Baráttan um hina hófsömu miðju íslenskra stjórnmála er hörð. Í gegnum tíðina hafa ýmis stjórnmálaöfl gert tilkall til miðjunnar og reynt að ná þar undirtökunum með fremur litlum árangri. Undantekningin frá því er Framsóknarflokkurinn.
Framsóknarfólk mætir til leiks í komandi sveitarstjórnarkosningum með byr í seglum. Undanfarin ár hafa verið flokknum hagfelld enda hefur forystu hans gengið vel að koma sjónarmiðum og grunngildum flokksins á framfæri við þjóðina. Átakastjórnmálin hafa hörfað og eftirspurn hefur aukist í okkar góða samfélagi eftir hófsömum lausnum í anda samvinnu og raunsæis.
B-listi Framsóknar í Kópavogi leggur þessi sjónarmið til grundvallar framboði sínu til bæjarstjórnar Kópavogs í kosningunum þann 14. maí næstkomandi. Við munum ekki leggja fram hugmyndir að töfra- eða allsherjarlausnum í þeim málaflokkum sem skipta íbúa Kópavogs mestu máli. Við vitum að háfleyg kosningaloforð eru ekki grundvöllur framfara í bænum.
Þvert á móti taka þau athyglina frá þeirri staðreynd að lykillinn að góðri stjórnun bæjarfélags eins og okkar liggur í mikilli vinnu og samstarfi þeirra sem að ferlinu koma. Þar er átt við bæjarstjórn og starfsfólk bæjars i virku samstarfi við íbúa.
Það stjórnmálafólk sem velja skal til verksins verður að hafa margt til brunns að bera eigi því að farnast vel í eins stóru og fjölþættu verkefni sem rekstur bæjarfélagsins er. Reynsla úr öðrum störfum vegur þar þungt. Líka fagþekking og innsýn inn í málefni og rekstur mismunandi málaflokka sem í deiglunni eru. Mest um vert er þó að ávallt sé til staðar sterk tenging, samvinna og samstarf við íbúana sjálfa. Að þeir einstaklingar sem í brúnni standa beri gæfu til að kunna að hlusta eftir takti samfélagsins.
Frambjóðendur B-lista Framsóknarfólks í Kópavogi hafa til brunns að bera það sem máli skiptir til að ná árangri fyrir bæjarfélagið og leiða rekstur þess næsta áfangann.
„Hundurinn er besti vinur mannsins.“
Fjölmargar íslenskar fjölskyldur eiga hund. Á Suðvestursvæðinu eru um 2500 skráðir hundar og hér í Kópavogi eru þeir um 900. Líklega er fjöldinn nær þúsund þegar óskráðir hundar eru teknir með. Það er greinilega mikill áhugi á hundum í Kópavogi. Hundurinn er hluti af fjölskyldunni og við viljum þeim allt það besta. Þeim finnst fátt skemmtilegra en að fá að hlaupa lausir og leika sér á stóru svæði. Margir íbúar Kópavogs gera sér ferð í skilgreind hundagerði eða hundasvæði og leyfa hundunum sínum að leika lausum hala, sem þeir kunna almennt vel að meta. Hundarnir losa orku, nýta þefskynið og kynnast öðrum hundum.
Fækkun hundasvæða er þjónustuskerðing
Það liggur fyrir að þörf er á fleiri skilgreindum hundasvæðum hér í Kópavogi. Íbúar hafa ítrekað kallað eftir þeim, en því miður fer þeim fækkandi. Til dæmis mun flott hundasvæði á Vatnsenda eyðast við uppbyggingu Vatnsendahæðar. Í þessu felst talsverð þjónustuskerðing við stóran hluta íbúanna og við þessu þarf að bregðast. Fyrr á núverandi kjörtímabili hafði skipulagsráð Kópavogsbæjar lagt drög að nýju hundagerði, sem var svo því miður fellt af borðinu.Framsókn í Kópavogi leggur áherslu á það að íbúar hafi tækifæri til að sækja skilgreind hundasvæði þvert yfir sveitarfélagið. Nauðsynlegt er að fjölga hundasvæðum og hundagerðum í bænum, en til þess þarf að gera ráð fyrir þeim í skipulags- og uppbyggingarvinnu Kópavogs. Hundasvæðin þurfa einnig að vera hundunum okkar örugg og vera hentuglega staðsett.
Fjölgum og bætum
Rauði þráðurinn er þessi; Kópavogsbær á að fjölga skilgreindum hundasvæðum og bæta þau sem nú þegar eru, þ.e. gera þau meira aðlaðandi og öruggari. Fólk verður að geta sleppt hundunum sínum lausum á svæðunum án þess að hafa áhyggjur af holum eða öðru slíku sem geta leitt til meiðsla. Við skilgreiningu nýrra hundasvæða þarf að horfa m.a. til nauðsyn þeirra í Vesturbænum og í Dalnum ásamt því að bæta íbúum Vatnsenda upp fyrir svæðið sem hverfur við uppbygginguna þar. Í deiliskipulagi Vatnsendahæðar í Vatnsendahvarfi er gert ráð fyrir hundagerði, sem vissulega er gott. Við þurfum þó að vera á verðinum við því að það hverfi ekki í áframhaldandi skipulagsvinnu.Hundasvæði eru mikil þjónustubót fyrir fjölmarga íbúa Kópavogs og við megum ekki gleyma þeim.
Betri aðstaða fyrir hundana okkar
Þá liggur einnig fyrir að bæta þurfi aðstöðu fyrir hunda og hundaeigendur almennt í Kópavogi. Fjölmargir hafa kallað eftir að ekki sé tekið nógu mikið tillit til þeirra í útivistarmöguleikum bæjarins. Sem dæmi þá hefur ítrekað verið bent á nauðsyn þess að fleiri ruslatunnur séu til staðar sem eigendur geta losað pokana í. Sniðugt væri að mynda heilstæða áætlun um hundavænni Kópavog í upphafi næsta kjörtímabils, sem myndi fjalla um hundasvæði og hundavænni útivistarmöguleika almennt.
Sigrún Hulda er meðlimur í Hundaræktunarfélagi Íslands og situr í 2. sæti á lista Framsóknar í Kópavogi.
Gunnar Sær situr í 4. sæti á lista Framsóknar í Kópavogi.
Jöfn tækifæri barna til íþrótta- og tómstundastarfs eru okkur Framsókn í Kópavogi mjög hugleikin og að okkar mati forgangsmál. Það var jú Framsókn sem á sínum tíma kom frístundastyrknum á laggirnar og þykir hafa heppnast vel í þágu jöfnuðar og forvarna.En hvers vegna að láta staðar numið hér? Það er mikilvægt að taka stöðuna, endurmeta og halda umræðunni áfram um hvort mögulega sé hægt að jafna tækifærin enn frekar. Við vitum að þörfin fyrir framþróun í þessum málum er sannarlega til staðar. Með hækkandi kostnaði íþróttafélaga, t.d. vegna launakostnaðar, sjáum við að hér getum við gert betur þegar kemur að stuðningi sveitarfélagsins við iðkendur íþrótta- og tómstundastarfs í Kópavogi.Það er skylda okkar sem njótum þess trausts að fá að starfa í stjórnmálum, að þróast og halda sífellt áfram að leita allra leiða til að gera betur. Við hjá Framsókn höfum einmitt gert það eins og dæmin sýna og það er nákvæmlega það sem við ætlum að halda áfram að gera. Gefum nýjum hugmyndum tækifæri, setjum nýsköpun í forgrunn og gerum enn betur.Framsókn í Kópavogi metur sem svo að nú sé rétt að stíga næsta skref. Við viljum leiða innleiðingu nýrrar nálgunar bæjarfélagsins, eins og við leiddum innleiðingu frístundastyrkjarins, og leggja línurnar í góðu samstarfi við hagsmunaaðila, á þann hátt að íþrótta- og tómstundastarf yngsta stigs iðkenda 9 ára og yngri verði gert gjaldfrjálst. Þessi viðbót við annars gott frístundastyrkjarkerfi, er okkar leið til að jafna tækifæri barna enn frekar á sviði íþrótta- og tómstunda sem og að sýna það bæði í orði og á borði að hagur fjölskyldna og barna í Kópavogi, er í okkar augum, augljóst forgangsmál.Höldum áfram að vinna að jöfnun tækifæra barna og styðjum við fjölskyldur í Kópavogi – vegna þess að við getum það.
Umferðin á höfuðborgarsvæðinu er löngu sprungin. Við höfum öll upplifað hefðbundna umferðarhnúta, og þeim tímum dagsins sem þeir myndast fjölgar. Ómarkvissa núverandi umferðarstjórnunar á höfuðborgarsvæðinu sýnir sig nú á fleiri tímum en einungis kringum átta til hálf tíu á morgnana og klukkan fjögur til hálf sex á daginn. Það liggur fyrir að þörf er á nýrri nálgun í umferðarstjórnun hér á höfuðborgarsvæðinu, en skipulag þess er öðruvísi en í erlendum borgum og krefst öðruvísi áherslna.
Snjöll umferð
Staðan í umferðarstjórnun er þessi í dag: úrelt tækni er nýtt þar sem ljósaskipti ákveðast fyrir fram (með örfáum undantekningum t.d. ljós við Kópavogslaug og við Garðaskóla) og örfáir starfsmenn fylgjast með. Erlendis fjölgar þeim borgum ört sem nýta gervigreind við umferðastjórnun. Þar er nýjasta tækni notuð til að leysa umferðarhnúta og koma farartækjum hraðar frá A til B.
En hvernig getur gervigreind einfaldað umferðarstjórnun til muna? Hvað gerir hún? Á fyrstu dögum lærir hún umferðarmynstur og tekur mið af aðstæðum, veðráttu og tíma dags. Hún horfir á alla samgöngumáta, þ.e. bílar, almenningssamgöngur (aðallega strætóbílar hér á landi) ásamt gangandi og hjólandi vegfarendur. Gervigreindin notar myndavélar, skynjara og jafnvel forrit á borð við Google Maps við þann lærdóm. Með síaukandi þekkingu á umferðinni og þeim mynstrum sem það lærir getur gervigreindin stjórnað umferðinni, leyst umferðarhnúta og komið í veg fyrir flöskuhálsa. Með þessu bætist umferðarflæði allan daginn alla daga og gervigreindin leggur hönd á plóg við að leysa erfiða hnúta á háannatímum.
Erlendar fyrirmyndir
Þó svo að hugmynd um umferðarstjórnun hljómar útópísk þá er hún ekki ný af nálinni. Við værum ekki að finna upp hjólið. Erlendis færist nýting gervigreindar við umferðarstjórnun verulega í aukana og fyrirtæki sem bjóða upp á slíkar lausnir hafa haslað sér völl á markaði.
Sem dæmi um borgir sem nýta þessa lausn má nefna Berlin, Barcelona, Singapore og Las Vegas. Víða á Norðurlöndunum er tæknin nýtt við umferðarstjórnun, en höfundur fann ekki heimildir fyrir því að hún sé nýtt þar í öllum fösum.
Þá kemur til álita að í dæmatalningunni koma stórar borgir fram. Ísland er fámenn þjóð og á höfuðborgarsvæðinu búa töluvert færri íbúar en í þessum borgum. Í því samhengi er bent á borgina Hagen í Þýskalandi, en þar búa um 188 þúsund manns. Færri en hér á höfuðborgarsvæðinu. Í Hagen er gervigreind nýtt á ofangreindan máta við að stjórna umferð og leysa hnúta. Ef öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu sameinast í verkefni um að innleiða notkun gervigreindar við umferðarstjórnun þá er það gerlegt.
Stórhöfuðborgarsvæðinu til hagsbóta
Samgöngur eru grunnstoð samfélagsins. Við viljum öll að þær séu eins góðar og hægt er. Góðar samgöngur eru hagræðing fyrir bæði atvinnulífið og samfélagið í heild. Foreldrar þurfa ekki að kvíða fyrir umferðinni við að sækja börnin sín í leik- eða grunnskóla eftir vinnu og fólk er líklegra til að koma tímanlega í skóla og vinnu. Enn fleiri dæmi má finna um ágæti góðra samgangna, sem myndu eflaust bætast með notkun gervigreindar.
Einnig er um umhverfismál að ræða. Það minnkar losun ef bifreiðar komast fyrr á áfangastað og eru ekki stanslaust að hemla og gefa í.
Megum ekki stíga á bremsuna
Stjórnvöld hafa nú þegar brugðist við sprunginni umferð á höfuðborgarsvæðinu. Þar á innviðaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, mikið lof skilið. Hann hefur náð að mynda samkomulag sveitarfélaganna um samgöngusáttmála ásamt því að hefja framkvæmdir við nýja Sundabrú, loksins. Blessunarlega erum við með ráðherra sem hefur stigið stór skref, en við getum þó ekki stigið á bremsuna. Við þurfum að gefa í og leita fleiri lausna á stöðu umferðarinnar á höfuðborgarsvæðinu.
Ein þeirra lausna ætti að vera sú að Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu taki höndum saman og innleiði notkun gervigreindar við umferðarstjórnun í samvinnu við ríkið í þágu allra íbúa svæðisins.
Höfundur er Gunnar Sær Ragnarsson og situr í 4. sæti á lista Framsóknar í Kópavogi fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.
Nú styttist verulega í sveitarstjórnarkosningar og þá verða loforð um aukna þjónustu leikskóla ansi hávær. Við heyrum falleg fyrirheit um að öllum börnum, 12 mánaða og eldri, verði sannarlega tryggð leikskóladvöl. Þetta hljómar vissulega vel og það er akkúrat tilgangurinn, þau eiga að laða að. Stundum gleymist að hugsa um hvernig eigi svo að efna þessi loforð, en þar stendur hnífurinn í kúnni, það er ekki auðvelt að efna þessi loforð, ef það er yfir höfuð hægt. Aðalástæða þess er í grunninn einföld og hún er sú að leikskólakerfið hefur vaxið allt of hratt með þeim afleiðingum að það heldur ekki lengur í við þörfina. Kröfurnar eru þar af leiðandi langt umfram raunverulega getu leikskólanna.
Leikskólinn er fyrsta skólastigið og þar ber fagfólki að gæta þess að börn fái gæða nám og umönnun við hæfi samkvæmt aðalnámskrá leikskóla. Lög um leikskóla kveða á um að 2/3 hlutar starfsfólks skuli hafa leikskólakennaramenntun og eigum við langt í land með að ná því. Í leikskólum á höfuðborgarsvæðinu er um 25% starfsfólks með tilskylda menntun en Kópavogur stendur betur að vígi þar með um það bil 35% starfsmanna með leikskólakennaramenntun. Það segir sig sjálft að ef við ætlum að fjölga leikskólarýmum minnkar faghlutfall starfsfólks þar sem vöntun er á leikskólakennurum í landinu. Því er nauðsynlegt að brúa bilið frá fæðingarorlofi með fleiri valkostum á meðan unnið er að því að mennta fleiri kennara til starfa í leikskólum.
Við í Framsókn í Kópavogi leggjum til lausn í þessu máli og viljum að ríkið komi inn í þetta með lengingu fæðingarorlofs til 18 mánaða og sveitarfélög taki svo boltann og bjóði dagvistun eða leikskólarými í kjölfarið. Með þeirri nálgun væri vandi leikskólanna leystur að hluta og álag á foreldra og fjölskyldur minna. Eins væri hægt að sjá fyrir sér möguleikann á að bjóða foreldrum heimgreiðslur sem nema niðurgreiðslu sveitarfélagsins þar til barnið nær tveggja ára aldri. Þetta minnkar ekki aðeins álag á foreldra og fjölskyldur, heldur gefur foreldrum tækifæri til að nýta þennan dýrmæta tíma og styrkja tengslamyndun við barnið, sem það mun búa að í framtíðinni. Þetta er kostur sem margir foreldrar myndu vilja að væri til staðar. Sveitarfélög greiða nú þegar um 300 þúsund krónur með hverju leikskólarými og hluti foreldra er rétt rúmlega 12 % af heildarkostnaði.
Mikilvægur hluti jafnréttisbaráttunnar er að foreldrar hafi jöfn tækifæri til að vinna fullan vinnudag. Til þess að mæta því þurfum við þá að koma til móts við fjölskylduna og brúa bilið frá fæðingarorlofi. Börn á Íslandi eru með lengstan dvalartíma, flesta daga ársins í minnsta rýminu ef við berum okkur saman við önnur lönd innan OECD. Foreldrar vinna yfirleitt báðir fullan vinnudag og oftar en ekki eyðir barnið lengri vökutíma hjá dagforeldrum og í leikskóla en hjá foreldrum. Þarna þurfum við að staldra aðeins við og velta fyrir okkur forgangsröðuninni og hvernig við getum í alvöru mætt þörfum barna og foreldra.
Samtökin Fyrstu fimm hafa t.a.m. vakið umræðuna um að samfélagið þurfi að styðja betur við unga foreldra svo þau hafi tækifæri til að verja meiri tíma með börnum sínum. Það er göfug umræða að mínu mati þar sem verið er að huga að geðtengslamyndun foreldra og barna sem er grunnur að góðri geðheilsu einstaklingsins síðar meir. Með því að skoða möguleika á lengingu fæðingarorlofs og svo heimgreiðslu, er verið að stíga gríðarlega mikilvæg og raunhæf skref í átt að vænlegra umhverfi fyrir börn og fjölskyldur þeirra.
Lofum ekki upp í ermina á okkur, tölum um raunhæfa kosti. Forgangsröðum og leggjum áherslu á geðheilsu og vellíðan barna á fyrstu æviárunum því þegar á heildina verður litið, er það mun arðbærara fyrir samfélagið í heild sinni.
Höfundur er Sigrún Hulda Jónsdóttir, leikskólastjóri Heilsuleikskólans Urðarhóls og situr í 2.sæti á lista Framsóknar í Kópavogi.