Categories
Greinar

Að loknu sumarþingi

Deila grein

10/07/2013

Að loknu sumarþingi

Þorsteinn SæmundssonÞað hefur sannarlega verið viðburðaríkt og upplýsandi fyrir nýliða á Alþingi að taka þátt í nýliðnu sumarþingi. Það er vissulega mikil upphefð og mikil ábyrgð að setjast á Alþingi Íslendinga sem kjörinn fulltrúi. Nýliðar þurfa að meðtaka mikinn fróðleik á stuttum tíma, bæði hvað varðar starfsemi þingsins og ekki síður við að setja sig inn í þau mál sem til meðferðar eru hverju sinni. Margt hefur komið á óvart og reynst með öðrum hætti en maður vænti.

Eins og margir hef ég fylgst með störfum Alþingis fyrst og fremst í gegnum umfjöllun og fréttir fjölmiðla en einnig með því að lesa blaðagreinar og kynna mér mál á heimasíðu þingsins. Það hefur komið mér á óvart hversu mikill hluti starfs þingmanna fer fram utan við þingsalinn, einkum í nefndum. Starf í nefndum þingsins er afar yfirgripsmikið, flókið og krefjandi. Starfið er þaulskiplagt sem er nauðsynlegt vegna þeirra erinda, umsagna en ekki síst fjölda gesta sem nefndirnar taka á móti.

Nýliðar á Alþingi fá afskaplega góðar móttökur hjá starfsfólki þingsins sem er boðið og búið að veita okkur aðstoð við hvað sem vera skal. Þar er sannarlega valinn maður í hverju rúmi. Við sem höfum fengið þann heiður að setjast í forsætisnefnd þingsins höfum gaumgæft þingsköpin og verður ærið verkefni að reyna að verða fullnuma í öllu því sem starfandi forseti þarf að kunna skil á. Það er því ómetanlegt að þiggja leiðsögn og fróðleik frá því ágæta fólki sem heldur í höndina á okkur varaforsetunum meðan við erum að byrja að fóta okkur.

Það hefur verið ánægjulegt og fróðlegt að kynnast eldri og reyndari þingmönnum, bæði meðal fulltrúa meirihluta og minnihluta. Þar fara margir reyndir bardagamenn sem búa yfir mikilli þekkingu. Margt má af þeim læra, bæði góða siði og verri. Nokkuð góð samstaða virðist annars ríkja innan þings þó að hart sé tekist á um mikilvæg mál þar sem pólitískar átakalínur liggja. Ekki eigum við eftir að komast fram hjá slíkum átökum en von mín er þó sú að á haustþingi mæti allir undirbúnir og reiðubúnir að afgreiða þau brýnu hagsmunamál fólksins í landinu, kjósenda okkar sem bíða í ofvæni eftir lausnum. Ég vona að vel megi takast til og að breið samstaða myndist.

Þorsteinn Sæmundsson

Categories
Greinar

Apabúrið

Deila grein

10/07/2013

Apabúrið

Silja Dögg GunnarsdóttirAfi minn horfir reglulega á útsendingar frá Alþingi. Hann er með dyggari áhorfendum. Hann talar yfirleitt um Alþingi sem apabúrið. Ég verð að viðurkenna að þessi samlíking særði mig örlítið eftir að ég hlaut kosningu sem alþingismaður.

Ákall um betri ásýnd Alþingis hefur verið hávært og mér heyrðist fyrir kosningar að allir flokkar væru einhuga um að svara því kalli. Ég hugsaði því með mér þegar afi kallaði Alþingi enn einu sinni apabúrið að ég ætlaði nú aldeilis að sýna honum að svona yrði þetta ekki. Nú væru breyttir tímar runnir upp.

Lifandi umræða
Við síðustu þingsetningu tóku rúmlega 40% þingmanna sæti á Alþingi í fyrsta sinn. Við fengum í upphafi kynningu á störfum Alþingis og spurðum nánast öll út í frammíköllin og um reglur um hegðun í þingsal, því öll vildum við jú standa okkur vel. Við fengum þau svör að frammíköll væru leyfileg en þau ættu að vera örstutt og helst hnyttin. Þau hleyptu lífi í umræðuna og því vildu menn ekki banna þau. Gott og vel.

Ein af öpunum
Þinghald hófst. Það fór kröftuglega af stað. Gagnrýnisraddir um svikin kosningaloforð strax í fyrstu viku þingsins voru háværar. Mikil gagnrýni var á forgangsröðun nýrrar ríkisstjórnar og svo framvegis.

Þegar leið á þingið versnaði heldur í því. Apabúrið birtist ljóslifandi og því miður var ég ein af öpunum í búrinu. Ég var ekki stolt. Ég vil þó ekki setja alla undir sama hatt. Þingmenn Samfylkingarinnar höguðu sér langverst í þingsal. Stundum heyrðist ekki í ræðumönnum vegna frammíkalla þingmanna Samfylkingarinnar. Oft voru frammíköllin, að mínu mati, alveg á mörkunum að vera dónaleg.

Hinir nýju þingmenn litu hver á annan og trúðu varla sínum eigin eyrum. Þingmenn Samfylkingar eru allir „reynslumiklir“ þingmenn og ég velti því fyrir mér hvort sú reynsla sé til bóta. Þeir virðast allavega eiga mjög erfitt með að bæta hegðun sína í þingsal.

Þingmenn verða að standa saman í að bæta ásýnd Alþingis. Það er ekki verkefni ríkisstjórnarinnar heldur ALLRA þingmanna. Skiptumst á skoðunum, en verum kurteis, jákvæð og málefnaleg.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Categories
Greinar

Alþingi og kyn

Deila grein

09/06/2013

Alþingi og kyn

Eygló Þóra HarðardóttirAlþingi skipaði í nefndir.  Enn á ný endurspeglar skipanin þá kynjaskiptingu sem er til staðar í íslensku samfélagi. Karlar eru líklegri til að fara í nefndir sem hafa með fjár-, atvinnu- og utanríkismál á meðan konur sitja frekar í nefndum sem fara með velferðar-, mennta- og dómsmál.

Ég hef áður bent á þetta og lýst yfir áhyggjum af þessu.  Mikilvægt er að þingflokksformenn allra stjórnmálaflokka fari yfir þetta þegar þing kemur aftur saman í haust og tali saman um skipan í nefndir, ekki aðeins út frá áhugasviðum þingmanna heldur líka út frá kynjasjónarmiðum.

Efast ég ekki um að það verði gert.

Þetta er okkur ekki auðvelt. Staðreyndin er sú að við erum með mjög kynskiptan vinnumarkað á Íslandi.  Konur eru líklegri til að velja menntun og starfssvið á sviði velferðarmála og starfa hjá hinu opinbera.  Karlar eru líklegri til að velja menntun á öðrum sviðum og starfa hjá einkafyrirtækjum.

Þessu þarf að breyta.

En það er ekki auðvelt.  Fyrir stuttu var frétt um að fjölgun hefði orðið í fjölda þeirra sem luku sveinsprófi í húsgagnasmíði.  Stór hluti fréttarinnar snérist ekki um þá gleðilegu staðreynd, heldur að einn af sveinunum (áhugavert orð út frá kynjagreiningu) var kona sem var komin að fæðingu.

Það hvernig við metum störf karla og kvenna endurspeglast ekki bara í virðingu starfsins heldur líka hvernig við greiðum fyrir þau.  Eitt af því sem ég hef rekið mig á þann stutta tíma sem ég hef verið ráðherra er munurinn á greiðslum fyrir nefndar- og stjórnarsetur eftir sömu kynjuðu skiptingunni.

Eitt mest sláandi dæmið er t.d. munurinn á greiðslum fyrir stjórnarsetu í Fjármálaeftirlitinu og Tryggingastofnun ríkisins. Stjórnarformaður FME fær 600.000 kr. á mánuði, á meðan stjórnarformaður Tryggingastofnunar ríkisins fær greiddar 60.000 kr.  Eru verkefni FME virkilega 10 sinnum erfiðari eða virðingarmeiri en verkefni Tryggingastofnunar?  Nei, ég held nú síður.

Það er löngu kominn tími til að við áttum okkur á að velferðarmálin eru ekki neinn mjúkur málaflokkur.  Það er ekkert mjúkt við þá staðreynd að tæplega helmingur af útgjöldum ríkisins er í höndum Velferðarráðuneytisins.  Það er ekkert mjúkt við þá staðreynd að Tryggingastofnun greiðir út árlega ríflega 120 milljarða króna í bætur til aldraðra og öryrkja .  Það er svo sannarlega ekkert mjúkt og sætt við þá staðreynd að Íbúðalánasjóður sem tilheyrir mínum málaflokki er með efnahagsreikning upp á 900 milljarða króna og í mjög erfiðri stöðu. Það er ekkert  mjúkt við þá staðreynd að þúsundir Íslendinga eru í greiðsluaðlögun hjá Umboðsmanni skuldara eða allir þeir sem eru á vinnumarkaði eru á mínu borði í gegnum m.a. Vinnumálastofnun, Atvinnuleysistryggingasjóð, Ábyrgðarsjóð launa, Fæðingarorlofssjóð og Ríkissáttasemjara.

Konurnar og karlinn sem taka sæti í velferðarnefnd Alþingis undir styrkri stjórn Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur gera sér væntanlega grein fyrir þessu.

Og eru tilbúin að axla þá þungu ábyrgð með mér.

Vonandi verða líka fleiri karlar tilbúnir til þess í haust.

Uppfært 7. júní 2013 kl. 22.37: Nákvæmlega þá fær stjórnarformaður TR greiddar 63.180 kr. á mánuði samkvæmt mínum upplýsingum.

Eygló Harðardóttir

Categories
Greinar

Af hverju FramSókn?

Deila grein

26/04/2013

Af hverju FramSókn?

Sigurður Ingi JóhannssonÁ laugardag 27. apríl, göngum við til kosninga til Alþingis. Kosningar eru alltaf mikilvægar – en aldrei sem nú.

Heimili landsins eru grunnstoðir samfélagsins. Framsókn mun berjast fyrir framtíð þeirra. Að nýta ekki ofurhagnað vogunarsjóða og annarra kröfuhafa bankanna væri glapræði. Við Framsóknarmenn ætlum að setja á oddinn leiðréttingu stökkbreyttra verðtryggðra lána heimilanna og afnám verðtryggingar.  Samhliða þeirri aðgerð er lausn „snjóhengjunnar“ svokölluðu, sem er forsenda fyrir afnámi gjaldeyrishafta.

Við munum beita okkur fyrir uppbyggingu alls atvinnulífsins – við þurfum aukna fjárfestingu og hagvöxt. Við viljum úthýsa atvinnuleysi úr samfélaginu.  Tækifærin í suðurkjördæmi og öllu Íslandi eru gríðarleg hvort sem er í hefðbundnum atvinnugreinum til sjávar og sveita, ferðaþjónustu eða orkugeiranum.  Þá er þekkingariðnaðurinn með mannshugann óþrjótandi auðlind. Þá auðlind viljum við virkja til að fá fram fjölbreytt atvinnulíf og betri lífskjör. Hér á Suðurnesjum er eimreið ferðaþjónustannar á Íslandi – flugstöð Leifs Eiríkssonar – hún mun eflast og þjónusta í kringum hana mun koma Suðurnesjum vel. Álverið í Helguvík þarf að rísa og munum við Framsóknarmenn gera það sem við getum til að það verkefni gangi eftir. Fjölbreytt atvinnulíf vex í kringum stórverkefni og stórfyrirtæki – það mun gerast á Suðurnesjum líka.

Með því að setja X við B sýnir þú stuðning í verki til að koma stefnu okkar Framsóknarmanna í framkvæmd. Þannig getum við skapað saman aðstæður til sóknar í atvinnumálum, byggt upp heilbrigðiskerfið og löggæsluna og leiðrétt kjör aldraðra og öryrkja.

Og – með leiðréttingu skulda og afnámi verðtryggingar, lyftum við saman okinu af heimilunum. Sækjum fram saman – XB.

Með sumarkveðju,
Sigurður Ingi Jóhannsson

Categories
Greinar

Takk fyrir mig!

Deila grein

25/04/2013

Takk fyrir mig!

Karl GarðarssonVerðtryggða húsnæðislánið mitt hefur hækkað um 350.000 krónur á 28 dögum. Takk fyrir mig. Staðan er svipuð og jafnvel mun verri hjá þúsundum annarra heimila.

Mánaðamótin eru orðin tími skelfingar hjá íbúðareigendum, enda stjórnar vísitala neysluverðs lífi þeirra. Þetta er eins og að vera sífellt í rússneskri rúllettu. Allt að helmingur íslenskra heimila er tæknilega gjaldþrota. Við erum að tala um tugþúsundir heimila. Þeim fjölgar sífellt, miðstéttin er að hverfa og þúsundir Íslendinga sjá fram á skuldaánauð í framtíðinni.

Takk fyrir skjaldborgina, kæru stjórnvöld. Takk, þið fastapennar blaðanna og netmiðla sem sjáið Ísland breytast í eyðimörk nema verðtrygging húsnæðislána fái að haldast. Takk fyrir hina farsælu efnahagsstjórn sem hefur leitt til stöðugleika í efnahagsmálum, eða hitt þó heldur. Og svo þarf alveg sérstaklega að þakka þeim sem sjá enga aðra lausn en að afsala Evrópusambandinu fullveldi þjóðarinnar – enda erum við auðvitað fullkomlega ófær um að sjá um okkur sjálf. Svo er þetta allt krónunni að kenna, enda er hún ekkert annað en verkfæri djöfulsins. Lifir sjálfstæðu lífi og hefur það eina markmið að ganga frá heimilum landsins og skapa verðbólgu. Auðvitað er það henni að kenna að verðtryggð lán heimila landsins hafa hækkað um 23 milljarða króna á einum mánuði. Það hefur ekkert að gera með skelfilega hagstjórn. Eða hvað?

Stjórnarflokkarnir þegja þunnu hljóði, enda fullkomið ráðaleysi þegar kemur að skuldum heimilanna. Minni spámenn þessara flokka tala áfram um nauðsyn þess að viðhalda verðtryggingu, enda megi annars fastlega búast við ragnarökum. Sjálfstæðismenn hvetja til minna vægis verðtryggingar. Á mannamáli þýðir það að flokkurinn ætlar ekki að hrófla við henni.

Hagnaður bankanna
Á sama tíma birtast fréttir af góðum hagnaði bankanna, sem er fenginn með peningaprentun sem á sér enga stoð í veruleikanum. Peningaprentun sem leiðir einungis til meiri þenslu og verðbólgu. Laun bankastjóranna hafa tekið stökk á undanförnum tveimur árum og að óbreyttu verður stemningin í bankakerfinu fljótlega orðin meiri en nokkru sinni fyrr – bíðum bara í tvö til þrjú ár. Stjórnvöld hafa horft opinmynnt á, án þess að aðhafast nokkuð. Reyndar er það ekki alveg rétt – forsætisráðherra hefur þó sagt að hún skilji ekkert í launum skilanefnda.

Það er ekki bara almennt verðlag sem er stjórnlaust. Þannig hafa stjórnvöld staðið fyrir gegndarlausum gjaldskrár- og skattahækkunum allt kjörtímabilið, sem hafa farið beint út í verðlagið og kynt undir verðbólgu og þar með hækkun skulda heimilanna. Bankarnir hafa skálað, lífeyrissjóðirnir líka. Núna um mánaðamótin bættist síðan það nýjasta við, sykurskatturinn. Stjórnvöldum er ekkert óviðkomandi. Þau vilja hafa puttana í því hvað við borðum og drekkum. Þessi forsjárhyggja þýðir að verðtryggð húsnæðislán hækka um 1 milljarð króna, enda fer hækkunin beint í neysluvísitöluna. Takk fyrir mig.

Sú fylgisaukning sem Framsóknarflokkurinn hefur séð í skoðanakönnunum að undanförnu er ekki tilviljun. Hann er eini flokkurinn sem er með klára stefnu í verðtryggingamálum – hún skal í burtu. Afnám verðtryggingar dugar hins vegar ekki eitt og sér – jafnframt þarf að grípa til annarra aðgerða til að tryggja stöðugleika í efnahagslífi og stöðugra gengi. Það verður gert.

Það er með hreinum ólíkindum að nokkur stjórnmálaflokkur skuli geta mælt með því óréttlæti sem viðgengst í þessu landi. Það er með ólíkindum að nokkur maður skuli geta stungið niður penna og mælt með þeirri gegndarlausu eignaupptöku sem á sér stað um hver mánaðamót með verðtryggingunni. Val kjósenda er því einfalt í komandi kosningum – X-B.

Karl Garðarsson

Categories
Greinar

Ert þú þolinmóði skuldarinn?

Deila grein

24/04/2013

Ert þú þolinmóði skuldarinn?

Sveinbjörg Birna SveinbjörnsdóttirVið í Framsóknarflokknum erum stolt af því öfluga starfi sem við höfum unnið síðastliðin misseri við að móta stefnu flokksins okkar sem byggð hefur verið á mikilli greiningarvinnu og aðkomu fjölda fólks og sérfræðinga til að leita leiða til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag.  Við höfum sett okkur skýrar siðareglur og tekist á við þann fortíðarvanda sem flokkurinn glímdi við.  Við teljum að í öllum ákvarðanatökum okkur eigum við að hafa það meginsjónarmið að leiðarljósi að setja manngildi ofar auðgildi og aðeins þannig getum við virkjað þann kraft og auð sem í þjóðinni okkar býr og við hvetjum þig kjósandi góður til að taka upplýsta ákvörðun á kjördag þar sem sömu meginsjónarmið verða höfð að leiðarljósi.

Í dag dynja á kjósendum okkar allskonar lausnir á skuldavanda heimilanna, svo mikið að mörgum þykir nóg um.  Við fögnum því að ráðamenn þjóðarinnar og þeir sem er að sækja um vinnu á Alþingi til næstu fjögurra ára hafa nú loksins viðurkennt og gert sér grein fyrir því að um raunverulegan vanda er að ræða.  Frá árinu 2009 hefur Framsóknarflokkurinn verið meðvitaður um þennan vanda og lagði fram tillögur til lausnar á honum á þeim tíma.  Þær tillögur fengu ekki hljómgrunn á sínum tíma, en flestir stjórnmálaflokkar hafa í dag viðurkennt að rétt og gerlegt hefði verið að leiðrétta hann með tillögum Framsóknarflokksins á þeim tíma.  Vegna aðgerðarleysis stjórnvalda þá hefur þessi vandi nánast útrýmt millistéttinni á Íslandi, valdið því að eldra fólk hefur skuldsett sig langt umfram getu, með því að gangast í ábyrgðir eða veita veð í fasteignum sínum fyrir íbúðakaupum erfingja sinna og sem hefur líka valdið því að kynslóðin sem kemur til með að erfa landið finnur mjög þröngar leiðir, ef nokkrar til að eignast þak yfir höfuðið.

Í umræðum um lausnir í skuldamálum höfum við lagt áherslu á að leiðrétta stökkbreytt húsnæðislán.  Við viljum nýta það svigrúm sem skapast við uppgjör þrotabúa gömlu bankanna til að leiðrétta stökkbreytt, verðtryggð húsnæðislán og ástæðan er sú að það er ekkert sem réttlætir að lánþegar sitji einir uppi með afleiðingar stökkbreytingar lána af völdum efnahagshrunsins.  Um slíkt réttlætismál er að ræða að þjóðinni ber skylda til að standa saman eins og einn maður, eins og hún hefur sýnt að hún gerir þegar hamfarir hafa átt sér stað.

Kjósendur spyrja sig hvernig er þetta hægt?  Margar leiðir eru tækar, en sú sem hugnast okkur í Framsóknarflokknum best er hægt að lýsa í stuttu máli þannig að  skuld þrotabús (föllnu bankanna) er eign þess sem á viðkomandi kröfu í búið. Verðmæti krafna í þrotabú ræðst fyrst og fremst af væntingum um hversu mikið fáist úr búinu upp í þær kröfur. Þær væntingar ráðast aðallega af ætluðu verðmæti þeirra eigna sem í búinu eru. Kröfur í Glitni og Kaupþing munu eftir hrun hafa selst á nálægt 5% af nafnvirði. Líklegt er að hinir svonefndu vogunarsjóðir hafi eignast sínar kröfur á verði nálægt því. Talið er að allt að 95% af kröfum í bú gömlu bankanna séu nú í eigu erlendra aðila, að langstærstum hluta vogunarsjóðanna. Í vetur bárust fréttir af því að kröfurnar seldust á 25-30% af nafnverði. Kröfurnar hafa því margfaldast í verði.  Þegar þeir keyptu þessar kröfur vissu þeir af gjaldeyrishöftum þeim í gildi eru á Íslandi.  Þeir vissu eða máttu vita að þeir þyrftu að semja við íslensk stjórnvöld um það hvernig þeir kæmu eignum sínum úr landi og þannig er íslenska þjóðin í góðri samningsaðstöðu sem okkur ber skylda til að nýta.

Þá er það sanngirnismál að svokölluð „lyklalög“ verði sett sem geri lánþegum mögulegt að afsala eign sinni til lánveitenda án þess að slíkt hið sama leiði til gjaldþrots.  Í gegnum tíðina hefur staðan verið sú að fjármálastofnanir og lífeyrisjsóðir hafa lánað gegn fasteignaveðum, en þegar lán hækka vegna verðtryggingar umfram fasteignaverð, eða jafnvel þegar lækkanir verða á fasteignamarkaði, þá hefur það verið lántakinn sem ber áhættuna af því og ef eignin er seld þá standa eftirstöðvarnar eftir sem skuld á lánþegann oft með þeim afleiðingum að hann á sér þá einu leið út úr skuldafeninu að fara í gjaldþrot.

Það er hagsmunamál allra aldurshópa í þjóðfélaginu og ekki síst ófæddrar kynslóðar að afnema verðtryggingu af neytendalánum.  Fyrir því eru margar ástæður.  Sú fyrsta  er sú að verðtrygging leiðir til hærri vaxta vegna þessa að verðtryggð lán hafa verið útbreidd hérlendis og því hafa stýrivaxtahækkanir haft minni áhrif á neyslu og því dregið minna úr þenslu en ella og því má færa rök fyrir því að stýrivextir hafi hækkað meira og verið lengur hærri, en ef verðtrygging hefði ekki verið jafn útbreidd.  Önnur er að verðtrygging leiðir sjálfkrafa til meiri verðbólgu þar sem hún hækkar höfuðstól verðtryggðra útlána.  Sú hækkun er færð til tekna hjá bönkum, með því hækkar eigið fé bankanna og svigrúm þeirra til peningamyndunar eykst sjálfkrafa.  Nýti bankar sér þetta svigrúm til peningamyndunar, eykur það verðbólgu og eftir því sem árin líða magnast áhrif þessarar hringrásar.  Í þriðja lagi þá veldur verðtrygging því að erfiðlega gengur að greiða lánin upp og helsta von fasteignaeigenda er sú að verð eigna þeirra hækki hraðar en skuldir.  Frá hruni hefur eignaverð nánast staðið í stað á meðan að lán hafa hækkað og þúsundir lánþega hafa því tapað öllum þeim sparnaði sem þeir lögðu í íbúðakaup.  Í fjórða lagi þá hvetur verðtrygging beint til  verðbólgu  þar sem viðskiptabankar eiga meira verðtryggt en þeir skulda og því græða þeir þegar verðbólga hækkar.  Ríkissjóður skuldar um 700 milljarða óverðtryggt og hagnast því um 7 milljarða við hvert 1% sem verðbólgan hækkar um.  Bankar og stjórnvöld eru í lykilstöðu til að hafa áhrif á verðbólgu, en hafa lítinn hvata til þess. Síðastliðin þrjú ár hafa skattahækkanir stjórnvalda skilað því að skuldir heimilanna hækkuðu um 22 milljarða króna og þykir flestum nóg um og í fimmta lagi þá er engin leið til þess að verðtryggðar skuldir lækki í kreppu og er allt tal um slíkt hugarórar einir.  Ekki eru ókostir verðtryggingar hér tæmandi taldir.

Með afnámi verðtryggingar verður jafnframt að huga að því að skapa skilyrði til að auðvelda fólki að flytja lánaviðskpti milli lánastofnana og setja þak á innheimtu lántökugjalda við skuldskeytingu t.d. og afnámi stimpilgjalda í þeim tilfellum.

Okkur sem byggjum þetta land, ber skylda til að standa saman um lausn skuldamála heimilanna og vonum að við fáum umboð þitt ágæti kjósandi til þess.

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir

(Meðhöfundur að greininni er Vigdís Hauksdóttir og birtist hún fyrst í Hverfablaði Háaleitis- og Bústaðar)

Categories
Greinar

Að hugsa lengra og í lausnum

Deila grein

23/04/2013

Að hugsa lengra og í lausnum

Hjalmar_Bogi_klipptKrafan um breytingar í samfélaginu er hávær og hefur alltaf verið. Þannig hefur maðurinn þróað samfélag sitt til hins betra með ýmsum feilsporum og lært af mistökum sínum. En hvernig breytum við samfélaginu til hins betra nema ræða okkur niður á skynsamlegustu leiðina sem allra flestir geta sætt sig við? Í því hraðadýrkandi samfélagi sem við lifum í þurfum við í fyrsta lagi að átta okkur á að skyndilausnir til skamms tíma hafa ekki varanleg áhrif. Þess vegna þurfum við að hugsa lengra, til þess sem hefur áhrif á samfélagið til hins betra.

Hvert og eitt okkar vill alltaf gera gott samfélag betra. Þess vegna tekur fólk þátt í stjórnmálastarfi til að ná fram umbótum og hafa áhrif. Stefna Framsóknarflokksins er róttæk miðjustefna með rökhugsun og skynsemi að leiðarljósi þar sem öfgum til hægri og vinstri er hafnað.

Til að ná fram breytingum verðum við að velta ýmsum leiðum fyrir okkur án þess að taka fyrirfram afstöðu með eða á móti. Við þurfum að átta okkur á því að engin ein miðlæg lausn gildir endilega fyrir allt samfélagið. Því til stuðnings vil ég nefna heilbrigðikerfið. Heilsugæsluna þarf að styrkja sem allra víðast þannig að heilbrigðiskerfið í heild sinni verði ódýrara í rekstri til lengri tíma.

Það þýðir að efla þarf heilsugæslustöðvar um allt land, styrkja hverja útstöð sem fækkar komum á stærri spítala.
Við verðum að vera óhrædd að varpa fram nýjum hugmyndum. Hvert samfélag á allt sitt undir jafnvægi. Víða á Íslandi hafa lífskjör verið fengin að láni, láni sem stökkbreyttist vegna hamfara í efnahagskerfinu. Á þessum vanda verður að taka þannig að sagan endurtaki sig ekki og það verður m.a. gert með því að afnema verðtryggingu af neytendalánum. Ekkert réttlætir að lánþegar sitji einir uppi með afleiðingar stökkbreyttra lána. Íslensk heimili eru mörg of skuldsett. Á móti skuldinni ætti að vera eign. Við hrunið hrapaði húsnæðisverð og því eru skuldir hærri en eignin sjálf þegar lánin stökkbreyttust.

Efnahagskerfið sem við mennirnir sköpuðum hrundi og afleiðingar þess sjáum við nú líkt og náttúruhamfarir. Þetta kallar á hugarfarsbreytingu.

Hugsum lengra, verum óhrædd við setja fram nýjar hugmyndir sem kalla á breytingar á samfélaginu til hins betra.

Hjálmar Bogi Hafliðason,
skipar 5. sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi.

Categories
Greinar

Réttlæti fyrir íslensk heimili

Deila grein

23/04/2013

Réttlæti fyrir íslensk heimili

Þorsteinn SæmundssonKosningabarátta fyrir Alþingiskosningar er nú sem óðast að taka á sig mynd og virðist ætla að verða með athyglisverðara móti. Frambjóðendur Framsóknarflokksins hafa lagt höfuðáherslu á að kynna helstu baráttumál flokksins um leiðréttingar á stökkbreyttum lánum heimila og að leggja niður verðtryggingu á neytendalánum.
Andstæðingar Framsóknarflokksins hafa hinsvegar lagt sérstaka áherslu á að ræða um Framsóknarflokkinn. Úr herbúðum andstæðinganna koma engar tillögur, engin stefna, aðeins aumkunarvert sífur um svokölluð yfirboð Framsóknar. Eru ámátlegustu sótraftar dregnir á flot til að kyrja þennan söng með útúrsnúninga og svekkelsi að vopni. Mest eru þetta sömu raddir og vildu skjálfandi gangast undir ICESAVE klafa á sínum tíma, alveg sama hvað það átti að kosta.
Með sífri sínu taka andstæðingar Framsóknarflokksins nú stöðu með vogunarsjóðum gegn íslenskum heimilum og eru jafn skjálfandi á beinunum gagnvart sjóðunum og ICESAVE skuldareigendum forðum. Eru margir til kallaðir, jafnvel menn sem hafa gefið sig út fyrir að vera verkalýðsleiðtogar. Það er eftirtektarvert að þessir aðilar hafa uppi svipuð rök fyrir hræðslukenndri afstöðu sinni nú og fyrir vilja sínum til að samþykkja ICESAVE á sínum tíma. Hafa semsagt engu gleymt og ekkert lært.
Ahyglisverðust og mest upplýsandi hlýtur þessi umræða þó að að vera fyrir þá sem ekki hafa enn gert upp hug sinn um hvað þeir hyggjast kjósa. Það hlýtur að vera umhugsunarvert fyrir fólk sem berst harðri baráttu með dugnað og heiðarleika að vopni fyrir heimilum sínum og afkomu þeirra hvort þeir sem lyppast niður við fyrsta mótlæti eru traustsins verðir. Það hlýtur að vera umhugsunarvert fyrir fólk sem leitar lausna fyrir sig og fjölskyldur sínar hvort rétt sé að færa fjöregg þeirra í hendur fólki sem kyrjar einum rómi: „Þetta er ekki hægt.“
Framsóknarmenn láta ekki úrtöluraddir nokkurra kjarkleysingja hrekja sig af leið í baráttunni fyrir réttlætinu. Þvert á móti herðumst við í baráttu okkar fyrir réttlátri leiðréttingu til handa íslenskum heimilum. Töluvert hefur verið rætt um kostnað af boðuðum aðgerðum Framsóknar. Víst er að aðgerðirnar munu kosta sitt, en stefna Framsóknar er sú að vogunar- og verðbréfasjóðir sem fengu kröfur föllnu bankanna afhentar á silfurfati beri stærstan kostnað af aðgerðunum og skili með því íslenskum almenningi hluta þess ofurgróða sem þeir hafa nú þegar innleyst af „fjárfestingu“ sinni.
Við Framsóknarmenn trúum því nefnilega að í hverri áskorun felist tækifæri. Við trúum því að raunverulega sé hægt að ráðast til atlögu við vogunarsjóði og aðra kröfueigendur með málstað réttlætisins að vopni. Við trúum því að réttlætið muni hafa sigur!
ÞORSTEINN SÆMUNDSSON
Categories
Greinar

10 spurningum Össurar um Framsóknarleiðina svarað

Deila grein

22/04/2013

10 spurningum Össurar um Framsóknarleiðina svarað

Frosti SigurjónssonÖssur Skarphéðinsson spurði nýlega 10 spurninga um Framsóknarleiðina. Hér eru svör við þeim.

1. Snýst leið Framsóknar bara um krónueignir kröfuhafa í þrotabúunum, það er reiðufé og virði Arion banka og Íslandsbanka? Ef svarið er já er þá ekki ljóst að 300 milljarðarnir sem Stefán talar um verða ekki notaðir tvisvar, það er (A) til þess að fækka krónum í umferð, lækka skuldir ríkisins og til að liðka fyrir afnámi gjaldeyrishafta annarsvegar og svo (B) hins vegar til að lækka lánaskuldir heimilanna um 20%?”

Svar: Í lið (A) koma fram ósamrýmanleg markmið: “fækka krónum í umferð, lækka skuldir ríkisins og liðka fyrir afnámi hafta”. Það er ekki hægt að taka krónur úr umferð með því að lækka skuldir ríkisins. Það er augljóst að ef ríkið notar krónur til að greiða skuldir sínar, þá fá einhverjir þær krónur til afnota og þær eru þá aftur komnar í umferð. Nema viðtakendur krónanna geti greitt upp einhverjar skuldir við banka og geri það. Í lið (B) er hægt að ná fram lækkun skulda heimila og að fækka krónum um leið. Að því leiti sem krónur væru notaðar til að greiða niður skuldir heimila við banka – þá myndi peningamagn lækka sem því næmi.

2. Sé 300 milljörðum dælt út í hagkerfið þar sem þegar er allt of mikið peningamagn í umferð, myndi það ekki hafa þensluáhrif svipuð því sem raunin varð með Kárahnjúkavirkjun, valda verðbólguþrýstingi og éta upp stóran hluta einskiptislækkunar á höfuðstól skulda – auk þess að viðhalda fjármagnshöftum?”

Svar: Niðurfærsla skulda heimila leiðir ekki sjálfkrafa til aukningar peningamagns. Hér skiptir aðferðin máli. Ef lækkunin væri staðgreidd til lánastofnana, þá myndi það vissulega leiða til aukningar og auka hættu á þenslu. Ef lækkunin er greidd út á löngum tíma (t.d. 20 árum) þá yrðu þensluáhrifin hverfandi.

3. Má kanski af málflutningi Framsóknarmanna ráða að leið þeirra felist frekar í að reka þrotabú föllnu bankanna í gjaldþrot og krónuvæða búin, sem vel má halda fram að sé í samræmi við íslensk gjaldþrotalög, þar sem gert er upp í íslenskum krónum að öllum jafnaði?”

Svar: Ekki er ástæða til binda sig fyrirfram við aðra af þeim tveim leiðum sem hægt er að fara, þrot eða nauðasamninga.

4. Felst leið Framsóknar í því að kröfuhafar Glitnis og Kaupþings verði látnir skila öllum gjaldeyri búanna inn í Seðlabankann gegn greiðslum í krónum á álandsgengi – og í kjölfarið verði þeim boðið að kaupa hann aftur út á gengi sem er Íslendingum hagstæðara? Eða gegn því að greiða ríflegan útgönguskatt”

Svar: Kröfuhafar gömlu bankanna eiga ekki að hafa forskot fram yfir Íslendinga varðandi heimildir til að taka fjármagn úr landi. Eitt verður yfir alla að ganga í því efni. Þeir sem vilja fá forgang um útgöngu þurfa að fórna einhverju á móti. Útgönguskattur væri ein leið til þess.

5. Leiðin í spurningu 3 er líklegri til þess að skila fjármunum sem hægt er að nota í tvennum tilgangi heldur en leiðin í spurningu 1. En hefur Framsókn hugsað út í hvernig „hrægammasjóðirnir“ munu bregðast við henni? Það er líka milljarðaspurning.”

Svar: Já, við höfum hugsað út í það.

6. Munu „hrægammasjóðir“ leita réttar síns á þeirri forsendu að um eignaupptöku sé að ræða sem varði eignarréttarákvæði stjórnarskrár Íslands? Hefur Framsókn hugsað út í augljósa mótleiki kröfuhafa á þeirri forsendu?”

Svar: Framsókn hefur reyndar ekki talað fyrir upptöku á eignum föllnu bankana enda ýmsar aðrar leiðir færar að ásættanlegri niðurstöðu.

7. Með innköllun gjaldeyris þrotabúanna og skiptum í krónur myndaðist risakrónufjall, sem er margföld núverandi snjóhengja. Hefur Framsókn hugsað út í amk. einn eitraðan mótleik kröfuhafa? Hann gæti falist í að krefjast ekki skipta á krónufjallinu yfir í erlendan gjaldeyri heldur setja þrýsting á Íslendinga á móti með því eiga það hér í einhver ár til þess að græða á vaxtamun meðan við berðumst við mikla verðbólgu með himinháuum vöxtum?”

Svar: “Ef” til þess kæmi að skipta öllum gjaldeyri þrotabúa yfir í krónur, gæti Seðlabanki beitt sömu aðferðum og hann notar í dag til að binda þær á sérstökum reikningum. Þrýstingurinn væri því ekki á Íslendinga, heldur kröfuhafana.

8. Er nóg að koma á skilaskyldu allra á gjaldeyri, líka kröfuhafa? Þarf ekki líka að koma á skiptaskyldu? En væri hægt að koma á skiptaskyldu á þrotabúin ein án þess að brjóta gegn jafnræðisreglu? Verður þá að setja skiptaskyldu á öll útflutningsfyrirtæki til þess að Framsóknarleiðin gangi upp? Hvað myndu sjávarútvegs- og álfyrirtækin segja, ef þau mættu ekki lengur hafa gjaldeyrisreikninga á Íslandi, en þyrftu að skipta öllum gjaldeyri sem þau öfluðu á því gengi sem Seðlabankanum hentaði dag frá degi?”

Svar: Skiptiskylda á gjaldeyri væri ekki nauðsynleg. Nærtakara væri að skýra ákvæði laga um að öll þrotabú í landinu greiði út í krónum. Þannig væri gætt jafnræðisreglu.

9. Þrotabú bankanna föllnu hafa starfað um fjögurra ára skeið. Sú spurning vaknar því, hvort lög um skilaskyldu á gjaldeyri með skiptiskyldu myndu ná yfir þau? Fróðlegt væri að vita hvernig Framsókn hefur skoðað það mál.”

Svar: Vísa til svars við 8.

10. Rök Framsóknar um að ekki sé rétt að hlífa „hrægammasjóðum“ byggja á að sjóðirnir hafi keypt kröfur í þrotabúin á hrakvirði og muni hagnast gríðarlega á uppgjöri búanna. Að sönnu rétt, en gilda þau rök einnig um þá 30- 40% kröfuhafa í þrotabúunum sem lánuðu Kaupþingi og Glitni fé og eru enn svokallaðir upprunalegir kröfuhafar sem vonast til að endurheimta hluta af töpuðu fé?”

Svar: Já, þetta gildir líka um upprunalega kröfuhafa. Þeir gerðu vel í því að selja ekki á hrakvirði eins og margir aðrir gerðu og hafa grætt vel á þeirri ákvörðun sinni. Þeir munu eins og aðrir kröfuhafar þurfa að færa eignir að raunvirði til að komast út fyrir höftin.

FROSTI SIGURJÓNSSON

Categories
Greinar

Nýtum auðlindirnar – sköpum störf

Deila grein

21/04/2013

Nýtum auðlindirnar – sköpum störf

Líneik Anna SævarsdóttirUm daginn las ég ævisögu og rakst þar á setninguna:„við rákum fyrirtæki sem veitti 40 manns atvinnu.“ Ég hef alltaf borið virðingu fyrir fólki sem hefur verið stolt af því að geta veitt öðrum vinnu og með því lagt til samfélagsins. Eins og ber ég virðingu fyrir fólki sem er stolt af því að leggja til samfélagsins með því að greiða sína skatta.

Á Íslandi eigum við mikið af auðlindum, bæði mikið nýttar og ónýttar. Arður af auðlindum verður ekki til fyrr en einhver nýtir þær. Til að nýta auðlind þarf þekkingu og framtakssemi. Á síðustu árum hefur því miður oft verið talað niður til þeirra sem valið hafa að nota sína þekkingu og framtaksemi til þess.

Þjóðin hagnast á auðlindum sínum þegar úr þeim eru framleidd verðmæti, verðmætin geta verið vara sem við notum innanlands og spörum með því gjaldeyri eða vara sem við seljum úr landi. Fólk fær störf, greiðir skatta og notar launin sín til að kaupa aðra vöru. Fyrirtækið sem nýtir auðlindina greiðir launatengd gjöld og aðra skatta. Fyrirtækið þróar sína framleiðslu og kaupir til þess aðstoð og þekkingu annars staðar frá o.s.frv. Þannig nýtur þjóðin arðs af auðlindinni.

Hvernig skilar arður af auðlindunum sér best til þjóðarbúsins, er það með því að skapa sem flest störf á Íslandi? Eða er það með því að fá sem flestar krónur fyrir hráefnið? Eigum við að reyna að skapa sem flest störf og mest verðmæti við úrvinnslu úr fiskinum okkar eða að flytja sem mest út beint af hafnarbakkanum? Eigum við að flytja orkuna beint úr landi þannig að fyrirtækið Landsvirkjun hagnist sem mest á pappírunum eða eigum við að nýta orkuna til þess að skapa sem flest störf og verðmæti innanlands? Er ekki tímabært að umræðan um auðlindarnar okkar fari að snúast um það hversu mörg störf við getum byggt á þeim en ekki um hvernig megi taka sem mesta peninga út úr framleiðslunni. Þannig þarf umræðan um Landsvirkjun að snúast um það hvernig við getum nýtt orkuna til að skapa sem flest störf innan lands en ekki um það hvort Landsvirkjun geti fengið fleiri krónur í hagnað í ársreikningum með því að senda orkuna úr landi á meðan Íslendingar eru á atvinnuleysisbótum eða í vinnu í Noregi.

Auðlindir eru ekki óþrjótandi og með aukinni þekkingu og tækni höfum við þurft að taka ákvarðanir um það hverjir hafa nýtingaréttinn að þeim og hvaða auðlindir við viljum nýta. Þessi árin snýst umræðan í þjóðfélaginu um mótun framtíðarstefnu um það með hvaða hætti eigi að greiða fyrir nýtingarréttinn á auðlindunum. Höfum við nokkuð týnt aðalatriðunum í þeirri umræðu – sjálfbærni og atvinnusköpun?

Hver eru lykilatriðin í umræðu um auðlindirnar okkar:

  • Auðlindirnar þurfa að vera í eigu þjóðarinnar.
  • Þeir sem nýta auðlindirnar þurfa að eiga möguleika á því að gera samninga um nýtingaréttinn til svo langs tíma að unnt sé að gera langtíma áætlanir í atvinnugreininni.
  • Samkomulag um nýtunguna þarf að tryggja viðhald auðlindanna þ.e. tryggja sjálfbærni.
  • Fyrir nýtingu auðlinda þarf að svo að greiða sanngjarnt gjald sem tekur mið af arðsemi í viðkomandi atvinnugrein.
  • En fyrst og fremst, einbeitum okkur að því að nýta þekkingu og frumkvæði okkar sjálfra til að skapa sem flest störf um allt land úr auðlindum Íslands.

 

Líneik Anna Sævarsdóttir, skipar 3. sæti á framboðslista framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi.