Categories
Fréttir

​Seðlabankinn hendir sprekum á verðbólgubálið með því að halda hér uppi stýrivöxtum sem eru óþekktir

Deila grein

02/12/2015

​Seðlabankinn hendir sprekum á verðbólgubálið með því að halda hér uppi stýrivöxtum sem eru óþekktir

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Nýjasta verðbólgumæling sem var birt í gær bendir til þess að ársverðbólga á Íslandi sé nú 2%. Hún er sem sagt undir verðbólgumarkmiðum Seðlabankans enn einu sinni, sem betur fer, og hefur verið það lengur en áður hefur þekkst. Það er ekkert sem bendir til þess og ekkert sem beinlínis hvetur til þess að verðbólga fari hér á skrið næstu vikur og mánuði vegna þess að enn á eftir að skila inn í vöruverð töluverðu af þeirri gengisstyrkingu sem orðin er. Íslenska krónan hefur styrkst gagnvart helstu viðskiptamyntum um 9% síðustu 12 mánuði og enn vantar þó nokkuð upp á að því hafi verið skilað inn í vöruverð þrátt fyrir að nokkur fyrirtæki hafi gengið á undan með góðu fordæmi og lækkað verð sitt, eins og til dæmis IKEA og Bónus. Fleiri þarf til.
Það er í sjálfu sér merkilegt að þetta gerist þrátt fyrir að Seðlabanki Íslands hendi sprekum á verðbólgubál með því að halda hér uppi stýrivöxtum sem eru óþekktir. Eins og ég segi bendir þó ýmislegt til þess að hægt verði að halda hér verðlagi lágu um nokkurra mánaða skeið.
Ég vil líka benda á að nú er orðinn fastur liður að olíufélögin í landinu séu með afslátt tvisvar í mánuði sem bendir til þess að þar sé svigrúm fyrir stöðuga verðlækkun í staðinn fyrir þessi tilboð tvisvar í mánuði hverjum. Þess vegna hvet ég þá kaupmenn sem ekki hafa skilað gengisstyrkingu krónunnar inn í vöruverð að gera það og ég vil einnig beina því til neytenda í landinu að þeir fylgist með því hvaða verslanir hafa þegar gert það, hvaða verslanir hafa beinlínis lækkað vöruverð vegna þess að íslenska krónan hefur styrkst, beini viðskiptum til þeirra verslana í jólakauptíðinni og verðlauni þar með kaupmenn sem vel gera en refsi hinum.“
Þorsteinn Sæmundsson — störf þingsins, 30. nóvember 2015.