Categories
Fréttir

15. október helgaður konum búsettum í dreifbýli

Deila grein

15/10/2019

15. október helgaður konum búsettum í dreifbýli

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, minnti þingheim í störfum Alþingis í dag að 15. október hafi ,,lengi helgaður konum búsettum í dreifbýli hjá Sameinuðu þjóðunum, þ.e. 1/5 af íbúum jarðar. Í tilefni dagsins vöktu framkvæmdastjórar Sameinuðu þjóðanna oftar en einu sinni athygli á því að á heimsvísu hafni konur og stúlkur í dreifbýli oft neðst þegar litið er til hagfræðilegra, félagslegra og pólitískra þátta, allt frá tekjum og menntun til heilbrigðis og ákvarðanatöku.”
,,Ef þessi hópur hefði gott aðgengi að menntun og þekkingu um nýsköpun og auðlindanýtingu myndi framleiðni í landbúnaði aukast, matvæla- og fæðuöryggi batna og hægt væri að bjarga fleirum frá hungri. Þessi vinna fellur nú undir vinnu að heimsmarkmiðunum hjá Sameinuðu þjóðunum,” sagði Líneik Anna.
En hver er staðan hér?

Konur í dreifbýli hér á landi búa í sveitum og minni þéttbýliskjörnum. Yfirleitt búa færri konur en karlar í dreifbýlustu samfélögunum og rannsóknir sýna að í sumum þeirra er launamunur kynjanna áberandi meiri en að landsmeðaltali.
Vitum við hvort þær hafa jafnan aðgang að menntun, þjálfun í vísindum og tækni á við aðra íbúa þessa lands?
Er aðgengi að atvinnu sambærilegt?
Hver er staða þeirra í fæðingarorlofskerfinu?
Hvað keyra konur í sveitum marga kílómetra á holóttum malarvegum daglega?
Hvert er aðgengi innflytjenda í þessum hópi að þekkingu?

,,Til er skýrsla um stöðu kvenna í landbúnaði og tengdum greinum sem var unnin af Byggðastofnun 2015. Þar kemur fram að fleiri konur en karlar stunda aðra vinnu með búrekstri og að vinnuframlag kvenna sé skilgreint sem hluti af heimilisstörfum en ekki sem bústörf. Hvaða áhrif hefur það? Það skortir a.m.k. verulega á tölfræði um stöðuna. Við þurfum að beina sjónum að þessum hópi. Jafnrétti næst ekki ef konur í dreifbýli gleymast og það er sérstaklega mikilvægt í byggðaþróunarverkefnum eins og Brothættum byggðum,” sagði Líneik Anna.