Categories
Greinar

Parísarsamningnum fylgt eftir

Deila grein

01/09/2016

Parísarsamningnum fylgt eftir

sigrunmagnusdottir-vefmyndRíkisstjórnin hefur óskað eftir heimild Alþingis til að fullgilda Parísarsamninginn um aðgerðir í loftslagsmálum. Vonandi gengur það hratt og vel fyrir sig, svo Ísland geti verið meðal ríkja sem fullgilda hann snemma og stuðla þannig að því að samningurinn taki gildi á heimsvísu. Nú hafa yfir 20 ríki fullgilt samninginn, en hann gengur í gildi þegar 55 ríki með 55% af losun á heimsvísu hafa fullgilt hann.

Tímamót í loftslagsmálum
Parísarsamningurinn markar tímamót. Viðræður í loftslagsmálum höfðu árum saman verið í hnút, þar sem hver benti á annan. Nú er í fyrsta sinn kominn samningur þar sem öll ríki heims leggja sín lóð á vogarskálarnar til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, auk þess sem ríki munu hjálpast að við að bregðast við breytingum sem verða óhjákvæmilega. Reynt verður að halda hlýnun innan við 2°C, en jafnframt leitað leiða til að halda henni innan við 1,5°C. Framlög ríkja til að draga úr losun eru sjálfviljug, en ríkjum er ætlað að setja metnaðarfull markmið og efla þau reglulega. Í samningnum felst bókhalds- og aðhaldskerfi, sem mun krefja ríki til að fylgja eftir settum markmiðum.

Áskoranir og tækifæri
Ísland býr um margt við óvenjulegar aðstæður í loftslagsmálum. Flest ríki setja á oddinn að draga úr orkuframleiðslu með jarðefnaeldsneyti. Hér er orka til rafmagns og hitunar nær 100% með endurnýjanlegum orkugjöfum.
Draga þarf úr notkun jarðefnaeldsneytis í samgöngum og fiskveiðum. Einnig þarf að minnka kolefnisfótspor landbúnaðar og minnka losun frá úrgangi. Ekki má gleyma því að möguleikar Íslands til að binda kolefni með skógrækt og landgræðslu eru miklir og þarf að nýta.

Töluleg markmið Íslands eru sett á alþjóðlegum vettvangi og í ákvæðum EES-samningsins. Nú er í gildi áætlun um að ná markmiðum Kýótó-bókunarinnar til 2020, sem þarf að uppfæra til 2030. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur óskað eftir sérfræðiskýrslu um möguleika til þess, sem byggir m.a. á nýrri orku- og eldsneytisspá sem kom út nú í sumar.

Sóknaráætlun komin á skrið
Stjórnvöld vildu hefjast handa strax í anda Parísarsamningsins. Sóknar­áætlun í loftslagsmálum var kynnt í fyrra og er komin á fullan skrið. Innan hennar eru sextán verkefni sem miða að minnkun losunar á Íslandi og með alþjóðlegri samvinnu og að eflingu margvíslegs starfs í loftslagsmálum.

Sóknaráætlunin er fyrsta heildstæða aðgerðaáætlunin í loftslagsmálum sem byggir á fjármögnuðum verkefnum. Fé er sett til eflingar innviða fyrir rafmagnsbíla, efldrar skógræktar og endurheimtar votlendis. Aðilar í sjávarútvegi, landbúnaði og háskólasamfélaginu eru fengnir að borðinu til að gera vegvísa um minnkun losunar á landi og sjó. Eitt verkefnið miðar að því að gera jökla Íslands að lifandi kennslustofum um áhrif loftslagsbreytinga. Annað vinnur gegn matarsóun, sem veldur verulegri og óþarfri losun.

Ég er ánægð að sjá þessi verkefni komast á skrið og bind vonir við að þau muni laða fleiri heila og hendur til góðra verka og leiða til raunverulegs árangurs í loftslagsmálum. Ég tel einnig skipta miklu máli að við sendum skýr skilaboð til samfélags þjóðanna um að við viljum fylgja eftir tímamótasamningnum í París. Með skjótri fullgildingu Parísarsamningsins leggjum við okkar af mörkum til að tryggja bætta framtíð afkomenda okkar.

Sigrún Magnúsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 1. september 2016.