Categories
Greinar

Heimilin njóta leiðréttingar höfuðstóls íbúðarlána næstu 20-30 árin

Deila grein

21/11/2014

Heimilin njóta leiðréttingar höfuðstóls íbúðarlána næstu 20-30 árin

Líneik Anna SævarsdóttirKarl GarðarssonSkuldaleiðréttingin er bæði fjárhagsleg og mórölsk viðurkenning á því að forsendubrestur varð í hruninu árið 2008. Viðurkenning á því að það sé sanngirnismál að koma til móts við þann stóra hóp sem sat eftir í 110% leið fyrrverandi ríkisstjórnar. Viðurkenning á því að stór hópur fólks sem ætíð hafði verið varkárt í lántökum og gætt þess að sýna ábyrgð í fjármálum átti líka rétt.

Leiðréttingin er almenn efnahagsaðgerð, sem í stuttu máli felst í að skattur sem lagður er á fjármálafyrirtæki er notaður til að leiðrétta verðtryggð íbúðalán. Þótt efnahagslegu rökin fyrir aðgerðinni séu sterk vega rök um jafnræði, réttlæti og sanngirni líka þungt og hafa afgerandi áhrif á framkvæmdina.

Verkefnið er eitt af mörgum sem ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar vinnur að til að endurreisa hagkerfið – þar sem heimilin eru undirstaðan. Þannig er verkefnið liður í undirbúningi aðgerða við uppbyggingu heilbrigðiskerfisins, endurskipulagningu húsnæðiskerfisins, endurbætur á menntakerfinu og afnám gjaldeyrishafta, svo fátt eitt sé nefnt.

Jöfnun milli tekjuhópa einkennir leiðréttinguna, í raun á sér stað tilfærsla frá tekjuhærri hópum til tekjulægri. Eftir þessa aðgerð fjölgar líka þeim sem eiga meira en þeir skulda.

Veruleg áhrif til lækkunar
Í umræðunni hefur verið einblínt á áhrif leiðréttingar á mánaðarlega greiðslubyrði en minna hefur verið fjallað um áhrif lækkunar höfuðstóls á fjárhag heimila til lengri tíma. Heildargreiðslur af láni skipta ekki síður máli en greiðslubyrði á mánuði. Leiðréttingin getur lækkað heildargreiðslur af fasteignaláninu um margar milljónir vegna minni áhrifa vaxtavaxta út lánstímann. Mest lækkun á heildargreiðslum verður á nýlegum lánum, enda lengri tími eftir af endurgreiðslum og því meiri vextir og verðbætur sem eiga eftir að bætast við. Ef verðbólga fer upp á við á lánstímanum verður þessi lækkun á heildargreiðslu enn meiri í krónum talið.

Það sama á við ef leiðréttingunni, eða hluta hennar, er ráðstafað inn á þann hluta láns sem stendur á greiðslujöfnunarreikningi. Þá hefur hún ekki áhrif á mánaðarlega greiðslubyrði en veruleg á áhrif til lækkunar heildargreiðsla.

Að nýta séreignarsparnað til greiðslu inn á lán getur verið skynsamleg leið til sparnaðar og hún getur líka nýst ungu fólki vel til að safna skattfrjálst fyrir fyrstu útborgun til húsnæðiskaupa.
Höfuðstóll lána lækkar um allt að 20% hjá þeim heimilum sem fá skuldaleiðréttingu og nýta sér séreignarsparnað til að greiða niður lán. Þessi lækkun getur haft áhrif á heimilisreksturinn næstu 20-30 árin.

Líneik Anna Sævarsdóttir og Karl Garðsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 20. nóvember 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Hverjir fá?

Deila grein

19/11/2014

Hverjir fá?

willum-þorunn-þorsteinnFjölmörg heimili fá nú leiðréttingu á verðtryggðum húsnæðislánum sínum. Markmiðið er að skila til baka því „tjóni“ sem heimilin urðu fyrir og færa lánin í þá stöðu sem þau hefðu verið í ef óvænt og mikil verðbólga hefði ekki sett skuldastöðu þeirra í uppnám á árunum 2008 og 2009. Einungis 10% íslenskra heimila nutu 110% leiðar fyrri ríkisstjórnar eða um sjö þúsund heimili og 1% þeirra fékk helminginn af niðurfærslunni. Þau heimili sem voru með gengistryggð lán fengu leiðréttingu í gegnum dómstóla en heimili með verðtryggð húsnæðislán sátu eftir.

Hversu margir fá?
Niðurstaðan nú er sú að yfir 90.000 manns fá leiðréttingu og enn getur bæst í hópinn. Ef við tökum með þá sem nýta sér að auki séreignarsparnaðarleiðina njóta yfir 120.000 einstaklingar aðgerðanna og geta náð allt að 20% leiðréttingu eða því sem nemur allri óvæntri verðbólgu á umræddu tímabili umfram 4%, sem eru eftir vikmörk Seðlabankans.

Hvert fer leiðréttingin?
Meðaltal leiðréttingar á umsækjanda er 1.350 þúsund krónur og tíðasta gildi leiðréttingar til hjóna er 1.400 þúsund krónur og 800 þúsund krónur fara til einstaklinga. Meirihluti leiðréttingarinnar fer sannarlega til fólks sem hefur meðaltekjur eða þaðan af minna. Einstaklingur með 330 þúsund í mánaðartekjur er tíðasta gildi leiðréttingarinnar. Til samanburðar er vert að geta þess að meðal heildarlaun á íslenskum vinnumarkaði árið 2013 voru 526.000 krónur. Rúmlega helmingur leiðréttingarinnar rennur til einstaklinga sem eiga minna en fjórar milljónir króna í eigið fé og heimila sem eiga minna en 13 milljónir króna í eigið fé. Einstaklingar sem skulda minna er 15 milljónir króna og heimili sem skulda minna en 30 milljónir króna fá 70% af fjárhæð leiðréttingarinnar

Áhrif leiðréttingarinnar?
Tökum dæmi af heimili sem tekur 15 milljóna króna lán til 40 ára á 4,15% vöxtum og meðalverðbólgan á tímabilinu er 6%. Fjölskyldan mun þurfa að greiða 22 milljónum króna minna þegar upp er staðið. Þessir peningar fara ekki til bankanna heldur nýtast fjölskyldunni beint í daglegu lífi. Ráðstöfunartekjur heimilanna aukast og viðnámsþróttur þeirra eykst. Minni skuldsetning heimila eflir allt hagkerfið.

Willum Þór Þórsson, Þórunn Egilsdóttir og Þorsteinn Sæmundsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 19. nóvember 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Leiðrétting – hverjir borga fyrir hvern?

Deila grein

19/11/2014

Leiðrétting – hverjir borga fyrir hvern?

ásmundur_Srgb_fyrir_vefÞað er full ástæða til að fagna því að höfuðstólsleiðrétting ríkisstjórnarinnar skilar tugþúsundum heimila leiðréttingu á húsnæðisskuldum. Leiðréttingu sem er fjármögnuð með hækkun skatta á fjármálafyrirtæki og ekki síst með því að afturkalla undanþágu sem fyrri ríkisstjórn hafði veitt slitabúum föllnu bankanna. Núverandi ríkisstjórn er því að skattleggja þrotabú erlendra kröfuhafa og vogunarsjóða til að leiðrétta skuldir almennings. Fyrrverandi ríkisstjórn reyndi hinsvegar í þrígang að skattleggja heimili landsins til að greiða erlendum kröfuhöfum (Icesave).

Fyrri ríkisstjórn – Ekki meira fyrir skuldsett heimili!

Fyrri ríkisstjórn tók meðvitaða ákvörðun um að gera ekki meira fyrir skuldsett heimili. Þáverandi forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, sagði 2. desember 2010 orðrétt„Við erum búin að ganga eins langt og við mögulega getum,“ og sagði svo jafnframt: „ Ég verð að segja það að það er ekki hægt að vænta þess að við komum með fleiri aðgerðir“.

Því hefur líka verið ranglega haldið fram að sú almenna leiðrétting sem núverandi ríkisstjórn ákvað að ráðast í renni mest til hátekjufólks. Staðreyndin er að stærstur hluti leiðréttingarinnar nú rennur til fólks með meðal og lægri tekjur. Hinsvegar nýttist 110%-leið fyrri ríkisstjórnar aðallega tekjuhæstu heimilunum en skildi þau tekjulægri eftir með vandann. Leiðin nýttist aðeins um 10% heimila með verðtryggðar húsnæðisskuldir. Um 1% heimilanna hrepptu helming niðurfærslunnar, rúmlega 20 milljarða króna. Þessi 775 heimili  fengu hvert yfir 15 mkr niðurfærslu og var meðaltal niðurfærslu um 26 mkr. Fyrri ríkisstjórn ber þannig ábyrgð á 20 milljarða króna niðurfærslu á lánum tekjuhæsta hluta þjóðarinnar.

Núverandi ríkisstjórn hlífir ekki þrotabúum föllnu bankanna

Ólíkt fyrri ríkisstjórn þá tók þessi ríkisstjórn ákvörðun um afnema undanþágu þrotabúa föllnu bankanna og þar með erlendra vogunarsjóði frá skatti upp á tugi milljarða. Því hefur stundum verið haldið fram af stjórnarandstöðunni að eignarsafn þrotabúanna hafi ekki verið orðið nægilega skýrt í upphafi síðasta kjörtímabils þannig að hægt væri að skattleggja þau. Það kann að vera að það hafi verið raunin árið 2009 og jafnvel 2010. En hvað með 2011, 2012 svo ekki sé talað um árið 2013? Í viðtali í útvarpsþættinum Sprengisandi um síðustu helgi staðfesti Guðbjartur Hannesson, sem á síðasta kjörtímabili var hluti af ráðherraliði Samfylkingarinnar, að það hafi verið hægt að skattleggja þrotabúin í lok síðasta kjörtímabils en ákvörðun hafi verið tekin um að gera það ekki.

Það er því staðfest að fyrrverandi ríkisstjórn tók ákvörðun um að gera ekki meira fyrir skuldsett heimili samhliða því að slá „skjaldborg“ um erlenda vogunarsjóði og hlífa þeim við eðlilegri skattheimtu. Núverandi ríkisstjórn hefur hinsvegar þá stefnu að setja almenning í fyrsta sæti og því var tekin meðvituð ákvörðun um að skattleggja þrotabú föllnu bankanna og ráðast í almennar leiðréttingar á verðtryggðum lánum heimilanna.

Ásmundur Einar Daðason

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. nóvember 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Eigið fé í kringum núll

Deila grein

19/11/2014

Eigið fé í kringum núll

Jóhanna maría_SRGB_fyrir_vefUm leið og þeir ríku sem þurfa ekki á peningnum að halda sækja um leiðréttingu og bregðast svo hinir verstu við þegar þeir fá að sjá upphæðina sem þeim var reiknuð því þeim þykir hún of há, er gott að líta til þeirra sem lítið eiga og eru að fá leiðréttingu.
Ef við skoðum útfærslu leiðréttingarinnar kemur fram að 70% fjárhæðar leiðréttingar rennur til einstaklinga sem eiga minna en 11 milljónir í eigin fé og hjóna sem eiga minna en 25 milljónir í eigin fé. En tíðasta gildi leiðréttingarinnar er þar sem eigið fé er í kringum núll.

Því er ekki hægt að halda því fram að auðvaldsmenn séu að soga leiðréttinguna til sín án þess að þurfa á henni að halda og því síður hægt að skilja hvers vegna þetta sama fólk sótti um valfrjálsa leiðréttingu á verðtryggðum húsnæðislánum til þess eins að koma ríkidæmi sínu á framfæri.

Því ef við lítum aftur á leiðréttinguna þá mun stærstur hluti hennar fara til fólks sem er yngra en 50 ára, á lítið eigið fé í húsnæði sínu, er með lágar tekjur og skuldar á bilinu 15–30 milljónir.

Gíslataka leiðréttingar
Þetta er ekki auðvaldið, þetta er ekki fólkið sem fór óvarlega og kom sér í ofurskuldir og því síður er þetta fólk sem á mikið eigið fé í húsnæði sínu.

Ef við viljum fá nánara dæmi getum við séð að 55% fjárhæðar leiðréttingar fer til einstaklinga sem eiga minna en 4 milljónir í eigin fé og hjóna sem eiga minna en 13 milljónir í eigin fé.

Þeir sem telja sig vel setta halda niðurstöðu leiðréttingarinnar í gíslingu, eins og enginn megi gleðjast og helst eigi að fyrirlíta þá upphæð sem fólk sá birtast á skjánum hjá sér þann 11. nóvember síðastliðinn.

Með leiðréttingunni mun eiginfjárstaða heimila í húsnæði aukast með beinum hætti um leið og lág verðbólga og hækkandi fasteignamat styrkir stöðu þeirra. Um 4.000 aðilar munu færast yfir í jákvætt fé.

Þegar ráðstöfunartekjur aukast, afborganir lána lækka og eiginfjárstaða 54 þúsund heimila, það er 91 þúsund einstaklinga, styrkist er ekki annað hægt en að fagna með samborgurum sínum sem fá lækkun verðtryggðra húsnæðisskulda þó hún sé ekki full leiðrétting á þeim forsendubresti sem varð. Við stígum þó skrefin í rétta átt.

Jóhanna María Sigmundsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 17. nóvember 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Leiðréttingin í höfn

Deila grein

18/11/2014

Leiðréttingin í höfn

Elsa-Lara-mynd01-vefurÞingmenn Framsóknarflokksins hafa frá hruni, barist fyrir bættum hag heimilanna. Framsóknarflokkurinn varði myndun minnihluta ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna gegn vantrausti, vorið 2009. Með þeim skilmálum að unnið yrði að því að færa til baka þann forsendubrest sem varð á verðtryggðum húsnæðislánum. Framsóknaflokkurinn lagði á þeim tíma til 20 % niðurfærslu á stökkbreyttum verðtryggðum lánum. Skemmst er frá því að segja að sú aðgerð náði ekki fram að ganga. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, sem kenndi sig við réttlæti og jöfnuð, hlustaði ekki. Taldi sig ekki geta komið fram með almenna aðgerð til hjálpar heimilum landsins. Síðan þá hafa þingmenn Framsóknarflokksins komið fram með tillögurnar Þjóðarsátt árið 2010 og Plan B haustið 2011. Í kosningabaráttunni árið 2013 setti Framsóknarflokkurinn heimilin í forgang, töluðu um almenna skuldaleiðréttingaaðgerð og afnám verðtryggingar. Flokkurinn er nú komin í ríkisstjórn og lætur verkin tala. Nú, aðeins einu og hálfu ári eftir kosningar er leiðréttingin í höfn.

Niðurstöður birtar

Þann 11. nóvember fengu um 90 % þeirra er sóttu um leiðréttingu á verðtryggðum húsnæðislánum, niðurstöðurnar birtar inni á vefnum leiðrétting.is. Unnið er hörðum höndum við útreikning þeirra lána sem eftir eru og áætlað er að niðurstöður muni birtast á næstu 2 – 3 vikum.

Leiðréttingin, tvær aðgerðir

Leiðréttingin skiptist í tvær aðgerðir. 80 milljarða króna leiðréttingu sem kemur til framkvæmdar í einu lagi og skiptir láninu niður í frumlán og leiðréttingalán. Lántaki greiðir eingöngu af frumláni og leiðréttingarlánið fellur niður á einungis rúmu ári. Það er styttri tími en áætlað var. Ástæða þess að ákveðið var að stytta tímann var að minnka vaxtakostnað til fjármálastofnanna og setja meira til heimilanna. Það er afar jákvætt.  Hinn hluti leiðréttingarinnar eru 70 milljarðar sem fara í skattleysi séreignasparnaðs við inngreiðslu á höfuðstól lána.

Leiðréttingin nær til 91 þúsund einstaklinga í gegnum beina niðurfellingu. Meðal fjárhæð leiðréttingarinnar er 1,350,000 krónur. Meðal fjárhæð fyrir hjón er 1,510,000 krónur. Hver einstaklingur fær að jafnaði 1,100,000 krónur.

Einstaklingar með 330 þúsund á mánuði og hjón þar sem hvort fyrir sig hefur 450 þúsund í mánaðarlaun, er tíðasta gildið í leiðréttingunni. Meðalheildarlaun á mánuði á Íslandi eru 520 þúsund krónur.

Forsendubresturinn leiðréttur
80 milljarða króna leiðréttingin leiðréttir forsendubrest umfram 5,8 %. Skattfrelsi við innborgum séreignasparnaðar á höfuðstól, það eru 20 milljarðar af þeim 70 færa viðmið leiðréttingarinnar niður í 4 % verðbólgu yfir viðmiðunartímabilið við fullnýtingu leiðréttingar. Framlag ríkisins til leiðréttingarinnar leiðréttir því alla verðbólgu áranna 2008 – 2009 yfir 4 %. Inngreiðslur séreignasparnaðar eru hreint viðbót við það.

Fjármagnað í gegnum bankaskatt

Beina leiðréttingin, það eru 80 milljarðarnir koma frá þrotabúum gömlu bankanna. Undanþága slitabúa gömlu bankanna frá skattheimtu var afnumin þannig að hægt væri að sækja peninga beint til kröfuhafanna sem eiga þrotabúin. Um er að ræða nýjan tekjustofn þar sem ríkissjóður hefur eingöngu milligöngu. Ánægjulegt er að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sýni kjark og þor í þessum efnum. Kominn var tími til að þær fjármálastofnanir sem fóru ógætilega, séu krafðar til þess að koma á móts við heimili landsins og skila hluta skaðans til baka.

Fleiri aðgerðir væntanlegar

Leiðréttingin, það að leiðrétta verðtryggð húsnæðslán, er eingöngu einn liður af 10 úr aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna. Aðgerðaáætlunin tekur jafnframt á öðrum mikilvægum þáttum eins og t.d. leigumarkaðnum og verðtryggingunni. Á næstu vikum koma frumvörp inn í þingið er varða leigumarkaðinn. Taka þau til þátta eins og húsnæðisbóta sem er jöfnun á stuðningi við þá sem eiga og leigja húsnæði. Uppbyggingu leigufélaga, framboðs og leiguhúsnæðis og lækkun leigugjalda.

Verðtryggingavaktin hefur verið sett á fót. Tilgangur hennar er að tryggja samfellu í framgangi áætlunar um afnám verðtryggingar á nýjum neytendalánum. Frumvörp er varða afnám verðtryggingar verða lögð fram á vorþingi.

Óhætt er að segja að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, standi með heimilum landsins.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist í DV 18. nóvember 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Hugsjónir rætast

Deila grein

18/11/2014

Hugsjónir rætast

sigrunmagnusdottirBæði í lífi og starfi er nauðsynlegt að hafa skýr markmið. Markmiðum er unnt að líkja við vegalagningu, það geta komið upp ýmsar hindranir á leiðinni, en alltaf er vitað hvert á að halda. Þetta á við um vegferð hugsjóna ríkisstjórnar um að leiðrétta skuldastöðu íslenskra heimila.  Árið 2009 hrópaði fólk þúsundum saman á hjálp, hjálp til að bjarga húsnæði þeirra þannig að þau yrðu ekki að fara á götuna. Þetta var veruleiki sem við skulum hafa í huga enda er þak yfir höfuðið ein af grunnþörfum okkar. Gleymum heldur ekki að á árunum 2009-2010 voru 500 milljarðar kr. afskrifaðir hjá fyrirtækjum og einstaklingum. Það var sannarlega komið að heimilunum, heimilum venjulegs fólks sem hafði orðið fyrir forsendubresti og stórhækkuðum skuldum.

Snjöll flétta og seigla

Staðfesta eða seigla er nauðsynlegur eiginleiki til að hvika ekki frá  markmiðum þó að á móti blási.  Með staðfestu og elju voru leiðir fundnar til  björgunar skuldsettum heimilum. Strax eftir hrun lagði Framsóknarflokkurinn til að fasteignalán yrðu lækkuð um 20%. Það var skotið í kaf af þáverandi ríkisstjórn. Nú er nærri sex árum seinna hefur leiðréttingin og skattfrelsi innborgunar séreignarlífeyrissparnaðar gefið heimilunum möguleika á 20% lækkun húsnæðisskulda. Stjórnarflokkarnir lofuðu fyrir síðustu kosningar að styrkja heimilin sérstaklega. Þjóðin studdi þær hugmyndir eindregið og Framsókn og Sjálfstæðisflokkur unnu stórsigur en fyrrverandi stjórnarflokkar biðu afhroð. Ríkisstjórnin hefur uppfyllt þessi meginkosningaloforð rækilega og lækkar höfuðstóll íbúðalána um 150 milljarða. Að nýta saman höfuðstólsleiðréttinguna og nýtingu séreignarsparnaðar  er stórsnjöll hugmyndafræði og lækkar greiðslubyrði fjölskyldna í landinu og losar um mánaðarlegar ráðstöfunartekjur. Ef við hugum betur að þessari leið þá eru ríkisstjórnarflokkarnir að setja fram nýja hugsun í húsnæðismálum. Þeir sem ekki eru með fasteignalán geta einnig nýtt sér séreignarsparnaðarúrræði –  til að spara fyrir íbúðahúsnæði.  Þetta á við um fólk sem er núna á leigumarkaði og/eða fyrir ungt fólk til að kaupa á fyrstu íbúð.  Um 100 þúsund manns sóttu um leiðréttingu og langflestir hafa fengið jákvæð svör. Eins margir aðrir sem hafa komið nálægt þessari aðgerð hefur ríkisskattstjóri og starfsfólk hans unnið þrekvirki við að láta allt ganga upp t.d. þegar 62 þúsund manns heimsóttu vefinn á einum degi.

Bættur hagur heimila

Meðalafskrift þeirra er fengu 110% leiðina í tíð fyrri ríkisstjórnar var 14 milljónir. Engir fá meira afskrift núna en fjórar milljónir. Dreifingin á leiðréttingunni er góð og lækkun skulda er fyrst og fremst hjá fólki með lágar- eða meðaltekjur. Hvað mesta gleðiefnið er að 4000 heimili fara úr neikvæðri eiginfjárstöðu í fasteigninni í jákvæða. Þrátt fyrir að um 100.000 manns/skuldarar hafi óskað leiðréttingar og þannig lýst vilja sínum að leið ríkisstjórnarinnar yrði farin, lætur stjórnarandstaðan öllum illum látum og finnur leiðréttingunni flest til foráttu. Að sjálfsögðu er þessi leiðrétting bundin við þá sem eru með skuldir vegna íbúðahúsnæðis. Leigjendur, fólk með búseturétt og námsmenn þarf að aðstoða með öðrum hætti. Frumvarp um framtíðarskipulag húsnæðismála kemur senn fyrir Alþingi.

Hugsjónir, staðfesta og efndir

eru lykilorð í stjórnmálum, sem allir eiga að geta verið sammála um og gleðjast þegar þau eru virt.  Ríkisstjórnin hefur sýnt og sannað að hún starfar eftir þessum lykilorðum og tekur eitt verkefni fyrir um leið öðru lýkur. Vissulega bíða mörg verðug verkefni úrlausnar á Alþingi eins og húsnæðis-  og heilbrigðismál. Fljótlega koma fram hugmyndir til lausnar varðandi þau mál.

Sigrún Magnúsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. nóvember 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Heimilin eru undirstaðan

Deila grein

18/11/2014

Heimilin eru undirstaðan

Silja-Dogg-mynd01-vefÞingmenn Framsóknarflokksins hafa í sex ár, eða allt frá Hruni, barist fyrir því að stökkbreytt verðtryggð húsnæðislán verði leiðrétt. Úrtöluraddirnar voru margar og þingmenn þáverandi stjórnarflokka komust að þeirri niðurstöðu að ekki yrði meira gert fyrir skuldsett heimili. Á sama tíma voru milljarðar afskrifaðir hjá fyrirtækjum og einstaklingar með gengistryggð lán fengu þau leiðrétt. Eftir sat fólkið með verðtryggðu lánin og fékk ekki neitt.

Góðar viðtökur

Eitt af fyrstu málum ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs var framlagning þingsályktunartillögu í tíu liðum um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi. Leiðrétting stökkbreyttra verðtryggðra húsnæðislána var einn liður af tíu. Nýtt húsnæðiskerfi er annar liður og sú vinna er langt á veg komin. Leiðréttingin var kynnt í nóvember sl., opnað var fyrir umsóknir um leiðréttingar í maí. Umsóknarferlið var einfalt og nú hefur fengist niðurstaða í 90% umsókna. Almenn ánægja er með aðgerðina.

Sanngjörn aðgerð

Heildarumfang leiðréttingarinnar eru 150 milljarðar króna. Leiðréttingin skiptist í tvær aðgerðir, það er 80 milljarða króna leiðréttingu og 70 milljarðar króna fara í skattleysi séreignasparnaðar við inngreiðslu á höfuðstól lána. Sú leið kemur t.d. ungu fólki til góða sem og leigjendum sem vilja leggja fyrir og eignast húsnæði. Stjórnarandstaðan talar um verið sé að gefa ríku fólki peninga. Það er rangt! Ólíkt aðgerðum fyrri ríkisstjórnar þá fer 75% leiðréttingarinnar til heimila sem eru með undir 7 milljónum króna á ári. Það eru ekki auðmenn. Hámark leiðréttingar á heimili eru 4 milljónir. Þannig að niðurstaðan er sú að um sanngjarna aðgerð er að ræða sem kemur flestum heimilum til góða. Einnig leigjendum og ungu fólki. Rétt er að benda á að ef þessi leiðrétting kæmi ekki til nú, þá yrði hækkun höfuðstóls enn meiri vegna verðbólgunnar.

Aukinn kaupmáttur

Sérfræðingar eru sammála um að skuldaleiðréttingin muni hafa jákvæð efnahagsleg áhrif og verði ekki þensluhvetjandi. Kaupmáttur frjálsra ráðstöfunartekna fyrir þátttakendur í leiðréttingu mun aukast um 17% til ársins 2017 og áhrif leiðréttingarinnar eru metin 3% á ári. Þannig að ráðstöfunartekjur munu samkvæmt þessu aukast um 130-200 á ári hjá þátttakendum í leiðréttingunni á árunum 2015-2017.

Hárrétt forgangsröðun

Skuldaleiðréttingin er einn liður af mörgum í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að leysa skuldavanda heimilanna þar sem heimilin eru undirstaðan. Við verðum að byrja á byrjuninni. Samhliða er unnið að því að lækka skuldir ríkissjóðs og afnámi hafta. Þegar við náum að reisa efnahag landsins þá getum við styrkt innviðina sem við erum öll sammála um að standa beri vörð um; menntakerfið, heilbrigðiskerfið, samgöngumannvirki og fleira.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 15. nóvember 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Allur forsendubresturinn er leiðréttur umfram 4%

Deila grein

18/11/2014

Allur forsendubresturinn er leiðréttur umfram 4%

pallElsa-Lara-mynd01-vefurNú hafa um 90 % þeirra sem sóttu um leiðréttingu á verðtryggðum húsnæðislánum, fengið niðurstöður birtar inni á vefnum leiðrétting.is. Um 10 % útreikninga eru eftir. Unnið er hröðum höndum við útreikning þeirra sem eftir eru og áætlað er að niðurstöður muni birtast á næstu 2 – 3 vikum.

Leiðréttingin, tvær aðgerðir
Eins og fram hefur komið þá skiptist leiðréttingin í tvær aðgerðir. 80 milljarða króna leiðréttingu sem kemur til framkvæmdar í einu lagi, lánunum verður skipt niður í frumlán og leiðréttingalán. Lántaki greiðir eingöngu af frumláni og leiðréttingarlánið fellur niður á einungis rúmu ári. Það er styttri tími en áður var áætlaður. Ástæða þess að ákveðið var að stytta tímann var að minnka vaxtakostnað til fjármálastofnanna og setja meira til heimilanna. Það er afar jákvætt. Hinn hluti leiðréttingarinnar eru 70 milljarðar sem fara í skattleysi séreignasparnaðs við inngreiðslu á höfuðstól lána.

80 milljarða króna leiðréttingin leiðréttir forsendubrest umfram 5,8 %. Skattfrelsi við innborgum séreignasparnaðar á höfuðstól, það eru 20 milljarðar af þeim 70, færa viðmið leiðréttingarinnar niður í 4 % verðbólgu yfir viðmiðunartímabilið við fullnýtingu leiðréttingar. Framlag ríkisins til leiðréttingarinnar leiðréttir því alla verðbólgu áranna 2008 – 2009 yfir 4 %. Inngreiðslur séreignasparnaðar eru hreint viðbót við það.

Hvaðan koma peningarnir?
Beina leiðréttingin, það eru 80 milljarðarnir koma frá þrotabúum gömlu bankanna. Undanþága slitabúa gömlu bankanna frá skattheimtu var afnumin þannig að hægt væri að sækja peninga beint til kröfuhafanna sem eiga þrotabúin. Um er að ræða nýjan tekjustofn þar sem ríkissjóður hefur eingöngu milligöngu. Ánægjulegt er að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sýni kjark og þor í þessum efnum. Kominn var tími til að þær fjármálastofnanir sem fóru ógætilega í aðdraganda hrunsins, komi á móts við heimili landsins og skila hluta skaðans til baka. Annað er algjörlega óásættanlegt.

Tölulegar upplýsingar um leiðréttinguna
Um 90 þúsund einstaklingar fá skuldaleiðréttingu í gegnum beina niðurfellingu og meðal fjárhæð leiðréttingarinnar er 1,350,000 krónur. Meðaltal hjóna er 1,510,000 og hver einstaklingur fær 1,100,000 krónur að jafnaði.

Vegna aðgerðanna munu vaxtagjöld heimilanna lækka um 22 % fram til ársins 2017 og eiginfjárstaða 54 þúsund heimila, rúmlega 90 þúsund einstaklinga styrkjast. Einstaklingar sem skulda minna en 15 milljónir króna og heimili sem skulda minna en 30 milljónir fá rúmlega 70 % af fjárhæð leiðréttingarinnar. 55 % af fjárhæð leiðréttingarinnar fer til einstaklinga sem eiga minna en 4 milljónir og til heimila sem eiga minna en 13 milljónir í eigið fé. Jafnframt eru einstaklingar með 330 þúsund á mánuði og hjón þar sem hvort fyrir sig hefur 450 þúsund í mánaðarlaun, tíðasta gildið í leiðréttingunni. Meira en helmingur af heildarfjárhæð leiðréttingarinnar rennur til fólks sem er undir meðallaunum. Meðalheildarlaun á mánuði á Íslandi eru 520 þúsund krónur. Mest fá þeir sem eiga minnst.

Elsa Lára Arnardóttir og Páll Jóhann Pálsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. nóvember 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Hvað er svona ósanngjarnt?

Deila grein

11/11/2014

Hvað er svona ósanngjarnt?

Elsa-Lara-mynd01-vefurÍ fréttum gærdagsins fór formaður Samfylkingarinnar stórum orðum um skuldaleiðréttingu ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Hann heldur því fram að leiðréttingin, skuldaaðgerð á verðtryggðum húsnæðislánum, sé afskaplega ósanngjörn. Hvaða þættir eru það sem að honum finnast svona ósanngjarnir?

Aðeins um leiðréttinguna
Heildarumfang leiðréttingarinnar eru 150 milljarðar króna, sem fram fer á þremur árum. Leiðréttingin skiptist í tvær aðgerðir, það er 80 milljarða króna leiðréttingu. Leiðréttingu sem kemur til framkvæmdar í einu lagi og skiptir láninu niður í frumlán og leiðréttingalán. Lántaki greiðir eingöngu af frumláni en leiðréttingarlánið fellur niður á rúmu ári. 70 milljarðar króna fara í skattleysi séreignasparnaðs við inngreiðslu á höfuðstól lána.

91 þúsund einstaklingar frá skuldaleiðréttingu í gegnum beina niðurfellingu og meðal fjárhæð leiðréttingarinnar verður 1,350,000 krónur. Meðaltal hjóna er 1,510,000 og hver einstaklingur fær 1,100,000 krónur að jafnaði.

Einstaklingar með 330 þúsund á mánuði og hjón þar sem hvort fyrir sig hefur 450 þúsund í mánaðarlaun, er tíðasta gildið í leiðréttingunni. Meðalheildarlaun á mánuði á Íslandi eru 520 þúsund krónur.

Forsendubresturinn leiðréttur
80 milljarða króna leiðréttingin leiðréttir forsendubrest umfram 5,8 %. Skattfrelsi við innborgum séreignasparnaðar á höfuðstól, það eru 20 milljarðar af þeim 70 færa viðmið leiðréttingarinnar niður í 4 % verðbólgu yfir viðmiðunartímabilið við fullnýtingu leiðréttingar. Framlag ríkisins til leiðréttingarinnar leiðréttir því alla verðbólgu áranna 2008 – 2009 yfir 4 %. Inngreiðslur séreignasparnaðar eru hreint viðbót við það.

Tölulegar staðreyndir
Vegna leiðréttingarinnar munu ráðstöfunartekjur heimilanna aukast um 17 % eða 130 – 220 þúsund krónur á árunum 2015 – 2017. Einnig munu afborganir og vaxtagjöld heimilanna lækka um 22 % fram til ársins 2017. Jafnframt mun eiginfjárstaða 54 þúsund heimila, rúmlega 90 þúsund einstaklinga styrkjast með beinum hætti. 4 þúsund aðilar munu færast úr því að eiga minna en ekki neitt yfir í að eiga jákvætt fé í fasteignum sínum. Verðtryggð húsnæðislán geta við fullnýtingu leiðréttingarinnar lækkað um eða yfir 20 %.

Er þetta afskaplega ósanngjarnt?
Í 110 % leið fyrri ríkisstjórnar var heildarniðurfærsla verðtryggðra húsnæðisskulda um 45 milljarðar. Aðgerðin nýttist aðeins 10 % heimila með verðtryggðar húsnæðisskuldir, rúmlega 7000 heimilum. 36 milljarðar af þeirri upphæð fóru til einungis 2500 einstaklinga. Það þýðir að lán voru lækkuð að meðaltali um 14,4 milljónir á hvern þann sem fékk hlut úr þeim potti.

Meðaltekjur þessara 775 heimila á mánuði á árinu 2009 voru 750 þúsund, tugur þeirra var með meðaltekjur yfir 2 milljónir króna á mánuði. Dæmi eru um að einstaklingar sem höfðu meira en 2 milljónir í mánaðarlaun hafi fengið meira en 50 milljónir króna niðurfelldar. Það eru jafnframt til dæmi um 100 milljón króna niðurfellingar. Þetta eru upplýsingar sem koma úr gögnum fjármálaráðuneytisins.

Á meðan 10 % heimila fengu niðurfellingar sem byggðust upp á ofangreindum upplýsingum. Þá sátu margir eftir og fengu ekki leiðréttingar á sínum málum. Það voru 90 % þeirra heimila sem voru með verðtryggð húsnæðislán.

Kannski er það einmitt það sem var svona afskaplega ósanngjarnt.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist á visir.is 11. nóvember 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Jafnrétti á vinnumarkaði – aðgerðir sem virka

Deila grein

11/11/2014

Jafnrétti á vinnumarkaði – aðgerðir sem virka

Eygló HarðardóttirÍ skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins um mun á stöðu kvenna og karla sem kom út í október síðastliðnum mælist kynjajafnrétti hvergi meira en á Íslandi sjötta árið í röð. Hinar Norðurlandaþjóðirnar skipa sér í næstu fjögur sæti. Við erum stolt af árangrinum þótt enn sé langt í land svo fullu kynjajafnrétti verði náð. Það er til dæmis ólíðandi að enn skuli ekki sömu laun greidd fyrir sambærileg störf, að konur séu enn í minnihluta í áhrifa- og stjórnunarstöðum í samfélaginu og hve erfiðlega gengur að brjóta upp kynjaskiptingu starfa á vinnumarkaði. Norðurlöndin hafa átt í samstarfi á sviði jafnréttismála á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar í 40 ár. Ráðherranefndin hefur stutt rannsóknasamstarf sem hefur kortlagt og sýnt hvernig kynferði ræður enn sem fyrr miklu um náms- og starfsval ungmenna sem við vitum að viðheldur kynjaskiptingu starfa og launamisrétti á vinnumarkaði.

Spennandi ráðstefnur

Í formennskuáætlun Íslands í starfi Norrænu ráðherranefndarinnar 2014 hefur verið lögð áhersla á að efla umræðu um árangursríkar leiðir til að jafna stöðu karla og kvenna á vinnumarkaði. Þann 12. og 13. nóvember nk. verða haldnar tvær ráðstefnur um jafnlauna- og vinnumarkaðsmál í Reykjavík. Niðurstöður norræna rannsóknarverkefnisins Hlutastörf, kyn og og dreifing tekna verða kynntar á ráðstefnunni 12. nóvember og daginn eftir mun norrænn starfshópur um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði, í samstarfi við aðgerðahóp íslenskra stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti, halda ráðstefnu um jafnlaunamál og jafnrétti á vinnumarkaði. Á ráðstefnunum munu margir erlendir og hérlendir sérfræðingar halda erindi og taka þátt í pallborðsumræðum um brennandi spurningar sem snúa að jafnrétti á vinnumarkaði.

Launarannsókn á öllum vinnumarkaðinum

Aðgerðahópur um launajafnrétti hefur m.a. það hlutverk að vinna að samræmingu rannsókna á kynbundnum launamun og hefur falið Hagstofu Íslands gerð launarannsóknar sem nær til vinnumarkaðarins alls. Í samstarfi við Háskóla Íslands er nú unnið að viðamikilli rannsóknaskýrslu um stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði og mun hún nýtast hópnum við gerð framkvæmdaáætlunar um leiðir til að brjóta upp kynbundið náms- og starfsval sem rannsóknir hafa margoft sýnt að viðhaldi launamun kynjanna. Gera þarf ungt fólk meðvitað um valmöguleika sína svo það velji sér nám og starf í samræmi við áhugasvið og hæfileika. Hvernig getum við til dæmis hvatt stúlkur til náms í raungreinum og fengið drengi til að skoða með opnum huga möguleikann á því að verða hjúkrunarfræðingar eða kennarar?

Aðgerðahópurinn hefur staðið fyrir tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðals og nýlega undirritaði ég reglugerð um vottun jafnlaunakerfa á grundvelli hans. Staðallinn gerir fyrirtækjum og stofnunum kleift að tryggja að málsmeðferð og ákvarðanataka í launamálum feli ekki í sér kynbundna mismunun. Stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins munu í vikunni undirrita samstarfsyfirlýsingu um námskeiðshald og fræðslu til þeirra sem hyggjast innleiða staðalinn og þá verða jafnframt veitt verðlaun í hönnunarsamkeppni um gerð jafnlaunamerkis sem fyrirtæki með jafnlaunavottun geta auðkennt sig með.

Við mótun nýrrar vinnumarkaðsstefnu verður sérstaklega skoðað hvernig ákvarðanir stjórnvalda hafa ólík áhrif á kynin. Eins verður horft til árangurs af samstarfi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins í aðgerðahópi um launajafnrétti en ákveðið var á ríkisstjórnarfundi þann 24. október að halda samstarfinu áfram til næstu tveggja ára. Ég vona að þessar aðgerðir eigi eftir að marka framfaraspor í baráttu fyrir jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.

Eygló Harðardóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 11. nóvember 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.