Categories
Greinar

300 þúsund er lágmark

Deila grein

14/12/2015

300 þúsund er lágmark

Elsa-Lara-mynd01-vefurSilja-Dogg-mynd01-vefTryggja þarf öldruðum og öryrkjum 300 þúsund lágmarksgreiðslu á innan við 3 árum. Ríkisstjórnin á að stíga skrefið til fulls og tryggja þessum hópi þessa lágmarksframfærslu.

Dregið úr skerðingum

Ríkisstjórn Framsóknar – og Sjálfstæðisflokksins setti það í forgang að draga úr skerðingum sem bótaþegar sættu á síðasta kjörtímabili. Strax sumarið 2013 var afnumin sú regla að lífeyrissjóðstekjur skertu grunnlífeyri. Frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega og öryrkja var hækkað. Frítekjumark vegna lífeyrissjóðatekna var hækkað. Víxlverkunarsamkomulag vegna bóta almannatrygginga og lífeyrissjóða var framlengt. Skerðingahlutfall tekjutryggingar var lækkað í 38,35 % þann 1. janúar 2014. Þetta þýðir að bætur eru nú 7,4 milljörðum króna hærri á ári en annars væri.

Bætur hækka afturvirkt

Þær aðgerðir sem snúa að almannatryggingakerfinu á þessu ári og því næsta eru að bætur munu hækka um 14,2 milljarða, þann 1. janúar 2016 sem er hækkun upp á 9,7 %. Inni í þeirri tölu eru 3,9 milljarðar sem er afturvirk hækkun vegna meðaltals  launaþróunar á árinu. Sú hækkun bætist ofan á 4,3 milljarða sem aldraðir og öryrkjar fengu í janúar 2015. Samtals er því hækkun til málaflokksins vegna meðaltals launaþróunar á árinu 2015 8,2 milljarðar. Hækkun á bótum til aldraðra og öryrkja frá janúar 2015 – 2016 eru því samtals 18,5 milljarðar.

26,8 milljarða hækkun

Samtals skila aðgerðir á kjörtímabilinu því að bætur á næsta ári verða 26,8 milljörðum hærri en þær hefðu annars verið. Það eru 26,8 milljarðar sem fara beint til aldraða og öryrkja, samtals 17,1 % hækkun. Í lokafjárlögum síðustu ríkisstjórnar nam heildarfjármagn til almannatrygginga 77 milljörðum. Í fjárlögum núverandi ríkisstjórnar nemur heildarfjármagn 103 milljörðum.

Margt hefur verið gert, en við verðum að halda áfram að gefa í. Þess vegna ítrekuðu þingmenn ríkisstjórnarinnar það í störfum þingsins núna í morgun að ríkisstjórnin eigi að tryggja öldruðum og öryrkjum 300 þúsund lágmarksgreiðslu á innan við 3 árum.

Elsa Lára Arnardóttir og Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist á visir.is 11. desember 2015.

Categories
Greinar

Aukinn séreignarsparnað í stað hærri stýrivaxta

Deila grein

08/12/2015

Aukinn séreignarsparnað í stað hærri stýrivaxta

frosti_SRGBFrá aldamótum hefur Seðlabankinn reitt sig á stýrivaxtatækið til að halda verðlagi stöðugu. Því miður fylgja stýrivaxtahækkunum ýmsar aukaverkanir og þess vegna er mikilvægt að finna ásættanlegri leiðir til að stuðla að stöðugu verðlagi. Þar gæti breytilegur séreignarsparnaður komið til álita.

Helstu aukaverkanir stýrivaxta
Stýrivaxtahækkanir bitna aðallega á þeim sem skulda, eins og Vilhjálmur Birgisson verkalýðsleiðtogi benti á í nýlegum pistli. Því koma stýrivaxtahækkanir hart við fjölskyldur sem eru að koma sér upp húsnæði. Ung og vaxandi fyrirtæki þurfa einnig á meira lánsfé að halda en þroskuð fyrirtæki og hækkandi stýrivextir geta hamlað eðlilegri fjárfestingu í uppbyggingu atvinnulífsins. Það er ekki réttlátt að þeir skuldsettari leggi meira af mörkum en aðrir til að viðhalda verðstöðugleika en þannig virka stýrivaxtahækkanir.

Þegar stýrivextir hér eru hærri en í öðrum löndum getur það leitt til innstreymis á kviku erlendu fjármagni. Slíkt innstreymi fjármagns getur leitt til styrkingar á gjaldmiðlinum umfram það sem raunhagkerfið þolir. Viðskiptahalli getur þá vaxið og um leið erlend skuldsetning þjóðarbúsins. Þegar erlendir eigendur fjármagns telja skuldir þjóðarbúsins orðnar hættulega miklar getur brostið á fjármagnsflótti sem leiðir til gengisfalls.

Auk þess að vera taldir óskilvirkt stýritæki með margar aukaverkanir, þá ber Seðlabankinn og þar með ríkissjóður, mikinn kostnað af stýrivaxtatækinu. Seðlabankinn greiðir bönkum 5,75% vexti á allar innstæður þeirra í Seðlabankanum en vegna þess hve bankar eiga mikið af lausu fé þurfa þeir lítið að taka lán í Seðlabanka og hann hefur því engar tekjur af stýrivöxtum. Seðlabankinn hefur því árlega greitt bönkunum marga milljarða í vexti en haft litlar tekjur á móti. Seðlabankinn gæti reyndar dregið verulega úr tapi sínu með því að hætta að greiða vexti á þær innstæður bankanna sem eru á bindiskyldu. Það fyrirkomulag tíðkast einmitt hjá flestum seðlabönkum heims og ætti að taka upp hér líka.

Eftir því sem stýrivextir verða hærri því meiri verða allar aukaverkanir og þess vegna er nauðsynlegt að leita ásættanlegri leiða til að draga úr hækkunum verðlags.

Séreignarsparnaður til sveiflujöfnunar
Í stað þess að hækka stýrivexti mætti draga úr hækkun verðlags með því að auka sparnað allra. Slíkar hugmyndir hafa verið til skoðunar á Nýja-Sjálandi þar sem háir stýrivextir hafa iðulega leitt til of mikillar styrkingar gjaldmiðilsins og fleiri vandkvæða. Með auknum séreignarsparnaði væri hægt að draga úr neyslu flestra en ekki bara þeirra sem skulda eins og gerist við týrivaxtahækkun.

Það mætti útfæra sparnað sem stýritæki með ýmsum hætti. Á þenslutímum mætti t.d. beita blöndu af skattalegum hvötum og skyldusparnaði til að auka séreignarsparnað landsmanna. Það
mætti líka vera valkostur að greiða niður húsnæðislán í stað þess að leggja í séreignarsjóð og taka yrði tillit til þeirra sem ekki hafa nægar ráðstöfunartekjur til að leggja aukalega í sparnað.

Með breytilegum séreignarsparnaði myndi þjóðin nota góðærin til að leggja meira fyrir en í meðalári og væri þannig betur undir það búin að mæta samdráttarskeiðum í framtíðinni. Það mætti líka nota séreignarsparnaðinn til að mæta persónulegum áföllum.

Margt bendir til þess að breytilegur séreignarsparnaður geti að hluta til komið í stað stýrivaxtahækkana og þannig stutt við markmið peningastefnunnar. Með því að bæta breytilegum séreignarsparnaði í verkfærakistu Seðlabankans mætti þannig stuðla að meiri stöðugleika í verðlagi og um leið lækka stýrivexti og þar með almennt vaxtastig í landinu.

Frosti Sigurjónsson

Greinin birtist í DV 8. desember 2015.

Categories
Greinar

Sóknaráætlun í loftslagsmálum leiðir til margvíslegs ávinnings

Deila grein

04/12/2015

Sóknaráætlun í loftslagsmálum leiðir til margvíslegs ávinnings

líneikFramfarir í umhverfismálum skila jafnramt framförum fyrir samfélagið og þess vegna er ný kynnt sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum fagnaðarefni. Metnaðarfull sóknaráætlun í loftslagsmálum getur, samhliða því að draga úr  loftslagsbreytingum, dregið úr mengun í nærumhverfi, byggt upp gróðurauðlind, stuðlað að líffræðilegri fjölbreytni, sparað gjaldeyri, hvatt til betri orkunýtingar, aukið hagkvæmni í rekstri og ýtt undir nýsköpun svo eitthvað sé nefnt.

Áætlun ríkisstjórnarinnar  byggir á 16 verkefnum.  Verkefnin eru fjölbreytt og eiga það sameiginlegt að geta átt þátt í að draga úr loftslagsbreytingum. Bæði er um að ræða verkefni sem auka bindingu kolefnis og draga úr losun kolefnis, en líka stuðningur við alþjóðleg loftslagsverkefni. Ég álít allar þessar leiðir mikilvægar, því í þessu samhengi eru engar aðgerðir of smáar til að skipta máli.

Í öllum verkefnunum sóknaráætlunarinnar er áhersla lögð á samvinnu. Lykilatriði er að ýtt verði undir frumkvæði og nýsköpun einstaklinga og fyrirtækja, þegar leitað verður lausna fyrir samgöngur og atvinnulíf. Takist þetta getur það leitt til aukinnar hagkvæmni með betri orkunýtingu og aukinni nýtingu innlendrar orku. Jafnframt er mikilvægt að við séum meðvituð um að til þess að nýta þessi tækifæri getum við þurft að forgangsraða uppbyggingu innviða í samræmi við það, s.s. að efla raforkukerfið til að skila rafmagni til fiskiðnaðarins og hafna landsins um land allt.

Varðandi bindingu kolefnis eigum við líka fjölbreytt tækifæri. Stefnt er að því að sett verði aukið fé til landgræðslu, skógræktar og endurheimtar votlendis. Þetta eru verkefni sem stjórnvöld og einkaaðilar geta varið fjármunum til, en framkvæmdin þarf að vera hjá þeim sem nýta landið. Áríðandi er að vinna að þessum verkefnum byggi á skipulagsáætlunum og heildarsýn á landnýtingu, s.s. í gegnum landsáætlanir í skógrækt og landgræðslu. Hér á landi hafa verið unnin tilraunaverkefni við endurheimt votlendis, sem lofa góðu, en mikilvægt er að fram fari greining á því hver raunveruleg stærð framræst votlendis er og hvar endurheimt getur átt við. Þessi vinna gæti leitt til áætlunar um endurheimt votlendis sem yrði hluti af öðrum áætlunum um landnýtingu, á næstu árum gætum við kannski eignast heildaráætlun um endurheimt vistkerfa. Á þessu sviði er líka mikilvægt að byggja á íslenskum rannsóknum og mati á árangri, þó rannsóknir sem fram hafa farið hér bendi til þess að yfirfæra megi niðurstöður erlendis frá hingað. Það er hins vegar mikil einföldun eða hreinlega afbökun staðreynda að halda því fram að við getum uppfyllt okkar loftslagsmarkmið eingöngu með endurheimt votlendis. Framræst mýrlendi losar vissulega mikið af kolefni, en það á sér líka stað losun gróðurhúsalofttegunda frá óframræstu mýrlendi og öðru landi.  Nýtingu hvers svæðis þarf einfaldlega að vega og meta miðað við bestu þekkingu.

Að lokum langar mig að nefna átak til að draga úr matarsóun sem er eitt verkefnanna en matarsóun veldur svo sannarlega óþarfa kolefnislosun.  Samhliða er mikilvægt að ræða kolefnisspor matvæla og horfa þá til þátta eins og landnýtingar, flutninga og orkunýtingar við framleiðslu matvælanna. Hvert og eitt okkar getur lagt sitt að mörkum til að draga úr loftslagsbreytingum ef við erum meðvituð, það eru bæði stór og smá skref sem skipta máli. Sennilega er viðhorfsbreyting okkar allra það sem getur skilað mestu til lengri tíma litið. Þegar allt kemur til alls er það einfaldur lífstíll og nýtni sem bæði skilja eftir sig minnsta kolefnissporið og stuðla að hagkvæmni í heimilisrekstri.

Kolefnis bókhald er nokkuð flókið fyrirbæri en í sinni einföldustu mynd gengur það út á að við sem þjóð drögum úr magni kolefnis sem við sendum frá okkur út í andrúmsloftið. Ástæðan fyrir því að stóriðja er ekki sérstaklega tekin fyrir í áætluninni er að haldið er sérstakt kolefnisbókhald fyrir stóriðju á heimsvísu.

Verkefni í sóknaráætlun í loftslagsmálum munu setja kraft í vinnuna, virkja fleiri og leggja línurnar varðandi markvisst starf til lengri tíma við að minnka losun kolefnis og auka kolefnisbindingu.

Líneik Anna Sævarsdóttir

Greinin birtist í DV 4. desember 2015.

Categories
Greinar

Við stöndum við stóru orðin

Deila grein

24/11/2015

Við stöndum við stóru orðin

Elsa-Lara-mynd01-vefurMiðstjórnarfundur Framsóknaflokksins fór fram um helgina. Þar fór forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, yfir þann árangur sem orðið hefur á kjörtímabilinu. Frá því ríkisstjórn Framsóknar – og Sjálfstæðisflokksins tók við völdum þá hafa orðið til um 15000 ný störf hér á landi. Nú er hagvaxtarspá rúmlega 5 %, fjárfesting að aukast víða um land og atvinnuleysi komið niður í um 3 %. Jafnframt er verðbólga minni og stöðugri en hún hefði verið um langt skeið og kjarabætur í formi  kaupmáttaraukningar eru meiri en áður hefur sést, á svo stuttum tíma. Það er því óhætt að halda því fram að á þessu kjörtímabili hefur verið staðið við stóru orðin. Við höfum náð árangri í mörgum stórum málum og sá árangur er hvatning til að gera enn betur.

Hvað hefur verið gert?

Með aðgerðum ríkisstjórnar Framsóknar – og Sjálfstæðisflokksins þurfa kröfuhafar gömlu bankanna að skila hundruðum milljarða í þjóðarbúið. Þegar litið er á heildarumfang þeirra aðgerða, þá eiga stöðugleikaskilyrðin og aðrar ráðstafanir vegna losunar fjármagnshafta að nema 856 milljörðum.  Aðgerðirnar hafa verulega jákvæð áhrif á skuldastöðu ríkissjóðs sem mun batna til muna. Það gerir það að verkum að vaxtagjöld ríkissjóðs munu lækka og því verður meira svigrúm til uppbyggingar á innviðum samfélagsins til framtíðar.

Leiðrétting á verðtryggðum húsnæðisskuldum heimilanna hefur náð fram að ganga. Þar fóru 80 milljarðar í beina niðurfellingu og 70 milljarðar í séreignasparnaðsleiðina. Heildarumfang aðgerðarinnar var því 150 milljarðar. Vert er að geta þess að 69 þúsund umsóknir bárust frá 105 þúsund einstaklingum vegna þessarar almennu skuldaaðgerðar. Gaman hefur verið að fá fréttir frá fólki sem er ánægt með leiðréttinguna. Segja hana hafa góð áhrif á heimilisbókhaldið. Segjast geta farið 2-3 sinnum í matvöruverslunina fyrir þá upphæð sem lánið minnkar um. Alla munar um það. Auðvitað er það mismunandi hvað lánin lækkuðu um, fer allt eftir skuldahlutfalli hvers og eins. En þak aðgerðarinnar var 4 milljónir.

Ef litið er til heilbrigðismála og fjárlaga fyrir árið 2016, þá eru heildarútgjöld til málaflokksins rétt tæplega 162 milljarðar. Raunaukning til málaflokksins eru 4,4 milljarðar á milli ára en ef við berum saman fjárlög frá 2013 til 2016 þá er raunaukning til málaflokksins um 16,4 %. Þarna er um að ræða verulega fjármuni enda var þörfin orðin mikil og nauðsynlegt að halda áfram á sömu braut.

Auk þessa munu bætur almannatrygginga og atvinnuleysisbætur hækka um 9,4 %, samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta ár. Samtals leiðir þetta til 9,6 milljarða útgjaldaauka en þegar tekið hefur verið tillit til fjölgunar lífeyrisþega og annarra, nemur hækkunin samtals 11 milljörðum.

Hvað er framundan?

Eins og fram kemur hér að framan þá höfum við náð árangri. Sá árangur er hvatning til að halda áfram á sömu braut. Þau verkefni sem framundan eru, eru m.a. að halda áfram að byggja upp innviði samfélagsins, heilbrigðiskerfið og önnur velferðarmál eins og húsnæðismálin. Vinna að afnámi verðtryggingar og endurskipulagningu fjármálakerfisins. Auk þessa verður klárað að endurskoða stjórnarskrá, unnið að ljósleiðaravæðingu Íslands og komið fram með byggðarstefnu þar sem markmiðið er að styrkja byggðir landsins og bæta þjónustu.

Í lok þessarar greinar vil ég gera orð sem ég heyrði, að mínum orðum. Þessi orð eru ,,ég hafna goðsögninni um hið ömurlega Ísland. Hér er margt gott en annað sem þarf að bæta. En Ísland er ekki alslæmt og alls ekki ömurlegt.“

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist í DV 24. nóvember 2015.

Categories
Greinar

Ný náttúruverndarlög í víðtækri samvinnu

Deila grein

16/11/2015

Ný náttúruverndarlög í víðtækri samvinnu

sigrunmagnusdottir-vefmyndÞað eru mikil tímamót að tekist hefur að leiða til lykta vinnu við endurskoðun náttúruverndarlaga og munu nýju lögin taka gildi á morgun, 15. nóvember. Það er jafnframt afar ánægjulegt að þverpólitísk samstaða náðist milli allra stjórnmálaflokka á Alþingi við að ljúka þessu máli í sátt eftir áralangar umræður og deilur.

Þau lög sem nú hafa verið samþykkt eru afrakstur mikillar vinnu sem staðið hefur lengi við að endurskoða núgildandi lög frá 1999. Hef ég lagt mikla áherslu á framgang þessa máls frá því ég tók við starfi umhverfis- og auðlindaráðherra og átti ráðuneytið ítarlegt samráð við fjölmarga hagsmunaaðila, stofnanir ráðuneytisins og umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis. Vil ég þakka öllum þeim fjölmörgu aðilum sem að þessu hafa komið og lagt hafa hönd á plóg við endurskoðun laganna.

Vinnan við endurskoðun laganna hafði það skýra markmið að efla náttúruvernd í landinu og framkvæmd hennar, skýra betur leikreglur um hverskonar framkvæmdir og nýtingu sem áhrif hafa á náttúruna og ná um þær víðtækri samstöðu. Með samþykkt frumvarpsins og gildistöku nýrra náttúruverndarlaga er því tekið veigamikið skref til að styrkja vernd og bæta umgengni um náttúru landsins og útfæra þær reglur sem lúta að nýtingu hennar til framtíðar.

Í framhaldinu verður frekari vinna tengd nýju lögunum sett af stað í umhverfis-og auðlindaráðuneytinu í samstarfi við önnur hlutaðeigandi ráðuneyti vegna bráðarbirgðarákvæðis sem varðar einn mikilvægasta atvinnuveg þjóðarinnar, ferðaþjónustuna. Þar segir til um að vinna skuli frekar að ákvæðum er taki á stýringu ferðaþjónustunnar með hliðsjón af reglum almannaréttar á grundvelli náttúruverndar og nauðsynlegrar auðlindastýringar sem nýting ferðaþjónustunnar á náttúrunni hefur óhjákvæmilega í för með sér.

Við búum vel að því að eiga sérstæða og mikilfenglega náttúru, sem er samofin sögu okkar og menningu. Hún er jafnframt gjöful og er vaxandi ásókn í að njóta og nýta hverskonar gæði hennar. Með sanni má segja að íslensk náttúra og gæði hennar séu undirstaða velferðar í landinu, ekki síst núna með sívaxandi ferðamannastraumi. Með nýjum náttúruverndarlögum verða fjöldamargar umbætur til að tryggja verndun og sjálfbæra nýtingu náttúrugæða til framtíðar.

Sigrún Magnúsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 14. nóvember 2015.

 

Categories
Greinar

Sjúkt samband

Deila grein

09/11/2015

Sjúkt samband

Elsa-Lara-mynd01-vefurSilja-Dogg-mynd01-vef„Það er verðbólgan sem er vandamálið, ekki verðtryggingin. Sér í lagi þegar verðbólgunni er haldið í skefjum.“ Þessi orð heyrast ávallt þegar rætt er um afnám verðtryggingar. Menn óttast að ef verðtryggð lán verði bönnuð þá sitji neytendur eftir með óverðtryggð lán á okurvöxtum. Standast þessi rök skoðun? Er ástæða til að óttast afnám verðtryggingar?

Flestir eru sammála um að verðtryggð neytendalán séu ekki siðleg viðskiptaaðferð. Það virðist ekki vera almenn þekking hjá lántakendum verðtryggðra lána að verðbætti hlutinn sé falið lán sem leggst við höfuðstólinn um hver mánaðamót. Því eru neytendur ómeðvitaðir um áhættuna sem í lántökunni felst. Þess vegna ættu verðtryggð lán aðeins að vera í boði fyrir atvinnufjárfesta og aðra með sérþekkingu á fjármálum.

Verðtryggingin viðheldur háum vöxtum þar sem neytendur eru leiksoppar í blekkingarleik fjármálafyrirtækja. Í óverðtryggðu umhverfi geta komið verðbólguskot en bankar vita að þeir verða að taka hluta af skotinu á sig sjálfir, annars verða mikil vanskil. Þegar lán verða almennt orðin óverðtryggð mun peningastefnan (stýrivaxtatækið) virka miklu betur en nú. Gera má ráð fyrir að 0,1% hækkun stýrivaxta muni skila sömu áhrifum og 1% hækkun gerir í dag. Stýrivextir gætu því verið lægri, óverðtryggð lán verða raunhæfur kostur og hagur heimilanna batnar.

Eitt af stóru kosningamálunum vorið 2013 var afnám verðtryggingarinnar af neytendalánum. Þingmenn Framsóknar töluðu fyrir afnáminu og lofuðu að beita sér fyrir því ef þeir fengju umboð kjósenda. Flokkurinn vann stórsigur og nú er komið að efndum. Skýrsla sérfræðihóps um afnám verðtryggingar af neytendalánum var birt í lok janúar 2014. Meirihluti sérfræðihópsins lagði til að frá og með 1. janúar 2015 yrðu stigin veigamikil skref í átt að fullu afnámi verðtryggingar nýrra neytendalána, en vinna við áætlun um fullt afnám yrði hafin eigi síðar en á árinu 2016.

Sjúku sambandi okurvaxtastefnu og verðtryggingar verður að ljúka. Börnin þeirra, heimili landsins, eru stöðugt undir slævandi áhrifum til að lifa af í þessu firrta umhverfi. Heimili landsins eiga betra skilið.

Silja Dögg Gunnarsdóttir og Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 9. nóvember 2015.

Categories
Greinar

Dagur gegn einelti 8. nóvember

Deila grein

07/11/2015

Dagur gegn einelti 8. nóvember

EÞHSunnudagurinn 8. nóvember verður tileinkaður baráttu gegn einelti og er það í fimmta sinn sem það er gert hér á landi. Markmiðið er að vekja athygli á málefninu og hve alvarlegt einelti er.

Í tengslum við þennan dag árið 2011 var undirritaður þjóðarsáttmáli gegn einelti og stofnuð vefsíðan gegneinelti.is. Á vefsíðunni getur fólk lagt baráttunni lið með því að undirrita sáttmálann og skuldbinda sig þar með til þess að vinna af alefli gegn einelti í samfélaginu, standa vörð um rétt fólks til þess að geta lifað í sátt og samlyndi við umhverfi sitt og jafnframt að gæta sérstaklega að rétti barna og ungmenna og þeirra sem ekki eiga sér málsvara eða sterka rödd í samfélaginu.

Ég hvet fólk til að undirrita þjóðarsáttmálann gegn einelti, taka þátt í baráttunni gegn því og leggja sitt af mörkum til að bæta samfélagið og hafa áhrif til góðs með breytni sinni. Við þurfum saman að vinna bug á þessu samfélagsböli sem eitrar og eyðileggur líf svo margra.
Ný reglugerð gegn einelti

Nú hefur verið birt ný reglugerð sem kveður á um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Þetta er mikilvægur áfangi, því þarna er sett fram hvaða skyldur hvíla á atvinnurekendum í þessum efnum, um skyldu allra vinnustaða um að setja sér áætlun um aðgerðir til að koma í veg fyrir einelti og viðbrögð ef á reynir.

Öllum vinnustöðum ber að greina áhættuþætti innan vinnustaðarins með gerð áhættumats. Í reglugerðinni er með skýrum hætti kveðið á um að við gerð áhættumats skuli meðal annars greina áhættuþætti eineltis á vinnustaðnum þar sem tekið skuli tillit til andlegra og félagslegra þátta, svo sem aldurs starfsmanna, kynjahlutfalls, ólíks menningarlegs bakgrunns starfsfólks, skipulags vinnutíma, vinnuálags og fleira. Ljóst er að vinnustaðir eru jafn ólíkir og þeir eru margir og því mikilvægt að áhættumatið taki mið af aðstæðum á hverjum stað.

Vinnueftirlit ríkisins hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar en fyrirtæki og sérfræðingar sem hlotið hafa viðurkenningu Vinnueftirlitsins til að veita atvinnurekendum þjónustu við gerð áætlana um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum hafa á að skipa sérfræðingum sem einnig geta veitt aðstoð við gerð áætlana um aðgerðir gegn einelti. Ég hvet atvinnurekendur til að nýta sér þessa sérfræðiþekkingu við gerð áhættumats á vinnustað þar sem meðal annars eru greindir áhættuþættir eineltis, líkt og reglugerðin býður.

Það er óumdeilt að aðbúnaður á vinnustað hefur áhrif á líðan og heilsu starfsfólks. Nútímaleg vinnuvernd á ekki einungis að snúast um að koma í veg fyrir slys og líkamlegt heilsutjón, heldur sýna rannsóknir að andlegir og félagslegir þættir eru ekki síður mikilvægir fyrir líðan og heilsu starfsfólks. Ef þessum þáttum er ekki sinnt aukast líkur á margskonar vanda sem getur dregið úr starfsánægju, skert framleiðni og aukið starfsmannaveltu. Vanlíðan starfsfólks getur leitt til heilsufarsvandamála, til lengri eða skemmri tíma.

Einelti er alvarlegt og getur valdið fólki varanlegum skaða. Mikilvægt er að atvinnurekendur geri sér grein fyrir skyldum sem á þeim hvíla og nýti þau verkfæri sem til eru í baráttunni gegn einelti.

Eygló Harðardóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 7. nóvember 2015.

Categories
Greinar

Ísland taki almenna afstöðu gegn efnahagsþvingunum

Deila grein

30/10/2015

Ísland taki almenna afstöðu gegn efnahagsþvingunum

frosti_SRGBÍsland er eitt þeirra ríkja sem eiga sérstaklega mikilla hagsmuna að gæta af því að milliríkjaviðskipti séu án allra þvingana. Ríflega 53% af þjóðarframleiðslu Íslands eru í formi útflutningstekna. Þetta er mjög hátt hlutfall í alþjóðlegum samanburði. Í Bandaríkjunum eru útflutningstekjur aðeins 12% af þjóðarframleiðslu og líklega er hlutfall útflutnings hjá Evrópusambandinu litlu hærra. Bandaríkin og ESB fórna því hlutfallslega margfalt minni hagsmunum en Ísland með því að taka þátt í efnahagsþvingunum.

Þegar stjórnvöld brjóta mannréttindi eða jafnvel alþjóðalög eru fyrstu viðbrögð alþjóðasamfélagsins yfirleitt þau að semja harðorðar ályktanir. Dugi ekki að álykta er í einstaka tilfellum gripið til viðskiptaþvingana til að auka þrýstinginn. Með viðskiptaþvingunum er þess freistað að fá brotleg stjórnvöld til að breyta hegðun sinni til betri vegar. Því miður skila efnahagsþvinganir mjög sjaldan tilætluðum árangri en þær valda iðulega búsifjum hjá almennum borgurum og gera þannig aðstöðu þeirra sem átti að hjálpa verri en hún var.

Afleiðingar viðskiptaþvingana geta í sumum tilfellum haft áhrif á íslensk fyrirtæki eða byggðarlög sem reiða sig á útflutning til viðkomandi ríkis. Þegar tjón leiðir af utanríkisstefnu hlýtur að vera eðlileg krafa að stjórnvöld bæti viðkomandi tjónið. Það er erfitt að réttlæta að tjón af utanríkisstefnu íslenskra stjórnvalda leggist tilviljanakennt og bótalaust á einstök fyrirtæki eða sveitarfélög sem hafa viðurværi sitt af utanríkisviðskiptum.

Mannréttindabrotum þarf að sjálfsögðu ávallt að mótmæla harðlega, en það bætir ekki heiminn að leggja út í viðskiptaþvinganir sem skaða fyrst og fremst innlend fyrirtæki og almenna borgara í viðkomandi ríki.

Í dag er Ísland þátttakandi í viðskiptaþvingunum gegn fjölmörgum ríkjum. Á vegum Sameinuðu þjóðanna tekur Ísland þátt í aðgerðum gegn fimmtán ríkjum. Þessu til viðbótar er Ísland þátttakandi í viðskiptaþvingunum Evrópusambandsins gegn Hvíta-Rússlandi, Bosníu Hersegóvínu, Egyptalandi, Gíneu, Moldóvu, Mjanmar, Sýrlandi, Túnis, Úkraínu, Rússlandi, Krím og Simbabve. Íslandi ber engin skylda til að taka þátt í þessum aðgerðum ESB því Ísland er ekki aðili að ESB og utanríkismál eru ekki hluti af EES samningnum.

Íslandi er frjálst til að móta sér þá almennu stefnu að taka ekki þátt í þvingunaraðgerðum gegn öðrum ríkjum. Undantekning frá þeirri reglu væru aðgerðir sem ákveðnar eru á vettvangi Sameinuðu þjóðanna eða NATO. Um leið væri rétt að falla frá þátttöku Íslands í öllum þvingunaraðgerðum sem eru hluti af utanríkisstefnu ESB.

Frosti Sigurjónsson

Greinin birtist í DV 29. október 2015.

Categories
Greinar

Norðurlönd og alþjóðamálin

Deila grein

28/10/2015

Norðurlönd og alþjóðamálin

HÞÞ1Í dag fer fram utanríkismálaumræða á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík. Málaflokkurinn er forgangsmál í formennskutíð Íslands og hefur fengið aukið vægi á vettvangi Norðurlandaráðs á undanförnum árum.

Það var ekki alltaf svo. Í kalda stríðinu voru utanríkismál lengst af ekki rædd á vettvangi norrænnar samvinnu en eftir lok þess komust þau á dagskrá. Ísland átti sinn hlut í því. Undir lok níunda áratugarins komu þingmenn Norðurlandaráðs á tengslum við starfssystkin sín í Eystrasaltsríkjunum. Þetta var á þeim dramatísku dögum sem liðu frá falli Berlínarmúrsins til endaloka Sovétríkjanna og þegar sjálfstæðisbarátta Eystrasaltsríkjanna var í algleymingi. Páll Pétursson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, leiddi sendinefnd sex þingmanna úr forystu Norðurlandaráðs til Ríga, Vilníus og Tallinn í nóvember 1990 og fleiri sendinefndir áttu eftir að fylgja. Norðurlandaráð bauð fulltrúum sjálfstæðishreyfinganna í Eystrasaltslöndunum á þing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í febrúar 1991 á meðan þau lutu enn sovéskri stjórn og var það mikilvægur stuðningur við málstað Eystrasaltsþjóðanna. Æ síðan hefur Norðurlandaráð átt náið samstarf við Eistland, Lettland og Litháen og einbeitt sér að nærsvæðasamvinnu í austri með það að leiðarljósi að styðja við stöðugleika og lýðræðisþróun til framtíðar.

Ástandið í Austur-Evrópu hefur verið ofarlega á baugi frá því hernaðarátökin í Úkraínu hófust fyrir 20 mánuðum. Norðurlöndin hafa verið einhuga um að fordæma yfirgang Rússa gagnvart Úkraínu og hina ólöglegu innlimun Krímskaga. Við í Norðurlandaráði höfum ásamt systursamtökum okkar Eystrasaltsráðinu heimsótt Kiev og finnum mikinn áhuga þingmanna í Úkraínu á nánara samstarfi við Norðurlönd og Eystrasaltslöndin um að þróa lýðræði og góða stjórnarhætti. Hvað Hvíta-Rússland varðar hafa samskipti við þingið í Minsk legið niðri frá kosningunum 2011 en á móti eigum við samstarf við stjórnarandstöðu og frjáls félagasamtök. Auðvitað hefur þróun síðustu missera haft neikvæð áhrif á samstarf okkar við Rússland og lokun skrifstofa norrænu ráðherranefndarinnar í Rússlandi eftir breytta afstöðu rússneskra stjórnvalda til þeirra eftir 20 ára rekstur var skref í ranga átt.

Nærsvæði Norðurlanda eru ekki bara í austri heldur líka í norðri og vestri. Norðurslóðir skipa æ stærri sess í starfi Norðurlandaráðs. Á níunda áratug síðustu aldar beindist athyglin að siglingum og mengun sjávar, á tíunda áratugnum að umhverfis- og öryggismálum. Norðurlandaráð átti stóran þátt í að koma á fót Þingmannaráðstefnunni um norðurskautsmál sem síðan leiddi af sér stofnun norðurskautsráðsins. Markmið íslensku formennskunnar í Norðurlandaráði hefur verið að halda áfram því starfi sem unnið hefur verið varðandi umhverfismál, loftslagsbreytingar, efnahagsmál, samfélagsmál og öryggismál á nærsvæði okkar í norðri. Markmið okkar er einnig að stuðla að umfjöllun um málefni Vestur-Norðurlanda, Færeyja og Grænlands, í Norðurlandaráði og kanna samstarfsmöguleika við grannríki í vestri, Kanada og Bandaríkin, m.a. vegna þeirra ríku norrænu hagsmuna sem felast í öryggis- og umhverfismálum þess svæðis.

Flóttamannastraumurinn til Evrópu og viðbrögð við honum verða sérstakt umfjöllunarefni á þinginu. Hundruð þúsunda manna hafa flúið hrylling og eyðileggingu stríðsátaka í heimalöndum sínum og komið til Evrópu á síðustu vikum í mestu fólksflutningum frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Norðurlöndin hafa á margan hátt ólíka stefnu gagnvart móttöku flóttafólks en löndin standa frammi fyrir sömu áskorunum og þau ræða sín á milli og finna sameiginlegar lausnir þar sem við á. Einn varaframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Christian Friis Bach, mun sérstaklega ræða flóttamannamálin í framsögu sinni í dag.

Við fjöllum ekki einungis um nærsvæðin á sviði utanríkismála í Norðurlandaráði. Fyrir þinginu liggur tillaga um að beina tilmælum til ríkisstjórna og þjóðþinga Norðurlandanna um að viðurkenna Palestínu sem fullvalda og sjálfstætt ríki. Ísland viðurkenndi Palestínu þegar í desember 2011 eftir samþykkt Alþingis þar um og Svíþjóð fylgdi í kjölfarið í október 2014. Ljóst er að skiptar skoðanir eru um tillöguna en Norðurlöndin deila öll sama markmiði um tveggja ríkja lausn og varanlegan frið fyrir botni Miðjarðarhafs. Því má búast við líflegum umræðum um Palestínutillöguna og utanríkismál almennt og jafnvel að menn takist á. Það er einungis eðlilegt í samstarfi lýðræðisríkja og sýnir styrk norrænnar samvinnu. Skýrsla Torvalds Stoltenbergs, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs, um norræna samvinnu á sviði utanríkis- og öryggismála frá 2009 kallaði eftir auknu samstarfi á þessu sviði. Við höfum svo sannarlega hlýtt því kalli og lagt áherslu á alþjóðamál á formennskuári Íslands í Norðurlandaráði.

Höskuldur Þórhallsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. október 2015.

Categories
Greinar

Norðurlandaráðsþing hefst í dag

Deila grein

27/10/2015

Norðurlandaráðsþing hefst í dag

HÞÞ1Það er gaman að fá að vera gestgjafi nú þegar þingmenn og ráðherrar Norðurlanda streyma til landsins á árlegan þingfund Norðurlandaráðs sem hefst í Reykjavík í dag. Þing Norðurlandaráðs er haldið til skiptis í aðildarlöndunum fimm og er eins konar uppskeruhátíð norræns samstarfs.

Hið nána samstarf Norðurlanda innan Norðurlandaráðs er komið á sjötugsaldur og ber aldurinn vel. Það hefur hvorki staðnað né trosnað heldur verið kvikt og í sífelldri þróun. Við á Norðurlöndunum erum svolítið eins og ein fjölskylda. Sameiginleg saga og menning binda saman Norðurlöndin sem hafa á síðustu áratugum orðið samferða í að byggja upp samfélög þar sem grunngildin eru mannréttindi, réttarríki, frelsi, jafnrétti og jöfnuður. Ríkin skora hátt á alþjóðlegum lífsgæðakvörðum og þar er áhersla á einstaklingsfrelsi samfara öflugri velferð. Náið norrænt samstarf hefur staðið af sér umbreytingar í Evrópu og ekki síður hnattvæðinguna. Heimurinn er minni en hann var áður og staðir og þjóðfélög sem eitt sinn þóttu framandi eru orðin aðgengilegri og jafnvel hversdagsleg. Við á Norðurlöndunum berum okkur ekki lengur saman einungis við nágranna okkar í Evrópu heldur allan heiminn.

Samstarf fólksins

Norrænt samstarf er fyrst og fremst samstarf fólksins. Hlutverk stjórnmálamanna í því er að skapa opinn vettvang fyrir samskipti þjóðanna á sem flestum sviðum. Þrátt fyrir að heimurinn standi Íslendingum opinn sem aldrei fyrr eru það grannþjóðir okkar sem við erum í mestum tengslum við. Íslendingar sækja menntun helst til þeirra og halda ekki síður utan til starfa á Norðurlöndum. Um 24.500 Íslendingar búa nú annars staðar á Norðurlöndum og af um 2.000 lánþegum Lánasjóðs íslenskra námsmanna erlendis eru tæplega 900 þar við nám. Norræna vegabréfasamstarfið, sameiginlegur atvinnu- og menntamarkaður og markvisst starf að því að afnema hvers kyns stjórnsýsluhindranir hefur auðveldað flæði yfir landamæri Norðurlanda og einfaldað flutninga. Einhvern tíma var það að fara til Norðurlanda að halda út í hinn stóra heim. Nú eru Norðurlönd á vissan hátt meira eins og útvíkkaðir heimahagar fyrir okkur Íslendinga. Við erum hluti hinnar norrænu fjölskyldu og í því felst styrkur.

Á þingi Norðurlandaráðs næstu þrjá daga verður fjallað um mál sem unnin hafa verið á umliðnum mánuðum jafnt í nefndum þingmanna sem og hópum ráðherra. Þar á meðal verða möguleikar á auknu og nánara samstarfi Norðurlanda, norræn heilsugæsla án stjórnsýsluhindrana, geðheilsa barna og ungmenna, velferðarþjónusta í dreifbýli, sjálfbærni og norrænar vatnsauðlindir, tungumálasamstarf, öflugir og frjálsir fjölmiðlar og umbætur á Norðurlandaráði svo fátt eitt sé nefnt. Á utanríkismálasviðinu verður m.a. fjallað um ástandið í Úkraínu og samskiptin við Rússland, flóttamannastrauminn í Evrópu og viðurkenningu á Palestínu.

Samstarfi og árangri fagnað

Auk þess að fjalla um málefni líðandi stundar á Norðurlandaþingi er tækifærið notað til að fagna samstarfi og árangri landanna á sviði menningar- og umhverfismála með verðlaunum Norðurlandaráðs. Á sérstakri verðlaunahátíð verða bókmenntaverðlaun, tónlistarverðlaun, kvikmyndaverðlaun, náttúru- og umhverfisverðlaun og barna- og unglingabókmenntaverðlaun ráðsins afhent. Verðlaunin eiga sinn sterka þátt í því að breiða út norræna listsköpun, jafnt milli Norðurlandanna sem utan þeirra, en norrænar bókmenntir, kvikmyndir og tónlist njóta vinsælda víða um heim. Í tilefni af Norðurlandaráðsþingi hefur sá sem þetta ritar lagt fram tillögu um að koma á norrænum sjónvarpsverðlaunum en norræn dagskrárgerð, einkum á sviði framhaldsþátta, hefur vakið mikla athygli og notið vaxandi útbreiðslu á liðnum árum.

Norræn samvinna hefur verið okkur Íslendingum afar mikilvæg og er það enn. Inn á við er grunnur samstarfsins í grasrótinni hjá einstaklingum, félagasamtökum og fyrirtækjum sem eiga margháttuð samskipti sín á milli. Út á við er norræn samstaða brýn á tímum hnattvæðingar og hræringa í ytra umhverfi og það er styrkur af því að standa í hópi Norðurlanda í samfélagi þjóðanna. Á ári mínu sem forseti Norðurlandaráðs hef ég beitt mér fyrir því að gera starfið sýnilegra og hefja umbótastarf innan ráðsins sem mun beinast að því að samstarfið eflist enn og dafni á komandi árum. Undir þeim formerkjum er það því einstaklega ánægjulegt að bjóða norræna frændur okkar velkomna til þinghalds á Íslandi.

Höskuldur Þór Þórhallsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 27. október 2015.