Categories
Greinar

10 spurningum Össurar um Framsóknarleiðina svarað

Deila grein

22/04/2013

10 spurningum Össurar um Framsóknarleiðina svarað

Frosti SigurjónssonÖssur Skarphéðinsson spurði nýlega 10 spurninga um Framsóknarleiðina. Hér eru svör við þeim.

1. Snýst leið Framsóknar bara um krónueignir kröfuhafa í þrotabúunum, það er reiðufé og virði Arion banka og Íslandsbanka? Ef svarið er já er þá ekki ljóst að 300 milljarðarnir sem Stefán talar um verða ekki notaðir tvisvar, það er (A) til þess að fækka krónum í umferð, lækka skuldir ríkisins og til að liðka fyrir afnámi gjaldeyrishafta annarsvegar og svo (B) hins vegar til að lækka lánaskuldir heimilanna um 20%?”

Svar: Í lið (A) koma fram ósamrýmanleg markmið: “fækka krónum í umferð, lækka skuldir ríkisins og liðka fyrir afnámi hafta”. Það er ekki hægt að taka krónur úr umferð með því að lækka skuldir ríkisins. Það er augljóst að ef ríkið notar krónur til að greiða skuldir sínar, þá fá einhverjir þær krónur til afnota og þær eru þá aftur komnar í umferð. Nema viðtakendur krónanna geti greitt upp einhverjar skuldir við banka og geri það. Í lið (B) er hægt að ná fram lækkun skulda heimila og að fækka krónum um leið. Að því leiti sem krónur væru notaðar til að greiða niður skuldir heimila við banka – þá myndi peningamagn lækka sem því næmi.

2. Sé 300 milljörðum dælt út í hagkerfið þar sem þegar er allt of mikið peningamagn í umferð, myndi það ekki hafa þensluáhrif svipuð því sem raunin varð með Kárahnjúkavirkjun, valda verðbólguþrýstingi og éta upp stóran hluta einskiptislækkunar á höfuðstól skulda – auk þess að viðhalda fjármagnshöftum?”

Svar: Niðurfærsla skulda heimila leiðir ekki sjálfkrafa til aukningar peningamagns. Hér skiptir aðferðin máli. Ef lækkunin væri staðgreidd til lánastofnana, þá myndi það vissulega leiða til aukningar og auka hættu á þenslu. Ef lækkunin er greidd út á löngum tíma (t.d. 20 árum) þá yrðu þensluáhrifin hverfandi.

3. Má kanski af málflutningi Framsóknarmanna ráða að leið þeirra felist frekar í að reka þrotabú föllnu bankanna í gjaldþrot og krónuvæða búin, sem vel má halda fram að sé í samræmi við íslensk gjaldþrotalög, þar sem gert er upp í íslenskum krónum að öllum jafnaði?”

Svar: Ekki er ástæða til binda sig fyrirfram við aðra af þeim tveim leiðum sem hægt er að fara, þrot eða nauðasamninga.

4. Felst leið Framsóknar í því að kröfuhafar Glitnis og Kaupþings verði látnir skila öllum gjaldeyri búanna inn í Seðlabankann gegn greiðslum í krónum á álandsgengi – og í kjölfarið verði þeim boðið að kaupa hann aftur út á gengi sem er Íslendingum hagstæðara? Eða gegn því að greiða ríflegan útgönguskatt”

Svar: Kröfuhafar gömlu bankanna eiga ekki að hafa forskot fram yfir Íslendinga varðandi heimildir til að taka fjármagn úr landi. Eitt verður yfir alla að ganga í því efni. Þeir sem vilja fá forgang um útgöngu þurfa að fórna einhverju á móti. Útgönguskattur væri ein leið til þess.

5. Leiðin í spurningu 3 er líklegri til þess að skila fjármunum sem hægt er að nota í tvennum tilgangi heldur en leiðin í spurningu 1. En hefur Framsókn hugsað út í hvernig „hrægammasjóðirnir“ munu bregðast við henni? Það er líka milljarðaspurning.”

Svar: Já, við höfum hugsað út í það.

6. Munu „hrægammasjóðir“ leita réttar síns á þeirri forsendu að um eignaupptöku sé að ræða sem varði eignarréttarákvæði stjórnarskrár Íslands? Hefur Framsókn hugsað út í augljósa mótleiki kröfuhafa á þeirri forsendu?”

Svar: Framsókn hefur reyndar ekki talað fyrir upptöku á eignum föllnu bankana enda ýmsar aðrar leiðir færar að ásættanlegri niðurstöðu.

7. Með innköllun gjaldeyris þrotabúanna og skiptum í krónur myndaðist risakrónufjall, sem er margföld núverandi snjóhengja. Hefur Framsókn hugsað út í amk. einn eitraðan mótleik kröfuhafa? Hann gæti falist í að krefjast ekki skipta á krónufjallinu yfir í erlendan gjaldeyri heldur setja þrýsting á Íslendinga á móti með því eiga það hér í einhver ár til þess að græða á vaxtamun meðan við berðumst við mikla verðbólgu með himinháuum vöxtum?”

Svar: “Ef” til þess kæmi að skipta öllum gjaldeyri þrotabúa yfir í krónur, gæti Seðlabanki beitt sömu aðferðum og hann notar í dag til að binda þær á sérstökum reikningum. Þrýstingurinn væri því ekki á Íslendinga, heldur kröfuhafana.

8. Er nóg að koma á skilaskyldu allra á gjaldeyri, líka kröfuhafa? Þarf ekki líka að koma á skiptaskyldu? En væri hægt að koma á skiptaskyldu á þrotabúin ein án þess að brjóta gegn jafnræðisreglu? Verður þá að setja skiptaskyldu á öll útflutningsfyrirtæki til þess að Framsóknarleiðin gangi upp? Hvað myndu sjávarútvegs- og álfyrirtækin segja, ef þau mættu ekki lengur hafa gjaldeyrisreikninga á Íslandi, en þyrftu að skipta öllum gjaldeyri sem þau öfluðu á því gengi sem Seðlabankanum hentaði dag frá degi?”

Svar: Skiptiskylda á gjaldeyri væri ekki nauðsynleg. Nærtakara væri að skýra ákvæði laga um að öll þrotabú í landinu greiði út í krónum. Þannig væri gætt jafnræðisreglu.

9. Þrotabú bankanna föllnu hafa starfað um fjögurra ára skeið. Sú spurning vaknar því, hvort lög um skilaskyldu á gjaldeyri með skiptiskyldu myndu ná yfir þau? Fróðlegt væri að vita hvernig Framsókn hefur skoðað það mál.”

Svar: Vísa til svars við 8.

10. Rök Framsóknar um að ekki sé rétt að hlífa „hrægammasjóðum“ byggja á að sjóðirnir hafi keypt kröfur í þrotabúin á hrakvirði og muni hagnast gríðarlega á uppgjöri búanna. Að sönnu rétt, en gilda þau rök einnig um þá 30- 40% kröfuhafa í þrotabúunum sem lánuðu Kaupþingi og Glitni fé og eru enn svokallaðir upprunalegir kröfuhafar sem vonast til að endurheimta hluta af töpuðu fé?”

Svar: Já, þetta gildir líka um upprunalega kröfuhafa. Þeir gerðu vel í því að selja ekki á hrakvirði eins og margir aðrir gerðu og hafa grætt vel á þeirri ákvörðun sinni. Þeir munu eins og aðrir kröfuhafar þurfa að færa eignir að raunvirði til að komast út fyrir höftin.

FROSTI SIGURJÓNSSON

Categories
Greinar

Nýtum auðlindirnar – sköpum störf

Deila grein

21/04/2013

Nýtum auðlindirnar – sköpum störf

Líneik Anna SævarsdóttirUm daginn las ég ævisögu og rakst þar á setninguna:„við rákum fyrirtæki sem veitti 40 manns atvinnu.“ Ég hef alltaf borið virðingu fyrir fólki sem hefur verið stolt af því að geta veitt öðrum vinnu og með því lagt til samfélagsins. Eins og ber ég virðingu fyrir fólki sem er stolt af því að leggja til samfélagsins með því að greiða sína skatta.

Á Íslandi eigum við mikið af auðlindum, bæði mikið nýttar og ónýttar. Arður af auðlindum verður ekki til fyrr en einhver nýtir þær. Til að nýta auðlind þarf þekkingu og framtakssemi. Á síðustu árum hefur því miður oft verið talað niður til þeirra sem valið hafa að nota sína þekkingu og framtaksemi til þess.

Þjóðin hagnast á auðlindum sínum þegar úr þeim eru framleidd verðmæti, verðmætin geta verið vara sem við notum innanlands og spörum með því gjaldeyri eða vara sem við seljum úr landi. Fólk fær störf, greiðir skatta og notar launin sín til að kaupa aðra vöru. Fyrirtækið sem nýtir auðlindina greiðir launatengd gjöld og aðra skatta. Fyrirtækið þróar sína framleiðslu og kaupir til þess aðstoð og þekkingu annars staðar frá o.s.frv. Þannig nýtur þjóðin arðs af auðlindinni.

Hvernig skilar arður af auðlindunum sér best til þjóðarbúsins, er það með því að skapa sem flest störf á Íslandi? Eða er það með því að fá sem flestar krónur fyrir hráefnið? Eigum við að reyna að skapa sem flest störf og mest verðmæti við úrvinnslu úr fiskinum okkar eða að flytja sem mest út beint af hafnarbakkanum? Eigum við að flytja orkuna beint úr landi þannig að fyrirtækið Landsvirkjun hagnist sem mest á pappírunum eða eigum við að nýta orkuna til þess að skapa sem flest störf og verðmæti innanlands? Er ekki tímabært að umræðan um auðlindarnar okkar fari að snúast um það hversu mörg störf við getum byggt á þeim en ekki um hvernig megi taka sem mesta peninga út úr framleiðslunni. Þannig þarf umræðan um Landsvirkjun að snúast um það hvernig við getum nýtt orkuna til að skapa sem flest störf innan lands en ekki um það hvort Landsvirkjun geti fengið fleiri krónur í hagnað í ársreikningum með því að senda orkuna úr landi á meðan Íslendingar eru á atvinnuleysisbótum eða í vinnu í Noregi.

Auðlindir eru ekki óþrjótandi og með aukinni þekkingu og tækni höfum við þurft að taka ákvarðanir um það hverjir hafa nýtingaréttinn að þeim og hvaða auðlindir við viljum nýta. Þessi árin snýst umræðan í þjóðfélaginu um mótun framtíðarstefnu um það með hvaða hætti eigi að greiða fyrir nýtingarréttinn á auðlindunum. Höfum við nokkuð týnt aðalatriðunum í þeirri umræðu – sjálfbærni og atvinnusköpun?

Hver eru lykilatriðin í umræðu um auðlindirnar okkar:

  • Auðlindirnar þurfa að vera í eigu þjóðarinnar.
  • Þeir sem nýta auðlindirnar þurfa að eiga möguleika á því að gera samninga um nýtingaréttinn til svo langs tíma að unnt sé að gera langtíma áætlanir í atvinnugreininni.
  • Samkomulag um nýtunguna þarf að tryggja viðhald auðlindanna þ.e. tryggja sjálfbærni.
  • Fyrir nýtingu auðlinda þarf að svo að greiða sanngjarnt gjald sem tekur mið af arðsemi í viðkomandi atvinnugrein.
  • En fyrst og fremst, einbeitum okkur að því að nýta þekkingu og frumkvæði okkar sjálfra til að skapa sem flest störf um allt land úr auðlindum Íslands.

 

Líneik Anna Sævarsdóttir, skipar 3. sæti á framboðslista framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi.

Categories
Greinar

Hvernig geta skuldir gömlu bankanna orðið að ávinningi fyrir ríkið?

Deila grein

15/04/2013

Hvernig geta skuldir gömlu bankanna orðið að ávinningi fyrir ríkið?

Þorsteinn MagnússonFram kom hjá þekktum fréttamanni og álitsgjafa í morgun að hann skildi ekki hvernig mörg hundruð milljarða skuldir þrotabúa gömlu bankanna gætu orðið að ávinningi fyrir ríkið. Þekkingarleysi á því er algengt en vel afsakanlegt því vitaskuld eru ekki allir sérfróðir um uppgjör þrotabúa og slit fjármálafyrirtækja. Ástæða er til að útskýra málið. Framsóknarmenn leggja til að svigrúm sem væntanlega skapast í tengslum við uppgjör við kröfuhafa gömlu bankanna verði nýtt til að leiðrétta verðtryggð húsnæðislán.
Skuld þrotabús er eign þess sem á viðkomandi kröfu í búið. Verðmæti krafna í þrotabú ræðst fyrst og fremst af væntingum um hversu mikið fáist úr búinu upp í þær kröfur. Þær væntingar ráðast svo einkum af ætluðu verðmæti þeirra eigna sem í búinu eru. Kröfur í Glitni og Kaupþing munu eftir hrun hafa selst á nálægt 5% af nafnvirði. Líklegt er að hinir svonefndu vogunarsjóðir hafi eignast sínar kröfur á verði nálægt því. Talið er að allt að 95% af kröfum í bú gömlu bankanna séu nú í eigu erlendra aðila, að langstærstum hluta vogunarsjóðanna. Í vetur bárust fréttir af því að kröfurnar seldust á 25-30% af nafnverði. Kröfurnar hafa því margfaldast í verði.
Ástæða þess að kröfurnar eru einhvers virði er sú að það eru eignir í búunum sem eigendur krafnanna eiga tilkall til. Samkvæmt tölum frá október 2012 er áætlað að heildarvirði eigna í búum gömlu bankanna sé 2544 milljarðar króna. Þar af séu um 460 milljarðar í íslenkum krónum og sem nemur 2084 milljörðum króna í erlendum gjaldeyri, miðað við opinbert gengi. Við skipti á búunum væru þetta þær eignir sem rynnu til kröfuhafanna í hlutfalli við fjárhæðir krafna þeirra.
Mjög óæskilegt væri að úthluta kröfuhöfunum öllum krónueignunum úr búunum og leyfa þeim að skipta þeim yfir í erlendan gjaldeyri og fara með úr landi. Slíkt ylli allt of mikinn þrýsting á gengi krónunnar til lækkunar. Þess vegna hefur víða komið fram að semja þurfi við þá um verulegan afslátt af krónueignunum. Umfjöllun um þær afskriftir sem þyrftu að koma til má m.a. sjá hér. Þar gæti ríkið komið inn sem milliliður en ýmsar útfærslur gætu verið á því með hvaða hætti andvirði afsláttarins rynni frá kröfuhöfunum til ríkisins. Slíkt væri samkomulagsatriði en einnig væri mögulegt að beita skattlagningarvaldinu ef með þyrfti. Sem dæmi má nefna þá leið að ríkið semdi um að eignast krónueignir úr búunum með verulegum afslætti og innleysti hagnað við endursölu. Slíkt yrði þó að fara fram samhliða uppgjöri við kröfuhafana að öðru leyti og samkvæmt heildstæðri áætlun um afnám fjármagnshafta. Þann hagnað mætti svo nýta til að fjármagna leiðréttingu á verðtryggðum húsnæðislánum.
Þorsteinn Magnússon
3. sæti í Reykjavík norður
Categories
Greinar

Upp með álverið

Deila grein

14/04/2013

Upp með álverið

sij-sdgKosningarnar í vor snúast um að taka á vanda skuldugra heimila. Við framsóknarmenn ætlum að leiðrétta lán og taka á verðtryggingunni sem er mein í íslensku samfélagi. Heimilin eru undirstaða samfélagsins. Samhliða þarf að grípa til margvíslegra aðgerða til að koma hjólum atvinnulífsins í gang á nýjan leik.

Framsókn er atvinnumálaflokkur – við viljum byggja upp fjölbreytt atvinnulíf þar sem allir landsmenn geta fundið verkefni við sitt hæfi. Hér á Suðurnesjum er atvinnuleysi búið að mælast mest og í lengstan tíma. Það þarf því að setja sérstakan kraft í atvinnuuppbyggingu hér.

Stóra atvinnuverkefnið
Stóriðjuframkvæmdir í Helguvík eru stórt atvinnuverkefni og þar með mikið hagsmunamál allra Suðurnesjamanna. En ekki bara Suðurnesjanna heldur Íslands í heild. Við þurfum verulega aukna fjárfestingu og aukinn hagvöxt.  Framsókn styður áframhaldandi uppbyggingu atvinnustarfsemi í Helguvík. Næg atvinna er forsenda og undirstaða velferðar t.a.m. nauðsynlegrar enduruppbyggingar heilbrigðiskerfisins.

Reykjanesvirkjun stækkuð í 180 MW
HS Orka fékk þann 15. september árið 2011 virkjunarleyfi frá Orkustofnun fyrir 80MW stækkun á Reykjanesi. Orkuverið er  nú 100MW þannig að þegar stækkunin hefur átt sér stað þá framleiðir orkuverið 180MW. Frekari stækkanir eru í farvatninu. – Ef samningar um orkuverð nást og álverið í Helguvík hefur starfsemi sína þá mun það kaupa raforku af fleiri orkufyrirtækjum, m.a. HS Orku.

Orkufyrirtækin í eigu Íslendinga
Framsókn stefnir að því að í framtíðinni verði virkjanaleyfi til stærri verkefna háð því að a.m.k. 2/3 hlutar orkufyrirtækisins verði í eigu opinberra aðila til að tryggja að arðurinn af orkunni renni til íslensks samfélags. Við teljum það öryggis- og hagsmunamál íslensku þjóðarinnar.

Nú er staðan sú að erlent einkafyrirtæki, Alterra Power, á meirihlutann í HS Orku en restin er í eigu íslenskra lífeyrissjóða. Það er ekkert sem stendur í vegi fyrir því að erlendir aðilar komi á morgun og geri Alterra gott tilboð í HS Orku. Til að tryggja samstöðu um orkunýtingu viljum við fara að fordæmi Norðmanna og tryggja breiðari eignaþátttöku opinberra aðila í stórum virkjanaframkvæmdum.  Orkufyrirtækin okkar eru eitt af því sem ekki á að ganga kaupum og sölum á frjálsum markaði.

Með því að taka á skuldamálum heimila samhliða öflugri atvinnuuppbyggingu leggjum við grunn að góðu samfélagi framtíðar.

Sigurður Ingi Jóhannsson
1. sæti Framsóknar í Suðurkjördæmi

Silja Dögg Gunnarsdóttir
2. sæti Framsóknar í Suðurkjördæmi

Categories
Greinar

Valið er okkar

Deila grein

12/04/2013

Valið er okkar

Þórunn EgilsdóttirÍsland er ríkt land, bæði af auðlindum og mannauði. Á Norðausturlandi er mikil verðmætasköpun og íbúar landshlutans standa á bakvið drjúgan hluta af landsframleiðslunnar. En því miður er nú svo komið að veruleg óvissa ríkir um sjálfsagða grunnþjónustu í kjördæminu. Svo hart hefur verið vegið að grunnatvinnuvegum okkar að allt bendir til þess að þeir verði ekki það hryggjarstykki í hagkerfinu sem þeir þurfa að vera til að samfélagið virki sem skyldi.

Fram til þessa höfum við Íslendingar haft raunhæft val um búsetu hvar sem er á landinu, vitandi það að við bjuggum við sama rétt og grunnþjónustu um allt land. Því miður er nú svo komið að veruleg óvissa ríkir um grunnþjónustuna sem öllum landsmönnum er þó ætlað að greiða fyrir, þjónustuna sem er forsenda búsetu í landsbyggðunum og felur í sér örugga löggæslu, aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu, fjölbreytta möguleika til náms, góðar samgöngur og fjarskipti.

Löggæslumál í kjördæminu eru ekki með þeim hætti að ásættanlegt sé, heilbrigðisþjónustan hefur stöðugt átt undir högg að sækja og við, íbúar kjördæmisins, þurfum oft um langan veg að fara til að sækja þá heilbrigðisþjónustu sem við þörfnumst.

Nú höfum við val um að snúa óheillavænlegri þróun til baka. Val um að efla grunnþjónustuna um landið og snúa okkur frá miðstýringu. Val um að á Íslandi verði hægt að fá læknisþjónustu án þess að þurfa að sækja hana um langan veg. Val um að íbúar Íslands verði öruggir þar sem lögreglan vakir yfir byggðunum. Val fyrir gamla fólkið okkar að verja ævikvöldinu í sinni heimabyggð en ekki vera flutt hreppaflutningum á hjúkrunarheimili í fjarlægum bæjarfélögum.

Nú höfum við val um að halda Íslandi í byggð.  Framsókn hefur lagt fram róttæka stefnu í byggðamál. Kjósum því X-B í alþingiskosningunum 27. apríl næstkomandi.

Þórunn Egilsdóttir

Höfundur skipar 4. sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi.

 

Categories
Greinar

Heima eða heiman?

Deila grein

11/04/2013

Heima eða heiman?

Jóhanna María Sigmundsdóttir, 4. sæti í Norðvesturkjördæmi

Minnkandi námsframboð á landsbyggðinni er vandi, það er vandi í hverju samfélagi fyrir sig. Þetta er mein sem smitar út frá sér til annarra grunnstoða. Ungt fólk getur ekki lært það sem það vill í sinni heimabyggð og þarf því að flytja annað. Um leið og það er komið á nýjan stað fer það að búa sér til umhverfi, sækja um vinnu, finna íbúð, eignast vini og þar fram eftir götunum.

Þetta sama fólk býr á staðnum í kannski fjögur ár á meðan það stundar námið. Að þessum árum liðnum er umhverfið orðið heilsteyptara. Inn í spilið er kominn maki, jafnvel barn og íbúðin er orðin að heimili, vinnan er skemmtileg  og viðkomandi er líka búin að vinna sig upp í góða stöðu þar. Eftir að hafa svo lokið námi býðst viðkomandi föst staða við fyrirtækið og góð laun.

Hvar er hvatinn til að flytja aftur heim í samfélagið þar sem ekkert var í boði fyrir þig, fyrir fjórum árum síðan? Af hverju ættir þú að rífa fjölskylduna upp, losa þig við íbúðina, segja upp vinnunni og flytja heim, til að byrja að skapa þér umhverfi upp á nýtt?

Heftandi eða hvetjandi?

Því miður missa samfélög á landsbyggðinni alltof mikið af ungu fólki á þennan hátt. Námsmöguleikar eiga að vera jafnir óháð búsetu, staðreyndin er sú að það er alls ekki svoleiðis í dag. En staðreyndin er einnig að ekki þarf mikið til að vinna til að svo geti orðið.

Ef við gætum aukið notkun á nútímatækni eins og er  t.d. í Háskólasetri Vestfjarða, væri hægt að efla menntaskóla á svæðinu enn frekar, auka fjölbreytni námsleiða, auðvelda námsgagnagerð og stuðla að gagngerðri uppbyggingu á meðan komið er í veg fyrir stöðnun svo við horfum ekki á sama vandamál sem lýst er hér að ofan.

Hægt er að efla tengingu á milli menntakerfis og atvinnulífs á hverju svæði.  Með því væri boðið upp á nám tengt blómstrandi atvinnugeirum í byggðarlaginu og möguleikar viðkomandi auknir á  að geta búið og starfað í heimabyggð.

Unga fólkið á ekki að þurfa að sækja allt nám til Reykjavíkur eða annarra stærri svæða, samfélagið þarf að koma til móts við þetta fólk. Því þættir sem þessir verka heftandi á ungt fólk og því miður nær það ekki að blómstra sem skyldi ef höft eru á námsvali eða búsetu. Nám á ekki að stýra því hvar fólk þarf að búa.

Færum unga fólkinu námsmöguleika og eflum byggðina heima um leið.

Jóhanna María Sigmundsdóttir,

4. sæti á lista Framsóknar í Norðvesturkjördæmi

feykir@feykir.is

 

Categories
Greinar

Kæru landsmenn!

Deila grein

11/04/2013

Kæru landsmenn!

AlliÞann 27. apríl næstkomandi göngum við til alþingiskosninga. Ég el þá von í brjósti að þessar kosningar verði frábærar í því tilliti að flokkurinn minn, Framsókn komi afar vel út. Ég er í hjarta mínu sannfærður um að stefna Framsóknar í þeim málum sem brenna á landsmönnum, staðfesta í stjórnarandstöðu sl. fjögur ár, staðfesta forystumanna flokksins og úrræði þau sem flokkurinn hefur kynnt til handa landsmönnum eftir kosningar leiði flokkinn til forystu og gefi Framsókn tækifæri til að sýna landsmönnum hvað býr í því sterka og fjölhæfa liði sem í framboði er fyrir flokkinn.  Það er gaman að sjá stækkandi hóp þeirra sem sjá að loforð Framsóknar og forystumanna flokksins eru ekki innantóm orð, heldur raunhæf og vel útfærð markmið sem munu leiða okkur á braut gæfu og gengis og verða landi og þjóð til heilla til allrar framtíðar.

Kæri kjósandi, kynntu þér markmið og stefnu flokksins sem metur manngildi ofar auðgildi og vill að þjóðin hafi síðasta orðið.  Samvinna og samheldni er það sem þarf í dag.

Við setjum X við B.

Aðalsteinn Júlíusson

Greinarhöfundur er skipstjóri og skipar 9. sæti fyrir Framsókn í Norðausturkjördæmi

Categories
Greinar

Skynsöm þjóð

Deila grein

07/04/2013

Skynsöm þjóð

HÞÞPistlarnir koma okkur ekkert sérstaklega á óvart. Þegar við lögðum fram tillögur um leiðréttingu lána á vordögum ársins 2009 birtust sams konar pistlar í blaðinu þar sem tillögurnar voru kallaðar svipuðum nöfnum. Tillögur sem flestir eru nú sammála um að voru raunhæfar, sanngjarnar og til þess fallnar að skapa sátt í samfélaginu.

Leiðararnir eru einnig í sömu veru og við þurftum endalaust að búa við í baráttunni gegn því að Icesave-samningarnir yrðu samþykktir. Því var fylgt eftir með fréttaflutningi um að hitt og þetta myndi gerast ef Alþingi myndi ekki staðfesta samningana. Fréttir um hugsanlegar afleiðingar sem enga stoð áttu sér í raunveruleikanum og tók okkur oft margar vikur að leiðrétta fyrir þjóðinni.

Tillögur okkar eru í þeim anda sem við höfum talað fyrir síðastliðin fjögur ár. Við höfum bent á þann forsendubrest sem varð við fall gömlu bankanna og nauðsyn þess að taka á vogunarsjóðunum, sem hafa hagnast gríðarlega á skuldsettum heimilum landsins. Við höfum líka talað fyrir því að koma á sanngjörnu lánafyrirkomulagi á Íslandi þar sem áhættan skiptist jafnt á milli lántaka og lánveitanda. Þar skiptir afnám verðtryggingarinnar miklu. Við teljum að það sé raunhæft að breyta þessu fyrirkomulagi og að þannig verði Ísland best rekið til framtíðar.

Í Icesave-málinu gerðum við okkur grein fyrir því að almenningur væri skynsamur og vel til þess búinn að setja sig inn í flókin deilumál. Hann væri líka fær um að kynna sér mismunandi rök og beita gagnrýnni hugsun til að móta sér afstöðu. Tillögur okkar eru einmitt settar fram með það að markmiði að þær séu skoðaðar, gagnrýndar og metnar. Sú afstaða leiðarhöfundar Fréttablaðsins laugardaginn 16. mars sl. að “veruleikafirring“ þjóðarinnar sé ástæða þess að tillögur okkar hljóti hljómgrunn er því miður ódýr afgreiðsla á annars vel menntaðri og vel meinandi þjóð.

Höskuldur Þórhallsson

Categories
Greinar

Lítil fyrirtæki stækka mest

Deila grein

25/03/2013

Lítil fyrirtæki stækka mest

Silja Dögg GunnarsdóttirÖll vitum við að ekkert verður til úr engu. Til þess að skapa verðmæti þá þurfum við atvinnu. Til þess að auka hagvöxt og byggja upp velferð þá þurfum við að auka fjárfestingar og framleiðni. Stöðugt og fjölbreytt atvinnulíf byggist á hugviti og dugnaði einstaklinga en rekstrarumhverfið þarf líka að vera hagstætt. Skattpíning skilar engu. Fyrirtæki þurfa einfaldara regluverk og einfaldara skattkerfi til að geta vaxið. Við megum ekki höggva ræturnar af trénu, við verðum að vökva það og næra. Hið sama gildir um fyrirtækin okkar.

Blómlegt atvinnulíf er undirstaða velferðar

Um 90% íslenskra fyrirtækja eru lítil og meðalstór.  Stöðugleikinn er meiri þegar við höfum ekki öll eggin í sömu körfunni.  Því telur Framsóknarflokkurinn mikilvægt að leggja áherslu á að styrkja hag lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þegar skattaumhverfi þeirra er orðið vænlegra þá skila þessi fyrirtæki meiri tekjum, sem þýðir að þau geti fjölgað störfum.  Það þýðir að fleiri fá atvinnu, atvinnuleysi minnkar, tekjur heimilanna hækka og staða þeirra batnar.

Litli kallinn borgar

Rekstur smærri fyrirtækja hefur verið mjög erfiður síðustu misseri. Ástæðurnar eru margar. Helst má nefna sífelldar skattabreytingar, flóknara regluverk,  óhagstætt gengi krónunnar,  aukinn rekstrarkostnað  og hærri afborganir lána.  „Stóru kallarnir“ fengu margir hverjir afskrifaðar skuldir eftir Hrun en „litlu kallarnir“ sitja uppi með sínar skuldir. Sumir fyrirtækjaeigendur halda áfram ennþá á þrjóskunni en aðrir hafa því miður gefist upp. Í stað þess að auðvelda atvinnurekendum róðurinn á þessum erfiðu tímum, þá hefur núverandi ríkisstjórn gert sitt til að þyngja hann enn frekar með endalausum skattaálögum. Rekstarumhverfið hefur verið mjög óstöðugt og menn veigrað sér við að fara út í frekari fjárfestingar því óvissa ríkir um í hverju skuldbindingarnar muni felast.

Þessu þarf að breyta og því ætlar Framsókn að beita sér fyrir fái hún til þess umboð frá kjósendum í vor. Vinna, vöxtur, velferð eru sígild slagorð. Við verðum að byggja upp atvinnulífið með öllum ráðum. Fjölskyldan og heimilin eru undirstaða samfélagsins en þau eiga allt sitt undir því að atvinnulífið gangi vel.

Framsókn fyrir atvinnulífið! Framsókn fyrir heimilin! Framsókn fyrir Ísland!

 

Silja Dögg Gunnarsdóttir 2. sæti Framsókn í Suðurkjördæmi

Categories
Greinar

Samfélagið verður Sigurvegarinn

Deila grein

18/03/2013

Samfélagið verður Sigurvegarinn

Það eru engin ný sannindi að í flestum keppnum sigrar einhver og það tapar einhver. En stundum þarf að taka skref til baka og velta keppninni fyrir sér hvort það þurfi endilega einhver að tapa. Rannsóknir á vettvangi afreksíþrótta segja að hugarfarið sé lykill að árangri; ástríða, þrautseigja og skuldbinding á verkefnin.

Í mínum huga eiga stjórnmálin að snúast um það samfélag sem við viljum byggja upp og búa í, um þær ákvarðanir sem að því lúta og þar á enginn að þurfa að tapa. Nú í aðdraganda kosninga munu stjórnmálaflokkarnir setja fram sína stefnu, sem er til þess fallin að kynna samfélaginu þá leið sem þeir telja hyggilegast að fara. Stjórnmálamenn munu etja kappi, aðallega á velli fjölmiðlanna, og reyna að koma hugmyndum sínum á framfæri í þeim tilgangi að sannfæra kjósendur, heimilin og fyrirtækin um hina ?réttu leið?. Svona hef ég upplifað stjórnmálin frá því ég fór að fylgjast með og upplifa þennan kappleik. Ég hreifst gjarnan af kappsfullum og mælskum stjórnmálamönnum sem fóru mikinn í orðræðu, svöruðu skarplega og fimlega öllum andmælum og hljómuðu svo sannfærandi að ég trúði því að þarna væri sannleikann að finna. Þeir höfðu andstæðinginn undir.

Samfélagið í uppnámi

Þrátt fyrir misvísandi skilaboð í öllu því upplýsingaflæði sem dembist yfir okkur á prenti, á netinu og öldum ljósvakans held ég að enginn geti mælt því mót að samfélagið er í besta falli í uppnámi. Heimilin búa við stökkbreyttar skuldir, rýrnandi kaupmátt, skertar ráðstöfunartekjur, sífelldar og almennar verðhækkanir, atvinnuleysi og ofan á allt það stöðugar breytingar á skattkerfinu og skattahækkanir. Fyrirtækin búa við óstöðugt efnahagsumhverfi, skattabreytingar, skattahækkanir og heilu atvinnugreinarnar búa við algera óvissu. Allt hefur þetta lamandi áhrif á samfélagið, heimilin halda að sér höndum og fyrirtækin hafa minna svigrúm til fjárfestinga og mannaráðninga. Í þessum kappleik tapa allir. Þetta kallast tilfinning taparans.

Til að snúa ósigri í sigur þurfum við leiðandi afl, sem hefur hið sanna hugarfar. Afl sem hikar ekki við að taka ákvarðanir, hefur vilja til að takast á við breytingar og umfram allt hefur kjark og dug til þess að koma á umbreytingum. Til þess að framfylgja breytingum og ná þeim árangri sem stefnt er að þarf að koma til þrautseigja og skuldbinding á verkefnin, þeir lykilþættir sem rannsóknir sýna að þurfi til í leitinni að árangri. Í samfélaginu er ákall um slíka forystu.
Fyrir skemmstu unnum við öll mikilvægan sigur í Icesave-málinu. Sá sigur vannst fyrir slíkan dugnað, forystu dugandi fólks, skuldbindingu á verkefnið, þrautseigju og ástríðu fyrir hagsmunum þjóðar.

Nú þarf ekkert minna en að hrinda af stað umbreytingarferli sem felur í sér bætt kjör heimila og fyrirtækja. Lykilmálin eru leiðrétting á skuldum og afnám verðtryggingar. Þar er á ferðinni réttlætismál og forsenda hagvaxtaraukningar. Einfalda þarf skattkerfið og lækka skatta eins og t.d. tryggingagjald.

Munurinn á þessum kappleik og hefðbundnum íþróttakappleik er að hér, líkt og í Icesave-málinu, sigra allir. Samfélagið allt er undir og verður hinn eini sanni sigurvegari. Vinnum saman og ráðumst í breytingar.

Árangurinn mun byggja á hugarfarinu. Framsókn fyrir heimilin.

Willum Þór Þórsson