Categories
Greinar

Stríð og friður

Deila grein

28/01/2014

Stríð og friður

Eygló HarðardóttirNorræn ríki hafa í þúsund ár ýmist átt samstarf, herjað innbyrðis, gengið í bandalög eða hernumið hvert annað. Þann 14. janúar var haldið upp á að Norðurlöndin hafa ekki strítt sín á milli í 200 ár. Þennan dag árið 1814 undirrituðu Danir og Svíar sáttmála um frið í Kiel í Þýskalandi, í kjölfar ósigurs Dana í Napóleonsstríðunum. Danir létu Noreg í hendur Svía og Norðmenn lýstu yfir sjálfstæði en voru þó undir sænskum konungi til ársins 1905. Sáttmálinn markar því upphaf tímabils friðar, stöðugleika og aukinnar samvinnu Norðurlandanna.

Umfangsmikið norrænt vinasamstarf á sér nú stað. Norðurlandaráð, samstarfsvettvangur norrænu þjóðþinganna, var stofnað 1952 eftir seinni heimsstyrjöldina og Norræna ráðherraráðið, samstarfsvettvangur norrænu ríkisstjórnanna, árið 1971. Bæði þessi ráð vaka yfir velferð norrænna íbúa.

Halló Norðurlönd
Eitt af verkefnum norrænar samvinnu er að auðvelda frjálsa för milli Norðurlandanna og fækka svo kölluðum landamærahindrunum. Um 40.000 Norðurlandabúar flytja árlega á milli landanna og svipaður fjöldi sækir vinnu daglega eða vikulega þvert á landamærin. Slík tengsl stuðla að friði. Norrænir samningar hafa reynst vel s.s. um sameiginlegan vinnumarkað, frjálsa för norrænna borgara innan svæðisins og samningurinn um æðri menntun sem er okkur Íslendingum ómetanlegur.

Samstarfsráðherrar Norðurlandanna skipuðu um nýliðin áramót nýtt Landamærahindranaráð sem í sitja fulltrúar allra landanna. Ráðið mun vinna að því að auðvelda för norrænna borgara yfir landamærin eins og hægt er. Upplýsingaþjónustan Halló Norðurlönd er mikilvæg í þessu sambandi, en til hennar geta allir leitað sem vilja kanna rétt sinn varðandi flutninga milli landa. Heimasíða íslensku skrifstofunnar er www.hallonordurlond.is og sími 511-1808.

Sterk og stór saman
Norðurlandabúar eru rúmlega 25 milljónir samtals og sameiginlegt hagkerfi þeirra er það 10. stærsta í heimi. Aukin norræn samvinna felur því í sér öflugan og jákvæðan slagkraft. Saman erum við sterk og stór. Með friði norrænna ríkja á milli og aukinni samvinnu þeirra á sem flestum sviðum ættu möguleikarnir á hagsæld og framförum að vera miklir. Það er því ábatasamt að auka norræna samvinnu. Samvinna er hagkvæm, sérlega við okkar nánustu vinaþjóðir.

 

Eygló Harðardóttir

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 28. janúar 2014.)

Categories
Greinar

„Bandamenn íslenskrar verslunar eru í sjónmáli“ – Hvar eru bandamenn neytenda?

Deila grein

25/01/2014

„Bandamenn íslenskrar verslunar eru í sjónmáli“ – Hvar eru bandamenn neytenda?

Þorsteinn SæmundssonÍ nýlegri grein í Fréttablaðinu lýsti formaður Samtaka verslunar- og þjónustu hamingju sinni yfir vilja ríkisstjórnarinnar til að einfalda VSK-kerfið og endurskoða álagningu vörugjalda á innfluttan varning. Ekkert kemur fram í greininni um fyrirætlanir verslunarrekenda sjálfra til að bæta rekstur og lækka vöruverð.

Hvað segir skýrsla McKinsey?
Formaður SVÞ ber sig illa undan svokölluðum alhæfingum um óhagkvæmni verslunarrekstrar á Íslandi. En staðreyndir tala sínu máli. Í skýrslu alþjóðlega fyrirtækisins McKinsey kemur fram að ofmönnun í verslun á Íslandi nemi um 1.700 manns, sem betur væru komnir við vinnu í virðisaukandi greinum. Einnig kemur fram í skýrslunni að á Íslandi er 4,1 fermetri í verslunarhúsnæði á hvern íbúa, en til samanburðar um 1,6 fermetrar á hvern íbúa í Danmörku. Að auki kemur fram að meðalverslunareining á Íslandi er um 549 fermetrar að stærð en í Danmörku um 358 fermetrar. Svipaður munur er uppi á teningnum ef tekin eru til samanburðar önnur norræn lönd og Bretland.

Formaður SVÞ afgreiðir þessa staðreynd með því að höfðatölusamanburður geri okkur Íslendinga til skiptis að hetjum og skúrkum. Ég vona að þessi skýring formannsins sé misheppnuð tilraun til spaugs því offjárfesting og ofmönnun í verslun er ekkert grín heldur ein af höfuðástæðum hás vöruverðs á Íslandi.

Formaðurinn fullyrðir einnig að tækifæri sé fyrir nýja aðila að hasla sér völl á markaði. Mér þætti forvitnilegt að sjá nýja aðila koma inn á matvörumarkaðinn við núverandi aðstæður. Á þeim markaði er að finna aðra af meginástæðum fyrir okrinu, fákeppnina. Fákeppni sem m.a. kom í veg fyrir að veruleg styrking íslensku krónunnar á síðasta ári skilaði sér í lækkuðu verði á innfluttum vörum. Staðreyndin er sú að innfluttar vörur hækkuðu í verði þrátt fyrir styrkinguna.

Enn önnur ástæða fyrir háu vöruverði er óhóflegur afgreiðslutími sem verslunarmenn segja til kominn vegna eftirspurnar eftir slíkri þjónustu, en vandséð er hver þörf er fyrir sólarhringsafgreiðslutíma í 10–20 verslunum á höfuðborgarsvæðinu einu eins og nú er. Fróðlegt væri að fá upplýsingar um beinan kostnað verslunarinnar af þessum afgreiðslutíma og hvað sá kostnaður vegur í vöruverði.

Breyttar áherslur – fjarri því
Lokaorð formanns SVÞ vekja ekki von um breyttar áherslur. Þar er henni efst í huga bætt staða verslunarinnar að lækkuðum opinberum gjöldum. Það hlýtur því að koma til álita að grípa til einhvers konar aðgerða til að tryggja að lækkanir vegna fyrirhugaðra breytinga á opinberum gjöldum verði ekki eftir í vasa kaupmanna heldur skili sér varanlega til neytenda.

 

ÞORSTEINN SÆMUNDSSON 

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 24. janúar 2014.)

Categories
Greinar

Jafnrétti er ekki annað hvort eða …

Deila grein

23/01/2014

Jafnrétti er ekki annað hvort eða …

Anna-Kolbrun-ArnadottirJafnrétti á sér margar hliðar. Segja má að jafnrétti snúi að mannréttindum og undanfarin misseri hefur umræða um aukinn hlut kvenna bæði í stjórnmálum og atvinnulífinu almennt verið áberandi. Ákveðið hefur verið að fara í aðgerðir til þess að auka hlut kvenna á þessum sviðum. Einnig hefur verið lögð áhersla á að fjölmiðlar hugi að því að velja viðmælendur af báðum kynjum, það hallar mjög á konur. Þessi tegund jafnréttis fjallar um kynjajafnrétti og ábendingarnar og fyrirhugaðar aðgerðir eru þarfar og vissulega er kominn tími til að bæta úr.

En eins og áður sagði þá á jafnrétti sér margar hliðar og hefur Eygló Harðardóttir ráðherra félagsmála beitt sér markvisst að því að benda á að svo sé. Nýverið fóru fram Vetrarhæfileikarnir í Borgarleikhúsinu með þátttöku hæfileikafólks úr röðum fatlaðra og ófatlaðra einstaklinga og var það réttindavakt Velferðarráðuneytisins sem stóð að leikunum í samstarfi við Geðhjálp, Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp. Markmið leikanna var að auka vitund almennings um styrkleika fatlaðs fólks, sem sagt að vekja athygli á fjölbreytileika mannlífsins. Jafnrétti snýst um jafnan rétt allra til þátttöku í samfélaginu.

Ráðherra hefur einnig réttilega bent á að nútíma fjölskyldan sé margbreytileg, ekki sé gefið að hún sé mamma, pabbi börn og bíll heldur eru fjölskyldur í dag margbreytilegar, þær eru af öllum stærðum og gerðum. Tímarnir breytast og samfélagsgerðin einnig og þess vegna var ánægjulegt að heyra í umræðum á Alþingi að Haraldur Einarsson okkar þingmaður gerði það að umtalsefni að endurskoða þyrfti barnalög frá árinu 2003 og þá sérstaklega það ákvæði sem segir að ef foreldrar barns séu hvorki í hjúskap eða í skráðri sambúð við fæðingu þess þá sé það móður að fara með forsjá barnsins. Það er rétt hjá Haraldi, þessu þarf að breyta, það á að ganga á út frá sameiginlegri forsjá barns, það er réttur barnsins. Jafnrétti snýst um að barn eigi rétt á umgegni við báða foreldra sína.

Jafnrétti á sér margar hliðar, það er ekki annað hvort eða.

Anna Kolbrún Árnadóttir, jafnréttisfulltrúi Framsóknar

Categories
Greinar

Sex konur í forystu í stórum sveitarfélögum árið 1990 fyrir Framsóknarflokkinn

Deila grein

21/01/2014

Sex konur í forystu í stórum sveitarfélögum árið 1990 fyrir Framsóknarflokkinn

Sigrún MagnúsdóttirÁ ljúfum janúardegi söfnuðust konur úr öllum flokkum saman í Iðnó til að hvetja kynsystur sínar til forystu á listum við komandi sveitarstjórnakosningar. Undirritaðri leið allt í einu undarlega og yfir mig kom óraunveruleikatilfinning. Hvers vegna þurfa stjórnmálaflokkar árið 2014 að fjalla um jafn sjálfsagðan hlut, sem er að konur komi jafn og karlar til greina í efsta sætið á framboðslistum í komandi sveitarstjórnarkosningum.

Fyrir rúmum 30 árum stofnuðum við Landssamband framsóknarkenna til að örva konur um allt land til þátttöku í stjórnmálum og þar með mótum samfélagsins. Sem betur völdust gvalvaskar baráttukonur til að leiða samtökin og brugðust við verkefninu með áhrifamiklum hætti.

Málvík

Framsóknarkonurnar settu upp ímyndað sveitarfélag: Málvík. Þær fóru með Málvíkur-hugmyndina um landið og konur léku hlutverkin í stjórn sveitarfélagsins Málvíkur. Þær fluttu ræður á fundum, bjuggu til atvinnutækifæri og byggðu leikskóla auk margs annars. Þær fóru í rökræður sín á milli um brýnustu verkefnin o.s.frv.

Árangurinn varð í raun stórkostlegur. Valgerður Sverrisdóttir komst á þing árið 1987 og í næstu sveitarstjórnarkosningu voru framsóknarkonur í efstu sætum lista flokksins um allt land. Í stóru sveitarfélögunum Akureyri og Reykjavík trónuðu þær, sem og á Dalvík og Keflavík, Húsavík og Akranesi, á toppnum.

Hvers vegna höfum við ekki áfram gengið götuna til góðs…? Af hverju hefur þessari þróun hnignað fremur en vera í framför innan okkar raða? Við sem vorum svo stoltar þegar í fyrsta sinn í sögu landsins var jafnt hlutfall kvenna og karla í forystusætum til Alþingis í kjördæmum landsins 3 konur og 3 karlar. Enda fór svo að við komumst í ríkisstjórn og hlutfallið milli karla og kvenna þar hjá Framsóknarflokknum var jafnt þrjár konur og þrír karlar.

Gríðarlega margt hefur áunnist á Islandi í jafnréttismálum almennt og erum við á erlendri grundu skoðuð með sérstakri athygli hvað þennan árangur varðar. En… því miður finnst mér að þátttaka kvenna í almennum störfum flokksins og fundum fari aftur og það speglast líka í áhugaleysi við að bjóða sig fram til áhrifa á listum flokksins.

Sjónarhorn kvenna …

Kæru flokkssystur! Við þurfum á ykkur að halda. Samfélagið þarfnast ykkar og ég tala ekki um sveitarfélagið ykkar. Sjónarhorn kvenna verður að vera með í ákvarðanatökum sem varða okkur öll. Sveitarfélög voru skilgreind í upphafi vega – til að ákv. öryggisnet yrði virkt gagnvart íbúum sem minna mega sín. Það var stórt mál árið 1936 þegar almannatryggingarkerfið var sett á. Það er grunnurinn sem við byggjum til hjálpar fólki á öllum aldri sem lenda í lífsins ólgusjó eins og að missa heilsuna. Þetta öryggisnet erum við stöðugt að reyna að bæta og staga í eftir bestu vitund á hverjum tíma. Möskvar geta trosnað eða slitnað og þá þarf að reyna að stoppa upp í slík göt.

Það er nákvæmlega það sem ríkisstjórn Sigmundar Davíðs hefur verið að gera síðan hún tók við. Fjárlögin sem samþykkt voru laugardaginn 21. des. á vetrarsólstöðum voru mögnuð. Stórkostleg vegna þess hvað þau innihalda og ótrúlegt hvað var unnt að gera í mjög þröngri stöðu. Almannatryggingakerfið var aukið um heila 8 milljarða mkr. og heilbrigðiskerfið um 4 milljarða, svo dæmi séu tekin.

Framsóknarkonur! ég bið ykkur að sýna djörfung og dug og sækja fram um land allt. Reynsla af sveitarstjórnarmálum er einn besti skóli sem völ er á og nýtist alla ævi í öllum störfum.

 

Sigrún Magnúsdóttir

Categories
Greinar

Fílabeinsturninn er hættulegur staður

Deila grein

21/01/2014

Fílabeinsturninn er hættulegur staður

Silja Dögg GunnarsdóttirÁ gervihnattaöld geta allir sem vilja fylgst með störfum þingsins og haft áhrif á þau. Það er grundvallaratriði í lýðræðislegu samfélagi. Umræðan þarf að vera opin og gagnrýnin. En málflutningur þarf að byggjast á rökum og skynsemi svo hann sé til gagns, ekki niðurrifs.

Tenging við veruleikann

Fílabeinsturninn er ekki eftirsóknarverður staður fyrir þingmann. Ef þingmaður er svo óheppinn að rata þangað þá rofnar samband við borgarana og þá er voðinn vís. Alþingismenn eru í þjónustuhlutverki og eiga að miðla upplýsingum frá sínum kjósendum til Alþingis og vinna fyrir þá.

Þó svo að Alþingismenn geri flestir sitt besta til að vera í góðu sambandi við sitt fólk og fylgjast vel með samfélagsmálum, þá er margt sem getur farið fram hjá þeim í erli dagsins. Skilaboð og athugasemdir frá borgurunum er því oftast vel þegin og nauðsynleg svo umræðan á Alþingi endurspeglir þarfir og væntingar samfélagsins. Aðeins þannig verður umræðan lýðræðisleg og í tengslum við veruleikann utan múra Alþingis.

Þú getur haft áhrif á störf þingsins

Á heimasíðu Alþingis er gríðarlegar miklar upplýsingar að finna (www.althingi.is). Þar er hægt að horfa á beinar útsendingar frá þingfundum, lesa öll þingskjöl, þ.e. fyrirspurnir til ráðherra og svör þeirra, þingsályktunartillögur og frumvörp langt aftur í tímann. Þar getur fólk fundið allar upplýsingar um þingmenn, bakgrunn þeirra, störf á þingi og það mikilvægasta, hvernig hægt er að ná sambandi við þá. Þeir sem áhuga hafa geta skráð sig á póstlista og fylgst þannig náið með ferli ákveðinna mála og einnig sent inn umsagnir um mál.  Þannig að aðgengi fólks að störfum Alþingis er mjög gott. Menn verða bara að vita hvar á að leita. Flestir þingmenn eru líka með Fésbókarsíður og jafnvel blogg þar sem þeir deila reglulega efni sem tengist störfum þeirra. Að sjálfsögðu er líka öllum velkomið að koma í Alþingishúsið á meðan á þingfundum stendur og fylgjast með af þingpöllum.

Sextíu og þrír þingmenn. Fólk með hugsjónir. En þessir sextíu og þrír einstaklingar eru þó ekki alltaf sammála um hvaða leiðir er best að fara. En markmiðið er skýrt; betra samfélag fyrir alla.

(Áður birtar greinar um störf þingsins: Hvað gerir þú á daginn og Tómur þingsalur.)

 

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Categories
Greinar

Ísland er undantekningin sem sannar regluna

Deila grein

21/01/2014

Ísland er undantekningin sem sannar regluna

Silja Dögg GunnarsdóttirTækifæri okkar Íslendinga eru á mörgum sviðum. Við erum rík af auðlindum sem mikil þörf verður fyrir í framtíðinni. Við eigum nóg af hreinu vatni, grænni orku, hugsanlega olíu og síðast en ekki síst erum við mjög framarlega í matvælaframleiðslu. Lega landsins er mjög eftirsóknarverð fyrir Norður Íshafssiglingar. Þar liggja gríðarleg tækifæri í framtíðinni sem við Íslendingar þurfum að vera vel vakandi yfir.

Rík þjóð

Mér þykja öll rök hníga að því að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan ESB en innan þess þar sem við erum mjög fámenn þjóð og rík af auðlindum. Daniel Gros, er yfirmaður stofnunar í Brussel  í Evrópufræðum. Hann lét hafa það eftir sér að hann teldi að öll Evrópuríki ættu að vera í Evrópusambandinu, NEMA Ísland. Ísland væri undantekningin sem sannaði regluna af ofangreindum ástæðum.

Afstaða núverandi stjórnarflokka er einnig skýr. Á landsfundum sínum fyrr á þessu ári, ályktuðu þeir að hag Íslands sé betur borgað utan ESB en innan þess. Núverandi ríkisstjórn framfylgir að sjálfsögðu stefnu ríkisstjórnarflokkanna. Í stjórnarsáttmálanum stendur: “Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Lýðræðið í hættu

En víkjum að lýðræðinu. Ein rök með aðild að ESB eru þau að Íslendingar ættu að hafa fulltrúa á Evrópuþinginu til að hafa einhverja vigt þar í ákvarðanatökum. Staðreyndin er sú að þingmenn Evrópuþingsins eru rúmlega 760 og Ísland fengi 6 þingmenn, tæp 0,78% þingmanna. Mín skoðun er því sú að þessir sex þingmenn myndu nú ekki vigta mikið á þinginu.

Þess má einnig geta að kjörsókn til Evrópuþings minnkar stöðugt og var að meðaltali 43% árið 2009. Staðreyndin er sú að íbúar evrópuríkja fjarlægjast stöðugt lýðræðið og þeir finna fyrir því. Valdið er ekki lengur á höndum lýðræðislegra kjörinna fulltrúa heldur embættismanna í Brussel.  Er þetta það sem við Íslendingar viljum?

Næsta skrefið er að fá sérfræði úttekt um stöðu viðræðanna og stöðu mála innan ESB. Úttektin er gerð af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og verður kynnt fyrir þinginu í janúarmánuði.

 

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Categories
Greinar

Fyrir 20 árum varð til Reykjavíkurlisti…

Deila grein

17/01/2014

Fyrir 20 árum varð til Reykjavíkurlisti…

sigrunmagnusdottirFyrir tuttugu árum síðan var mikið skeggrætt og unnið varðandi framboðsmál til borgarstjórnar. Flokkarnir héldu fundi saman og einnig hver í sínum ranni. Nánast á hverjum degi var umfjöllun í Morgunblaðinu um gang mála. Um miðjan janúar 1994 var tilkynnt að flokkarnir, sem voru í stjórnarandstöðu við Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík, hefðu ákveðið að bjóða fram sameiginlegan framboðslista til borgarstjórnar.

Reykjavíkurlistinn var skapaður af Alþýðubandalagi, Alþýðuflokki, Framsóknarflokki og samtökum um Kvennalista á jafnréttisgrunni. Einn aðalsamningamaður framsóknarmanna var Valdimar Kr. Jónsson prófessor. Hann var einlægur stuðningsmaður þess að koma á sameiginlegum framboðslista og vann mikið og gott starf með fulltrúum hinna flokkanna.

Í mínum huga er sennilega sá útgangspunktur í starfinu sem mest situr eftir – að yfir vötnum sveif andblær nýrrar hugsunar varðandi jafnvægi/jafnrétti í samskiptum karla og kvenna sem og milli flokka. Konur voru þar ekki síður ráðandi en karlar. Önnur nýjung var sú að setja borgarstjóraefnið í áttunda sætið. Í heild var listinn skipaður vönduðu samhentu fólki, sem hafði reynslu af samstarfi í borgarstjórn.

Starfið í R-listanum og árangurinn er mér hugleikinn. Mér hefur stundum sárnað þegar fulltrúar samstarfsflokkanna vilja í seinni tíð alfarið eigna sér framboðið og ganga svo langt að setja samasemmerki á milli Reykjavíkurlistans og flokks sem varð til síðar á landsvísu. Reyndar raskaðist hið góða samstarf og jafnvægi sem var innan listans einmitt við þá gjörð.

Framsóknarmenn eiga, ekki síður en aðrir, þátt í samstöðu listans sem og uppbyggingunni í þeim málaflokkum sem við settum á oddinn í kosningabaráttunni 1994 um skóla og leikskóla.

Starf í sveitarstjórn er afar gefandi og skemmtilegt. Þetta er starf sem ekki síður á að höfða til kvenna að mínu mati. Ég hvet því konur til að taka þátt í mótun nærumhverfisins og gefa kost á sér á lista til sveitarstjórnar. Reynsla af starfi í sveitarstjórn kemur til góða sama hvað fólk tekur sér fyrir hendur síðar á lífsleiðinni. Sennilega er sveitarstjórnarþátttaka einn besti skóli sem unnt er að sækja í mannlegum samskiptum sem og þekkingu á mótun samfélags.

 

 

SIGRÚN MAGNÚSDÓTTIR

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 17. janúar 2014.)

Categories
Greinar

Eru ESB and-stæðingar síðasta von aðildarsinna?

Deila grein

16/01/2014

Eru ESB and-stæðingar síðasta von aðildarsinna?

Ásmundur Einar DaðasonÍ Kastljósviðtali á mánudagskvöldið fór Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, vel yfir stefnu ríkisstjórnarinnar í ESB-málinu. Að undanförnu hefur verið reynt að teikna upp þá mynd að utanríkisráðherra sé einn á báti í þessu máli og þar með sé hann stærsti vandi aðildarsinna. Það að telja málum þannig háttað er auðvitað mikið pólitískt ólæsi. Það er hinsvegar furðulegt, og til marks um mikla örvæntingu, að heyra aðildarsinna ítrekað kalla eftir því að helstu ESB-andstæðingar landsins haldi áfram aðildarsamningum við ESB.

Ef aðildarsinnum yrði að ósk sinni og aðildarsamningum yrði haldið áfram þá myndi utanríkisráðherra án vafa tryggja að skoðanabræður hans séu í meirihluta í nefndum og ráðum líkt og fyrri ríkisstjórn gerði. Vandi aðildarsinna er hinsvegar sá að skoðanabræður utanríkisráðherra eru á móti ESB. Það yrði aðildarsinnum líklega mjög til framdráttar ef hörðustu ESB-andstæðingar landsins mættu til Brussel í þeim tilgangi að semja um hvernig aðlögun næstu ára verði háttað. Ef utanríkisráðherra er ekki tilbúinn að setja undirritaðan í forystu fyrir þessari sveit er ekki ólíklegt að t.d. Jón Bjarnason, Guðni Ágústsson eða Styrmir Gunnarsson verði fyrir valinu. Það gæti orðið enn fróðlegra að fylgjast með því þegar einstök atriði er varða ESB-samningana verða rædd í utanríkismálanefnd Alþingis þar sem Birgir Ármannsson, einn öflugasti ESB-andstæðingur þingsins, gegnir formennsku og undirritaður varaformennsku. IPA- og Taiex-aðlögunarstyrkirnir fá eflaust flýtimeðferð hjá fjárlaganefnd þar sem Vigdís Hauksdóttir, formaður Heimssýnar, ræður ríkjum og varaformaðurinn, Guðlaugur Þór Þórðarson, mun eflaust berjast ötullega fyrir málinu. Forseti Alþingis mun örugglega halda okkur öllum við efnið enda »mikill« áhugamaður um aðild Íslands að ESB.

Það kom vel fram á síðasta kjörtímabili að ógjörningur er að semja um ESB-aðild nema að einhugur sé um málið í ríkisstjórn og starfandi stjórnarmeirihluta. Svo langt gekk þetta að ómögulegt var að vera með ESB-andstæðinga í ríkisstjórn né í utanríkismálanefnd Alþingis. Samþykkt stefna beggja stjórnarflokkanna er skýr og á þeirri stefnu byggir stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar. Það er því hámark bjartsýninnar (og í raun dálítið hlægilegt) að halda að ríkisstjórn þar sem báðir stjórnarflokkarnir eru á móti ESB-aðild geti haldið áfram aðildarsamningum. Því er það svo að þrátt fyrir ótrúlegan áhuga aðildarsinna þá mun furðuleg ósk þeirra um að ESB-andstæðingar dragi vagninn til Brussel ekki verða að veruleika.

 

ÁSMUNDUR EINAR DAÐASON

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. janúar 2014.)

Categories
Greinar

Ég vil ekki giftast þér

Deila grein

14/01/2014

Ég vil ekki giftast þér

Silja Dögg GunnarsdóttirEn ég vil vera vinur þinn vegna þess að það eru allt aðrar skuldbindingar sem fylgja vináttu annars vegar og hjónabandi hins vegar. Ég hef þessa skoðun varðandi aðild Íslands að Evrópusambandinu. Ég er sannfærð um að hagsmunir Íslendinga séu best tryggðir utan Evrópusambandsins. Við höldum samt sem áður áfram að vera vinir, góðir vinir, enda erum við hluti af Evrópu og höfum yfirleitt átt mikil og góð samskipti við aðrar Evrópuþjóðir.

Bæta þarf hagstjórnina
Umræðan upp á síðkastið, sem snýr að aðild Íslands að Evrópusambandinu, snýst að stórum hluta um kosti þess að taka upp evru. Aðrir þættir eru látnir liggja á milli hluta í umræðunni. Lítið er rætt um landbúnaðar- og sjávarútvegsmál, lýðræði og auðlindamál en það eru mjög mikilvægir málaflokkar sem ráða miklu um framþróun og framtíð Íslands.

En vindum okkur yfir í gjaldmiðilsmálin. Sumir segja að við getum ekki afnumið verðtrygginguna og bætt hagstjórn landsins nema með því að taka upp annan gjaldmiðil, t.d. evru. Það er einfaldlega ekki rétt. Nýr gjaldmiðill einn og sér lagar ekki hagstjórnina, við þurfum sjálf að breyta henni til hins betra.

Krónan okkar gjaldmiðill
Samráðsnefnd um peningastefnu Íslands komst að þverpólitískri samhljóða niðurstöðu. Grípum niður í frétt fjármálaráðuneytisins frá 16. október 2010:

„Að mati nefndarmanna er ekki hægt að gera ráð fyrir upptöku annarrar myntar á næstu árum. Því er mikilvægt að tryggja trausta peningastefnu með þjóðhagsvarúðartækjum og ábyrgð í opinberum fjármálum á grundvelli fjármálareglna sem taka mið af þróun efnahagslífsins. Slíkt er grundvöllur góðrar hagstjórnar óháð fyrirkomulagi gengismála og peningastefnu. Almennt telja nefndarmenn að á næstu árum sé sjálfstæð peningastefna eini valkosturinn og trúverðug hagstjórn sem tekur mið af aðstæðum og hagsveiflum sé grundvallaratriði.“

Þetta er skýrt: Sjálfstæð peningastefna er eini kosturinn næstu árin og nauðsynlegt er að vinna innan þess ramma. Og undir þetta kvitta ASÍ, SA og fulltrúar allra stjórnmálaflokka.

Nú hefur verið gert hlé á aðildarviðræðum við ESB. Ný og öflug ríkisstjórn hefur tekið við stjórnartaumunum og bætt hagstjórn er mjög ofarlega á verkefnalista hennar.

 

SILJA DÖGG GUNNARSDÓTTIR

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 10. janúar 2014.)

Categories
Greinar

Þjóð á tímamótum

Deila grein

06/01/2014

Þjóð á tímamótum

Sigrún MagnúsdóttirMarkverð þáttaskil eru hjá íslensku þjóðinni um þessi áramót. Hallalaus fjárlög hafa verið afgreidd og nýir kjarasamningar um aukinn kaupmátt undirritaðir á vinnumarkaði. Umskipti hafa orðið á hinu pólitíska sviði. Þeir flokkar sem sigruðu í kosningunum mynduðu ríkisstjórn og þess sér nú merki að nýir valdhafar eru teknir við. Meginkosningaloforð stjórnarflokkanna eru komin í farveg. Stórátak er að hefjast til að lækka húsnæðisskuldir heimilanna sem forsendubrestur hefur hækkað upp úr öllu valdi. Fundin hefur verið farsæl leið til þessa átaks, með því að tvinna saman þau úrræði sem stjórnarflokkarnir hafa barist fyrir.

Öryggisnetið þétt

Fjárlagafrumvarpið sem lagt var fram í haust tók verulegum breytingum í meðferð Alþingis án þess að hverfa frá meginákvörðuninni um hallalaus fjárlög. Fjórum milljörðum er aukið við til heilbrigðismála og með því bætt úr brýnum vanda Landspítalans og jafnframt leyst úr vanda heilbrigðisstofnana víða um land. Sex þúsund milljóna framlag bætist við Almannatryggingar og gengur það til að efna fyrirheit úr kosningabaráttunni um að rétta hlut aldraðra og öryrkja. Þannig erum við að þétta öryggisnetið og bæta skerðingar frá hruninu. Þá er fé lagt til ýmissa verkefna sem höfðu orðið útundan við upphaflegu frumvarpsgerðina.

Forgangsröðun

Miklar umræður spunnust um ýmsar tilfærslur vegna forgangsröðunar verkefna. Nokkur skerðing verður hjá Ríkisútvarpinu. Því var mætt af stjórnendum þess með fækkun starfsfólks á rás eitt. Ekki var fækkað í yfirstjórn né á rás tvö eins og búast hefði mátt við. Þrátt fyrir fækkun á rás eitt er óbreyttri dagskrá haldið þar úti að mestu leyti. Vaxtabætur eru skertar nokkuð hjá þeim sem hafa hæstar tekjur. Framlag til þróunarmála er fært til svipaðs hlutfalls af þjóðartekjum og var fyrir tveimur árum. Með vaxandi þjóðartekjum er ekki víst að um skerðingu verði að ræða. Vafalaust er hægt að spara í yfirstjórn Þróunarsamvinnustofnunar eins og víða.

Skattalækkanir

Skattar á meðaltekjur verða lækkaðir nokkuð og er það að hluta til að greiða fyrir kjarasamningum. Það að kjarasamningar tókust er þjóðfélaginu mjög dýrmætt. Umræða var um að hækka persónuafslátt. Það er mjög dýr aðgerð þótt ekki sé nema um þúsund króna lækkun á einstakling að ræða, auk þess gengur hækkun persónuafsláttar upp allan tekjustigann og óþarfi er að lækka skatta á auðmenn. Daginn er tekið að lengja og það er líka að birta til í þjóðfélaginu. Fyrir hönd þingflokks Framsóknarflokksins færi ég landsmönnum öllum árnaðaróskir. Megi komandi ár verða okkur farsælt.

 

Sigrún Magnúsdóttir

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. desember 2013.)