Fjölskyldan

Fjárfestum í fólki

Fjölskyldan

Fjölskyldan er sú grunneining sem allt í samfélagi okkar snertir beint og því teljum við mikilvægt að setja málefni hennar á oddinn við alla ákvarðanatöku og framtíðarstefnumótun. Framsókn er fjölskylduflokkur og markmið okkar er að standa vörð um gildi og hag allra fjölskyldna í landinu.

Þungamiðja stefnunnar er „Fjölskylduhringurinn“ þar sem 5 stoðir fjölskyldunnar eru settar fram. Þær eru; Heimilið, börnin, foreldrar, eldra fólk og heilsa. Undir hverri stoð eru þættir sem skoða þarf sérstaklega, hlúa að og treysta.

Auka þarf sveigjanleika atvinnulífsins til að koma til móts við barnafjölskyldur. Lagt er til að fyrirtæki og stofnanir verði hvött til marka sér fjölskyldustefnu, fylgja henni eftir með því að móta og innleiða hagrænan hvata. Fjölskyldustefnu hvers vinnustaðar á að líta á sem lifandi stefnu sem er endurskoðuð reglulega og taki mið af örum breytingum samfélagsins og mannauðsins sem þar starfar hverju sinni. Það er til mikils að vinna að hafa öfluga fjölskyldustefnu á hverjum vinnustað sem mun hafa góð áhrif á ímynd fyrirtækja og vinnustaðamenningu. Fyrirtæki geta nýtt sér fjölskyldustefnu sem tækifæri til að laða að sér fjölbreyttan og hæfan mannauð. 

Heimilið
  • Framsókn fagnar því að skipulags- og húsnæðismál tilheyri sama ráðuneyti sem mun auka skilvirkni í  skipulagsmálum. Það mun gera sveitarfélögum kleift að bregðast fyrr við lóðaskorti og tryggja nægilegt framboð af lóðum til húsbygginga  á hverjum tíma.
  • Framsókn vill auka framboð á almennum íbúðum fyrir öryrkja og fólk með fatlanir.
  • Framsókn vill útfæra hlutdeildarlán fyrir fleiri hópa en fyrstu kaupendur. Þá er
    sérstaklega horft til eldra fólks og fólks í félagslega erfiðri stöðu.
  • Framsókn leggur áherslu á að samræma umsóknargátt almennra og sérstakra húsnæðisbóta. Þörf er á heildarendurskoðun á húsnæðisbótakerfinu til að sá stuðningur nýtist örugglega öllum þeim sem á þurfa að halda.

Mikilvægt er að skapa tækifæri fyrir alla til að eignast heimili. Leigu skal gera að sanngjörnum valkosti ekki síður en eign á eigin fasteign.

Hverfi skal gera úr garði þannig að blönduð byggð sé höfð til hliðsjónar og skulu hverfi vera sem mest sjálfbær um þjónustu. Í hverfum skal finna húsnæði sem hentar mismunandi hópum; tekjuháum, tekjulægri, stúdentum, eldra fólki, fólki með fatlanir, og svo framvegis.  Sérstaklega þarf að huga að stöðu einstaklinga í viðkvæmri stöðu svo sem fólks með geð- eða fíknivanda. Mikilvægt að tryggja að stéttaskipting tengd búsetu ryðji sér ekki til rúms. Byggðin má ekki stuðla að því að það verði til afmörkuð hverfi fyrir ákveðna hópa. Blöndunin er lykillinn að góðu samfélagi.

Húsnæðisúrræði þurfa að vera sveigjanleg, geta mætt ólíkum þörfum og beitt þeim aðferðum sem henta hverju sinni. Líta þarf til þess hvort hlutdeildarlánakerfið, eða aðrar ráðstafanir, séu heppilegar til að aðstoða eldra fólk og fólk með fatlanir til að eignast eigið húsnæði. Fyrir liggur að hlutfall eldri kynslóðarinnar fer hækkandi meðal landsmanna og mikilvægt er að standa vel að húsnæðisúrræðum fyrir þann hóp. Þá þarf einnig að horfa sérstaklega til lausna í brothættum byggðum.

Börn og foreldrar
  • Framsókn ætlar að tryggja að öll börn njóti sömu réttinda til opinberrar þjónustu í anda nýrrar löggjafar um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Eitt flóknasta viðfangsefni íslenskra stjórnvalda síðustu áratugi er sú staðreynd að börn hér á landi þurfa oft að bíða óhóflega lengi eftir greiningu eða þjónustu við mögulegum vanda. Oft er jafnvel um að ræða þekktan vanda sem þarfnast staðfestingar opinberra aðila til að geta hlotið nauðsynlega þjónustu.
  • Framsókn ætlar að stytta biðlista eftir greiningarúrræðum, s.s. einhverfu, taugaþroskaröskunum, þroskahömlunum, geðrænum vanda, með því að fjölga sérhæfðu starfsfólki og grípa fyrr inn í aðstæður barns til að koma í veg fyrir alvarlegan vanda.
  • Framsókn vill að barnið sé ávallt í forgangi. Framsókn vill að komið verði á þjónustutryggingu, sem þýðir að ef einstaklingur fær hvorki heilbrigðis- né félagsþjónustu hjá hinu opinbera er honum vísað til einkaaðila, samanber danska módelið.
  • Framsókn vill að öll réttindi sem tengjast fullorðinsaldri verði virk við 18 ára aldur.
  • Framsókn vill styðja foreldra með því að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Leita þarf leiða til þess að brúa bilið með lengingu fæðingarorlofs og stuðla að því að börn fái dagvistun fyrr. Einnig vill Framsókn tryggja styrki til foreldra sem ekki eru með börn hjá dagforeldri eða í leikskóla. Ríkið verður að leiða samtalið við Samtaka íslenskra sveitarfélaga og ná samkomulagi um að brúa þetta bil, sem margir foreldrar kljást við í dag.
  • Framsókn vill að foreldrar allra barna á fyrsta ári fái fullar barnabætur.

Það er mikilvægt að áfram verði byggt á þeim grunni sem lagður hefur verið á þessu kjörtímabili þar sem samþykkt hefur verið að samþætta alla þjónustu við börn. Þetta nýja velferðarkerfi mun setja barnið í hjartað á kerfinu og allir þjónustuaðilar verða að vinna saman með snemmtækan stuðning að leiðarljósi. Samhliða hefur verið samþykkt þingsályktun um innleiðingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna „Barnvænt Ísland“.  Framsókn leggur þunga áherslu á það að framkvæma og innleiða þessar breytingar.

Framsókn leggur til að unnið verði að því að stíga næstu skref í þessu efni. Þau verkefni skuli snúa að því að endurskoða öll þjónustuúrræði fyrir börn og barnafjölskyldur, aðlaga þau að þessu nýja velferðarkerfi. Jafnframt að yfirfara þessi úrræði og byggja upp nauðsynleg úrræði sem ekki er boðið uppá. Í því verkefni verði byggt upp nýtt fjármögnunarmódel sem tryggir að ávallt verði fjárfest í börnum með sömu hugmyndafræði að leiðarljósi eins og gert var í málefnum barna á síðasta kjörtímabili. Að nauðsynleg þjónusta fyrir börn og barnafjölskyldur (sem sýnir sig að sé arðbær fjárfesting) verði fjármögnuð með nýrri réttindalöggjöf sem bæði talar við nýja velferðarkerfið og fjármögnunarmódelið verði þannig að fjárveitingar til slíkra þjónustuúrræða fylgi þörf en ekki þröngt skömmtuðum fjármálaramma.

Framsókn telur mikilvægt að hvetja atvinnurekendur til að setja sér fjölskyldustefnu þar sem væri t.d. mögulegt að veita fólki sveigjanleika í vinnu, til að mynda með því að starfa að heiman þegar börn eru í fríi frá skóla og dagvistun ekki möguleg, eða annað slíkt. Stjórnvöld skulu huga að jákvæðum hvötum til þess að styðja við slík úrræði á eigin vinnustöðum og leiða með góðu fordæmi, ásamt því að móta og innleiða almenna fjárhagslega hvata.

Forvarnir og fræðsla

Mikilvægt er að sinna forvörnum og fræðslu meðal barna, ungmenna og forráðamanna þeirra. Til að mynda hvetur Framsókn til þess að fjármálalæsi ungmenna verði enn betur eflt svo einstaklingar verði betur undir það búnir að taka á sig fjárhagsskuldbindingar þegar að því kemur. Foreldrar og forráðamenn eiga að geta nálgast fræðslu á mismunandi aldurs- og þroskastigum barna sinna, til að mynda þegar barn hefur skólagöngu, kemst á unglingsár, o.s.frv. Gera þarf sérfræðiþjónustu t.a.m. sálfræðiþjónustu aðgengilegri í samfélaginu, t.d. á öllum stigum menntakerfisins og hjá jaðarhópum innan samfélagsins. Auka þarf forvarnastarf gegn áfengis og vímuefnaneyslu.

Einstaklingar á kynþroskaaldri eigi kost á gjaldfrjálsum tíðavörum ásamt fræðslu um getnaðarvarnir, tíðahringinn og umhirðu fjölnota tíðarvara.

Auka þarf kynfræðslu og hinsegin fræðslu á öllum skólastigum. Engar varanlegar og óafturkræfar aðgerðir á að gera á kynfærum barna án þeirra samþykkis

Dagvistun og skólar

Börn eiga að hafa tækifæri til að klára sína vinnu innan sama tíma og forráðamenn svo að fjölskyldur geti átt tíma saman eftir það.

Loka verður gatinu sem myndast í umönnun ungra barna þegar fæðingarorlofi sleppir þar til leikskólar taka við þeim. Fæðingarorlof var lengt  í 12 mánuði á kjörtímabilinu til að koma til móts við þetta. Framsókn ætlar að stíga frekari skref í málefnum fæðingarorlofs á næsta kjörtímabili samhliða því sem lögfest verði að sveitarfélög skuli koma til móts við þetta með því að bjóða dagvistun frá þeim aldri þegar fæðingarorlofi lýkur. Útfærsla verður í samráði við sveitarfélögin. Hækka þarf greiðsluþakið á fæðingarorlofsgreiðslum í samræmi við þróun launavísitölu og lágmarksgreiðslur úr fæðingarorlofssjóði þurfa einnig að hækka.

Þjónustu við fötluð og langveik börn, þar með talið nám og tómstundastarf þarf að skipuleggja út frá þörfum einstaklinganna. Ávallt þarf að gæta að því að bæði einstaklingarnir og aðstandendur þeirra geti verið sem virkastir í samfélaginu.

(Ályktun 36. Flokksþings Framsóknarmanna 2022.)