Categories
Greinar

Okurvextir

Deila grein

21/07/2017

Okurvextir

Háir vextir hérlendis eru undirliggjandi vandi hagkerfisins. Í gegnum árin hafa vextir alltaf verið háir óháð því hvort hér sé kreppa með fjármagnshöftum eða blússandi gangur í hagkerfinu. Íslensk heimili greiða nokkrum milljónum krónum meira af húsnæðislánum sínum borið saman við löndin í kringum okkur og fyrirtækin greiða hærri fjármagnskostnað. Þetta er hins vegar hægt að laga.

Stýrivextir eru nú 4,75% á með­an þeir eru við núllið í nágrannalöndum okkar. Ekki hafa fengist skýr svör frá Seðlabankanum hvers vegna vextir hér á landi þurfa að vera háir – alltaf! Seðlabankinn tók hænuskref til lækkunar í vor en hafa þær eitthvað að segja? Nærtækara hefði verið að taka skrefið til fulls til lækkunar, því ef aðgerðir Seðlabankans ná ekki tilætluðum árangri er hætt við að hann missi trúverðugleikann.

Hvað veldur?

Frá ársbyrjun 2014 hefur Seðlabankinn spáð hærri verðbólgu en raunin hefur orðið og miðað stýrivexti við þær spár. Afleiðingin er sú að Seðlabankinn hefur haldið vöxtum of háum allan þennan tíma.

Þá er því haldið fram að vaxtamunurinn við útlönd sé rakinn til þess að verðbólga hafi verið hærri hérlendis en erlendis. Það leiði til þess að verðbólguvæntingar séu hærri sem síðan hljóti að leiða til hærri nafnvaxta. Jafnframt hefur því verið haldið fram að sparnaðarvilji sé fremur lítill meðal almennings og því þurfi tiltölulega hátt raunvaxtastig til þess að halda innlendri eftirspurn í skefjum á uppsveiflutímum. Þessi sögulegu rök eru í sjálfu sér góð og gild.

Breyttir tímar

En nú er ljóst að einkaneysla hefur aukist hægar en vöxtur ráðstöfunartekna, samhliða að skuldir heimila hafa lækkað sem hluti af landsframleiðslu.

Og að staðan er sú að verðbólga og verðbólguvæntingar hafa verið undir skilgreindum markmiðum Seðlabankans nú á fjórða ár og hagkerfið er gjörbreytt frá því sem áður var. Við erum í raun orðin að útflytjendum á fjármagni.

Hvað þýða háir vextir?

Háir vextir ýta undir ójöfnuð hér á landi. Heimilin borga stærri hlut ráðstöfunartekna sinna til fjármálageirans í formi vaxta. Þeir sem fjármagnið eiga hagnast sem aldrei fyrr – og bilið breikkar milli þeirra sem eiga og hinna sem greiða. Þá verða fjárfestingar mun dýrari fyrir fyrirtækin og atvinnulífið minna samkeppnishæft við erlend fyrirtæki og þar með innflutning.

Háir vextir sem leiða til vaxtamunaviðskipta eru í eðli sínu óstöðug atvinnugrein innan hagkerfisins og valda óþarfa þrýstingi á krónuna.

Ekki er eftirsóknarvert að bjóða erlendum fjárfestum upp á hærri vexti ef tilgangur þeirra er aðeins skammtímagróði. Viðvarandi gjaldeyrisinnstreymi vegna ferðamanna er eitt, en skammtíma innflæði vegna vaxtamunar er allt annað og mun verra ef stýringin er ekki rétt. Ástæðan er sú að allt í einu geta fjárfestar tekið ákvörð­ un um að hæstu hæðum krónunnar sé náð, farið út með sitt fé, allir í einu og afleiðingin er gamalkunn; gengið fellur og verðbólgudraugurinn rankar við sér.

Afleiðing hárra vaxta verður einnig til þess að innlendir fjárfestar, s.s. lífeyrissjóðir þora ekki að fjárfesta erlendis. Einn daginn geta þeir ekki beðið lengur– allir fara út í einu – enginn vill vera síðastur – afleiðingin er þekkt!

Það sem þarf að gera

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans þurfa að beinast að því að jafna sveiflur og laga galla. Fjármagnið sem kemur inn þarf að vera eftirsóknarvert og lífeyrissjóðirnir þurfa að sjá ávinning í því að dreifa áhættunni með því að nýta sér kaup á erlendum eignum.

Til að spyrna á móti háu vaxtastigi og fyrirbyggja skaðleg áhrif sterks gengis á útflutningsatvinnugreinarnar þá þarf að halda áfram að byggja upp gjaldeyrisforða. Seðlabankinn hefur ekki getað rökstutt með skýrum hætti hvers vegna reglubundnum gjaldeyriskaupum var hætt og kom sú tilkynning nokkuð á óvart að ekki væri talin þörf fyrir frekari stækkun forðans. Þess í stað keypti Seðlabankinn krónur sem var líka nokkuð óvænt.

Á sama hátt er brýnt að byggja upp stöðugleikasjóð með það að markmiði að hjálpa til við efnahagslegan stöðugleika.

Vaxtamunaviðskipti er of áhættusöm atvinnugrein og leið­ir til meira ójafnvægis en hagkerfið ræður við. Þess vegna þarf að lækka vexti. Seðlabankinn hefur tækifæri til að bregðast við 23. ágúst næstkomandi.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 20. júlí 2017.