Categories
Greinar

Af börnum og brjóstarhöldurum

Deila grein

10/03/2015

Af börnum og brjóstarhöldurum

Jóhanna María - fyrir vefMóðir skrifaði frásögn á netið, þar segir hún frá upplifun sem byrjaði með símtali frá skóla dóttur hennar. Hún var beðin um að koma úr vinnu þar sem dóttir hennar hefði lent í stimpingum við annan nemanda. Þegar hún mætir er henni heldur brugðið að ganga inn í herbergi fullt af fólki. Þarna sat dóttir hennar ásamt skólastjóranum, umsjónakennara, samnemanda og foreldrum hans ásamt umsjónamanni árgangsins. Samnemandi dóttur hennar, sem var karlkyns, sat með blóðugt nef og konan fann strax hvernig horft var ásakandi á sig. Þá voru málin reifuð, drengurinn hafði verið að fikta í brjóstarhaldara dóttur hennar og þrátt fyrir að hafi beðið hann um að hætta, sagt umsjónakennaranum frá því hvað hann væri að gera þá hélt drengurinn áfram og náði að lokum að opna brjóstarhaldarann hennar. Þegar hann náði því kýldi hún drenginn tvisvar.
Móðirin lét sér hvergi bregða og spurði hvort hún hefði verið kölluð úr vinnu til að athuga hvort hún og dóttir hennar ætluðu að kæra drenginn fyrir kynferðislega áreitni. Þá kom annað hljóð í belginn. Atvikið var „ekki svo alvarlegt“ að mati viðstaddra og móðirin beðin um að slaka á og hugsa aðeins hvað hefði gengið á. Dóttirin benti réttilega á að hún hefði beðið drenginn um að hætta og þegar hún hafði látið kennarann vita fékk hún bara svar um að láta sem ekkert væri og þá myndi hann hætta þessu.
Móðirin spurði þá kennarann af hverju hann hefði leyft þetta í stað þess að ganga á milli og stoppa drenginn. Í beinu framhaldi spurði hún hvort hún mætti snerta klofið á honum eða hvort hann gæti ekki opnað brjóstarhaldarann á móður drengsins, svona fyrst þetta væri allt svo smávægilegt og eðlilegt. Það urðu allir orðlausir, kennarinn hélt áfram að benda á að dóttir hennar hefði kýlt drenginn. Móðirin sagði það ekkert skrýtið, hún hefði verið að verja sig fyrir kynferðislegri áreitni.

Þetta er spurningin, hvenær hætti stríðni að vera bara stríðni, hvenær er það orðið kynferðisleg áreitni og hvað kennum við börnum með því að segja : „Hundsaðu þetta bara“?

Ef ókunnugur maður myndi strjúka lærið á dóttur þinni eða opna brjóstarhaldara hennar án samþykkis, þá yrðir þú brjáluð/brjálaður. Það á ekki að vera öðruvísi þó þar sé á ferð jafnaldri hennar. Ef barninu líður illa vegna hegðun samnemenda verður að taka á því.
Ein lélegasta afsökun fyrr og síðar hjá kennurum sem nenna ekki að taka á málunum hefur verið: „Hann er bara skotinn í þér.“ Og hvað með það?
Það réttlætir það ekkert að viðkomandi reyndi að kyssa mig í frímínútum, sló mig í rassinn frammi á gangi eða potaði í brjóstið á mér þegar ég vildi það ekki, bað hann um að hætta og jafnvel ýtti honum í burtu.
Við sátum nokkrar yfir kaffibolla um daginn og vorum að ræða þessi mál. Sem stelpur fengum við áhugalaus skilaboð um að láta þetta framhjá okkur fara, hundsa viðkomandi eða að taka þessu sem hrósi því „hann væri bara skotinn“.

Talandi um kolröng skilaboð. Voru skilaboðin s.s. að segja ekki frá því ef einhver snerti okkur á óviðeigandi hátt, að láta sem ekkert væri þó það væri verið að káfa á okkur og verst af öllu að þykja við eftirsóknarverðar ef einhver elti okkur á röndum til að snerta okkur og kyssa, gegn okkar vilja. Allt þetta er alveg jafn alvarlegt þó viðkomandi sé jafnaldri manns. 12 ára stelpa sem er kannski að byrja á kynþroskaskeiðinu á skilið að fá heilbrigðari skilaboð út í lífið en þetta.

Og hvaða skilaboð gefum við ungum strákum með því sama? Að það sé í lagi að snerta stelpur þó þær vilji það ekki því þær segja ekki frá og ef þær gera það er þeim sagt að hundsa þetta.
Svona hegðun væri ekki liðin á kennarastofunni, að sögukennarinn læddist að stærðfræðikennaranum og klipi í rassinn á henni. Þegar hún snéri sér að honum og spyr hvað þetta eigi að þýða þá komi líffræðikennarinn aðsvífandi og segði kæruleysislega: „Hvaaaða, láttu bara eins og ekkert sé, no biggie!“

Hugsum aðeins um hvaða skilaboð við sendum börnum, það hefur áhrif á þau út lífið. Jafningjafræðsla er orðin svo mikilvægur þáttur af menntun barna og hana þarf að byrja sem fyrst. Er það ekki líka tilgangur skóla, að kenna þeim eitthvað sem þau eiga eftir að nota út lífið.

Jóhanna María Sigmundsdóttir

Greinin birtist í DV 6. mars 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Hver er þinn réttur?

Deila grein

10/03/2015

Hver er þinn réttur?

Elsa-Lara-mynd01-vefurFjármögnunarfyrirtækið Lýsing, hefur tapað nokkrum dómsmálum á undanförnum mánuðum. Um er að ræða mál sem rekin hafa verið fyrir héraðsdómi og einnig í Hæstarétti. Oft er um að ræða mál sem hafa fordæmisgildi fyrir aðra lánasamninga, er hafa verið gefnir út hjá fjármögnunarfyrirtækinu.

Í síðustu viku tapaði Lýsing tveimur dómsmálum vegna gengistryggðra lána í Hæstarétti Íslands. Ágreiningur í málunum laut að því hvort lántakendur gætu borið fyrir sig fullnaðarkvittanir vegna greiddra vaxta frá stofndegi lánasamningsins til maí 2010, vegna þess hluta lánanna sem bundnir voru ólögmætri gengistryggingu.

Talið er það séu allt að 10 þúsund lánasamningar sem dómarnir í síðustu viku geta haft áhrif á. Því miður virðist það vera svo að hver og einn sem hefur gengistryggðan lánasamning, sem hafi sömu lánaskilmála og dæmdir voru ólögmætir, þurfi að sækja mál sitt til að fá réttlætinu fullnægt. Það mun þó koma í ljós á næstu dögum eða vikum, samkvæmt tilkynningu á vef Lýsingar. Sá háttur hefur verið hafður á hingað til í þessum málum, innan þessa fjármögnunarfyrirtækis.

Lögfræðingurinn sem sótti málin í síðustu viku gegn Lýsingu telur að allar varnir fjármögnunarfyrirtækisins séu brostnar. Þeir dómar sem hafi fallið séu fordæmisgefandi og nái til mikils hluta lána, af þessu tagi. Lána sem Lýsing hefur til þessa hafnað útreikningi á.

Óþolandi og ólíðandi vinnubrögð

Í ræðum mínum í Störfum þingsins í síðustu viku, ræddi ég framgang fjármála- og fjármögnunarfyrirtækja í málum sem þessum. Málum þar sem þessi fyrirtæki neita að endurreikna lán, nema einstaklingar fari í mál til að leita réttar síns. Þrátt fyrir að samskonar lán, með sömu lánaskilmála hafi verið dæmd ólögmæt bæði fyrir héraðsdómi og í Hæstarétti. Margir þeirra sem standa í þessum sporum finnst erfitt að sækja mál sín. Finnst það bæði kostnaðarsamt og flókið. Vegna þessara þátta er talsverður fjöldi einstaklinga sem fer á mis við það sem þau geta átt rétt á. Þessi vinnubrögð fjármála –  og fjármögnunarfyrirtækja eru algjörlega óþolandi og ólíðandi með öllu.

Hvað getur þú gert?

Það eru lögfræðingar sem sérhæfa sig í málum sem þessum. Nokkrir þeirra bjóða þeim sem eru m.a. með gengistryggð lán, upp á forathugun á lánunum. Sú athugun kostar ekki neitt. Að henni lokinni er hægt að fá að vita með talsverðri vissu, hvort lánið falli undir sömu skilmála og hafa verið dæmdir ólögmætir fyrir dómstólum. Ef svo er þá er jafnframt hægt að fá grófa áætlun um áætlaða inneign hjá fjármála – eða fjármögnunarfyrirtækinu. Ef áhugi er síðan fyrir að stefna fyrirtækinu, þá taka lögfræðingarnir málskostnaðargjald fyrir það. Þeir einstaklingar sem hafa fjölskyldutryggingar eru margir tryggðir fyrir þeim kostnaði. Það ætti öllum að vera auðvelt að hafa samband við tryggingarfélagið sitt og kanna stöðu sína í þessum málum.

Hvað getur Alþingi gert?

Nauðsynlegt er að endurskoða lög um neytendavernd og tryggja með öllu að fjármála – og fjármögnunarfyrirtæki, geti ekki leikið þennan leik til framtíðar. Endurskoða þarf lög og reglugerðir um fjármála- og fjármögnunarfyrirtæki og skerpa betur á réttindum neytenda, með það í huga að neytandinn beri ekki einn ábyrgð ef efnahagsleg áföll eiga sér stað. Ábyrgðin verður einnig að liggja hjá lánveitanda. Auk þessa hefur verið kallað eftir endurskoðun á skilyrðum til gjafsókna, m.a. að kanna hvort hægt sé að endurskoða þau tekjuviðmið sem sett eru fram í skilyrðum umsóknar.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist í DV 10. mars 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Grænt kynlíf

Deila grein

08/03/2015

Grænt kynlíf

Jóhanna María - fyrir vefOrðið þalöt ber ekki mikið yfir sér, en þalöt eru efni sem hafa þá eiginleika að mýkja plast. Vegna eiginleika þeirra eru þau vinsæl í iðnaði og m.a. notuð í framleiðslu leikfanga og húsbúnaðar.

Einhvern tíma var það mikið í umræðunni að karlmenn ættu að forðast það að drekka úr plastglösum og flöskum því það gæti valdið ófrjósemi. Sumir hristu hausinn en þarna var í raun umræða um skaðsemi þalata sem hefur verið þekkt um áratugaskeið. Unnið hefur verið markvisst að því að banna og takmarka notkun þeirra til verndar heilsu almennings. Notkun þalata hér á landi er ekki mikil en þau geta fundist í innfluttum vörum. Eftirlit með þalötum í innfluttum vörum er gott í dag en mætti vera betra, þá er helst notast við tilkynningar á evrópskum markaði sem og frá nágrannalöndum til að gæta þess að vörur sem innihalda þalöt komist ekki í dreifingu hérlendis. Ábyrgðin er þó á hendi framleiðenda, þeir eiga að tryggja að vörur sem innihalda þalöt komi ekki á markað.

Það er mikilvægt að fólk sé meðvitað um hvar þalöt er að finna. Þá geta hjálpartæki ástarlífsins, sem eru misjöfn að gæðum og gerðum, innihaldið þalöt. Sleipiefni og smokkar geta einnig verið úr eða innihaldið mýkt plastefni.

Til að vísa aftur í umræðuna um ófrjósemi hérna ofar þá geta þalöt haft skaðleg áhrif á frjósemi bæði hjá körlum og konum, þau geta einnig skaðað fóstur. En fóstur og nýfædd börn eru viðkvæmust fyrir þessum efnum. Það er mikilvægt fyrir ungar konur og konur á barneignaraldri að forðast þalöt, því fái þær þalöt í líkama sinn geta þau borist í ófætt barn og skaðað þroska þess. Það á líka við um lítil börn sem eiga eftir að taka út mikinn þroska, en sem dæmi hafa þalöt fundist í brjóstamjólk.

Eins og kemur fram í svari umhverfisráðherra við fyrirspurn um þalöt sem lagt var fram í vikunni þá hefur notkun skaðlegustu þalatanna í leikföngum og öðrum vörum sem börn geta komist í snertingu við minnkað til muna en í staðinn eru notuð þalöt sem talin eru minna skaðleg. Þalöt eru eftir sem áður notuð við framleiðslu vöru úr PVC-plasti sem þarf að vera mjúk og sveigjanleg.

En þalöt hafa ekki einungis áhrif á okkur mennina því þau brotna misvel niður í umhverfinu og hafa mælst víða. Á sumum stöðum getur lífríkinu stafað hætta af þeim svo endurvinnsla, förgun og meðferð hluta sem innihalda þalöt er einnig mikilvæg.

Jóhanna María Sigmundsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. mars 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Hagsmunir þjóðarinnar varði leiðina

Deila grein

04/03/2015

Hagsmunir þjóðarinnar varði leiðina

Sigmundur-davíðEitt hundrað milljarða hagnaður bankanna (80 milljarðar eftir skatta) á árinu 2014 er áminning um þau mistök sem gerð voru við endurreisn bankanna eftir hrun. Vegna ákvarðana sem þá voru teknar er bankakerfið of stórt og ávinningur af endurmetnu lánasafni kemur að mestu leyti í hlut kröfuhafa Arion banka og Íslandsbanka en ekki ríkisins sem þó bar áhættuna af endurreisninni.

Lögum samkvæmt gilda strangar reglur um eignarhald á fjármálafyrirtækjum. Sérstakar undanþágur í lögum þurfti til að heimila kröfuhöfum að eignast bankana á árinu 2009. Núgildandi lög heimila ekki slíkar undanþágur þannig að nú stæðist það ekki lög að afhenda kröfuhöfum bankana eins og gert var á sínum tíma.
Samanlagður hagnaður Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans frá hruni er um 360 milljarðar króna. Stór hluti þessa hagnaðar kemur til vegna endurmats á lánasöfnum sem færð voru á helmingsafslætti yfir í nýja banka en eru mun meira virði.

Meirihluti hagnaðarins til kröfuhafa
Frá árinu 2009 hefur meirihlutinn af 360 milljarða króna hagnaði bankanna eftir skatta runnið til erlendra kröfuhafa. Miðað við óbreytta gjaldeyrissköpun ræður íslenska hagkerfið ekki við að greiða arð af hagnaðinum úr landi, nema því aðeins að sleppa því að greiða samningsbundnar afborganir af erlendum lánum. Það er hættulegt fyrirkomulag.

Arðsemi eigin fjár bankanna er langt umfram það sem aðrir atvinnurekendur eiga að venjast og það þó eigið fé bankanna hafi safnast upp frá stofnun þeirra. Eigið fé bankanna þriggja er nú um 600 milljarðar króna og hefur meira en sjöfaldast að núvirði frá aldamótum.

Þetta hefur gerst þrátt fyrir háan rekstrarkostnað bankanna sem týnist inni í miklum hagnaði þeirra. Rekstrarkostnaðurinn á árinu 2014 nam svipaðri fjárhæð og ríkið ver til menntamála og menningarstarfsemi, eða um 80 milljörðum króna.

Við eðlilegar aðstæður væri ástæðulaust að amast við góðri afkomu fyrirtækja. Uppspretta hagnaðar skiptir hins vegar máli og í tilviki bankanna sprettur hann að miklu leyti af endurmati á lánasöfnum og fákeppni. Aðgangshindranir eru óvenju miklar í bankastarfsemi, ekki síst vegna umfangsmikils regluverks. Ólíklegt er því að nýir aðilar ryðji sér til rúms á markaðnum með áherslu á lægri kostnað, minni þjónustu og betri kjör eins og gerst hefur á mörgum sviðum viðskiptalífsins og bylt áratugagömlum viðskiptavenjum. Bankar eru því betur varðir gegn samkeppni, innlendri sem erlendri, heldur en almennt tíðkast um fyrirtæki.

Breytingar óhjákvæmilegar
Á næstu árum eru breytingar á eignarhaldi bankanna óhjákvæmilegar. Stjórnvöld þurfa að vinna að því að skipulag bankakerfisins tryggi skilvirka miðlun fjármagns til og frá heimilum og fyrirtækjum á hagkvæman og öruggan hátt.
Það er ekki hægt að nálgast greiðslujafnaðarvanda Íslendinga af léttúð. Af óskhyggju telja sumir að unnt sé að komast hjá efnahagsáföllum með því að styggja engan og halda öllum góðum, en slíkt er ekki raunhæft. Þvert á móti þarf skýra sýn og sterka forystu þar sem hagsmunir íslensku þjóðarinnar eru hafðir að leiðarljósi.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 4. mars 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Vertu velkominn

Deila grein

03/03/2015

Vertu velkominn

Silja-Dogg-mynd01-vefÉg ætla að segja ykkur litla lífsreynslusögu. Hún gerist fyrir tuttugu árum í Austurríki. Ég stundaði þar nám um tíma, í borginni Graz sem er í austurhluta landsins, skammt frá landamærum Ungverjalands. Múrinn hafði fallið fáum árum áður og mikill fjöldi fólks leitaði frá austri til vesturs í von um betra líf.

Ég var upptekin af hinu bráðskemmtilega stúdentalífi og velti lítið fyrir mér aðstæðum Austur-Evrópumanna. Ég var frá Íslandi, fékk alls staðar hlýjar móttökur, og já, var bara nokkuð montin af því að vera Íslendingur. Það þótti þá, og þykir enn, svolítið töff.
Svo var það dag einn að ég fór í litla sérvöruverslun og bauð góðan dag. Talaði þýskuna með hörðum hreim, var alls ekki austurrísk í útliti, hvað þá skandinavísk, með mitt svarta hár. Af útlitinu og hreimnum mátti dæma að ég kæmi „að austan“. Í sakleysi mínu beið ég róleg eftir afgreiðslu og áttaði mig ekki strax á því kuldalega viðmóti sem ég fékk. Eftir dúk og disk fékk ég afgreiðslu og eftir nokkra stund kom fram að ég væri frá Íslandi. Og viti menn! Viðmótið breyttist á svipstundu. Ég fékk bros, almennilegheit og já, framkomu sem allir eiga rétt á að fá; hvernig sem þeir líta út, hvaðan sem þeir koma og hverjir sem þeir eru.
Svona er þá að vera hataður. Svona er þá að vera útlendingur. Þarna lærði ég mína lexíu.

Ég óska engum þess að verða fyrir fordómum. Hvað á fólk með að dæma aðra út frá ytri mælikvörðum? Hver einasta manneskja er einstök.

Aðflutningur erlendra ríkisborgara til Íslands á 21. öldinni er nærri helmingi íbúafjölgunar á Íslandi. Á síðasta ári var hlutfall erlendra ríkisborgara á Íslandi 7,4%. Þess má einnig geta að fjöldi leik- og grunnskólabarna með erlent ríkisfang hefur sjöfaldast á öldinni. Nú hafa 11% leikskólabarna og 6% grunnskólabarna annað móðurmál en íslensku.

Fjölmenningarsamfélag er framtíðin. Við eigum að taka vel á móti fólki sem hér vill búa og og hjálpa því á allan hátt við að aðlagast íslensku samfélagi. Það eykur hagvöxt og síðast en ekki síst auðgar það menningarlífið og víkkar sjóndeildarhring okkar allra.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 3. mars 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Ellin er þyrnikóróna

Deila grein

01/03/2015

Ellin er þyrnikóróna

Silja-Dogg-mynd01-vef… og æskan rósabeður, segir máltækið. Það verður hlutskipti flestra að eldast og þjóðin eldist hratt. Stefna stjórnvalda er sú að fólk geti búið eins lengi heima hjá sér og mögulegt er og áherslan hefur því verið lögð á aukna heimaþjónustu. En sumir þurfa meiri umönnun og geta ekki verið heima hjá sér af ýmsum orsökum.

Fjármagn nýtt í annað
Í hinum fullkomna heimi ættu allir aldraðir að fá pláss á hjúkrunarheimili um leið og þörf er á, en svo er ekki. Fjöldi aldraðra ætti þó ekki að koma okkur á óvart. Hlutverk Framkvæmdasjóðs aldraðra er að byggja upp hjúkrunarrými en í þrengingum síðari ára hefur fjármagnið verið nýtt til reksturs hjúkrunarheimila og viðhalds. Við stöndum því frammi fyrir fjárskorti og það blasir við að við þurfum að fara að gera langtímaáætlanir varðandi uppbyggingu, til a.m.k. 20 ára.

Fjölga rýmum
Nú er unnið að grófri framkvæmdaáætlun um byggingarframkvæmdir öldrunarstofnana til næstu fimm ára. Þeirri vinnu ætti að ljúka fljótlega. Ljóst er að bæði er þörf á fjölgun hjúkrunarrýma og endurbótum á þeim rýmum sem fyrir eru til að mæta þeim viðviðum um aðbúnað sem þörf er talin á í dag.

Fleiri krónur
Ríkisstjórnin bætti í hvað varðar úthlutun fjármagns til hjúkrunarheimila á fjárlögum 2015, en betur má ef duga skal. Nú verða 200 millj. kr. veittar aukalega í hjúkrunarrými. Um er að ræða verulega fjölgun rýma í öllum heilbrigðisumdæmum sem kemur til móts við þá gríðarlegu þörf sem safnast hefur upp undanfarin ár. Á árinu verður 50 milljónum kr. varið til að bæta stöðu minni hjúkrunarheimila. Um er að ræða heimili með 20 eða færri hjúkrunarrými. Langflest þeirra eru á landsbyggðinni og mörg þeirra hafa átt í miklum rekstrarvanda. 50 milljónum kr. verður varið aukalega á árinu í heimahjúkrun fyrir fólk sem komið er með gilt færni- og heilsumat og bíður þess að komast á hjúkrunarheimili. Um er að ræða tilraunaverkefni með það að markmiði að fólk geti sem lengst búið heima.

Þó að menn greini á um ýmislegt getum við örugglega verið sammála um mikilvægi þess að bæta aðbúnað aldraðra. Fækkum þyrnunum.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. febrúar 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Allir á mölina

Deila grein

28/02/2015

Allir á mölina

Silja-Dogg-mynd01-vefStundum er gott að láta sig dreyma. Ég sé til dæmis fyrir mér blómlegar byggðir um land allt, hamingjusamt fólk sem hefur nóg að sýsla, framúrskarandi heilbrigðisþjónustu, fyrirtaks vegi og flugvelli, þriggja fasa rafmagn fyrir alla og ljósleiðaranet hringinn í kringum landið, bryggjurnar iða af lífi og í sveitum landsins framleiðum við heilnæm matvæli fyrir alla Íslendinga og erum auk þess farin að stunda umfangsmikinn útflutning á grænmeti, kjöti og fiski þar sem við framleiðum miklu meira en við getum sjálf torgað. Ávaxtarækt í upphituðum gróðurhúsum er líka langt á veg kominn. Íslenskir bananar – umm, já takk!

Fólk fer þangað sem störf er að finna
Það er ekki hagkvæmt fyrir þjóðarbúið að of stór hluti þjóðarinnar búi á sama landshorninu. Til að nýta öll landsins gæði, til sjávar og sveita, verður fólk að búa sem víðast. Skilvirk byggðastefna er nauðsynleg til að hægt sé að byggja upp og nýta auðlindir landsins. Liður í skilvirkri byggðastefnu eru sköpun atvinnutækifæra um land allt; bæði færsla opinberra starfa frá höfuðborgarsvæði til landsbyggðar og stuðningur við annars konar atvinnuuppbyggingu. Norðmenn hafa rekið mjög öfluga byggðastefnu um árabil og með henni náð að snúa byggðaþróun við í Noregi. Við eigum að horfa til Norðmanna og vera óhrædd við að nýta þær leiðir sem bestan árangur hafa borið.

Sameiginilegir hagsmunir
Fjölbreytt atvinnulíf um land allt ætti að vera sameiginlegt markmið okka allra. Fólkið fer þangað sem vinnu er að fá. Þar sem atvinnutækfærin eru, þar er jafnframt þjónusta og þá erum við komin með eftirsóknarvert byggðalag. Á undanförnum árum hefur opinberum störfum fjölgað á höfuðborgarsvæðinu en fækkað á landsbyggðinni. Í ljósi neiðkvæðrar byggðaþróunar og þeirra sameiginlegu hagsmuna okkar að snúa henni við, þá liggur beint við að spyrja eftirfarandi spurningar: Hvers vegna er umræðan svo hávær þegar örfá störf, hlutfallslega, hverfa af höfuðborgarsvæðinu en minna heyrist þegar störf eru færð frá landsbyggð til höfuðborgarsvæðisins?

Meira um Fiskistofu
Fyrir nokkrum mánuðum kynnti sjávarútvegsráðherra fyrirhugaðan flutning á höfuðstöðvum Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar. Um var að ræða 15-20 störf og flutningurinn átti að eiga sér stað á löngum tíma. Gert var ráð fyrir að höfuðstöðvar Fiskistofu yrðu komnar til Akureyrar fyrir 1. júlí 2015 og að flutningi lyki að öllu leyti fyrir 1. janúar 2017. Hugmyndin með því að flytja starfsemina á svo löngum tíma var m.a. að halda þekkingunni innan stofnunarinnar, gefa mönnum aðlögunartíma en sýnt þykir að rekstur stofnunarinnar er hagkvæmari fyrir norðan en sunnan.

Jón og séra Jón
Á svipuðum tíma misstu 10 manns við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Lítið heyrðist um það mál í fjölmiðlum. Nokkur opinber störf hafa horfið á síðustu misserum frá Höfn. Ekki orð í fjölmiðlum. Það þarf víst ekki að útskýra það fyrir lesendum að atvinnutækifæri eru talsvert fleiri á höfuðborgarsvæðinu, þar sem Fiskistofa er staðsett (þ.e. ef menn geta alls ekki hugsað sér að flytja norður á Akureyri) en til dæmis á Höfn eða á Hvanneyri.

Forréttindi að búa á landsbyggðinni
Mér þótti umræðan um Fiskistofu skrítin. Það er ekki refsing að búa landsbyggðinni, heldur forréttindi. Við getum deilt um aðferðafræði flutnings opinberra stofnana. En það er óumdeilanlega hagur okkar allra að landinu sé öllu haldið í byggð. Liður í því er að byggja upp grunnþjónustu, fjarskipti, samgöngur og síðast en ekki síst, flytja opinber störf frá höfuðborg til landsbyggðarinnar samhliða því að skapa önnur atvinnutækifæri um land allt.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í dv.is 26. febrúar 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Berskjaldaður eða bólusetning

Deila grein

25/02/2015

Berskjaldaður eða bólusetning

Jóhanna María - fyrir vefSíðustu vikur hafa bólusetningar barna verið mikið til umræðu eftir að móðir skrifaði pistil um hvernig hún þurfti að bíða í von og óvon til að komast að því hvort að sonur hennar hefði smitast af mislingum, hann var það ungur að hann hafði ekki fengið bólusetninguna sem hefði þurft í þessu tilfelli. Þar velti hún því upp hvort að þeir sem fara í bólusetningu og láta bólusetja börn sín væru að vernda þá sem kjósa að sleppa bólusetningum. Og þarna þurfti hún að bíða heima, bíða eftir því hvort að sonur hennar færi að sýna einkenni mislinga sem í versta falli gætu leitt til dauða. Á vefsíðu landlæknis segir: „Öllu jafna eru mislingar mildur sjúkdómur hjá börnum en allt að 10% þeirra sem sýkjast fá alvarlega fylgikvilla svo sem heilabólgu eða lungnabólgu.“ Og þrátt fyrir allt þá veitir bólusetning aðeins 95% vörn, er það ekki betra en 0%?

Í lögum hérlendis segir að börnum með lögheimili hér á landi skuli vers boðin bólusetning gegn tilteknum smitsjúkdómum þeim að kostnaðarlausu. Í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn um bólusetningar barna sem lagt var fram í vikunni segir m.a. að þátttaka í bólusetningum hérlendis sé almennt góð. Árið 2005 var búinn til bólusetningargrunnur og sýnir hann að ekki er merkjanlegur munur milli ára á fjölda barna sem fær bólusetningar. Þá kemur einnig fram í svarinu að þátttaka í bólusetningum er frá 88% upp í 96% við hinum ýmsu smitsjúkdómum eins og mislingum, hettusótt og rauðum hundum. Þá eru einnig bólusetningar við HPV sýkingu, barnaveiki, stífkrampa, kikhósta, Hib Heilahimnubólgu, lömunarveiki o.fl. innan þessara marka.

Með bólusetningu er mögulegt að útrýma sjúkdómum þó megin markmiðið sé auðvitað að koma í veg fyrir þá og hættulegar afleiðingar þeirra sem og hindra farsóttir. Bólusetning verndar ekki bara börnin sem hana fá, heldur kemur líka í veg fyrir smit milli barna. Það er sárasjaldan ástæða til að bólusetja ekki barn.

Vegna tilkomu bólusetningargrunns getur sóttvarnarlæknir sent nafnalista með þeim aðilum sem ekki hafa verið bólusettir til heilsugæslu, haft upp á þeim og boðið bólusetningu. Þá er einnig hægt að leiðrétta skráningu ef svo ber við. Ísland er einstaklega vel stætt í þessum málum miðað við önnur Norðurlönd og mikilvægt er að halda því við, þar sem tilfelli smitsjúkdóma sem hægt er að bólusetja við fækkar á móti. Þær upplýsingar sem ég hef koma frá landlækni og heilbrigðisráðuneytinu, en að mínu viti eru 5% líkur á að vera berskjaldaður fyrir alvarlegum smitsjúkdóm betra en að hafa enga vörn.

Jóhanna María Sigmundsdóttir

Greinin birtist í DV 24. febrúar 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Heilbrigðiskerfið í forgang, fyrir alla

Deila grein

24/02/2015

Heilbrigðiskerfið í forgang, fyrir alla

Elsa-Lara-mynd01-vefurÞað er staðreynd að ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, hefur sett uppbyggingu heilbrigðiskerfisins í forgang. Í fjárlögum fyrir árið 2015 kemur fram að Landspítalinn fái um 50 milljarða króna með sértekjum í sinn hlut. Að auki eru þar 875 milljónir króna, sem ætlaðar eru í fyrstu skref í byggingu á nýjum Landspitala. Í fjárlögum fyrir árið 2015 eru sérstök framlög í rekstrar – og stofnkostnað heilbrigðisstofnana og heilsugæslustöðva, þau framlög aukast um 2,1 milljarð. 100 milljónir bætast inn í rekstrargrunn heilbrigðisstofnana og jafnframt renna 100 milljónir aukalega í tækjakaup fyrir heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni.

Uppbygging er hafin.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins segir:  ,,Íslenskt heilbrigðiskerfi verður að vera samkeppnisfært við nágrannalönd um tækjakost, aðbúnað sjúklinga og aðstæður starfsmanna. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að landsmenn njóti aðgengis að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu.” Þann 8. janúar s.l. undirrituðu fulltrúar Læknafélags Íslands, Skurðlæknafélags Íslands og ríkisstjórnarinnar sameiginlega yfirlýsingu um markvissa uppbyggingu heilbrigðiskerfisins. Með yfirlýsingunni vilja þessir aðilar undirstrika mikilvægi heilbrigðiskerfisins og styrkja enn frekar heilbrigðisþjónustu í landinu. Helstu atriði yfirlýsingarinnar eru m.a. bygging nýs Landspítala og markviss endurnýjun tækjabúnaðar í heilbrigðiskerfinu. Markmið yfirlýsingarinnar er að bæta starfsaðstöðu heilbrigðisstarfsfólks og auka þjónustu við almenning. Auknu fjármagni verður veitt til heilbrigðismála og breytingar gerðar í þeim tilgangi að auka skilvirkni í kerfinu. Stefnt er að aukinni samvinnu heilbrigðisstofnana og markvissri verkaskiptingu. Íslenska heilbrigðiskerfið á að verða samkeppnishæft við það sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum.  Nauðsynlegt er að í öllu þessu ferli sé horft til þess að landsmenn allir, eigi greiðan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu, efnahag eða stöðu.

Heilbrigðisáætlun fyrir Ísland.

Það má velta fyrir sér, að samhliða þeirri uppbyggingu sem á sér stað í heilbrigðiskerfinu, að fara þurfi í að búa til heilbrigðisáætlun fyrir Ísland. Þar þarf að meta og kanna með tilliti til fjarlægða, samgangna, aldurssamsetningar íbúa byggðarlaga og svo framvegis, hvaða þjónustu eigi að veita hér og þar um landið. Kanna þarf hvaða kostnað og áhrif það gæti haft í för með sér. Auk þess þarf að velta fyrir sér, hvort aukin samvinna geti átt sér stað innan heilbrigðiskerfisins. Hvort og hvernig hægt væri að nýta betur þær heilbrigðisstofnanir sem eru í kringum höfuðborgina. Þar má t.d. nefna heilbrigðisstofnanir á Akranesi, Selfossi og Reykjanesbæ. Á þessum heilbrigðisstofnunum eru auðar deildir og gott starfsfólk sem er eflaust tilbúið til að taka á móti verkefnum.

Kostnaður sjúklinga lækkar.

Afar jákvætt er að sjá að í fjárlögum fyrir árið 2015, kemur inn 150 milljóna króna auka fjármagn. Það á að hafa þau áhrif að lyfjakostnaður sjúklinga lækki um 5 %. Einnig lækkar virðisaukaskattur á lyf úr 25,5 % í 24 % sem ætlað er að koma fram í lækkun á lyfjaverði. Jafnframt starfar nú nefnd undir forystu Péturs Blöndals sem hefur það að markmiði að koma með tillögur hvernig megi fella læknis – og lyfjakostnað, rannsóknar – og sjúkraþjálfunarkostnað og annan heilbrigðiskostnað undir eitt niðurgreiðslu – og afsláttarfyrirkomulag. Í nefndinni er unnið að einfaldara og réttlátara kerfi sem hefur það að leiðarljósi að verja einstaklinga gegn of háum kostnaði.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist í DV 20. febrúar 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Með sting í hjartanu

Deila grein

20/02/2015

Með sting í hjartanu

Silja-Dogg-mynd01-vefÞessi orð voru höfð eftir heilbrigðisráðherra í kjölfar umfjöllunar Fréttablaðsins fyrir skömmu um aðbúnað aldraðra og ég geri ráð fyrir að mörgum okkar hafi verið nákvæmlega eins innanbrjósts þegar þeir lásu þessar fréttir. Aðbúnaðurinn er ekki alls staðar eins og best verður á kosið. Tvímenningsherbergi er enn víða að finna og skortur á hjúkrunarrýmum. Ég hef jafnvel heyrt af því að einstaklingur hafi þurft að dvelja í salernisrými í sólarhring þar vegna plássleysis. Svona eiga hlutirnir ekki að vera.

Aðstöðumunur
Umræðan um aðbúnað aldraðra og uppbyggingu hjúkrunarrýma er ekki ný af nálinni og hún verður háværari með tímanum þar sem öldruðum fjölgar hlutfallslega með ári hverju. Stefna stjórnvalda er sú að fólk geti búið eins lengi heima hjá sér og mögulegt er og áherslan hefur því verið lögð á aukna heimaþjónustu. Aðstöðumunur getur þó verið ansi mikill á milli sveitarfélaga. Íbúar í dreifbýli eiga ekki alltaf góðan aðgang að heimaþjónustu og neyðast því til að fara á hjúkrunarheimili, þó að þeir vilji og geti séð um sig sjálfir að mestu leyti. Þarna vantar ákveðið millistig, þ.e. að eldri borgarar úr dreifbýli eigi kost á að fara í þjónustuíbúðir í þéttbýli þegar getan skerðist.

Úrbætur
Hlutverk Framkvæmdasjóðs aldraðra er að byggja upp hjúkrunarrými en í þrengingum síðari ára hefur fjármagnið verið nýtt til reksturs hjúkrunarheimila og viðhalds. Við stöndum því frammi fyrir fjárskorti og það blasir við að við þurfum að fara að gera langtímaáætlanir varðandi uppbyggingu, til a.m.k. 20 ára.

Á árunum 2014 og 2015 er 200 mi.kr veitt aukalega í hjúkrunarrými. Um er að ræða verulega fjölgun rýma í öllum heilbrigðisumdæmum sem kemur til móts við þá gríðarlegu þörf sem safnast hefur upp undanfarin ár. Á þessu ári verður 50 mi.kr varið til að bæta stöðu minni hjúkrunarheimila. Um er að ræða heimili með 20 eða færri hjúkrunarrými. Langflest þeirra eru á landsbyggðinni og mörg þeirra hafa átt í miklum rekstrarvanda. 50 mi.kr. verður varið aukalega á árinu í heimahjúkrun fyrir fólk sem komið er með gilt færni- og heilsumat og bíður þess að komast á hjúkrunarheimili. Um er að ræða tilraunaverkefni með það að markmiði að fólk geti sem lengst búið heima.

Aukin samvinna við heimamenn
Nú er unnið að grófri framkvæmdaáætlun um byggingaframkvæmdir öldrunarstofnana til næstu fimm ára. Þeirri vinnu ætti að ljúka fljótlega. Hér er einungis er um að ræða áætlun um brýnustu þörf til skamms tíma og vinnuhópurinn sem vinnur þá áætlun er skipaður starfsmönnum velferðarráðuneytisins sem þekkja málaflokkinn og þörfina vel. Til grundvallar þeim tillögum sem fram verða bornar er faglegt mat á því hvar þörfin er mest. Ljóst er að bæði er þörf á fjölgun hjúkrunarrýma og endurbótum á þeim rýmum sem fyrir eru til að mæta þeim viðviðum um aðbúnað sem þörf er talin á í dag. Þar sem mikilvægt er að ná sem mestri sátt og samstöðu um áætlun til lengri tíma mun sú vinna væntanlega kalla á aukna samvinnu við heimamenn í hverju heilbrigðisumdæmi.

Þó að menn greini á um ýmsa hluti þá getum við örugglega verið sammála um mikilvægi þess að bæta verulega þjónustu og aðbúnað aldraðra.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 20. febrúar 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.