Categories
Greinar

Valið er okkar

Deila grein

12/04/2013

Valið er okkar

Þórunn EgilsdóttirÍsland er ríkt land, bæði af auðlindum og mannauði. Á Norðausturlandi er mikil verðmætasköpun og íbúar landshlutans standa á bakvið drjúgan hluta af landsframleiðslunnar. En því miður er nú svo komið að veruleg óvissa ríkir um sjálfsagða grunnþjónustu í kjördæminu. Svo hart hefur verið vegið að grunnatvinnuvegum okkar að allt bendir til þess að þeir verði ekki það hryggjarstykki í hagkerfinu sem þeir þurfa að vera til að samfélagið virki sem skyldi.

Fram til þessa höfum við Íslendingar haft raunhæft val um búsetu hvar sem er á landinu, vitandi það að við bjuggum við sama rétt og grunnþjónustu um allt land. Því miður er nú svo komið að veruleg óvissa ríkir um grunnþjónustuna sem öllum landsmönnum er þó ætlað að greiða fyrir, þjónustuna sem er forsenda búsetu í landsbyggðunum og felur í sér örugga löggæslu, aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu, fjölbreytta möguleika til náms, góðar samgöngur og fjarskipti.

Löggæslumál í kjördæminu eru ekki með þeim hætti að ásættanlegt sé, heilbrigðisþjónustan hefur stöðugt átt undir högg að sækja og við, íbúar kjördæmisins, þurfum oft um langan veg að fara til að sækja þá heilbrigðisþjónustu sem við þörfnumst.

Nú höfum við val um að snúa óheillavænlegri þróun til baka. Val um að efla grunnþjónustuna um landið og snúa okkur frá miðstýringu. Val um að á Íslandi verði hægt að fá læknisþjónustu án þess að þurfa að sækja hana um langan veg. Val um að íbúar Íslands verði öruggir þar sem lögreglan vakir yfir byggðunum. Val fyrir gamla fólkið okkar að verja ævikvöldinu í sinni heimabyggð en ekki vera flutt hreppaflutningum á hjúkrunarheimili í fjarlægum bæjarfélögum.

Nú höfum við val um að halda Íslandi í byggð.  Framsókn hefur lagt fram róttæka stefnu í byggðamál. Kjósum því X-B í alþingiskosningunum 27. apríl næstkomandi.

Þórunn Egilsdóttir

Höfundur skipar 4. sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi.