á markaðnum og betri lífskjör til lengri tíma?

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins

Categories
Greinar

Í góðum félagsskap í dag – en hvað svo?

Deila grein

22/06/2017

Í góðum félagsskap í dag – en hvað svo?

Það er ánægjulegt að Ísland, ásamt Noregi, skipi þriðja til fjórða sæti yfir ríki heims í rannsókn sem mælir vísitölu félagslegra framfara. Þessi vísitala mælir hve vel hefur tekist að tryggja velferð og hvaða tækifæri eru til staðar fyrir íbúana. Árangur allra Norðurlandanna er tvímælalaust góður. Ísland er í fyrsta sæti þegar kemur að umburðarlyndi. Mismunun og ofbeldi gagnvart minnihlutahópum mælist einna minnst á heimsvísu. Hins vegar er tvennt sem kemur ekki vel út. Annars vegar reynist erfitt að eignast húsnæði á viðráðanlegu verði og hins vegar eru íslenskir háskólar ekki á meðal þeirra fremstu. Þetta eru slæmar fréttir inn í framtíðina.

Húsnæðisverð hefur hækkað mikið síðustu misseri, því eftirspurnin er langt umfram framboð. Sum sveitarfélög hafa ekki mætt lóðaeftirspurninni og því er mikill húsnæðisvandi í Reykjavík. Vaxtastigið á Íslandi hefur verið hærra en í mörgum samanburðarríkjum sökum þess að íslenska hagkerfið hefur verið þróttmeira en mörg önnur hagkerfi. Til þess að vinna gegn háu vaxtastigi þurfa peninga- og ríkisfjármálastefnan að ganga í takt. Hagstjórnin má ekki einungis hvíla á herðum Seðlabankans. Nauðsynlegt er að ráðast í skipulagsbreytingar á ríkisrekstrinum sem miða að því að nýta fjármagnið betur.

Háskólarnir á Íslandi hafa sett sér það markmið að komast í fremstu röð háskóla á heimvísu. Til að ná þeim árangri þarf að efla rannsóknir og bjóða upp á framúrskarandi kennslu. Að óbreyttu er ekki hægt að ná þeim árangri, ef litið er til ríkisfjármálaáætlunar til fimm ára. Staðreyndin er sú að fjárframlögin til háskólastigsins eru ekki metnaðarfull.

Það er helsta verkefni stjórnvalda að hlúa að þeim kynslóðum sem eru að vaxa úr grasi og tryggja að kjör þeirra séu með þeim hætti að þær vilji búa á Íslandi. Af þeim sökum þurfa væntingar um lífskjör að vera sambærilegar því sem best gerist í heiminum. Það þarf tvennt að koma til; annars vegar þarf að tryggja það að fólk hafi góðar væntingar um það að geta komið upp þaki yfir höfuðið og hins vegar þarf fleiri vel launuð störf fyrir ungt fólk sem verða best tryggð með þekkingu og nýsköpun.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 22. júní 2017

Categories
Greinar

Undarlegir atburðir við þinglok

Deila grein

13/06/2017

Undarlegir atburðir við þinglok

Þegar mál eru „keyrð í gegn“ á lokaspretti þingstarfa er allt of algengt að það leiði til ýmiss konar mistaka við lagasetningu. Stundum eru það „tæknileg mistök“ sem þarf þá að laga síðar, jafnvel eftir ábendingar dómstóla. En stundum eru afgreidd mál sem eru óskynsamleg og líkleg til að vinna gegn markmiðunum sem þeim er ætlað að ná. Hættan er sérstaklega mikil þegar um er að ræða mál sem þingmenn kunna hvorki við að gagnrýna né greiða atkvæði gegn.

Við síðustu þinglok urðu svo þau merku tíðindi að ríkisstjórnin fór fram á að mál yrði samþykkt um leið og hún viðurkenndi að það væri ekki tilbúið. Þingmönnum var sagt að samþykkja hið ókláraða mál en að því búnu yrði viðeigandi ráðuneyti falið að leysa úr því sem út af stæði.
Málið sem um ræðir var frumvarp félagsmálaráðherra um svokallaða jafnlaunavottun. Vitanlega greiddi meirihluti þingmanna atkvæði með málinu því ekki vilja menn hætta á að vera sagðir andsnúnir auknu jafnrétti, óháð því hvort málið stuðlar raunverulega að auknu jafnrétti eða ekki. Það sama á stundum við um frumvörp og fréttir, það er fyrirsögnin sem gildir.

Eina málið
Frumvarpið átti að vera helsta skrautfjöður Viðreisnar, flokks sem átt hefur heldur erfitt uppdráttar eftir að hann gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn og gaf um leið eftir öll málin sem skömmu áður höfðu verið tíunduð sem ástæður þess að flokkurinn þyrfti að kljúfa sig frá Sjálfstæðisflokknum.

Þótt illa gengi með málið var því ekki um annað að ræða, að mati Viðreisnar, en að klára það á einn eða annan hátt. Á sama tíma þurfti Sjálfstæðisflokkurinn aðstoð við að staðfesta skipan Landsréttar. Mestu prinsippmenn þar á bæ voru því fóðraðir á krít og sagt að styðja vottunarmál Viðreisnar eða hafa verra af (kosningar). Þetta var þó ástæðulaus harka í garð gömlu góðu íhaldsmannanna því atkvæði þeirra reyndust óþörf við að koma frumvarpinu í gegn. Ljóst var orðið að vinstri-kerfisflokkarnir myndu stökkva á málið enda gátu þeir ekki verið þekktir fyrir að vera á móti máli sem héti svo góðu nafni.

Á tímum ímyndarstjórnmála skipta nöfn miklu meira máli en innihaldið og þegar tekst að setja eitt orð saman úr orðunum jafn, laun og vottun þurfa nútíma vinstrimenn ekki að heyra meira áður en þeir segja BINGÓ!

Innihald frumvarpsins
Ýmsir sem láta jafnréttismál sig miklu varða höfðu bent á galla við frumvarpið og að það væri ekki endilega til þess fallið að ná þeim árangri sem að væri stefnt. Þeir sem sjá um jafnlaunastaðalinn sem styðjast átti við bentu á að hann væri hannaður sem valfrjálst verkfæri en ekki sem kvöð.

Greinargerð með frumvarpinu er mögnuð lesning og virðist lýsa þrám stjórnlyndra kerfiskarla fremur en vonum frjálslyndra jafnréttissinna. Það er þó utan við meginefni þessarar greinar sem snýst um þá furðulegu atburði sem gerðust eftir að Viðreisnarfólk ákvað að málið yrði að fara í gegn á fyrsta þingi ríkisstjórnarinnar, sama hvernig það liti út.

Þó þarf að fylgja sögunni að eftirlitsaðferðin sem til stendur að beita er bæði dýr og íþyngjandi fyrir fyrirtæki án þess að það sé ljóst að hún skili tilætluðum árangri. Sérstakir eftirlitsmenn leika þar stórt hlutverk. „Faggiltir vottunaraðilar“ heita þeir á kerfismáli en þeir munu hafa eftirlit með því að öll skilyrði staðalsins „ÍST 85:2012“ séu uppfyllt. Þegar faggilti vottunaraðilinn mætir á vettvang getur hann krafist hinna ýmsu upplýsinga til að kanna m.a. hvort fyrirtæki séu að meta verðmæti vinnu starfsmanna rétt miðað við staðalinn.

Breytingartillögur á elleftu stundu
Í tilraun til að keyra málið í gegn á lokasprettinum lagði meirihlutinn til breytingar á frumvarpinu tveimur dögum fyrir þinglok. Lögð var til frestun á gildistöku gagnvart fyrirtækjum (sígild leið þegar menn lenda í vandræðum með frumvörp) en í millitíðinni skyldi lögunum beitt á Alþingi, ráðuneyti og stofnanir.

Einnig var bætt inn ákvæði um að birta mætti staðalinn sem allt snerist um opinberlega. Það gerðist eftir að einhverjir fóru að hengja sig í smáatriði á borð við eftirfarandi spurningu: Ef við ætlum að skylda fólk til að vinna eftir sérstökum staðli, eða eiga ella á hættu innrás eftirlitsmanna og refsingar, ættum við þá ekki að leyfa fólkinu að vita hvað felst í staðlinum sem það á að uppfylla? Ef til vill voru einhverjir þingmenn líka forvitnir um hvað fælist í staðlinum sem þeir áttu að lögfesta.

Hugsa sér að á árinu 2017 séu menn enn að lenda í því að afskiptasamir þingmenn krefjist þess að fólk sé upplýst um hvað felist í lögunum sem því er ætlað að fylgja.

Lokadagurinn
Þegar stóð svo til að klára málið með breyttum tímasetningum og að viðbættri heimild til að upplýsa borgarana um hvaða reglum þeir yrðu dæmdir eftir kom babb í bátinn:

Staðlaráð Íslands, sem heldur utan um jafnlaunavottunarstaðalinn – ÍST 85:2012 sem til stóð að lögfesta, upplýsti löggjafann um að staðallinn væri höfundarréttarvarinn og óheimilt að birta hann eða nota í leyfisleysi.

Ráðherrann sagði þá Staðlaráði að það væri opinber stofnun og sem slík ætti hún ekki staðalinn né réði hvernig með hann væri farið. Staðlaráð var hins vegar ekki reiðubúið að votta skoðun ráðherrans. Ráðið væri alls ekki opinber stofnun og ætti því víst staðlaðan einkarétt. Deilur milli Staðlaráðs, ráðherra, ráðuneytis og lögmanna héldu áfram án þess að þær leiddu til niðurstöðu um hvort Staðlaráð væri stofnun eða hvort það hefði fundið upp staðalinn eða ætti hann eða hvort ríkið hefði heimild til að upplýsa almenning um hvað til stæði að leiða í lög.

Kaldhæðni málsins var sú að þingmenn Pírata voru duglegastir að minna á að staðallinn kynni að vera höfundarréttarvarinn. Þó er óviðeigandi að grínast með aðkomu Pírata að málinu því þeir stóðu sig öðrum betur við að draga fram helstu staðreyndir þess, ekki hvað síst varðandi hagsmuni ríkisins og gagnsæi í lagasetningu.

„Reddingin“
Nú voru góð ráð dýr, reyndar mjög dýr og enn er ekki vitað hversu dýr þau verða því niðurstaðan varð sú að samþykkja lög um jafnlaunavottun þar sem velferðarráðuneytinu var falið að semja við Staðlaráð um heimild til að nota staðalinn. Það er sem sagt búið að festa í lög að notast skuli við tiltekinn staðal áður en ríkið semur um hvað það eigi að greiða fyrir staðalinn. Ríkið hefur líklega sjaldan gengið til samninga með eins laka samningsstöðu. Það hlýtur líka að vera einsdæmi að ríkið setji lög sem rústa eigin samningsstöðu. …og þó, ég man eftir öðru dæmi.

Hið nýja ákvæði um birtingu staðalsins var fjarlægt úr frumvarpinu. Niðurstaðan varð því sú að þingið samþykkti lög þar sem leynd hvílir yfir því hvað felst í lögunum og óljóst er hvað þau koma til með að kosta.

Þá er ekki allt upp talið því staðlar eins og jafnlaunastaðallinn taka breytingum eftir aðstæðum. Það verður því ekki annað séð en að með lögfestingu tiltekins staðals sé Alþingi að gera tilraun til að fela þeim sem munu þróa staðalinn löggjafarvald.

Kerfið fékk sitt
Þetta er það sem gerist þegar ímyndarstjórnmál og kerfisræði koma saman. Viðreisn taldi sig þurfa að fá alla vega eina fjöður í hattinn þótt það ætti eftir að semja um hvað hún kostaði. Aðrir kunnu svo ekki við að vera á móti máli með góðan tilgang.

Kerfinu var því falið að semja frumvarpið, semja um notkun, leyfi og greiðslur og framfylgja svo málinu eftir eigin uppskrift. Hjá fulltrúum kerfisins virðist afstaðan skýr, a.m.k. hjá sumum. Embættismaður sem vann að frumvarpinu sá t.d. ástæðu til að birta á facebook nöfn þeirra sem brutu gegn kerfisræðinu með því að leyfa sér að sitja hjá eða greiða atkvæði gegn frumvarpinu.

Meirihluti þingmanna slapp þó við þá „skömm“ með því að styðja málið þótt margir hafi nefnt að þeir gerðu það þrátt fyrir mikla galla vegna þess að það væri skref í rétta átt. En er það skref í rétta átt þegar unnið er að góðum málstað með skaðlegri aðferð? Ef það eitt að markmiðið sé gott á að nægja til að þingmenn samþykki mál, óháð aðferðinni, er voðinn vís. Allar öfgar og kreddur eru réttlættar með tilvísun í góðan málstað. Framfarir byggjast hins vegar á því að unnið sé að góðum málstað með góðum aðferðum.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 13. júní 2017

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Categories
Greinar

Ástríðulaust samband

Deila grein

12/06/2017

Ástríðulaust samband

Þessi þingvetur hefur verið með þeim skrítnari. Ekki síst vegna þess að til kosninga var boðað í október, sem er óvenjulegt, og síðan tók óratíma að mynda nýja ríkisstjórn. Forseti veitti hverjum formanninum á fætur öðrum stjórnarmyndunarumboðið en skyldi þáverandi forsætisráðherra eftir, sem þó hafði tekið við keflunum á ólgutímum og stýrt ríkisstjórninni í nokkra mánuði með góðum árangri. Þar þótti mér forsetinn ekki sýna góða dómgreind og hlutlægni. Framsóknarflokkurinn er miðjuflokkur og gaf þau skilaboð að flokkurinn gæti unnið með öllum á meðan formenn hinna flokkanna sögðust vera búnir að útiloka hinn og þennan, sem þrengdi stöðuna. Björt framtíð og Viðreisn bundust órjúfanlegum böndum, gengu saman hönd í hönd í þeirri von að komast í hlýjan faðm Bjarnarins fyrir rest. Það tókst. Sambandið varð til í neyð og örvæntingu, en ekki ástríðu og það sýnir sig í stjórnarsamstarfinu.

Sjálfstæðisflokkurinn hafnaði samstarfi
Á meðan á þessu samtalið hægri flokkanna stóð þá var Framsókn farið að stinga saman nefjum með Vinstri grænum, sem voru búin að átta sig á að besta lausnin væri sterk stjórn með breiða skírskotun, þ.e. VG, Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn. Slík stjórn gæti brúað bilið og komið á góðu jafnvægi í íslenskum stjórnmálum. Það gekk svo langt að VG og Framsókn gerðu drög að stjórnarsáttmála sem formaður Sjálfstæðisflokksins þekkti til – en hann valdi samstarf við BF og Viðreisn. Tækifærið var til staðar.

Fá mál frá ríkisstjórn
Þegar Alþingi kom saman eftir jól var hin nýja hægri stjórn tekin við, undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Sex af tíu ráðherrum ríkisstjórnarinnar koma úr Sjálfstæðisflokknum og það vakti einnig athygli að enginn ráðherra kom úr Suðurkjördæmi. Fremur rólegt var yfir nefndarstörfum framan af þar sem fá mál komu frá ríkisstjórninni. Helstu málin voru fjármálastefnan og síðan fjármálaáætlun. Þessi mál tóku drjúgan tíma af störfum þingsins enda stefnumarkandi langtímaáætlanir ríkisfjármála þar sem rammar málefnasviða eru ákveðnir.
Að öðru leyti gerðist fátt hjá ríkisstjórninni. Nokkur mál komu til þingsins undir lokin. Sum var hægt að klára með sómasamlegum hætti en önnur voru ófullbúin og því gafst ekki tími til að afgreiða þau með fullnægjandi hætti. Þannig að þegar framlagður málalisti ríkisstjórnarinnar er borinn saman við þau mál sem kláruðust á þessu þingi, þá sést hversu sorglega lítill árangur það er.

Meingölluð en engar breytingatillögur
Það er Alþingis að setja fram 5 ára fjármálaáætlun sem framkvæmdavaldinu er svo ætlað að byggja fjárlög haustsins á. Það kom berlega í ljós hversu ósamstíga ríkisstjórnin er við afgreiðslu fjármálaáætlunar. Meirihluti Fjárlaganefndar lagði fram nefndarálit en treysti sér hins vegar ekki til að leggja fram breytingatillögur – því þau voru ekki sammála um hvað þyrfti til, þrátt fyrir að sýnt þykir að áætlunin er meingölluð, bæði að innihaldi og framsetningu. Vandanum var ýtt yfir á fjárlög og til haustsins.

Ósammála í stóru málunum
Í ljós kom, t.d. í umsögn Fjármálaráðs og Ríkisendurskoðunar, að þær tölur sem lagðar væru til grundvallar að afkomumarkmiðum sveitarfélaganna, væru með öllu óraunhæfar og í raun galnar! Það liggur því í augum uppi að stjórnarflokkarnir gátu ekki komið sér saman um breytingartillögur. Þar eru menn ósammála í grundvallaratriðum. Ágreiningurinn innan ríkisstjórnarinnar hefur birst í fleiri stórum málum.
Nokkur dæmi: Formaður utanríkismálanefndar (Viðreisn) reifst við utanríkisráðherra (D) í ræðustól Alþingis um utanríkisstefnu Íslands. Fjármálaráðherra (V) og forsætisráðherra (D) greinir á um peningastefnu Íslands. Stóra mál Viðreisnar, jafnlaunavottunin, var afar umdeild hjá þingflokki Sjálfstæðisflokksins en fór þá í gegnum þingið fyrir rest, þó einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins hafi sagt samþykkja hana með „æluna í hálsinum“. Já, það er víst ekki mikil sæla á stjórnarheimilinu.

Svikin loforð og einkavæðing
Þegar árangur hægri stjórnarinnar er metinn, þá er ljóst að þau hafa ekki náð að standa við kosningaloforð sín. Þau lofuðu innviða uppbyggingu en við það verður ekki staðið miðað við þá fjármálaáætlun sem samþykkt var á Alþingi fyrir skömmu. Sú fjármagnsaukning sem fer til heilbrigðismála og menntamála er falin í steypu, ekki í auknu rekstrarfé. Ríkisstjórnin skilar auður í samgöngumálum. Ráðherra talar enn um vegatolla. Maður veltir fyrir sér hvort sú sveltistefna sem ríkisstjórnin rekur undir forystu Sjálfstæðisflokksins, sé til þess ætluð að hrekja okkur í átt til aukinnar einkavæðingar á sem flestum sviðum?
Mér hugnast ekki sú sviðsmynd. Þjóðin þarf meiri félagshyggju – manngildi ofar auðgildi.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Categories
Greinar

Bjartar vonir veikjast

Deila grein

30/05/2017

Bjartar vonir veikjast

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður

Bjartar vonir vöknuðu hjá Eyjamönnum og öðrum fyrir nokkrum árum síðan þegar ákvörðun var tekin um að byggja nýja höfn í Landeyjum og smíða nýja ferju. Í áratugi höfðu Eyjamenn búið við brotakenndar samgöngur. Fréttin af höfninni og ferjunni breiddist út og fólk sem hafði flutt frá Vestmannaeyjum, m.a. vegna slæmra samgangna, flutti nú heim aftur. Aðrir stofnuðu fyrirtæki til að geta tekið á móti ferðamönnum og fóru í því skyni út í umtalsverðar fjárfestingar.

Ferðaþjónustan í uppnámi
Nú, mörgum árum síðar, er staðan enn slæm og ekki fyrirséð að hún batni í bráð af fjölmörgum ástæðum. Íbúar í Vestmannaeyjum, sem hafa haldið í vonina um úrbætur, eru sumir við það að gefast upp á biðinni eftir bættum samgöngum. Ferðaþjónustan er í uppnámi en nú þegar hefur einn aðalmánuðinn af vertíðinni, af fjórum, nánast fallið niður. Skaði samfélagsins er gríðarlegur en hann er þó ekki eingöngu mældur í krónum og aurum, því miður.

Svarleysi
Nýlega var haldinn fjölsóttur fundur í Höllinni þar sem íbúar komu saman og ræddu samgöngumál, fóru yfir stöðuna og hver yrðu næstu skref. Þar kom fram að smíði nýrrar ferju er hafin en óvíst er með hvað eigi að gera til að gera varðandi nauðsynlegar úrbætur á Landeyjahöfn. Hvar er t.d. sanddælubúnaðurinn fyrir höfnina sem lofað var? Verður gamli Herjólfur látinn sigla áfram til Þorlákshafnar þegar nýja ferjan kemur til að tryggja flutninga á milli lands og Eyja? Hvers vegna þurfa Eyjamenn t.d. að borga háa vegatolla af sínum þjóðvegi þegar aðrir landsmenn þurfa ekki að gera það? Engin svör fengust við þessum spurningum á fundinum.

Óánægja með verð og tímatöflu
Rekstraraðili Eimskips í Eyjum fékk fjölmargar fyrirspurnir og ábendingar varðandi bætta þjónustu og aðbúnað um borð. Fólk gagnrýndi tímatöfluna, bókunarkerfið og vildi fá nánari upplýsingar um samning Eimskips í þeim tilgangi að átta sig betur á verðlagningu farmiða. Fátt var um svör en ljóst að útboð verður á rekstrinum í haust og Eimskip hyggst sækjast eftir að fá umboðið. Sumir töldu að rekstrinum verði betur fyrirkomið hjá sveitarfélaginu og þá hugmynd ber að skoða vandlega. Að fundi loknum hafði undirrituð orðið örlítið vísari um sögu Herjólfs en vissi litlu meir en áður um næstu skref málsins. Ljós er að íbúar eru langþreyttir og hundóánægðir með ástandið.

Ferðin með Baldri
Heimferðin frá Vestmannaeyjum var svo sér kapítuli út af fyrir sig. Þar sem flugið féll niður vegna veðurs stökk undirrituð um borð í Baldur. Eftir þá viðbjóðslegu sjóferð spyr maður sig óhjákvæmilega að því, hvaða snillingi datt í hug að taka bátinn af Vestfirðingum og skerða þeirra samgöngur enn frekar niður og senda hann suður til siglinga á milli lands og Eyja? Báturinn er alls ekki gerður fyrir úthafssiglingar og skoppaði um í umtalsverðri ölduhæð eins og korktappi. Eftir klukkustund náðum við til lands og martröðinni var lokið. Ég mun jafna mig á sjóveikinni og hef heitið því að stíga ekki um borð í dallinn aftur. Íbúar í Vestmannaeyjum hafa hins vegar ekkert val þar sem kerfið okkar er þannig að ákveðin grunnþjónusta er staðsett uppá landi, svo sem fæðingarþjónusta en sú umræða er efni í aðra grein.

Planið
Þingmenn kjördæmisins munu án efa halda áfram að beita sér fyrir bættum samgöngum til Vestmannaeyja enda er ekki um flokkspólitískt mál að ræða heldur samfélagslegt réttlætismál. Opinn fundur bæjaryfirvalda með ráðherra samgöngumála og yfirmönnum Vegagerðarinnar sem halda á í kvöld er löngu tímabær. Þar á að krefjast svara um verkáætlun og tímalínu. Við þingmenn getum spurt og talað en samband við framkvæmdavaldið er nauðsynlegt ef árangur á að nást.
Ég mæti, ef það verður fært…

Grein eftir Silju Dögg Gunnarsdóttur sem birtist 30. maí 2017 í Eyjafréttum.

Categories
Greinar

Iceland er okkar!

Deila grein

26/05/2017

Iceland er okkar!

Yfirgangur bresku verslanakeðjunnar Iceland skal stöðvaður. Nýlega var mál stjórnvalda gegn bresku verslanakeðjunni Iceland kynnt af fulltrúum Íslands á fundi nefndar Alþjóðahugverkastofnunarinnar um vörumerki, hönnun og landfræðilegar tilvísanir. Verslanakeðjan hefur um árabil beitt sér gegn því að íslensk fyrirtæki geti auðkennt sig með upprunalandinu við markaðssetningu í Evrópu á vörum sínum og þjónustu.

Forsaga málsins er sú að í nóvember sl. greip utanríkisráðuneytið til lagalegra aðgerða gegn bresku verslanakeðjunni Iceland vegna óbilgirni fyrirtækisins.

Breska fyrirtækið hefur einkarétt á nafninu Iceland í öllum löndum Evrópusambandsins. Íslensk stjórnvöld krefjast þess að einkaleyfið verði ógilt þar sem það þykir of víðtækt og kemur í veg fyrir að íslenskir aðilar geti vísað til landfræðilegs uppruna síns.

Þetta mál snýst um grundvallaratriði, það er ólíðandi að einkafyrirtæki eigi einkarétt á orðmerkinu „Iceland“ í öllum löndum Evrópusambandsins. Það kemur í veg fyrir að íslensk fyrirtæki og stofnanir geti skráð vöru sína með tilvísun í upprunalandið Ísland. Málið hefur alþjóðlega skírskotun vegna áhrifa á vöru- og þjónustuviðskipti og miklir hagsmunir eru í húfi.

Verslanakeðjan hefur ítrekað kvartað til evrópskra yfirvalda yfir íslenskum aðilum sem nota orðið Iceland sem hluta af vörumerki sínu. Aðgerðir verslanakeðjunnar hafa m.a. bitnað á markaðsátakinu Inspired by Iceland, en undir þeim hatti hefur Ísland verið markaðssett sem spennandi áfangastaður fyrir ferðamenn. Þannig hefur verslanakeðjan beitt sér gegn íslenskum stjórnvöldum og fyrirtækjum.

Það er sanngjarnt að íslenskir aðilar geti vísað til upprunalandsins ef þeir kjósa svo í markaðsstarfi sínu erlendis. Ísland hefur jákvæða ímynd í hugum neytenda. Tilraunir og viðleitni stjórnvalda á sínum tíma til að semja um sanngjarna lausn á vandanum skiluðu engu. Nýlegum aðgerðum stjórnvalda ber að fagna. Brýnt er að íslensk stjórnvöld gefi hvergi eftir, þannig að erlendir aðilar á borð við verslanakeðjuna Iceland geti ekki einokað nafnið Iceland eða aðrar erlendar tilvísanir til Íslands.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Greinin birtist á Vísi 26. maí 2017

Categories
Forsíðuborði Greinar

Hvert skal stefna í heilbrigðismálum?

Deila grein

16/05/2017

Hvert skal stefna í heilbrigðismálum?

Undanfarið hefur samfélagið kallað á bætt heilbrigðiskerfi og var það mjög áberandi í aðdraganda síðustu alþingiskosninga. Ákall samfélagsins sýnir fram á mikilvægi stefnumótunar í heilbrigðismálum og nauðsyn þess að halda áfram að veita fé til málaflokksins með markvissum hætti.

Þingflokkur Framsóknarflokksins tekur undir þetta ákall og því var þingsályktunartillaga um heilbrigðisáætlun forgangsmál þingflokksins á yfirstandandi þingi. Tillagan gekk til velferðarnefndar Alþingis og hefur nú verið afgreidd þaðan í þverpólitískri sátt og bíður nú seinni umræðu. Vegna þeirrar umræðu sem uppi hefur verið í samfélaginu um mikilvægu stefnumótunar í heilbrigðismálum þá er nauðsynlegt að tillagan komist sem fyrst á dagskrá og verði afgreidd frá Alþingi.

Framsóknarmenn lögðu fram umrædda heilbrigðisáætlun þar sem enga áætlun í heilbrigðismálum var að finna á þingmálaskrá heilbrigðisráðherra á þessu þingi, þó að talsverð vinna hafi farið fram í þeim efnum á síðasta kjörtímabili.

Eftir afgreiðslu málsins frá velferðarnefnd þingsins þá fjallar tillaga okkar Framsóknarmanna um að heilbrigðisráðherra haldi áfram vinnu við gerð heilbrigðisáætlunar og leggi hana fyrir á Alþingi eins fljótt og mögulegt er. Í áætluninni verði verkferlar innan heilbrigðiskerfisins skýrðir og þar komi fram hvaða aðilar eigi að veita þjónustu innan kerfisins. Skilgreint verði hvaða þjónustu eigi að veita á Landspítalanum, hvaða þjónustu eigi að veita á heilbrigðisstofnunum víða um landið og hvaða þjónustu einkaaðilar eigi að hafa möguleika til að sinna og hvort það sé hagkvæmt og æskilegt.

Áætlunin skal taka tillit til landfræðilegra þátta eins og samgangna og fjarlægða milli byggðarlaga. Einnig skal tryggja jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu með utanspítalaþjónustu. Jafnframt skal taka tillit til forvarna, lýðheilsu, íbúaþróunar á starfssvæðum heilbrigðisstofnana, aldurssamsetningar íbúa, staðsetningar sjúkrabifreiða, aðgangs að sjúkraflugi, fjölda ferðamannastaða og sumarhúsabyggða.

Í áætluninni skal koma fram hvort og hvaða sóknarfæri séu í því að nýta auð sjúkrarými á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og létta þar með álagi af Landspítala. Við gerð heilbrigðisáætlunar verði haft samráð við fagfólk víðs vegar af landinu, helstu hagsmunaaðila og notendur.

Auk þessa verði Velferðarnefnd Alþingis reglubundið upplýst um framgang málsins, eigi síðar en í upphafi haustþings 2017 og síðan með reglulegu millibili þar til verkinu er lokið. Að lokum er skýrt kveðið á um að fjármálaráðuneytið og menntamálaráðuneytið komi að vinnu heilbrigðisáætlunar til að tryggja fjármagn til málaflokksins og menntun fagfólks í heilbrigðisgreinum.

Hér er nefndarálitið sem bíður seinni umræðu.

Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður

Tanja Rún Kristmannsdóttir, varaformaður SUF

Categories
Greinar

Áskoranir í utanríkismálum Íslands

Deila grein

15/05/2017

Áskoranir í utanríkismálum Íslands

Utanríkisráðherra kynnti greinargóða skýrslu sína um utanríkis- og alþjóðamál á Alþingi nú á dögunum. Mesta athygli vakti í umræðunum voru orðaskipti sem áttu sér stað á milli utanríkisráðherra og formanns utanríkismálanefndar um ólíka nálgun og sýn þeirra á stöðu mála í Evrópu og framtíð Íslands þar. Utanríkisráðherrann og flokkur hans virðast vera ráðandi í þeirri för. Hins vegar er afar mikilvægt að ríkisstjórn hverrar þjóðar sé samstillt í verkum sínum og komi sameiginlegri stefnu þjóðarinnar á framfæri. Á þessu hefur verið misbrestur hjá núverandi ríkisstjórn.

Tryggja þarf áframhaldandi festu og stöðugleika í samskiptum við Bretland
Hinn 29. mars sl. var 50. grein Lissabonsáttmálans virkjuð og því er útganga Bretlands úr Evrópusambandinu formlega hafin. Bretar hafa tvö ár til að ljúka við útgöngusamninginn og ferlinu mun ljúka með formlegri úrsögn Bretlands úr Evrópusambandsins. Þegar útgöngusamningurinn tekur gildi verður Bretland ekki lengur aðili að samningum Evrópusambandsins við önnur ríki, eins og t.d. EES-samningnum. Samskipti við Bretland grundvallast að miklu leyti á EES-samningnum. Löndin vinna náið saman á mörgum mikilvægum sviðum, t.d. á sviði löggæslu-, samgöngu-, öryggis- og varnarmála. Stjórnvöld þurfa að vinna markvisst að því að tryggja að góðir samningar náist fyrir Íslands hönd á öllum sviðum. Náið samstarf við EFTA-ríkin skiptir sköpum um framhaldið. Framtíðarsamskipti Íslands og Bretlands eru stærsta hagsmunamálið sem íslensk utanríkismálastefna stendur frammi fyrir. Ekki er ljóst á þessum tímapunkti hver niðurstaðan verður en í því felast tækifæri og áskoranir.

Hagsmunir Íslands á norðurslóðum
Málefni norðurslóða fá sífellt meira vægi í utanríkismálum. Stefna Íslands í málefnum norðurslóða á sér stoð í ályktun Alþingis sem samþykkt var samhljóða 28. mars 2011. Síðastliðið haust var gert hagsmunamat fyrir ráðherranefnd um norðurslóðir til að kortleggja helstu hagsmuni Íslands í margslungnu umhverfi norðurslóða. Ísland hefur mikilvæga sérstöðu sem norðurskautsríki, þar sem stór hluti landhelgi okkar er innan norðurslóða. Hagmunir Íslands felast í að nýta tækifærin með ábyrgum og sjálfbærum hætti. Auknum siglingum og annarri starfsemi fylgja tækifæri en líka áskoranir gagnvart umhverfi, lífríki og lífsháttum. Viðkvæmt vistkerfi norðurslóða á að fá að njóta vafans. Mikilvægt skref í þá veru var stigið í aðdraganda Parísarsamningsins um loftslagsmál. Ísland mun gegna formennsku í Norðurskautsráðinu 2019-2021 og gefst okkur þá tækifæri til að móta áherslur í starfi ráðsins.

Þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland
Ályktun Alþingis frá 13. apríl 2016 um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland var samþykkt mótatkvæðalaust og markar hún heildstæða stefnu í þessum málaflokki. Eitt af lykilmarkmiðum þjóðaröryggistefnunnar er að tryggja að á Íslandi séu trúverðugar og sýnilegar varnir sem byggja á alþjóðasamstarfi. Þátttaka Íslands í starfi Atlantshafsbandalagsins og varnarsamningurinn við Bandaríkin eru meginstoðir í stefnu Íslands um öryggi og varnarmál landsins, ásamt virku samstarfi við grannríki á sviði öryggismála. Tryggja þarf að til staðar sé fullnægjandi viðbúnaðargeta og öryggi til þess að taka á móti liðsauka á hættu- eða ófriðartímum. Í samstarfinu felst m.a. loftrýmisgæsla og varnaræfingar. Ennfremur ábyrgjast íslensk stjórnvöld rekstur íslenska loftvarnarkerfisins og annarra mannvirkja Atlantshafsbandalagsins á Íslandi. Ljósleiðarakerfi Atlantshafsbandalagsins, sem er hringtengt umhverfis landið, er einnig grunnstoð í öryggisfjarskiptum landsins. Allir þessir þættir skipta okkur máli er varðar öryggi landsins og brýnt að stefnumótun taki áfram mið af þingsályktunartillögunni sem samþykkt var mótatkvæðalaust á vordögum síðasta þings eftir mikla vinnu þingsins í gegnum árin.

Mannréttindi og þróunarsamvinna
Skýr og réttlát alþjóðleg viðmið um mannréttindi er lykillinn að öryggi og hagsæld. Á Íslandi eru mannréttindi á borð við trú-, kyn- og tjáningarfrelsi bundin í stjórnarskrá en það er langt frá því að vera sá veruleiki sem margar þjóðir búa við. Við getum ekki lokað augunum fyrir því að víðsvegar um heim eru daglega framin gróf mannréttindabrot. Aldrei er hægt að réttlæta að almennir borgarar séu gerðir að skotmarki. Ábyrgð stjórnvalda og alþjóðasamfélagsins í því sambandi er mikil. Vernd, mannréttindi og efling þeirra er nauðsynlegt að flétta inn í utanríkisstefnu Íslands. Íslensk stjórnvöld styðja markmið Sameinuðu þjóðanna um að iðnríki skuli veita sem nemur 0,7% af vergum þjóðartekjum (VÞT) til þróunarsamvinnu. Framlag til þróunarsamvinnu nam hæst 0,36% af VÞT árið 2008 en var skorið niður í 0,20% árið 2011. Fram kemur í skýrslu utanríkisráðherra að framlög til þróunarsamvinnu sem hlutfall af VÞT árið 2016 var 0,29%. Sökum þess að hagsæld hefur verið að aukast á síðustu árum eru það vonbrigði að framlög til þróunarmála standa í stað í fimm ára ríkisfjármálaáætlun. Við getum gert betur og okkur ber að gera betur.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. maí 2017.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir