Categories
Greinar

Gleym mér ei

Deila grein

02/04/2016

Gleym mér ei

haraldur_SRGBÝmislegt gengur nú á í íslenskri pólitík. Vantrausttillögur eru ræddar og daðrað er við þá furðulegu alhæfingu að pólitíkusar hljóti nú hreinlega að vera spilltir fram í fingurgóma fyrst þeir tengjast erlendum félögum.

Þá er kosið að líta framhjá staðreyndum á borð við að félag hafi aldrei verið starfandi eða að allir skattar hafi verið greiddir og allt bókhald sé á hreinu, merkilegt nokk.

Umræða um einstaka persónuleg málefni ráðherra og annarra stjórnmálamanna hefur það í för með sér að þau góðu mál sem náð hafa í gegn á þessu kjörtímabili vilja stundum hverfa í mýrinni. Það er miður, því gríðarlegt efnahagslegt og samfélagslegt afrek hefur verið unnið síðustu þrjú ár.

Bættur hagur heimilanna og ríkissjóðs
Fyrir kosningarnar 2013 lofaði Framsókn því að leiðrétta stökkbreyttar verðtryggðar húnæðisskuldir heimilanna, ekkert réttlætti það að lánþegar sætu einir uppi með afleiðingar af völdum efnahagshrunsins. Strax um sumarið 2013 var lagt af stað í undirbúning þeirrar vinnu og skilaði það sér til neytenda um áramótin 2014-2015.

Leiðréttingin var fjármögnuð með svokölluðum bankaskatti, sem lagður var á þrotabú gömlu bankanna. Á sama tíma var auðveldað fólki að festa kaup á fasteign með séreignarlífeyris-sparnaðarleiðinni, að hægt væri að ráðstafa séreignarlífeyrissparnaði til lækkunar höfuðstóls. Einnig býðst fólki að nýta séreignarsparnað til fasteignakaupa og njóta samsvarandi skattafsláttar, en það getur meðal annars nýst fjölskyldum í leiguhúsnæði. Þetta var eitt af stærstu málum okkar og var þarna unninn mikill sigur fyrir íslenskan almenning.

Annað stærra mál var afnám fjármagnshafta. Þar var 1.200 milljarða króna vandi leystur án þess að stefna hagsmunum þjóðarinnar í hættu, með því að koma í veg fyrir að slík upphæð myndi hellast inná gjaldeyrismarkaðinn. Þannig var slitabúum bankanna gert að greiða stöðugleikaframlag sem nemur um 500 milljörðum króna og mun renna í ríkissjóð. Auk þess verður hinn svokallaði aflandskrónuvandi leystur með uppboði á gjaldeyri. Vinna við undirbúning þess hefur dregist nokkuð en áætlunin er óbreytt hvað þetta varðar og undirbúningur er í gangi í Seðlabankanum og fjármálaráðuneytinu. Þessi vinna mun lyfta gríðarþungm bagga af herðum þjóðarinnar.

Áþreifanlegur árangur
Til marks um þann árangur sem náðst hefur síðastliðin ár að kaupmáttur á Íslandi hefur aldrei nokkurn tímann mælst meiri en hann er í dag, atvinnuleysi mælist í 3,6% og er það Evrópumet, þeim fækkar sem þurfa fjárhagsaðstoð, tekjujöfnuður er meiri en nokkurn tímann frá því mælingar hófust og hamingja og jákvæðni Íslendinga eykst með hverju árinu, eftir mikla dýfu í kjölfar efnahagshrunsins. Við höfum einnig skapað okkur stóran sess í jafnréttisbaráttunni á alþjóðavettvangi og atvinnulífið hefur tekið hressilega við sér með auknum fjárfestingum og umsvifum.

Gagnrýni á vissulega alltaf rétt á sér, svo lengi sem hún er málefnaleg. Við megum hins vegar ekki afskrifa allt og gleyma því sem vel hefur verið gert þegar önnur umdeild mál -persónuleg mál- eru til umræðu í samfélaginu, því góðu málin eru nefninlega ansi mörg.

Haraldur Einarsson

Greinin birtist á www.visir.is 2. apríl 2016.