Menning

Menningar-, íþrótta- rafíþrótta og tómstundamál 

  • Framsókn vill að ríkið styðji við frístundir barna með 60 þúsund króna greiðslu til allra barna á ári og lækka þannig útgjöld fjölskyldna vegna frístunda. Sýnt hefur verið fram á að tómstundir styrkja þroska barna, líkamlega og andlega, og ýta undir sjálfstæði þeirra og styrkja sjálfsmynd. Þessi aðgerð jafnar tækifæri barna til virkrar þátttöku í tómstundastarfi.
  • Sérstakan gaum þarf að gefa þátttöku nemenda af erlendum uppruna í tómstundastarfi og kynna foreldrum þeirra gildi virkrar þátttöku í skipulögðu starfi.
  • Framsókn telur einnig mikilvægt að hugað verði að stöðu kynsegin barna innan íþróttahreyfingarinnar og í öðru skipulögðu tómstundastarfi og vill að fræðsla þess efnis fari fram á þeim vettvangi.
  • Framsókn vill byggja nýja þjóðarleikvanga í samstarfi við íþróttahreyfinguna.
  • Framsókn vill styðja betur við afreksíþróttafólk með auknum fjárframlögum til afrekssjóða sérsambanda. Framsókn vill jafnframt koma á fót sérstökum afrekssjóði fyrir rafíþróttafólk.
  • Framsókn vill auka framlög í ferðajöfnunarsjóð íþróttafélaga til að jafna aðstöðumun íþróttafólks á landsbyggðinni.
  • Framsókn vill styðja sérstaklega við íþróttafélög sem starfrækja meistaraflokka kvenna til að jafna fjárhagslegan mun milli karla og kvennadeilda í afreksstarfi í hópíþróttum.
  • Framsókn vill standa vörð um fjölbreytt, skipulagt tómstundastarf um land allt.
  • Framsókn vill beita sér fyrir áframhaldandi stuðningi við rafíþróttir enda er slíkt skipulagt starf til þess fallið að veita iðkendum sérstakan félagslegan stuðning.
  • Framsókn vill stuðla að dreifingu menningarefnis um land allt. Í því sambandi þarf að skoða starf menningarstofnana, streymisveitna, framlög og ferðastyrki til skapandi listamanna. Markmið er að auka aðgengi allra landsmanna að menningu og listum.
  • Mótuð verði framtíðarsýn um samstarf menningar- og safnastarfs á landsbyggðinni við menntastofnanir sem starfa á landsvísu og í þeirri vinnu verði tekið mið af þróun ferðaþjónustu
Menningarlíf í kjölfar heimsfaraldurs

Framsókn fagnar þeirri miklu grósku sem er í íslensku menningarlífi. Samfélagið býr að því að mikill fjölbreytileiki hefur verið í skapandi greinum, listum og menningarstarfsemi. Kraftur og elja þeirra sem standa að baki menningarstarfi birtist okkur á ýmsan hátt í samfélaginu á tímum heimsfaraldurs COVID-19. Framsókn leggur áherslu á að læra af því sem menningarstarf í COVID-19 heimsfaraldri hefur kennt og fært samfélaginu og halda því áfram sem reyndist vel. Má þar meðal annars nefna aðgengi að ýmsum viðburðum sem færðust frá menningarhúsum yfir á streymi sem gerði það að verkum að mun fleiri fengu að njóta þeirra.

Kvikmyndagerð er stór atvinnugrein sem skapar verðmæti fyrir þjóðina

Framsókn fagnar því að heildstæð kvikmyndastefna íslenskra stjórnvalda hafi litið dagsins ljós. Kvikmyndagerð hefur fest sig í sessi sem stór atvinnugrein og hefur umfang hennar margfaldast á undanförnum árum. Með gerð kvikmyndastefnu til ársins 2030 er hægt að skapa auðugri kvikmyndamenningu, bjóða upp á fjölbreyttari menntun á sviði kvikmyndagerðar, styrkja samkeppnisstöðu greinarinnar og gera Ísland að alþjóðlegu vörumerki á sviði kvikmyndagerðar. Það er mikilvægt að Ísland styrki stöðu sína á vaxandi markaði kvikmyndagerðar. Framsókn telur mikilvægt að styðja áfram ríkulega við greinina því hún skapar mikil verðmæti fyrir þjóðina.

Á sama hátt má horfa til sambærilegra hvata til að fá hingað til lands alþjóðlega rafíþróttaviðburði.

Auka þátttöku í íþrótta- og tómstundastarfi

Framsókn leggur áherslu á að vinna þurfi markvisst að því að auka þátttöku barna af erlendum uppruna í íþrótta-, rafíþrótta- og tómstundastarfi. Þátttaka barna er mikilvæg til að efla félagslega þáttinn, fyrir tungumálanám og hefur auk þess forvarnargildi. Nú þegar hefur félagsmálaráðuneytið stutt við verkefnið Allir með! sem miðar að því að auka þátttöku barna og efla félagsfærni en það verkefni væri hægt að innleiða víða um land með áframhaldandi stuðningi félags-, mennta- og menningarmálaráðuneytis og UMFÍ. Framsókn vill enn fremur að lögð sé áhersla á samþættingu íþrótta-, rafíþrótta-, tómstunda- og skólastarfs. Í því samhengi mætti kanna fýsileika þess að gera íþrótta- og tómstundastarf að lögbundinni þjónustu í skrefum og mögulega fyrir ákveðna aldurshópa til að tryggja virka þátttöku allra barna í fjölbreyttu starfi þar sem öll börn ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Framsókn leggur áherslu á mikilvægi íþróttastarfs fyrir lýðheilsu í landinu og vill að ríkið fjármagni málaflokkinn til jafns við sveitarstjórnarstigið. Fyrsta skrefið í þá átt væri mótframlag ríkisins með hverju barni. Nánari útfærsla færi fram í samstarfi við íþrótta- og tómstundahreyfinguna. Arðurinn af fjárfestingunni væri ómetanlegur til langrar framtíðar.

Einnig þarf að styðja betur við afreksíþróttafólk með auknum fjárframlögum til afrekssjóðs sérsambanda og auka framlög í ferðajöfnunarsjóð íþróttafélaga til að jafna aðstöðumun íþróttafólks á landsbyggðinni

Hið opinbera ætti að beita sér fyrir því að íþróttafélög sem starfrækja meistaraflokka kvenna jafni fjárhagslegan mun milli karla og kvennadeilda í afreksstarfi í hópíþróttum.

Framsókn vill skoða aðskilnað almennrar íþróttaiðkunar og afreksiðkunar hjá börnum og hvort og þá hvernig hið opinbera ætti að eiga þar aðkomu.

Framsókn fagnar vinnu starfshóps um fyrirkomulag þjóðarleikvanga fyrir íþróttir.

(Ályktun 36. Flokksþings Framsóknarmanna 2022.)